Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég hætt að vera hrifin(n) af annarri manneskju?
„Ég er tvítug og er skírður vottur Jehóva. En ég fór að vera með 28 ára manni [sem var ekki í trúnni]. Ég elskaði hann og trúði að hann elskaði mig. Ég hélt þessu leyndu fyrir foreldrum mínum því að ég vissi að þeir myndu ekki sætta sig við það. Þeir voru hneykslaðir og komust í uppnám þegar þeir komust að þessu. Þeir gátu ekki skilið hvernig ég gæti bundist manni í heiminum tilfinningaböndum.“
Þetta skrifaði ung kristin kona sem við skulum kalla Móníku.a Því miður hefur margt ungt fólk lent í svipaðri klípu — orðið ástfangið eða yfir sig hrifið af vantrúuðum einstaklingi sem aðhyllist ekki kristna trú þess og siðferði. Síðasta greinin í þessari greinaröð (Vaknið! október-desember 1994) sýndi fram á að slíkt samband væri ekki aðeins vanþóknanlegt Guði, heldur líka alvarleg ógnun við hamingju manns og velferð. Rut komst að raun um það. „Ég átti mjög náið samband við strák sem var ekki í trúnni,“ viðurkennir hún. „Ég gerði mér hins vegar ljóst að ef ég ætlaði mér að eiga eitthvert samband við Jehóva yrði ég að slíta sambandi mínu við strákinn.“
Ef þú ert kristinn geturðu sennilega vitnað eftir minni í Jakobsbréfið 4:4: „Vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ En ef þú ert hrifinn af vantrúuðum einstaklingi er kannski ekki auðvelt að fara eftir þessum orðum. Þér getur þótt sú hugmynd að slíta sambandinu ógnvekjandi. Togstreitan innra með þér getur verið óbærileg. ‚Hvernig get ég hætt að vera hrifinn af — eða elska — aðra manneskju?‘ spyrð þú kannski.
Páll postuli sagði einu sinni: „Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum. Ég aumur maður!“ (Rómverjabréfið 7:22-24) Líkt og Páll áttu kannski í baráttu við tilfinningarnar. En margir kristnir unglingar hafa sigrað í þessari baráttu og hafa, ef svo má að orði komast, verið ‚hrifnir úr eldinum.‘ (Samanber Júdasarbréfið 23.) Hvernig? Með því að binda enda á varhugarverð sambönd áður en óbætanlegt tjón er orðið.
Leitaðu hjálpar
Mark varð til dæmis „alvarlega skotinn,“ eins og hann kallar það, í stúlku í heiminum þegar hann var aðeins 14 ára. Í stað þess að leita hjálpar reyndi hann að halda tilfinningum sínum leyndum. En tilfinningar hans til stúlkunnar urðu bara sterkari. Fljótlega var hann farinn að hringja til hennar í laumi. Þegar hún byrjaði að hringja til hans leið ekki á löngu áður en foreldrar hans skildu hvað klukkan sló.
Gerðu ekki þau mistök að reyna að leysa vandamálið upp á eigin spýtur. Orðskviðirnir 28:26 segja: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ Værir þú kominn í þetta klandur ef dómgreind þinni væri ekki eitthvað áfátt? Stundum verða tilfinningarnar skynseminni yfirsterkari þannig að við þörfnumst hjálpar einhvers sem hugsar skýrar og hlutlausar. Foreldrarnir eru sennilega í bestri aðstöðu til að hjálpa þér, sérstaklega ef þeir óttast Guð. Líklega þekkja þeir þig manna best. Þeir voru einu sinni ungir þannig að þú getur komið þeim í skilning um það sem þú ert að ganga í gegnum. Í Orðskviðunum 23:26 hvetur biblíuritarinn Salómon: „Son minn, gef mér hjarta þitt, og lát vegu mína vera þér geðfellda.“ Af hverju ekki að gefa foreldrunum hjarta þitt og láta þá vita að þú þarfnist hjálpar?
Jim gerði það. Hann átti í mikilli baráttu af því að hann var bálskotinn í stelpu í skólanum. Hann segir: „Að síðustu bað ég foreldra mína um hjálp. Það var það sem ég þurfti til að sigrast á þessum tilfinningum mínum. Þeir hjálpuðu mér heilmikið.“ Eftir að hafa fundið fyrir ástríkum stuðningi foreldra sinna ráðleggur Jim: „Mér finnst að aðrir kristnir unglingar ættu ekki að hika við að tala við foreldra sína. Skiptist á skoðunum við þá. Þeir skilja ykkur.“
Annar ungur piltur, Andrew, leitaði hjálpar annars staðar þegar hann átti í svipuðu stríði. Hann segir um svæðismót votta Jehóva sem hann sótti: „Ein af ræðunum hitti beint í mark. Farandhirðirinn varaði sterklega við því að bindast tilfinningaböndum einhverjum af hinu kyninu sem ekki er kristinn. Ég vissi að ég yrði að leiðrétta hugsun mína þegar í stað.“ Hvað gerði hann þá? Fyrst talaði hann við móður sína, sem var einstæð móðir, og naut góðs af ráðum hennar. Síðan talaði hann einnig við öldung í söfnuði votta Jehóva sem gat veitt frekari hjálp. Safnaðaröldungar geta verið manni, sem á í erfiðleikum, eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum.“ (Jesaja 32:2) Hví ekki að gefa þig á tal við einn þeirra og láta hann vita hvað amar að þér?
