Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g91 8.1. bls. 22-23
  • Dýrmætasti vökvi í heimi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Dýrmætasti vökvi í heimi
  • Vaknið! – 1991
  • Svipað efni
  • Raunverulegt gildi blóðs
    Vaknið! – 2007
  • Rauðu blóðkornin eru mikil undrasmíð
    Vaknið! – 2006
  • Lífi bjargað með blóði – hvernig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
Sjá meira
Vaknið! – 1991
g91 8.1. bls. 22-23

Dýrmætasti vökvi í heimi

Jafnvel þótt hægt væri að vísa blóðgjöfum á bug sem óþarfri og hættulegri söluvöru iðngreinar, sem oft lætur gróðahyggju ráða ferðinni, myndi það samt sem áður ekki skýra hvers vegna vottar Jehóva hafna þeim. Þeir hafa allt aðrar og þýðingarmeiri ástæður fyrir afstöðu sinni. Hverjar?

ÞAÐ er auðvelt að líta á blóðdropa sem sjálfsagðan hlut. Við skrámu eða nálarstungu birtist glitrandi, rauður dropi sem við þerrum án frekari umhugsunar.

Ef við gætum smækkað okkur svo að þessi litli blóðdropi gnæfði yfir okkur eins og fjall myndum við finna í djúprauðum innviðum hans heim ótrúlegrar fjölbreytni og skipulagsreglu. Í einum dropa er gríðarlegur frumuher önnum kafinn: 250.000.000 rauðkorna, 400.000 hvítfrumur og 15.000.000 blóðflagna, svo nokkrar sveitir séu nefndar. Sérhver hersveit hefur sitt ákveðna hlutverk í blóðrásinni.

Rauðkornin þjóta áfram um hið flókna æðanet og bera sérhverri líkamsfrumu súrefni frá lungunum og flytja burt koldíoxíð. Svo smá eru rauðkornin að væri 500 staflað hverju ofan á annað yrði staflinn aðeins 1 millimetri á hæð. Væri öllum rauðkornum líkamans staflað hverju ofan á annað yrði staflinn hins vegar 50.000 kílómetrar á hæð! Eftir að hafa ferðast um líkamann um í 120 daga, 1440 sinnum á dag, eru rauðkornin tekin úr umferð. Járnríkur kjarni þeirra er endurnýttur með áhrifaríkum hætti en afgangurinn skilinn út sem úrgangur. Á sekúndu hverri eru þrjár milljónir rauðkorna fjarlægðar, en á sama tíma eru jafnmörg ný mynduð í beinmergnum. Hvernig veit líkaminn hvaða rauðkorn hafa náð réttum starfslokaaldri? Það er vísindamönnum alger ráðgáta, en væri gömlum rauðkornum ekki skipt út fyrir ný myndi „blóðið á hálfum mánuði verða jafnþykkt og steinsteypa,“ að sögn efnafræðings.

Samtímis halda hvítfrumurnar uppi eftirliti út um allan líkamann, leita uppi óboðna gesti og eyða þeim. Blóðflögurnar safnast á augabragði saman þar sem rof verður í æðavegg og mynda kökk til að loka gatinu. Allar þessar frumur fljóta um í tærum, ljósgulleitum vökva er kallast blóðvökvi eða plasma, en hann er myndaður úr hundruðum ólíkra efna sem mörg hver gegna mikilvægu hlutverki í hinum ótal skyldustörfum blóðsins.

Þótt vísindamenn leggi saman alla sína þekkingu og hugkvæmni tekst þeim ekki að skilja og skilgreina allt sem blóðið gerir, og þaðan af síður að líkja eftir því. Getur þessi vökvi, sem er svo margslunginn að það gengur kraftaverki næst, verið annað en verk mikils hönnuðar og skapara? Segir það sig ekki sjálft að þessi ofurmannlegi skapari hljóti þá að hafa óumdeilanlegan rétt til að ákveða hvernig sköpunarverk hans skuli notað?

Vottar Jehóva hafa alltaf verið þeirrar skoðunar. Þeir líta á Biblíuna sem bréf frá skaparanum með leiðbeiningum hans um það hvernig við eigum að lifa lífinu svo farsælast sé. Og bók Guðs hefur sitthvað um blóð að segja. Í 3. Mósebók 17:14 stendur: „Líf [á hebresku nefes, „sál“] sérhvers holds, það er blóð þess“ — ekki bókstaflega að sjálfsögðu, því að Biblían segir líka að hin lifandi vera sem slík sé sál. Biblían á við það að líf sérhverrar sálar sé svo órjúfanlega tengt blóðinu og haldið gangandi af því að blóðið sé einfaldlega skoðað sem heilagur vökvi er táknar lífið.

Sumum finnst erfitt að skilja þetta. Við lifum í heimi þar sem fátt er talið heilagt. Lífið sjálft er sjaldan metið jafnmikils og vera ætti. Það er því ekkert undarlegt að blóð skuli ganga kaupum og sölum eins og hver önnur verslunarvara. Þeir sem virða óskir skaparans fara hins vegar ekki þannig með það. ‚Þið skuluð ekki eta blóðið,‘ sagði í boði Guðs til Nóa og afkomenda hans — alls mannkyns. (1. Mósebók 9:4) Átta öldum síðar endurtók hann þetta ákvæði í lögmáli sínu er hann gaf Ísraelsmönnum. Fimmtán öldum eftir það staðfesti hann það enn á ný við kristna söfnuðinn: ‚Haldið ykkur frá blóði.‘ — Postulasagan 15:20.

Vottar Jehóva fylgja þessu boði fyrst og fremst vegna þess að þeir vilja þóknast skapara sínum. Vegna fórnardauða hins ástkæra sonar Guðs hefur Guð nú þegar gefið öllu mannkyni blóð sem getur bjargað lífi þess. Það getur lengt lífið, ekki aðeins um fáeina mánuði eða ár, heldur endalaust. — Jóhannes 3:16; Efesusbréfið 1:7.

Með því að halda sér frá blóðgjöfum hafa vottar Jehóva auk þess umflúið ótal hættur. Sífellt fleiri, sem ekki eru vottar Jehóva, kjósa nú að láta ekki gefa sér blóð. Læknar eru farnir að svara þessum kröfum fólks og byrjaðir að draga hægt og hægt úr notkun blóðs. Ritið Surgery Annual orðar það svona: „Ljóst er að öruggasta blóðgjöfin er sú sem ekki er gefin.“ Tímaritið Pathologist lætur þess getið að vottar Jehóva hafi lengi haldið því fram að blóðgjafir séu ekki ráðleg meðferð. Síðan bætir blaðið við: „Þó nokkuð bendir til að skoðun þeirra sé rétt, þrátt fyrir andmæli blóðbankanna.“

Hvorum vilt þú frekar treysta — hinni miklu vitsmunaveru sem hannaði blóðið eða mönnum sem hafa gert blóð að gróðavænlegri söluvöru?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Blóðrásarkerfi mannsins. Að ofan eru sýndar háræðar sem eru svo grannar að blóðfrumurnar komast ekki eftir þeim nema í einfaldri röð.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila