Spádómar um heimsendi
ÁRIÐ 1033, réttum 1000 árum eftir dauða Krists, greip mikill ótti um sig í Búrgund í Frakklandi því að spáð var heimsendi það ár. Óvenjutíð og skæð þrumuveður og alvarleg hungursneyð jók á ótta manna um að dómsdagur væri runninn upp. Hópum saman sýndu menn iðrun sína á almannafæri.
Fáeinum áratugum áður, er nálgaðist þúsundasta árið frá fæðingu Krists (samkvæmt því tímatali sem þá var viðurkennt) trúðu margir að heimsendir stæði fyrir dyrum. Sagt er að lista- og menningarstarf í klaustrum Evrópu hafi stöðvast að mestu. Eric Russell segir í bók sinni Astrology and Prediction: „‚Þar eð heimsendir er í nánd‘ var býsna algeng klausa í erfðaskrám sem gerðar voru á síðari helmingi tíundu aldar.“
Marteinn Lúter, sem hleypti siðbót mótmælenda af stokkunum á 16. öld, spáði að heimsendir væri í nánd á hans dögum. Samkvæmt einni heimild sagði hann: „Fyrir mitt leyti er ég viss um að dómsdagur er á næsta leiti.“ Annar bókarhöfundur segir: „Með því að setja sögulega atburði í samhengi við spádóma Biblíunnar gat Lúter boðað að heimsendir stæði fyrir dyrum.“
Á 19. öld spáði William Miller, sem er að jafnaði talinn stofnandi Aðventistakirkjunnar, að Kristur myndi koma aftur einhvern tíma frá mars 1843 til mars 1844. Sumir bjuggust þar af leiðandi við að verða teknir til himna.
Fyrir skemmstu spáði trúfélag í Úkraínu, sem kallast Hið mikla hvíta bræðralag, að heimurinn myndi líða undir lok hinn 14. nóvember 1993. Í Bandaríkjunum sagði útvarpsprédikari, Harold Camping, að heimsendir kæmi í september 1994. Þessar heimsendisspár hafa greinilega reynst rangar.
Hefur þetta gert fólk afhuga þeirri trú að heimurinn eigi eftir að líða undir lok? Þvert á móti. „Flóðbylgja dómsdagsspádóma ríður nú yfir vegna þess að árþúsundamótin 2000 nálgast,“ sagði tímaritið U.S.News and World Report hinn 19. desember 1994. Tímaritið sagði að „næstum 60 af hundraði Bandaríkjamanna álíti að heimurinn líði undir lok einhvern tíma í framtíðinni; næstum þriðjungur þeirra telur að það gerist innan nokkurra áratuga.“
Af hverju hafa komið fram svona margar heimsendisspár? Er ástæða til að trúa að heimurinn eigi eftir að líða undir lok?
[Rammi á blaðsíðu 3]
„Um þúsundir ára hafa dómsdagsspámenn boðað að heimsendir væri í nánd.“ — Premonitions: A Leap Into the Future.