Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.7. bls. 19-21
  • Hvers vegna ætti ég að forðast dulspekiathafnir?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna ætti ég að forðast dulspekiathafnir?
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna sumir hafa áhuga
  • ‚Ótrúlegar kvalir‘
  • Hvað býr í andaheiminum?
  • ‚Hunang á beittu hnífsblaði‘
  • Er dulspeki saklaus skemmtun?
    Ungt fólk spyr
  • Hvað er rangt við dulspeki?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Hvað segir Biblían um dulspeki?
    Vaknið! – 2017
  • Af hverju ættir þú að varast dulspeki?
    Vaknið! – 2008
Sjá meira
Vaknið! – 1990
g90 8.7. bls. 19-21

Ungt fólk spyr . . .

Hvers vegna ætti ég að forðast dulspekiathafnir?

„ÉG VAR mjög hænd að afa,“ sagði ung stúlka, „og það var mikið áfall fyrir mig þegar hann dó. Mig langaði til að vita hvort það væri hægt að komast í samband við hann aftur.“ Unga stúlkan fór því að fást við dulspeki.

Í nýlegri frétt er því haldið fram að „minnst 200.000 börn og unglingar í Vestur-Þýskalandi hafi reynslu af ýmsum tegundum dulrænna fyrirbæra.“ Í Japan starfa áhugamenn á sviði spíritisma í skólum, sumir sérhæfa sig í hugsanaflutningi, aðrir í dáleiðslu og sumir í særingum. Í Nígeríu er ekki óalgengt að barnaskólanemar leggi stund á galdra. Því miður hafa jafnvel sum börn kristinna foreldra fúskað við yfirnáttúrleg fyrirbæri, ef til vill óafvitandi.

Hvers vegna eru unglingar svona hrifnir af dulrænum fyrirbærum og hvers vegna er svona hættulegt að koma nálægt þeim?

Hvers vegna sumir hafa áhuga

Dulspeki felur í sér yfirnáttúrleg fyrirbæri, stjörnuspeki, forspár, skyggnilýsingar, miðilsfundi og annað þess háttar. Hvers vegna þykir mörgum ungmennum svo gaman að föndra við slíkt? Dirk þráði heitt að komast í samband við föður sinn sem var látinn. Hann var sannfærður um að hann gæti það ef hann þroskaði ‚andlega hæfileika‘ sína. Hann lagði áherslu á hugleiðslu og reyndi að láta hluti hreyfast án þess að snerta þá. Dirk segir að þessi ástundun hafi leitt hann að þröskuldi andaheimsins.

Sum ungmenni óttast framtíðina. Þau langar til að vita hvernig þau geti bætt einkunnir sínar eða horfur á góðu hjónabandi og ímynda sér að andaheimurinn geti orðið þeim að liði. Satansdýrkun er sérstakt áhyggjuefni margra. Hvað er það við þessa óhugnanlegu trú sem heillar fólk? „Ég er að sækjast eftir valdi,“ segir kanadískur unglingur sem leggur stund á satansdýrkun. „Hún gefur mér vald til að gera öðrum mein.“

Flestir álíta þó að það sé hrein og bein forvitni sem leiðir flesta unglinga út í að fikta við dulspeki. „Ég var svo forvitin,“ viðurkennir stúlka sem fékkst við dulrænar iðkanir. Önnur sagði: „Ég var efagjörn í fyrstu en svo hugsaði ég með mér að ég fengi að minnsta kosti að vita hvernig þetta væri.“ Hún þáði því boð frá vini um að sitja fund þar sem dulrænar iðkanir fóru fram.

Forvitni rekur suma unglinga til að prófa ouija-borð eða fara í svonefnt andaglas. Þá þarf ekki nema eitt skref í viðbót til að sökkva dýpra ofan í spíritisma og föndra við tarotspil, stjörnuspábækur, kristalkúlur, pendúla og telauf. Sumir leita jafnvel til þeirra sem stunda spámennsku í atvinnuskyni. Margir slíkir atvinnumenn eru þó ekkert annað er svindlarar. Alexander leitaði til dæmis til galdralæknis í von um að bæta einkunnir sínar. Einkunnirnar bötnuðu ekkert en hins vegar mátti hann sjá af peningum sem skiptust milli svikahrappsins og svokallaðs vinar sem hafði mælt með honum.

Fyrir marga unglinga hafa dulspekiathafnir þó langtum alvarlegri afleiðingar en fémissi.

‚Ótrúlegar kvalir‘

„Ef ég hefði bara vitað þetta fyrir,“ heyrist oft af vörum þeirra sem sjá eftir því að hafa nokkurn tíma komið nálægt dulrænum fyrirbærum, að því er suður-afrískt dagblað, Personality, segir. Margir segja í kvörtunartón: „Bara að ég hefði ekki verið svona barnalegur. . . . Ég hef mátt þola ótrúlegar kvalir, heyrt raddir, fengið martraðir, verið ógnað og þolað bæði andlegar og líkamlegar pyndingar af hendi annarra satansdýrkenda þegar ég reyndi að losna úr þessu.“

