Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.4. bls. 18-19
  • Mun jörðin farast í eldi?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mun jörðin farast í eldi?
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Stendur Guði á sama?
  • „Hin fyrri jörð“
  • ‚Ný jörð‘
  • Verður jörðinni eytt?
    Biblíuspurningar og svör
  • Fyrirætlun Guðs með jörðina nær brátt fram að ganga
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • „Svo á jörðu sem á himni“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
Vaknið! – 1997
g97 8.4. bls. 18-19

Sjónarmið Biblíunnar

Mun jörðin farast í eldi?

HVORT sem menn halda að jörðin sviðni í kjarnorkubáli, brenni til ösku við það að sólin þenst út eða að reiður guð kveiki í henni, þá eru margir sannfærðir um að jörðin, heimili mannkyns, farist í algerri eyðingu, hörmulegum heimsendi.

Sumir vísa í ritningarstaði Biblíunnar sem boða mikinn eldsvoða af himnum ofan sem makleg málagjöld fyrir afbrot mannsins gegn jörðinni. Aðrir enduróma álit Pauls Davies, prófessors við háskólann í Adelaide í Ástralíu, sem telur óumflýjanlegt að ógurlegt eldhaf eigi eftir að gleypa jörðina. Hann setur fram þessa kenningu í bók sinni The Last Three Minutes: „Þegar sólin belgist æ meira út gleypir hún . . . jörðina. Jörðin verður að ösku.“ Hver er sannleikurinn um hlutskipti jarðarinnar? Hvernig eigum við að skilja ritningarstaði Biblíunnar sem virðast spá brennandi tortímingu?

Stendur Guði á sama?

Í Jeremía 10:10-12 er okkur sagt: „[Jehóva] er sannur Guð . . . Hann sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu.“ Guð gerði jörðina og grundvallaði hana. Með visku, kærleika og skilningi, útbjó hann hana vandlega til að endast að eilífu sem dásamlegt heimili fyrir mannkynið.

Biblían segir svo frá sköpun mannkyns: „Hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.‘“ (1. Mósebók 1:27, 28) Þegar hann hafði lokið sköpunarverki sínu gat hann ótvírætt sagt að ‚það væri harla gott.‘ (1. Mósebók 1:31) Hann vildi að það héldist þannig. Alveg eins og væntanlegir foreldrar útbúa barnaherbergi fyrir komandi ungbarn gróðursetti Guð fallegan garð og setti þar manninn Adam til að rækta garðinn og gæta hans. — 1. Mósebók 2:15.

Adam yfirgaf fullkomleikann og hætti að rækja skyldu sína að sjá um jörðina. En sneri skaparinn baki við tilgangi sínum? Ekki samkvæmt Jesaja 45:18: „Svo segir [Jehóva] sá er himininn hefir skapað . . . sá er jörðina hefir myndað . . . sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ (Sjá einnig Jesaja 55:10, 11.) Þótt maðurinn vanrækti gæsluskyldur sínar hélt Guð áfram að framfylgja tilgangi sínum með jörðina og lífríki hennar. Lögin, sem gefin voru Ísraelsmönnum til forna, gerðu ráð fyrir „helgihvíld fyrir landið“ sjöunda hvert ár og þau fólu í sér mannúðleg ákvæði er sáu dýrum fyrir ákveðinni vernd. (3. Mósebók 25:4; 2. Mósebók 23:4, 5; 5. Mósebók 22:1, 2, 6, 7, 10; 25:4; Lúkas 14:5) Þetta eru aðeins fáein dæmi úr Biblíunni sem sýna greinilega að Guð lætur sér mjög annt um mannkynið og allt það er hann setti undir umsjá mannsins.

„Hin fyrri jörð“

En hvernig eigum við að samræma ritningarstaði sem virðast stangast á? Til dæmis segir 2. Pétursbréf 3:7: „Þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ Og Opinberunarbókin 21:1 segir: „Ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.“

Ef skilja ber orð Péturs bókstaflega og jörðin á að eyðast í raunverulegum eldi, þá ætti hinn bókstaflegi himinn, stjörnurnar og önnur himintungl, einnig að farast í eldi. Þetta sjónarmið stangast hins vegar á við loforðin í Matteusi 6:10: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ og í Sálmi 37:29: „Hinir réttlátu fá [„jörðina,“ NW] til eignar og búa á henni um aldur.“ Og hvaða áhrif hefði eldur á sólina og stjörnurnar sem eru brennheitar og framleiða stöðugar kjarnorkusprengingar?

Á hinn bóginn notar Biblían orðið „jörð“ oft á táknrænan hátt. Til dæmis segir 1. Mósebók 11:1: „Öll jörðin hafði eitt tungumál.“ Hér vísar orðið „jörð“ til alls mannkyns eða mannlegs samfélags. (Sjá einnig 1. Konungabók 2:1, 2, NW; 1. Kroníkubók 16:31.) Samhengið í 2. Pétursbréfi 3:5, 6 bendir til hinnar sömu táknrænu notkunar orðsins „jörð.“ Það vísar til daga Nóa þegar hið siðspillta mannfélag eyddist í flóðinu en ekki jörðin sjálf eða Nói og heimilismenn hans. (1. Mósebók 9:11) Eins segir 2. Pétursbréf 3:7 að þeir sem tortímast séu „óguðlegir menn.“ Þetta sjónarmið er í samræmi við alla Biblíuna. Hið siðspillta samfélag, sem á að farast, er einnig „hin fyrri jörð“ í Opinberunarbókinni 21:1 sem vitnað var í áðan.

Eins og umhyggjusamur jarðneskur faðir gerir allt sem hann getur til að tryggja friðhelgi heimilis síns, ber Jehóva Guð mikla umhyggju fyrir sköpunarverum sínum. Eitt sinn hrakti hann siðlaust og guðlaust fólk úr hinum gróskumikla Jórdandal og fullvissaði hina nýju umsjónarmenn landsins, sem höfðu gert sáttmála við hann, að ef þeir héldu lög hans ‚myndi landið ekki spúa þeim nema þeir saurguðu það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir var.‘ — 3. Mósebók 18:24-28.

‚Ný jörð‘

Nú á tímum hefur siðspillt, ofbeldisfullt og sundrað samfélag mengað jörðina. Guð einn getur bjargað henni og það ætlar hann einmitt að gera. Í Opinberunarbókinni 11:18 lofar hann „að eyða þeim, sem jörðina eyða.“ Hin endurnýjaða jörð verður byggð mönnum sem óttast Guð og elska náunga sinn í einlægni. (Hebreabréfið 2:5; samanber Lúkas 10:25-28.) Þær breytingar, sem eiga sér stað undir himnesku ríki Guðs, verða það djúpstæðar að Biblían talar um „nýja jörð“ — nýtt mannlegt samfélag.

Þegar við lesum ritningarstaði eins og Sálm 37:29 og skiljum yfirlýsingu Krists í Matteusi 6:10 erum við sannfærð um að hvorki maðurinn með allan sinn skaðræðismátt né stjórnlaus náttúruöfl eyði jörðinni. Þau geta ekki hindrað að tilgangur Guðs nái fram að ganga. (Sálmur 119:90; Jesaja 40:15, 26) Trúfast mannkyn mun búa á jörðinni við takmarkalausa fegurð og óþrjótandi gleði. Þetta er sannleikurinn um örlög jarðarinnar því þetta er og hefur alltaf verið tilgangur hins kærleiksríka skapara mannkynsins. — 1. Mósebók 2:7-9, 15; Opinberunarbókin 21:1-5.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila