Hrífandi risar norðurhéraða Kanada
Eftir fréttaritara Vaknið! í Kanada
„Konungur norðursins“ og „drottnari heimskautsins“ eru háleitir titlar sem menn hafa gefið ísbjörnum norðurheimskautssvæðisins sem eru um 30.000 talsins.
Ísbirnirnir skiptast í nokkra aðgreinda stofna. Einn þeirra hefur valið suðvesturströnd Hudsonflóa í Kanada sem heimkynni, allt frá Akimskieyju í Jakobsflóa til Chesterfieldfjarðar í norðri. Bærinn Churchill í Manitoba, sem liggur milli þessar tveggja staða, hefur því fengið viðurnefnið „heimshöfuðborg ísbjarnarins.“
Karlinn flakkar forvitinn og óþreytandi um ríki sitt. Með þessu háttarlagi sínu hefur hann áunnið sér hið skáldlega nafn Pihoqahiak á máli Inúíta en það merkir „síflakkarinn.“
Ísbjörninn vakti forvitni og áhuga fyrstu landkönnuða á norðurslóð. Bandaríski náttúrufræðingurinn John Muir lýsti honum sem ‚tilkomumiklu, hugrökku og óhemjusterku dýri sem lifir í heimi eilífs íss án þess að finna til kulda.‘
Þótt ísbjörninn vegi á bilinu 450 til 640 kílógrömm er hann næstum kattliðugur. Líffræðingur segir: „Þeir eru eins og stórir kettir. Það hreinlega ótrúlegt hve snöggir þeir eru — þeir eru komnir áður en maður veit af.“
Mökun og híði
Karlinn er enginn ‚fjölskyldumaður.‘ Eftir mökun yfirgefur hann birnuna og eftirlætur henni einni þá ábyrgð að koma húnunum á legg. Hið frjóvgaða egg birnunnar skiptir sér nokkrum sinnum en liggur svo í dvala næstu fjóra til fimm mánuði.
Þegar fósturvísirinn festist og fóstrið tekur að vaxa grefur birnan sér híði í dýpsta snjóskafli sem hún finnur, eða þá í jörð við vatnsbakka. Þar dvelur hún allt fram til marsloka og án þess að nærast, kasta af sér þvagi né hafa hægðir.
Híðið er vel úr garði gert. Um tveggja metra löng göng halla upp á við frá innganginum og enda í rúmgóðu bæli. Við það lokast líkamshitinn inni í híðinu þannig að oft er þar 20 gráðum heitara en úti fyrir. Lítið öndunarop í þaki híðisins sér fyrir loftræstingu. Birnan leggur nýtt gólflag eftir þörfum með því að troða niður snjó sem hún krafsar úr loftinu.
Ætla mætti að flykki á borð við ísbjörninn fæddi allstórar eftirmyndir af sjálfum sér en svo er ekki. Húnarnir vega aðeins um hálft kílógramm! Þeir fæðast yfirleitt einhvern tíma í desember eða snemma í janúar.
Húnarnir fæðast bæði blindir og heyrnarlausir og eru þaktir ullarkenndu hári nema á þófum og nefi. Klærnar eru íbjúgar og húnarnir nota þær til að skríða eftir feldi móður sinnar að spena þar sem þeir geta gætt sér á saðsamri mjólkinni sem er rjómakennd og með lýsisbragði.
Birnur fæða að jafnaði tvo húna þriðja hvert ár víðast hvar á norðurslóðum. Á Hudsonflóasvæðinu eignast þær hins vegar stundum þríbura og stöku sinnum fjórbura, annað hvert ár. Húnarnir eru hraðvaxta. Um 26 daga gamlir heyra þeir fyrstu hljóðin. Sjö dögum síðar opnast augun. Fæðingarhárið breytist í raunverulegan feld sem er miklum mun þéttari.
