Hvernig þú getur lifað að eilífu
ÞAR eð mannslíkaminn er greinilega gerður til að lifa miklu lengur en hann gerir nú á dögum hafa sumir lagt traust sitt á vísindin til að komast að því hvernig við getum lifað að eilífu. „Með heilsteyptari þekkingu á efnasamböndum líkamans og samspili þeirra munum við skýra eðli lífsins,“ segir dr. Alvin Silverstein. „Við munum skilja . . . hvernig maðurinn hrörnar.“
Með hvaða afleiðingum? Þá rennur upp „nýtt skeið í sögu mannsins,“ segir Silverstein. „Þá verður ‚gamalt‘ fólk ekki til lengur því að þekkingin, sem leyfir okkur að sigra dauðann, hefur einnig eilífa æsku í för með sér.“
Á mönnum eftir að takast þetta? „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt,“ hvetur Biblían. „Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ (Sálmur 146:3, 4) Eins og við höfum séð hefur mönnum ekki tekist að einangra, hvað þá að lagfæra, þann meðfædda galla sem veldur öldrun og dauða. Enginn nema skapari okkar getur gert það.
En er það virkilega tilgangur Guðs að mennirnir lifi að eilífu á jörðinni?
Tilgangur Guðs
Hvar setti Jehóva Guð fyrstu mannhjónin? Í jarðneska paradís. Og þeim var sagt að ‚vera frjósöm, margfaldast og uppfylla jörðina og gera sér hana undirgefna.‘ (1. Mósebók 1:28) Tilgangur Guðs var sá að í fyllingu tímans yrði öll jörðin byggð réttlátri fjölskyldu manna er lifði saman í sátt og samlyndi. — Jesaja 45:18.
Enda þótt Adam væri dæmdur til dauða fyrir óhlýðni sína breytti það ekki þeim upprunalega tilgangi Guðs að mennirnir lifðu að eilífu í paradís á jörð. (1. Mósebók 3:17-19) „Það sem ég tala,“ segir Guð, „það gjöri ég einnig.“ (Jesaja 46:11; 55:11) Guð benti á að tilgangur hans með jörðina hefði ekki breyst er hann sagði: „Hinir réttlátu fá landið [„jörðina,“ NW] til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
Sem skapari okkar er Guð í aðstöðu til að lagfæra þann galla sem veldur því að mennirnir hrörna og deyja. Á hvaða grundvelli gerir hann það? Úr því gallinn er arfur frá fyrsta manninum, Adam, hefur Guð gefið fullkomið líf sonar síns, Jesú Krists, sem lausnargjald „til þess að hver sem á hann [Jesú] trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16; Matteus 20:28.
Í reynd kemur Jesús Kristur þannig í stað Adams sem faðir okkar eða lífgjafi. Þess vegna kallar Biblían hann „hinn síðari Adam.“ (1. Korintubréf 15:45) Í stað þess að vera dæmdir til að deyja sem börn syndarans Adams geta hlýðnir menn því talist verðugir þess að hljóta eilíft líf sem börn ‚Eilífðarföður‘ síns, Jesú Krists. — Jesaja 9:6.
Jehóva Guð er auðvitað ‚konungur eilífðarinnar‘ og ‚faðir Drottins vors Jesú Krists.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:17; Opinberunarbókin 15:3; Kólossubréfið 1:3) En auk þess að vera „Eilífðarfaðir“ okkar og „frelsari“ er Jesús Kristur líka „Friðarhöfðingi.“ (Lúkas 2:11) Sem fulltrúi föður síns mun Kristur hafa höfðinglegt vald til að koma á friði á jörð. — Sálmur 72:1-8; 110:1, 2; Hebreabréfið 1:3, 4.
Undir stjórn Jesú Krists verður hin jarðneska paradís, sem glataðist, endurheimt. Það mun gerast, sagði Jesús, „í endursköpuninni, þegar Mannssonurinn sest í dýrðarhásæti sitt.“ (Matteus 19:28, NW) Trúfastir fylgjendur Krists, alls 144.000, munu ríkja með honum yfir hinni jarðnesku paradís. (2. Tímóteusarbréf 2:11, 12; Opinberunarbókin 5:10; 14:1, 3) Milljónir manna munu njóta góðs af þessari réttlátu stjórn með því að fá að lifa í paradís á jörð. Þeirra á meðal verður glæpamaðurinn sem dó við hlið Jesú og Jesús lofaði: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:43, NW.
Jafnvel ranglátir menn, sem eru dánir, verða þá reistir upp frá dauðum og fá tækifæri til að uppfylla skilyrðin fyrir eilífu lífi. (Postulasagan 24:15) Biblían lýsir því fagurlega hvernig sjúkdómum, öldrun og dauða verður útrýmt og segir: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Hvernig menn hljóta eilíft líf
Þig hlýtur að langa til að vera meðal þeirra sem fá jörðina til eignar og búa eilíflega á henni. Ef svo er verður þú að gera það sem krafist er til að fá að lifa að eilífu í paradís. Jesús Kristur tiltók eina meginkröfuna í bæn til föður síns á himnum: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig við að afla þér þessarar þekkingar sem veitir líf. Hafðu bara samband við þá og þeir munu heimsækja þig endurgjaldslaust þegar þér hentar til að ræða við þig um hvernig Guð ætlar að lyfta mannkyninu upp til andlegs og líkamlegs fullkomleika. Þú mátt treysta því að alvaldur skapari okkar er fullfær um að lagfæra þann erfðagalla sem veldur hrörnun og dauða. Sá tími kemur, og er mjög nærri, að lífið verður ekki jafnstutt og nú. Jehóva mun blessa fólk sitt með „lífi að eilífu.“ — Sálmur 133:3.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hrörnun og dauða verður útrýmt undir stjórn Krists.