Endalaus fjölbreytni lífsins — hvernig varð hún til?
AF ÞEIM ríflega 1,5 milljónum dýrategunda, sem vísindamenn hafa gefið nöfn fram að þessu, er um ein milljón skordýr. Það þyrfti 6000 blaðsíðna alfræðibók til að telja upp öll skordýr sem þekkt eru! Hvernig urðu allar þessar tegundir til? Af hverju er fjölbreytnin svona endalaus? Stafar hún af blindri tilviljun, af einskærri, margmilljónfaldri „heppni“ náttúrunnar? Eða stafar hún af sköpun?
Virðum fyrir okkur nokkur dæmi um fjölbreytni lífsins hér á jörð áður en við leitum svara við þessum spurningum.
Ótrúleg afrek fuglanna
Til eru ríflega 9000 ólíkar fuglategundir, undraverðar hver á sinn veg. Sumir kólibríar eru ekki stærri en stór býfluga en fljúga af meiri fimi og þokka en háþróaðasta þyrla. Sumir farfuglar flytjast búferlum um þúsundir kílómetra á ári, til dæmis krían sem flýgur allt að 35.000 kílómetra leið fram og til baka. Hún hefur enga tölvu og engin siglingatæki en ratar þó á áfangastað án þess að skeika. Er þessi meðfædda hæfni tilviljun eða ásköpuð?
Hrífandi fjölbreytni jurtanna
Og þá er það hin gríðarlega fjölbreytni og fegurð jurtaríkisins. Tegundirnar eru fleiri en 350.000 og þar af bera um 250.000 tegundir blóm! Stærstu lífverur jarðar — risafururnar í Kaliforníu — tilheyra jurtaríkinu.
Hve margar ólíkar blómategundir vaxa í garðinum hjá þér eða á svæðinu þar sem þú býrð? Við fyllumst undrun yfir formfegurð og angan blómanna — allt frá smæstu eyðimerkurblómum, fagurfíflum eða sóleyjum til orkídeanna í fíngerðri fjölbreytni sinni. Og enn spyrjum við: Varð allt þetta til af tilviljun eða var það skapað?
Höfin iða af lífi
Og hvað um allar lífverur ánna, vatnanna og hafanna? Vísindamenn segja að til séu um 8400 tegundir ferskvatnsfiska og 13.300 tegundir sjávarfiska. Sá smæsti er góbífiskur í Indlandshafi sem er aðeins um sentímetri á lengd. Stærstur er hvalháfurinn sem getur verið allt að 18 metra langur. Og þá eru hvorki meðtaldir hryggleysingjar né ófundnar tegundir!
Hinn ótrúlegi heili
Eitthvert ótrúlegasta fyrirbæri lífheimsins er mannsheilinn. Í honum eru að minnsta kosti tíu milljarðar taugunga sem hver getur haft meira en 1000 tengingar við aðrar taugafrumur. Taugasérfræðingurinn dr. Richard Restak segir: „Heildarfjöldi tenginga í hinu gríðarlega tauganeti heilans er hreinlega stjarnfræðilegur.“ (The Brain) Hann bætir við: „Í heilanum geta verið allt frá tíu til hundrað billjónir taugamóta.“ Síðan spyr hann viðeigandi spurningar: „Hvernig gat líffæri eins og heilinn, sem inniheldur á bilinu tíu til hundrað milljarða frumna, myndast úr einni frumu, egginu?“ Varð heilinn til vegna ópersónulegra duttlunga náttúrunnar eða einhverrar slembilukku? Eða er vitiborinn hönnuður að baki öllu þessu?
Já, hvernig varð lífríkið til í nánast endalausri fjölbreytni sinni? Hefur þér verið kennt að tilviljun ein hafi ráðið ferðinni, einhver happa-glappa aðferð eða handahóf í blindu þróunarlottói? Lestu þá áfram og kynntu þér spurningarnar sem sumir vísindamenn spyrja í fullri hreinskilni um þróunarkenninguna sem hefur verið kölluð undirstaða allrar líffræði.
[Skyringamyns á blaðsíðu 4]
Fyrst einföld ljósmyndavél á sér hönnuð — hvað þá um mannsaugað sem er margfalt flóknara?
Augasteinn
(Stækkaður)
Augnvökvi
Sjáaldur
Glæra
Augasteinn
Lita
Brárvöðvi
Allt augað
Sjóntaug
Glerhlaup
Sjóna
Æða
Hvíta