Undir marslok skríður fjölskyldan úr híðinu út í vorsól heimskautssvæðisins. Snjór er nægur fyrir húnana til að ærslast og velta sér í. Finni þeir bratta brekku renna þeir sér niður hana á feitum belgnum með alla skanka út í loftið beint í arma móður sinnar sem bíður fyrir neðan.
Húnarnir eiga stundum erfitt með að feta slóð móður sinnar í djúpum snjó. Hvað gera þeir þá? Sitja á háhesti! Ljósmyndari sá einu sinni birnur, sem fældust þyrlu, á flótta með húnana „eins og dauðhrædda, litla knapa“ á baki sér.
Móðirin þjálfar húnana vandlega í um það bil tvö og hálft ár. Síðan yfirgefur hún þá. Ungu birnirnir þurfa nú að bjarga sér á eigin spýtur.
Önnur einkenni
Að sögn greinar í tímaritinu Life eru „ísbirnir heimsins sterkustu, ferfættu sundgarpar.“ Þeir geta synt langar leiðir innan um rekís. Þar eð hvorki vatn né ískristallar loða við olíuborinn feldinn sendir björninn frá sér hressilega drífu þegar hann hristir sig duglega. Með því að velta sér í þurrum snjó losnar hann við hverja þá vætu, sem eftir er, og eftir fáeinar mínútur er feldurinn þurr.
Stutt er síðan vísindamenn uppgötvuðu furðulega leyndardóma ísbjarnarfeldsins. Bæði drekkur hann í sig og endurkastar ljósi með sérstökum hætti sem hjálpar til við að halda hita á dýrinu og einnig að gera feldinn skínandi hvítan.a
En hvernig ratar ísbjörninn í síbreytilegu „landslagi“ heimskautssjávarins þar sem eru fá, ef þá nokkur, varanleg kennileiti til að miða við? Að sögn bókarinnar Arctic Dreams hlýtur björninn að hafa „kort í höfðinu . . . Minnið kemur að engum notum. Hvernig birnirnir gera sér og nota slík kort er einhver forvitnilegasta spurningin um þá.“ Þeir geta ráfað um vikum saman án þess að villast.
Þótt ísbirnir ráðist sjaldan á menn er vissara að virða afl þeirra og snerpu. Sama bók segir: „Ísbirnir eru fremur hlédrægir og friðsamir, einkum í samanburði við grábirni.“ Þeir gætu samt sem áður komið þér að óvörum því að þykkur feldurinn á fótum þeirra gerir fótatakið næstum hljóðlaust.
Ísbjörninn heimsóttur
Hvernig getum við sótt þessar athyglisverðu skepnur heim? Vísindamenn hafa reist 14 metra háa stálturna meðfram strönd Hudsonflóa þaðan sem hægt er að fylgjast með ísbjörnunum.
Í bænum Churchill standa sérstök farartæki, „Tundra Buggies,“ ferðamönnum til boða. Þetta eru stór málmklædd farartæki sem taka allmarga farþegar í skoðunarferðir. Stundum má sjá ísbjörn í návígi þegar hann hallar sér upp að ökutækinu eða danglar í það með hramminum til að vekja á sér athygli eða betla mat.
Við vonum að þú hafir haft ánægju af þessari heimsókn til risabjarnarins á norðurslóð sem er sagður vera meðal tíu „vinsælustu“ dýra heims. Þetta eru sannarlega fallegar skepnur, verk alviturs skapara sem gaf þeim hæfni til að aðlaga sig ísauðnum norðurheimskautssvæðisins.
[Neðanmáls]
a Sjá „Verkfræðiafrek ísbjarnarins“ í Vaknið! júlí-september 1991.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Birnan þjálfar húna sína í um tvö og hálft ár.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Ung karldýr í uppgerðarátökum. Á eftir kæla þau sig í snjónum.
[Rétthafi]
Allar ljósmyndir: Mike Beedell/Adventure Canada