Við erum óaðskiljanlegir vinir
TRACY er tíu ára, svört labradortík, og hún er leiðsöguhundurinn minn. Svo er henni fyrir að þakka að ég kemst leiðar minnar með eðlilegum hætti. Hún er mér líka félagsskapur og hughreysting. Það er því ekkert undarlegt að við séum óaðskiljanlegir vinir og að mér skuli þykja mjög vænt um hana.
Stundum bregðast menn mér óviljandi sem Tracy gerir aldrei. Dag einn skildi ég Tracy eftir heima og fór út að ganga með vinkonu. Við vorum að spjalla saman þegar ég datt skyndilega. Vinkona mín hafði gleymt að ég er blind og varaði mig ekki við gangstéttarbrúninni. Það hefði ekki gerst ef Tracy hefði verið með mér.
Einu sinni bjargaði Tracy meira að segja lífi mínu. Ég var að ganga eftir götu þegar vörubílstjóri missti skyndilega stjórn á bílnum og sveigði í áttina til mín. Ég heyrði vélarhljóðið en sá auðvitað ekki hvert hann stefndi. Tracy sá það, skildi hættuna og dró mig af hættusvæðinu.
Blind en þó sjáandi
Ég fæddist í suðurhluta Svíþjóðar árið 1944 og hef verið blind frá fæðingu. Ég var send í heimavistarskóla fyrir blind börn þar sem ég lærði að lesa og skrifa blindraletur. Tónlist, einkum píanóleikur, varð mikilvægur þáttur í lífi mínu. Eftir að ég útskrifaðist úr framhaldsskóla hélt ég áfram tungumála- og tónlistarnámi við Gautaborgarháskóla.
En líf mitt gerbreyttist þegar tveir af vottum Jehóva bönkuðu upp á hjá mér á háskólasvæðinu. Fljótlega fór ég að sækja samkomur hjá vottunum og byrjaði jafnvel að segja öðrum frá því sem ég var að læra. Árið 1977 lét ég skírast til tákns um vígslu mína til Jehóva Guðs. Þótt ég væri blind að líkamanum til hafði nám mitt í orði Guðs veitt mér nokkuð sem var geysiverðmætt — andlega sjón.
Ég tel mig miklu betur stadda en þá sem hafa líkamlega sjón en eru andlega blindir. (Samanber Jóhannes 9:39-41.) Ég nýt þess að hafa skýra mynd í huga mér af nýjum heimi Guðs þar sem augu blindra munu sjá eins og hann hefur lofað, já, þar sem öll líkamleg mein verða læknuð og þar sem jafnvel dánir verða reistir upp! — Sálmur 146:8; Jesaja 35:5, 6; Postulasagan 24:15.
Þótt ég sé ógift og líkamlega blind spjara ég mig ágætlega með Tracy sem tryggan félaga. Mig langar til að lýsa því hvernig hún hjálpar mér að sinna veraldlegri vinnu og einnig þjónustu minni sem vottur Jehóva. (Matteus 24:14; Postulasagan 20:20; Hebreabréfið 10:25) En fyrst ætla ég að segja ykkur örlítið meira af Tracy sjálfri.
Valin til sérstakrar þjálfunar
Þegar Tracy var aðeins átta mánaða var hún prófuð til að kanna hvort hún yrði hæfur leiðsöguhundur. Hún reyndist stillt, námfús og fældist ekki við skyndilegan hávaða. Þá var henni komið fyrir hjá fjölskyldu um tíma til að kynnast eðlilegu fjölskyldulífi. Eftir það, þegar hún var orðin nógu þroskuð, var hún sett í þjálfunarskóla fyrir leiðsöguhunda.
Í skólanum lærði Tracy að gera það sem ætlast er til af leiðsöguhundi, það er að segja að hjálpa væntanlegum eiganda sínum að finna dyr, stiga, hlið og göngustíga. Hún lærði líka að ganga á fjölförnum gangstéttum og fara yfir götur. Henni var kennt að nema staðar við gangstéttarbrún, hlýða umferðarljósum og sveigja fram hjá hættulegum hindrunum. Eftir um fimm mánaða þjálfun var hún tilbúin til starfa. Það var þá sem ég kynntist Tracy.
Það sem Tracy gerir fyrir mig
Tracy vekur mig á hverjum morgni til að ég geti gefið henni að éta. Síðan undirbúum við okkur til að fara í vinnuna. Það er um 20 mínútna gangur heiman frá mér til skrifstofunnar. Ég þekki auðvitað leiðina, en Tracy hefur það hlutverk að hjálpa mér að komast þangað án þess að rekast á farartæki, fólk, ljósastaura eða eitthvað annað. Á skrifstofunni liggur hún undir skrifborðinu mínu og í matarhléinu förum við yfirleitt í göngutúr.
Besti hluti dagsins er kvöldin, eftir að við komum heim úr vinnu. Þá fer Tracy með mér út í prédikunarstarfið hús úr húsi og á heimili þar sem ég stjórna biblíunámskeiðum. Margir eru vingjarnlegir við hana, klappa henni og faðma og gefa mér stundum eitthvert lostæti handa henni. Við sækjum líka kristnar samkomur í hverri viku. Eftir samkomurnar finnst krökkunum gaman að heilsa Tracy og faðma hana sem hún hefur yndi af.
Mér er ljóst að Tracy er bara hundur og að hún deyr einhvern tíma. Þá þarf ég að fá mér annan leiðsöguhund. En sem stendur erum við félagar og þörfnumst hvor annarrar. Þegar Tracy er ekki nærstödd er ég óörugg með mig, og hún verður taugaóstyrk og eirðarlaus þegar hún getur ekki leiðbeint mér.
Skilningur er nauðsynlegur
Svo undarlegt sem það er reynir fólk stundum að stía okkur sundur. Það lítur bara á Tracy sem venjulegan hund eða gæludýr og skilur ekki hið djúpstæða samband okkar. Þetta fólk þarf að skilja að Tracy er mér hið sama og hjólastóll er lömuðum manni. Að stía okkur sundur er eins og að taka úr mér augun.
Því betur sem fólk skilur samband okkar Tracyar, þeim mun færri verða vandamálin. Hjólastóll er álitinn sjálfsagður hlutur en leiðsöguhundur því miður allt of sjaldan. Sumir eru hræddir við hunda eða geðjast bara ekki að þeim.
Í bæklingi um leiðsöguhunda, sem gefinn er út af Samtökum sjónskertra í Svíþjóð, eru mjög gagnlegar upplýsingar. Þar segir: „Leiðsöguhundur er hjálpartæki sjónskertra. Og hann er meira en það. Hann er lifandi hjálpartæki. . . . Hann er vinur sem bregst aldrei.“
Tracy er mér augu í myrkrinu og hún hjálpar mér að lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt er núna. En ég er sannfærð um að bráðlega, í nýjum heimi, sem Guð hefur lofað, geti ég séð öll hin stórkostlegu undur sköpunarverksins. Ég er því staðráðin í að varðveita andlega sjón mína.
Tracy liggur með höfuðið í kjöltu mér og við erum tilbúnar að hlusta á upplestur nýjasta tölublaðs Varðturnsins. — Frásaga Anne-Marie Evaldsson.