Hranaleg orð, niðurbrotin sál
„Heimski silakeppur!“a Japönsku konunni eru þessi orð í fersku minni því að þeim var oft hreytt í hana þegar hún var lítil. Og hver gerði það? Skólafélagarnir? Systkinin? Nei, foreldrarnir. „Ég var oft niðurdregin af því að þessi uppnefni særðu mig djúpt,“ segir hún.
Bandarískur maður minnist þess að sem barn var hann alltaf hræddur og kvíðinn þegar pabbi hans kom heim. „Enn þann dag í dag get ég heyrt fyrir mér hljóðið í bílnum í innkeyrslunni,“ segir hann, „og það nístir gegnum merg og bein. Litla systir mín faldi sig. Pabbi var haldinn fullkomnunaráráttu og var sífellt að skamma okkur fyrir að vinna ekki nógu vel öll húsverkin sem við áttum að gera.“
Systir hans bætir við: „Ég minnist þess ekki að foreldrar okkar hafi nokkurn tíma faðmað okkur, kysst eða sagt eitthvað í líkingu við: ‚Ég elska þig‘ eða ‚Ég er stoltur af þér.‘ Og barn, sem heyrir aldrei sagt að það sé elskað, skynjar það svo að það sé hatað — hvern einasta dag ævinnar.“
SUMIR segja kannski að þetta fólk hafi nú ekki þjáðst nein ósköp í æsku. Það er að minnsta kosti ekkert óvenjulegt að börn megi þola hranaleg, óvingjarnleg orð og harðneskjulega meðferð. Það er ekki þess konar efni sem fjallað er um með stóru letri í fyrirsögnum dagblaða eða í æsifréttastíl í sjónvarpi. Skaðinn er ekki sýnilegur. En ef foreldrar misþyrma börnum sínum með þessum hætti dag eftir dag geta áhrifin engu að síður verið hrikaleg — og enst alla ævina.
Árið 1951 var gerð rannsókn á uppeldisaðferðum foreldra fimm ára barna og árið 1990 var henni fylgt eftir með annarri rannsókn. Vísindamönnum tókst að leita uppi mörg þessara barna sem nú voru komin á miðjan aldur. Ætlunin var að fá innsýn í langtímaáhrifin af uppeldi þeirra. Í nýju rannsókninni kom í ljós að börn, sem áttu erfiðast uppdráttar síðar á ævinni, sem leið ekki vel og höfðu átt í erfiðleikum í hjónabandinu, í samskiptum og jafnvel í vinnunni, voru ekki endilega börn fátækra foreldra eða ríkra foreldra eða jafnvel foreldra sem áttu augljóslega bágt. Þetta voru börn fáskiptinna og kuldalegra foreldra sem sýndu litla eða enga ástúð.
Þessi niðurstaða er einungis ófullkomin spegilmynd þess sannleika sem settur var á blað fyrir nærfellt 2000 árum: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21) Munnlegt og tilfinningalegt ofbeldi frá foreldrum er vissulega vonska gagnvart börnunum og getur gert þau döpur og ístöðulaus.
Að sögn bókarinnar Growing Up Sad er ekki langt síðan læknar töldu að þunglyndi væri óþekkt meðal barna. En tíminn og reynslan hafa leitt annað í ljós. Bókarhöfundar segja að þunglyndi barna sé nú viðurkennt og sé alls ekki óalgengt. Orsakirnar eru meðal annars höfnun og ill meðferð af hendi foreldra. Bókarhöfundar segja: „Í sumum tilvikum má barnið þola stöðuga niðurlægingu og aðfinnslur af hendi foreldranna. Í öðrum tilvikum er einfaldlega um að ræða tómarúm í sambandi foreldris og barns: foreldrið tjáir aldrei ást sína á barninu. . . . Þetta hefur sérstaklega átakanlegar afleiðingar fyrir börn slíkra foreldra því að ást er barninu — og fullorðnum ef út í það er farið — eins og sólskin og vökvun er plöntunni.“
Börnin læra mikilvægan sannleika af ást foreldra sinna ef þeir tjá hann skýrt og opinskátt: Þau eru elskuverð, þau eru einhvers virði. Margir misskilja þetta sem nokkurs konar hroka, að elska sjálfan sig meira en aðra. En í þessu samhengi er ekki átt við það. Höfundur nokkur segir í bók sinni um þetta mál: „Álit barnsins á sjálfu sér hefur áhrif á það hvers konar vini það velur sér, hvernig því semur við aðra, hvers konar maka það velur sér og hverju það áorkar í lífinu.“ Biblían staðfestir hve mikilvægt það sé að hafa öfgalaust en jafnframt hrokalaust álit á sjálfum sér þegar hún segir hvert sé annað mesta boðorðið: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Matteus 22:38, 39.
Það er erfitt að ímynda sér að nokkurt eðlilegt foreldri vilji eyðileggja það sem er jafnmikilvægt en brothætt og sjálfsvirðing barns. Af hverju gerist það þá svo oft? Og hvernig er hægt að koma í veg fyrir það?
[Neðanmáls]
a Á japönsku noroma baka!