Slíttu sambandinu algerlega og endanlega
Foreldrar Marks brugðust skjótt við þegar þeir uppgötvuðu leynisambandið sem hann átti í. „Þeir sögðu mér hreint út að slíta sambandinu,“ segir Mark. „Fyrstu viðbrögð mín voru mótþrói. Okkur hitnaði í hamsi og ég lokaði mig inni í herbergi. En fljótlega sá ég hlutina í réttu ljósi og gerði mér grein fyrir að ég og stúlkan hefðum ólík markmið. Þetta myndi ekki blessast.“ Já, það má tempra tilfinningarnar með því að horfast í augu við raunveruleikann. Spyrðu þig: ‚Hefur þessi einstaklingur sömu markmið, sannfæringu og siðferðisstaðla og ég? Ef við giftum okkur, myndi hann þá styðja mig í viðleitni minni að tilbiðja Guð? Er hann jafnáhugasamur og ég um andleg mál? Hversu samlynd gætum við verið reynd?‘ — Samanber 2. Korintubréf 6:14-18.
En það er ekki auðvelt að slíta sambandinu algerlega og endanlega. Móníka, sem nefnd var í byrjun, viðurkennir: „Ég reyndi tvisvar að slíta sambandinu en án árangurs. Ég vildi ekki sleppa honum alveg. Ég reyndi að bera vitni fyrir honum í von um að hann tæki við Jehóva. Hann kom jafnvel einu sinni á sunnudagssamkomu. En hann hafði engan raunverulegan áhuga á Jehóva. Mér varð ljóst að hið rétta væri að láta hann sigla sinn sjó.“
Þetta minnir okkur á orð Jesú í Matteusi 5:30. Þar talar hann um það sem gæti hindrað mann í að ganga ínn í ríki Guðs — hluti sem gætu verið manni jafndýrmætir og hægri hönd. Samt sem áður ráðlagði Jesús: „Sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist en allur líkami þinn fari til helvítis [„Gehenna,“ NW, tákn um eilífa eyðingu].“ Í samræmi við þessa meginreglu skaltu snúa þér hugrakkur að þeim sem þú ert tengdur tilfinningaböndum og ‚tala sannleika‘ við hann. (Efesusbréfið 4:25) Einhvers staðar á almannafæri — ekki ein saman við rómantískar aðstæður — skaltu láta hann eða hana vita skýrt og skilmerkilega að þið séuð skilin að skiptum. Sheila segir: „Það sem dugði hjá mér var að vera einbeitt og ákveðin. Við myndum hætta að borða saman í hádeginu. Við myndum hætta að hittast í lesstofunni. Ég sagði honum afstöðu mína skýrt og skorinort.“ Kristin stúlka, sem heitir Pam, var jafnafdráttarlaus: „Ég sagði honum að lokum að láta mig í friði og lét bara eins og ég sæi hann ekki.“
Að komast yfir sársaukann
Eftirköst slíkra slita geta verið þau að þér líði eins og sálmaritaranum sem sagði: „Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.“ (Sálmur 38:7) Það er einungis eðlilegt að syrgja um tíma. Biblían viðurkennir að það hafi sinn tíma „að gráta.“ (Prédikarinn 3:4) En þú þarft ekki að syrgja endalaust. Sársaukinn dvínar með tímanum. „Já,“ viðurkennir Mark, „ég var í sárum um tíma. Foreldrar mínir tóku eftir því og sáu um að ég væri meira með öðrum kristnum unglingum. Það hjálpaði mér heilmikið.“ Andrew, sem var líka niðurdreginn eftir slitin, segir: „Öldungarnir hjálpuðu. Ég varð líka virkari í prédikunarstarfinu og eignaðist nokkra nána vini innan safnaðarins sem voru á sömu bylgjulengd og ég.“ Já, vertu upptekinn af andlegum viðfangsefnum. (1. Korintubréf 15:58) Hreyfing eða einhver líkamsrækt getur líka gert þér gott. Forðastu einveru. (Orðskviðirnir 18:1 NW) Hafðu hugann við það sem er uppörvandi og uppbyggjandi. — Filippíbréfið 4:8.
Mundu líka að Jehóva gleðst yfir hugrakkri afstöðu þinni. Snúðu þér til hans í bæn og leitaðu hjálpar hans og stuðnings eins oft og þú vilt. (Sálmur 55:23: 65:3) „Ég bað heilmikið,“ segir Sheila. Nei, það er ekki auðvelt að binda enda á skaðlegt samband. Sheila viðurkennir: „Enda þótt þetta sé búið hugsa ég stundum um hann og velti fyrir mér hvað hann sé að gera. En maður heldur sér við það sem maður hefur einsett sér vitandi að það sé Jehóva þóknanlegt.“
[Neðanmáls]
a Nöfnunum hefur verið breytt.