Heil 24% kennara, sem tóku þátt í könnun í Þýskalandi, höfðu veitt athygli truflandi áhrifum dulspekiiðkana á nemendur. Sumir nemendanna drógu sig út úr veruleikanum, áttu erfitt með nám, voru þjakaðir af ótta, þunglyndir og höfðu tilhneigingu til að gera sjálfum sér eða öðrum mein. Oft gat Dirk ekki sofið á nóttinni. Hann segir: „Ég vogaði mér ekki að leggja aftur augun af ótta við að ég yrði haldinn illum öndum. Mér dauðbrá við hvert einasta hljóð.“ Piltur að nafni Michael „var andvaka og sætti árásum illra anda“ eftir að hafa tekið galdralyf sem honum höfðu verið gefin. Þá hefur verið skýrt frá óhugnanlegum persónuleikabreytingum hjá fólki sem lagt hefur stund á dulspeki. Stúlka gerði móður sína felmtri slegna með því að tilkynna henni að hún ætlaði eftirleiðis að klæðast svörtu (hún ætlaði einnig að mála herbergið sitt í þeim lit) og sofa í opinni líkkistu!

Hvað býr í andaheiminum?

Ritningin tekur af öll tvímæli um að „hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Andaheimurinn er því ekki bústaður sálna látinna ástvina. Hvað býr þá að baki þeim fyrirbærum sem vekja óhug með mönnum? Illir andar! Að sögn Biblíunnar eru þetta englar sem gert hafa uppreisn, fylgjendur Satans djöfulsins. (1. Pétursbréf 3:19, 20; Opinberunarbókin 12:9) Þeir hafa alla tíð valdið mönnum ógæfu og jafnvel líkamsmeiðingum.

Lúkas 9:42 segir til dæmis frá manni höldnum illum anda sem ‚illi andinn slengdi flötum og teygði ákaflega.‘ Það ber vott um sjúklega kvalafýsn. Postulasagan 19:16 lýsir einnig hvernig maður haldinn illum anda réðst á sjö aðra sem ætluðu að reka illa andann út. Áþekk atvik nú á dögum staðfesta svo ekki verður um villst að illir andar eru jafnillskeyttir nú og þá.

Unglingur sem byrjar að fást við yfirskilvitlega skynjun, stjörnuspár, tarotspil eða einhverja aðra dulspekiiðkun getur með því gert sig berskjaldaðan fyrir alls kyns óhugnanlegum fyrirbærum. Tímaritið Personality segir: „Það var sameiginlegt öllum þeim sem við töluðum við [sem höfðu komið nálægt dulrænum iðkunum] að þeir soguðust dýpra og dýpra niður í hina djöfullegu hringiðu eftir ýmsum leiðum sem virtust virðingarverðar á yfirborðinu.“ Já, afskipti af dulspeki er fyrsta skrefið í átt til sambands við Satan og illu andana!

‚Hunang á beittu hnífsblaði‘

Því var það að lögmál Guðs til Ísraels lagði bann við hvers kyns spíritisma og sagði: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum.“ — 5. Mósebók 18:10, 11.

Kristnir menn á fyrstu öld slitu öll tengsl við spíritisma og eyðilögðu hvaðeina sem tengdist honum. (Postulasagan 19:19) Unglingar, sem þrá vináttu Jehóva, munu með sama hætti forðast hvaðeina sem á eitthvað skylt við dulspeki. Þar má nefna allar kvikmyndir, bækur, teiknimyndasögur og veggspjöld sem á einhvern hátt tengjast spíritisma. Meira að segja tónlistin, sem fólk hlustar á, getur tengst spíritisma. Þungarokk er til dæmis oft tengt satansdýrkun.

Tíbetbúar eiga sér máltæki: ‚Hugsaðu þig um tvisvar áður en þú þiggur hunang á beittu hnífsblaði.‘ Það getur kostað mann tunguna að reyna að sleikja hunang af hnífsblaðinu! Það má segja eitthvað svipað um dulræn fyrirbæri — þótt þau kunni að virðast forvitnileg eru þau stórhættuleg. Hafnaðu því afdráttarlaust sérhverju boði um að taka þátt í dulspekiathöfn eða jafnvel horfa á hana. Andaglas virðist kannski ekki sérlega hættulegt en það getur leitt til þess að fólk flækist í spíritisma og bíði alvarlegt tjón af. Þú ert kannski forvitinn, en myndir þú leggja þér til munns úldið kjöt, bara til að kynnast af eigin raun hvernig matareitrun lýsir sér?

Dirk, sem áður er getið, gat losað sig með öllu úr fjötrum spíritismans. Nám í Biblíunni með hjálp þeirra rita, sem Biblíufélagið Varðturninn gefur út, kenndi honum sannleikann um það hvar látinn faðir hans var niðurkominn og hann kynntist upprisuvoninni. (Sálmur 146:4; Jóhannes 5:28, 29) Þessi sannleikur slökkti löngun hans til að hafa samskipti við andaheiminn. (Samanber Jóhannes 8:32.) Hvernig er Dirk á vegi staddur núna? Hann er genginn í lið með vottum Jehóva og vinnur í fullu starfi við eina af prentsmiðjum Biblíufélagsins Varðturninn.

Já, Biblían getur fullnægt andlegri þörf okkar. (Matteus 5:3) Til langs tíma litið er það miklu jákvæðara og gagnlegra en að fullnægja forvitni sinni í sambandi við hættulegar og banvænar dulspekiathafnir.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hægt er að flækjast í spíritisma gegnum spil sem virðast hættulaus, svo sem þetta „ouija-borð,“ eða gegnum andaglas.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila