Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.7. bls. 12-18
  • Með trúna að leiðarljósi í kommúnistaríki

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Með trúna að leiðarljósi í kommúnistaríki
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ég fer að trúa á Guð
  • Leitin ber árangur
  • Ákvarðanir sem ég þurfti að taka
  • Vísindamaður skiptir um skoðun
  • Prédikað undir banni
  • Ögun
  • Stórkostleg blessun
  • Biblían breytir lífi fólks
    Varðturninn: Biblían breytir lífi fólks
Vaknið! – 1996
g96 8.7. bls. 12-18

Með trúna að leiðarljósi í kommúnistaríki

Frásaga Ondrej Kadlec

SUMARIÐ 1966 var ég leiðsögumaður í skoðunarferð um heimaborg mína, Prag í Tékkóslóvakíu. Ég var að sýna hópnum tilkomumiklar kirkjur og helgidóma borgarinnar og talaði um Guð, ákafur vegna nýfundinnar trúar minnar.

„Ertu vottur Jehóva?“ spurði bandarískur hagfræðiprófessor.

„Nei,“ svaraði ég. „Ég hef aldrei heyrt minnst á votta Jehóva. Ég er rómversk-kaþólskur.“

Ég fer að trúa á Guð

Foreldrar mínir voru framáfólk í menntamálum, stjórnmálum og læknisfræði. Ég fæddist árið 1944 og faðir minn gerðist kommúnisti skömmu eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk ári síðar. Hann var reyndar einn af stofnendum umbótahreyfingar kommúnista, og árið 1966 varð hann heiðursrektor Hagfræðiháskólans í Prag. Nokkrum árum síðar var hann skipaður menntamálaráðherra Tékkóslóvakíu sem var þá bæði kommúnistaríki og guðlaust land.

Móðir mín var afar fjölhæf kona og heiðarleg fram í fingurgóma. Hún var augnskurðlæknir og sögð einhver sá besti í öllu landinu. Engu að síður veitti hún bágstöddum ókeypis læknishjálp. Hún hafði að viðkvæði: „Okkur ber að beita öllum þeim gáfum, sem okkur er trúað fyrir, til góðs fyrir samfélagið og þjóðina.“ Hún tók sér ekki einu sinni fæðingarorlof þegar ég fæddist því að hún vildi vera til taks á lækningastofunni.

Ætlast var til að ég skaraði fram úr í skóla. Faðir minn spurði gjarnan: „Stendur einhver sig betur en þú?“ Ég fór að njóta samkeppninnar því að ég vann oft til verðlauna fyrir góða frammistöðu. Ég lærði rússnesku, ensku og þýsku og ferðaðist víða um kommúnistaríkin og utan þeirra. Ég hafði yndi af því að hrekja trúarhugmyndir sem fáránlega hjátrú. Og þótt ég aðhylltist guðleysi heilshugar fékk ég andstyggð á því hvernig guðleysið birtist í stjórnmálum.

Árið 1965, þegar ég var aðeins 21 árs, fór ég í ferðalag til Englands sem hafði djúp áhrif á mig. Ég hitti þar fólk sem varði trú sína á Guð með sannfæringu og rökum. Eftir að ég kom heim til Prag stakk rómversk-kaþólskur kunningi upp á að ég læsi Biblíuna í stað þess að lesa um kristnina. Og það gerði ég. Það tók mig þrjá mánuði að lesa hana.

Ég hreifst af því hvernig biblíuritararnir komu boðskap sínum á framfæri. Þeir voru hreinskilnir og sjálfsgagnrýnir. Ég fór að trúa að enginn nema persónubundinn Guð gæti upphugsað og séð fyrir þeirri stórfenglegu framtíð sem þeir töluðu um.

Eftir að hafa lesið og hugleitt Biblíuna út af fyrir mig um nokkurra mánaða skeið taldi ég mig tilbúinn að mæta föður mínum og vinum. Ég vissi að þeir myndu bera brigður á nýfundna trú mína. Eftir það reyndi ég með ákefð að snúa öðrum til trúar. Allir sem ég komst í tæri við — svo sem bandaríski prófessorinn er ég nefndi í byrjun — urðu fyrir trúboði mínu. Ég hengdi jafnvel róðukross á vegginn yfir rúminu mínu til að láta alla vita af trú minni.

En móðir mín andmælti mér á þeim forsendum að ég gæti tæplega verið kristinn því að ég væri svo líkur föður mínum sem var gallharður kommúnisti. En ég þráaðist við. Ég las Biblíuna í annað sinn og svo þriðja. Þá var mér orðið ljóst að ég þarfnaðist leiðsagnar til að taka meiri framförum.

Leitin ber árangur

Ég hafði samband við rómversk-kaþólsku kirkjuna. Ungum presti var fyrst og fremst umhugað um að kenna mér kennisetningar kirkjunnar sem ég samþykkti fúslega. Þá — föður mínum til hneisu — lét ég skírast árið 1966. Eftir að presturinn hafði stökkt á mig vatni stakk hann upp á að ég læsi Biblíuna en bætti svo við: „Páfinn hefur nú þegar viðurkennt þróunarkenninguna svo að þú skalt vera alveg rólegur; við munum greina hveitið frá illgresinu.“ Mér var brugðið að bókin, sem hafði veitt mér trúna, skyldi vera véfengd.

Haustið 1966 ræddi ég við vin úr kaþólskri fjölskyldu og sagði honum frá trú minni. Hann var líka kunnugur Biblíunni og talaði við mig um Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:16) Hann sagðist vera í sambandi við votta Jehóva sem ég hafði fyrst heyrt getið fáeinum mánuðum áður í skoðunarferðinni sem ég hef áður minnst á. En ég taldi þennan hóp lítilfjörlegan í samanburði við hina voldugu, auðugu og fjölmennu rómversk-kaþólsku kirkju sem ég tilheyrði.

Þegar við ræddum málin nánar skoðuðum við þrjú grundvallaratriði. Í fyrsta lagi, er rómversk-kaþólska kirkjan arftaki kristninnar á fyrstu öld? Í öðru lagi, hvort ætti að hafa endanlegt úrskurðarvald — kirkjan mín eða Biblían? Og í þriðja lagi, hvort er rétt, sköpunarsaga Biblíunnar eða þróunarkenningin?

Þar eð við byggðum trú okkar báðir á Biblíunni var vandalítið fyrir vin minn að sannfæra mig um að kenningar kaþólsku kirkjunnar væru harla ólíkar kenningum frumkristninnar. Ég komst til dæmis að raun um að jafnvel kaþólskar heimildir viðurkenna að ein helsta kenning kirkjunnar, þrenningarkenningin, sé ekki byggð á kenningum Jesú Krists og postula hans.

Það leiddi okkur að næstu spurningu — hver ætti að hafa endanlegt úrskurðarvald. Ég vitnaði í heilagan Ágústínus: „Roma locuta est; causa finita est“ eða „Róm hefur talað; málinu er lokið.“ En vinur minn hélt því fram að orð Guðs, Biblían, ætti að hafa síðasta orðið. Ég varð að samsinna orðum Páls postula: „Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari.“ — Rómverjabréfið 3:4.

Að síðustu bauð vinur minn mér snjáð, vélritað handrit sem kallað var Þróunarkenningin eða nýi heimurinn. Þar eð vottar Jehóva voru bannaðir í Tékkóslóvakíu síðla á fimmta áratugnum bjuggu þeir til afrit af ritum sínum og létu aðeins þeim í té sem þeir treystu. Ég vissi strax og ég las bæklinginn að hann innihélt sannleikann. Vinur minn hóf biblíunám með mér. Hann lánaði mér nokkrar blaðsíður í senn úr biblíunámsritinu „Guð skal reynast sannorður“ og við ræddum saman um efni þeirra.

Skömmu eftir að við hófum þessar umræður — um jólaleytið árið 1966 — komu vinir frá Vestur-Þýskalandi til Prag til að heimsækja mig. Eitt sinn er við vorum að spjalla saman gerðu þeir gys að kristnum mönnum og kölluðu þá hræsnisfulla stríðsmangara. „Sem hermenn NATO-ríkja gætum við barist við þig sem kristinn mann í kommúnísku Varsjárbandalagsríki,“ sögðu þeir. Niðurstaða þeirra var: „Það er betra að vera kaldhæðinn en hræsnari.“ Mér fannst þeir kannski hafa rétt fyrir sér. Í næstu biblíunámsstund spurði ég því vin minn hvað sannkristnum mönnum fyndist um stríð og herþjálfun og hvaða afstöðu þeir tækju til slíks.

