Rannsókn á Kanadíska blóðhneykslinu
Eftir fréttaritara Vaknið! í Kanada.
Á SÍÐASTA áratug smituðust yfir þúsund Kanadamenn af alnæmi frá blóði og blóðafurðum, og margir eru dánir eða deyjandi af þeim sökum. Þessi uggvænlegu tíðindi urðu til þess að kanadíska alríkisstjórnin skipaði nefnd til að rannsaka blóðbankastarfsemi landsins og meta hve öruggar blóðbirgðir þjóðarinnar væru.
Einn virtasti dómari Kanada, Horace Krever við Áfrýjunarrétt Ontario, var skipaður formaður nefndarinnar. Yfirheyrslur hófust í Tórontó 14. febrúar 1994 og skyldu ná til alls landsins. Nefndin skyldi birta niðurstöður sínar og koma með tillögur um úrbætur.
Móðir, sem missti son sinn af völdum alnæmis er hann fékk með smituðu blóði, sagði dómaranum í bænarrómi: „Þeir tóku son minn og einu bæturnar, sem ég fæ, eru þessi rannsókn. Látið hana skila árangri.“ Henni var mikið í mun að sjá rækilega rannsókn sem yrði til þess að ráðstafanir yrðu gerðar til að afstýra þeim hættum sem eru blóðgjöfum samfara. Hún var ekki eina móðirin sem missti son af völdum smitaðs blóðs. Nefndin hlýddi á sorglegan vitnisburð um þennan harmleik sem hefur lagt líf margra Kanadamanna í rúst.
Fyrirsagnir Tórontóblaðsins Globe and Mail voru í þessum dúr: „Reiði og tár er fórnarlömb segja frá blóðhneyksli“; „Rannsóknarnefndin hlýðir á ógnvekjandi vitnisburð“; „Fáfræði lækna tíunduð“ og „Embættismenn töldu alnæmishættuna hverfandi.“
Fórnarlömb HIV-smitaða blóðsins sögðust ekki hafa verið vöruð við hættunni. Sumir vissu ekki að þeir hefðu fengið blóðgjöf fyrr en þeir uppgötvuðu að þeir voru alnæmissmitaðir.
Unglingur með alnæmi smitaðist þriggja ára gamall af völdum blóðgjafar sem hann fékk við opna hjartaskurðaðgerð. Alnæmissmitaður maður með dreyrasýki á lágu stigi notaði blóðafurðir fyrir 1984 er hann var að leika ísknattleik. Hann hefði breytt um líferni hefði hann vitað af hættunni. Móðir fékk HIV-smitað blóð árið 1985 og nú eru hún, eiginmaður hennar og fjögurra ára dóttir þeirra öll smituð.
Sorglegar sögur voru sagðar af fólki sem smitaðist þótt það fengi ekki nema eina eða tvær einingar af blóði. „Bara til að gera hann svolítið rjóðan í kinnunum,“ sagði kona beisklega um blóðgjöf sem smitaði eiginmann hennar. Nú gengur hún líka með veiruna.
Er fleiri báru vitni beindist athyglin að öðrum umfangsmiklum harmleik — lifrarbólgu af völdum blóðgjafa. Að sögn dagblaðsins The Globe and Mail er talið að „allt að 1000 Kanadamenn deyi á ári af völdum lifrarbólgu C.“ Dagblaðið bætir við að „allt að helmingur þeirra kunni að hafa fengið sjúkdóminn af völdum blóðgjafa.“
Maður greindi frá því hvernig hann fékk lifrarbólgu C af völdum blóðgjafar við skurðaðgerð á baki árið 1961. Eftir aðgerðina gaf hann blóð að staðaldri. Árið 1993 komst hann að raun um að hann væri með skorpulifur. „Hvað um þá sem fengu blóðið sem ég gaf öll þessi ár meðan ég vissi ekki að ég hafði þennan sjúkdóm?“ spurði hann rannsóknarnefndina.
Krever dómari hlýddi með athygli á vitnisburð yfir hundrað Kanadamanna sem höfðu smitast af HIV eða blóðgjafir höfðu leikið grátt með öðrum hætti. Sérfræðingar á sviði læknisfræði hafa borið vitni um að ógerlegt sé að útiloka alveg smithættu og aðrar hættur af völdum blóðgjafa. Þeir hafa viðurkennt að blóðgjöfum fylgi alvarleg áhætta og misnotkun. Dr. J. Brian McSheffrey, sem er læknisfræðilegur forstöðumaður svæðisbundinnar blóðgjafarþjónustu, bar að hann vekti athygli á vandamálinu með því að segja í fyrirlestrum: „Ef þú verður að gefa blóðgjöf, þá er annaðhvort eitthvað að sjúkdómsgreiningunni eða meðferðinni.“
Ýmsar ásakanir hafa komið fram um stjórnmálaleg afskipti og samkeppni meðal þeirra sem rannsóknarnefndin kallaði „helstu hluthafa“ í blóðbankakerfi Kanada sem veltir 250 milljónum kanadískra dollara (um 12 milljörðum ÍSK) á ári. Rauði krossinn og opinberar stofnanir hafa legið undir ámæli. Enginn virðist bera ábyrgð á hinni flóknu blóðbankastarfsemi Kanada.
