Bíllinn — skjól eða gildra?
„Eftir nálega allar náttúruhamfarir finna björgunarmenn látið fólk sem hefði getað bjargast ef það hefði vitað hvort það átti að yfirgefa bílinn eða halda kyrru fyrir í honum,“ segir bandaríska almannavarnastofnunin FEMA. Já, röng ákvörðun getur kostað þig lífið. Veistu hvað þú átt að gera ef náttúruhamfarir verða? Svaraðu eftirfarandi spurningum og berðu svör þín svo saman við svörin hér að neðan.
1. JARÐSKJÁLFTI
□ Vertu kyrr í bílnum.
□ Yfirgefðu bílinn.
2. HVIRFILBYLUR
□ Vertu kyrr í bílnum.
□ Yfirgefðu bílinn.
3. STÓRHRÍÐ
□ Vertu kyrr í bílnum.
□ Yfirgefðu bílinn.
4. FLÓÐ
□ Vertu kyrr í bílnum.
□ Yfirgefðu bílinn.
SVÖR:
1. Jarðskjálfti: VERTU Í BÍLNUM.
Þótt bíllinn leiki á reiðiskjálfi sökum fjöðrunarinnar ertu sennilega óhultur í bílnum — svo framarlega sem þú ert ekki nálægt húsum, brúm eða háspennulínum.
2. Hvirfilbylur: YFIRGEFÐU BÍLINN.
Í hvirfilbyl er sennilega hættulegast af öllu að vera í bílnum. En hvað þá ef það er ekkert öruggt skjól í grenndinni? FEMA segir: „Leggstu flatur ofan í skurð eða laut og berðu hendur yfir höfuð þér.“
3. Stórhríð: VERTU Í BÍLNUM.
Best er að bíða í bílnum eftir hjálp, nema þú komir auga á öruggt skjól í grenndinni. Óhætt er að gangsetja vélina stutta stund í senn til að hita sér, en hafðu örlitla rifu á glugga til að koma í veg fyrir kolmónoxíðeitrun. Hafðu kveikt á inniljósi í bílnum til merkis fyrir björgunarmenn.
4. Flóð: YFIRGEFÐU BÍLINN.
„Yfirgefðu bílinn sem skjótast og reyndu að komast þangað sem land liggur hærra ef bíllinn festist eða það drepst á vélinni,“ segir FEMA. „Flóðið getur verið í vexti og bíllinn gæti sópast burt hvenær sem er.“ Taktu ekki áhættu. Vatnið getur verið dýpra en virðist og vatnsborðið getur hækkað ört.
FEMA ráðleggur fólki að hafa þessar upplýsingar í hanskahólfi bílsins og bætir við að undir öllum kringumstæðum sé „mikilvægasta reglan: Misstu ekki stjórn á þér af hræðslu.“