Ákvarðanir sem ég þurfti að taka

Ég var agndofa yfir skýru svari vinar míns. En að fara eftir kenningu Biblíunnar um að ‚smíða plógjárn úr sverðum‘ myndi kosta gríðarlegar breytingar á lífi mínu og fyrirhuguðum starfsferli. (Jesaja 2:4) Eftir fimm mánuði átti ég að útskrifast úr læknaháskóla og síðan að gegna herskyldu um tíma. Hvað átti ég að gera? Ég var miður mín þannig að ég bað til Guðs.

Eftir margra daga djúpa íhugun komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði enga afsökun fyrir því að hlýða ekki þeirri kröfu að sannkristnir menn séu friðsamir. Ég ákvað að eftir að ég útskrifaðist úr háskólanum myndi ég þiggja stöðu á spítala uns ég yrði dæmdur fyrir samviskuneitun. En þá komst ég að raun um að Biblían segir okkur að halda okkur frá blóði. Mér varð ljóst að starf mitt gæti falið í sér að gefa sjúklingum blóð þannig að ég ákvað að hætta störfum á spítalanum. (Postulasagan 15:19, 20, 28, 29) Ákvörðun mín olli miklu fjaðrafoki opinberlega.

Eftir að faðir minn hafði gengið úr skugga um að ég væri ekki af ásettu ráði að stofna til vandræða og reyna að spilla frama hans í stjórnmálum, skarst hann í leikinn og fékk herskyldu minni frestað um eitt ár. Sumarið 1967 var mér erfitt. Hugsaðu þér aðstöðuna sem ég var í: Ég var nýr biblíunemandi og kennarinn minn, eini votturinn sem ég þekkti, var fjarverandi sumarlangt. Og hann hafði bara skilið eftir fáeina kafla úr bókinni „Guð skal reynast sannorður“ handa mér til einkanáms. Ásamt Biblíunni minni voru þeir eina andlega leiðarljósið sem ég hafði.

Síðar kynntist ég öðrum vottum og 8. mars 1968 skírðist ég niðurdýfingarskírn til tákns um að ég væri vígður Jehóva Guði. Árið eftir bauðst mér að fara í tveggja ára framhaldsnám við Oxfordháskóla á Englandi. Sumir hvöttu mig til að þiggja boðið og fara til Englands og taka andlegum framförum í landi þar sem vottarnir voru ekki bannaðir. Um leið gæti ég búið mig undir gott framtíðarstarf. En kristinn öldungur sagði að það væri minni þörf fyrir þjónustu mína á Englandi en í Tékkóslóvakíu. Ég ákvað því að hafna boðinu um veraldlega viðbótarmenntun og vera um kyrrt í Tékkóslóvakíu til að verða að liði við prédikunarstarfið neðanjarðar.

Árið 1969 var mér boðið að sækja námskeið Ríkisþjónustuskólans þar sem veitt var sérhæfð kennsla handa kristnum umsjónarmönnum. Sama ár fékk ég námsstyrk sem besti ungi lyfjafræðingurinn í Tékkóslóvakíu. Ég gat fyrir vikið sótt þing Alþjóðafélags lyfjafræðinga í Sviss.

Vísindamaður skiptir um skoðun

Árið 1970 hlýddi ég á fyrirlestur vísindamanns að nafni Frantis̆ek Vyskočil. Fyrirlesturinn fjallaði um mjög flókið viðfangsefni, taugaboðskipti. Hann sagði að alltaf þegar upp kæmi viss þörf hjá lífveru væri komið með frábæra lausn. „Náttúran er fjölhæfur galdrameistari,“ sagði hann.

Ég tók hann tali eftir fyrirlesturinn. „Finnst þér ekki að okkur beri að eigna Guði heiðurinn af frábærri hönnun lífveranna?“ spurði ég. Spurningin kom flatt upp á hann því að hann var guðsafneitari. Hann spurði á móti: „Hvaðan kom illskan?“ og: „Hverjum er það að kenna að svona mörg börn eru munaðarlaus?“

Áhugi hans vaknaði þegar ég kom með skynsamleg svör frá Biblíunni. En hann spurði hvers vegna Biblían gæfi ekki nákvæmar vísindalegar upplýsingar, til dæmis lýsingu á uppbyggingu frumunnar, þannig að fólk sæi auðveldlega að skaparinn væri höfundur hennar. „Hvort er erfiðara að lýsa eða skapa?“ spurði ég. Ég lánaði honum bókina Varð maðurinn til við þróun eða sköpun?

Eftir yfirborðslegan lestur stimplaði Frantis̆ek hana sem einfeldnislega og villandi. Hann gagnrýndi einnig það sem Biblían segir um fjölkvæni, hórdóm Davíðs og morð hans á saklausum manni. (1. Mósebók 29:23-29; 2. Samúelsbók 11:1-25) Ég hrakti andmæli hans og benti á að Biblían segði hreinskilnislega jafnvel frá ófullkomleika þjóna Guðs og syndum þeirra.

Loks sagði ég Frantis̆ek í einu af samtölum okkar að engin rök eða rökfærsla dygði til að sannfæra þann mann um tilvist Guðs sem skorti réttar hvatir eða sannleiksást. Ég var í þann mund að fara þegar hann stöðvaði mig og bað um biblíunám. Hann sagðist mundu lesa aftur bókina Varð maðurinn til við þróun eða sköpun? — núna með opnum huga. Eftir það gerbreyttust viðhorf hans eins og sjá má af eftirfarandi biblíutilvitnun í einu af bréfum hans: „Dramblæti mannsins skal lægjast og hroki mannanna beygjast, og [Jehóva] einn skal á þeim degi háleitur vera.“ — Jesaja 2:17.

Frantis̆ek og eiginkona hans létu skírast sem vottar Jehóva sumarið 1973. Hann þjónar nú sem öldungur í einum af söfnuðunum í Prag.

Prédikað undir banni

Meðan starfsemin var bönnuð var okkur uppálagt að sýna ítrustu varúð í boðunarstarfi okkar. Einu sinni þrábað ungur vottur mig að fara með sér í prédikunarstarfið. Hann efaðist um að þeir sem fóru með forystuna í skipulagi votta Jehóva tækju raunverulega sjálfir þátt í prédikunarstarfinu. Við áttum ánægjulegar samræður við marga í óformlegri prédikun okkar. En á endanum hittum við mann sem þekkti mig af ljósmynd í myndaalbúmi leynilögreglunnar, þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því á þeim tíma. Ég var að vísu ekki handtekinn en það var fylgst vandlega með mér upp frá því og það dró úr árangri mínum í leynilegu boðunarstarfi okkar.

Eins og ég hafði gert nokkur undanfarin ár skipulagði ég nokkurra daga hópstarf ungra votta á afskekktu svæði í landinu sumarið 1983. Í stað þess að fara eftir viturlegum ráðleggingum fór ég á bílnum mínum því að það var þægilegra en að nota almenningsfarartæki. Við gerðum stuttan stans á leiðinni til smá innkaupa í stórverslun og ég lagði bílnum fyrir framan verslunina. Þegar ég var að greiða vörurnar benti ég á nokkra unga starfsmenn í versluninni og sagði við roskna konu sem vann þar: „Í framtíðinni gætum við öll verið ung.“ Konan brosti. „En við mennirnir getum ekki komið því til leiðar,“ hélt ég áfram. „Til þess þyrfti aðstoð af himnum ofan.“

Hún sagði ekkert svo að ég fór. En konuna grunaði að ég væri að boða einhverja trú og fylgdist með mér út um gluggann án þess að ég vissi af þegar ég setti vörurnar í bílinn. Síðan lét hún lögregluna vita. Nokkrum klukkustundum síðar, eftir að við höfðum borið óformlega vitni annars staðar í bænum, sneri ég aftur til bílsins ásamt starfsfélaga mínum. Skyndilega birtust tveir lögregluþjónar og handtóku okkur.

Við vorum yfirheyrðir klukkustundum saman á lögreglustöðinni áður en okkur var sleppt. Fyrsta hugsun mín var sú hvað ég ætti að gera við heimilisföng hinna áhugasömu sem við höfðum fengið um daginn. Ég fór því á salernið og ætlaði að skola þeim niður. En lögregluþjónn stöðvaði mig styrkri hendi áður en það tókst. Hann veiddi pappírana upp úr salernisskálinni og þurrkaði þá. Ég var mjög taugaspenntur út af þessu því að nú var fólkið, sem hafði látið okkur fá heimilisföng sín, í hættu.