Ljós í myrkri
Krever dómari fékk að heyra öllu jákvæðari sögu hinn 25. maí 1994 í Regina í Saskatchewan. William J. Hall, 75 ára maður með dreyrasýki á háu stigi, greindi frá því hvernig hann réði við sjúkdóm sinn án blóðgjafa og blóðafurða. Og hann er ekki með alnæmi. Hall er vottur Jehóva og hefur forðast blóð og blóðþætti vegna trúar sinnar og samvisku. — Sjá rammann á bls. 29.
Yfirvöld framlengdu starfstíma rannsóknarnefndarinnar til ársloka 1995. Nefndin kann að hafa haft tíma til að kynna sér árangursríka læknismeðferð án blóðgjafa sem beitt hefur verið í þúsundum tilfella, bæði í þágu fullorðinna og barna meðal votta Jehóva. Þessar meðferðarleiðir eiga fullt erindi til annarra sjúklinga líka.
Læknar, sem beita slíkri meðferð, búa yfir sérfræðiþekkingu sem þeir gátu greint nefndinni frá. Dr. Mark Boyd við McGill háskólann sagði í blaðinu The Medical Post árið 1993: „Við stöndum í vissri þakkarskuld við votta Jehóva af því að þeir hafa sýnt okkur hve vel við getum komist af án blóðgjafa.“ Nefnd á vegum bandaríska forsetaembættisins sagði árið 1988: „Öruggasta forvarnaraðgerðin í sambandi við blóðgjafir er að hindra eins og frekast er kostur að sjúklingur komist í snertingu við blóð annarra.“ Með því að hlýða lagaboði Guðs um að ‚halda sér frá blóði‘ hafa vottar Jehóva notað ‚öruggustu forvarnaraðgerðina‘ gegn smituðu blóði og öðrum hættum sem stafa af blóðgjöfum. — Postulasagan 15:20, 29.
Upplýsingaþörf
Því miður voru fæst af fórnarlömbum smitaða blóðsins upplýst um meðferðarkosti sem hefðu getað afstýrt þeim harmleikjum sem þeir urðu fyrir. Sjúklingunum var ekki gefinn kostur á að velja eftir að hafa fengið fullnægjandi upplýsingar — hvort þeir ættu að taka áhættuna samfara blóðgjöf eða velja öruggari læknismeðferð.
Framburður vitna fyrir nefndinni leiðir í ljós að nauðsynlegt sé að fræða lækna og almenning um valkosti í stað blóðgjafa. Rannsókn sem þessi á vegum stjórnvalda gæti haft gríðarleg áhrif í Kanada. Tillögur Krevers dómara gætu hrundið af stað nauðsynlegum breytingum á viðhorfum og menntun kanadískra lækna í sambandi við blóðgjafir. Niðurstöður nefndarinnar verða áhugaverðar fyrir alla sem vilja sneiða hjá þeim hættum sem fylgja blóðgjöfum.
[Rammi á blaðsíðu 29]
Dreyrasýkimeðferð án blóðgjafa eða blóðafurða
William J. Hall frá Nipawin í Saskatchewan sagði nefndinni hvernig og hvers vegna hann ráði við dreyrasýki á háu stigi án blóðgjafa og blóðafurða. Hér fara á eftir nokkrar glefsur úr eftirriti réttarins af framburði hans:
◻ „Foreldrar mínir uppgötvuðu að ég væri með dreyrasýki þegar ég bólgnaði einu sinni upp allt frá mitti niður á tá. Læknarnir greindu mig með dreyrasýki. . . . Ætli ég hafi ekki verið svona ársgamall.
◻ Ég hef aldrei fengið blóðgjöf eða nokkra blóðafurð. . . . Það gengur í berhögg við trú mína að þiggja blóð af því að ég álít það heilagt.“
◻ Um bróður sinn sem einnig var dreyrasjúkur: „Hann var ekki sömu trúar og ég þannig að hann þáði blóðgjöf og dó úr lifrarbólgu.“
◻ Um skeifugarnarsár árið 1962: „Læknirinn sagði að ég myndi deyja ef ég þægi ekki blóð. . . . Ég fékk ágætis læknismeðferð [án blóðgjafar] á spítalanum.“ Blæðingin var stöðvuð.
◻ Um skurðaðgerð vegna mjaðmarbrots árið 1971: „Það var bara vandvirknisleg aðgerð án blóðgjafar. . . . Aðgerðin tókst vel.“ Við endurteknar mælingar á þeim tíma fannst enginn storkuþáttur 8 í blóði hans.
◻ Hvernig hann spjarar sig: „Með skynsamlegu líferni.“ Hann nefndi mataræði, hvíld, líkamsrækt og vandaða meðferð á bólgum, mari og blæðingum.
◻ „Ég hef tröllatrú á því að slaka á, gleyma áhyggjunum og íhuga allt það góða sem Guð hefur gefið okkur. Það virðist hafa mjög góð áhrif.“
William Hall er 76 ára og er einn af vottum Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Horace Krever dómari, formaður nefndarinnar.
[Credit Line]
CANPRESS PHOTO SERVICE (RYAN REMIROZ)
[Mynd á blaðsíðu 28]
William og Margaret Hall óku 370 kílómetra leið til að bera vitni fyrir rannsóknarnefndinni.