Eftir yfirheyrsluna var farið með okkur alla á hótelið þar sem lögreglan hafði rannsakað herbergið okkar. En hún hafði ekki fundið önnur heimilisföng áhugasamra enda þótt þau væru þar og hefðu ekki einu sinni verið vandlega falin. Síðar var ég ávítaður opinberlega á vinnustað, þar sem ég vann sem taugalyfjafræðingur, fyrir þátttöku í ólöglegri starfsemi. Og umsjónarmaður prédikunarstarfsins í Tékkóslóvakíu, sem hafði áður varað mig við að nota bílinn í boðunarstarfinu, ávítaði mig einnig.

Ögun

Árið 1976 hafði ég verið skipaður í nefndina sem hefur umsjón með prédikunarstarfi votta Jehóva í Tékkóslóvakíu. En þar eð ég var nú undir nákvæmu eftirliti leynilögreglunnar sökum slæmrar dómgreindar minnar, eins og ég hef minnst á, var ég látinn víkja úr landsnefndinni. Ýmsum öðrum sérréttindum var létt af mér, meðal annars því að kenna í skóla fyrir farandumsjónarmenn og brautryðjendur, eins og boðberar í fullu starfi eru kallaðir — sérréttindum sem voru mér mjög kær.

Ég tók við öguninni, en þetta tímabil síðla á níunda áratugnum reyndist tími erfiðrar sjálfsrannsóknar. Myndi ég læra að vera varkárari í starfi mínu og forðast frekara gáleysi? Sálmur 30 vers 6 segir: „Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.“ Þessi morgunn rann upp fyrir mig með falli kommúnistastjórnarinnar í Tékkóslóvakíu í nóvember 1989.

Stórkostleg blessun

Hvílíkur munur að geta boðað trúna fyrir opnum tjöldum og átt opinberlega samskipti við aðalstöðvar votta Jehóva í Brooklyn í New York. Mér var fljótlega falið að starfa sem farandumsjónarmaður og ég tók við því starfi í janúar 1990.

Síðan, árið 1991, fékk ég þau sérréttindi að sitja Þjónustuþjálfunarskólann í Manchester á Englandi. Hvílík blessun að eyða tveim mánuðum í félagsskap þroskaðra kristinna manna og hljóta kennslu frá þeim! Nokkra stund dag hvern unnum við nemendurnir ýmis störf sem var góð hvíld frá ströngu náminu. Mér var falið að þvo glugga.

Strax eftir heimkomuna frá Englandi tók ég að hjálpa við undirbúning stórmóts votta Jehóva dagana 9. til 11. ágúst á hinum gríðarstóra Strahov-leikvangi í Prag. Þar komu saman 74.587 manns frá ýmsum löndum til að tilbiðja Guð okkar, Jehóva!

Árið eftir hætti ég veraldlegri vinnu sem taugalyfjafræðingur. Ég hef nú starfað í næstum fjögur ár á skrifstofunni í Prag þar sem ég sit aftur í nefndinni er hefur umsjón með starfi votta Jehóva í Tékklandi. Fyrir skömmu var ný, tíu hæða bygging, sem vottum Jehóva var gefin, gerð upp og tekin í notkun sem útibú Varðturnsfélagsins. Þetta ágæta hús var vígt þjónustunni við Jehóva hinn 28. maí 1994.

Ein mesta blessunin, sem ég hef orðið aðnjótandi, er sú að mega deila sannleika Biblíunnar með öðrum, þeirra á meðal ættingjum mínum. Foreldrar mínir eru enn ekki orðnir vottar en þau eru vinsamleg gagnvart því sem ég er að gera. Nokkur undanfarin ár hafa þau sótt sumar af samkomum okkar. Ég vona innilega að þau, ásamt milljónum hjartahreinna manna í viðbót, eigi eftir að lúta stjórn Guðsríkis og hljóta þá eilífu blessun sem Guð hefur búið þeim er vilja þjóna honum.

(Ritin, sem nefnd eru í greininni, eru gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.)

[Mynd á blaðsíðu 12]

Sem ungur háskólanemi.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Faðir minn, sem var menntamálaráðherra Tékkóslóvakíu, og móðir mín sem var fær augnskurðlæknir.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Frantis̆ek Vyskočil, vísindamaður og trúleysingi sem varð vottur.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Frá falli kommúnismans hafa vottar Jehóva haldið mörg stórmót í Austur-Evrópu. Yfir 74.000 manns sóttu þetta mót í Prag árið 1991.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Við störf mín í Þjónustuþjálfunarskólanum á Englandi.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Útibú Varðturnsfélagsins í Prag, vígt 28. maí 1994.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila