Fæða handa öllum — aðeins draumsýn?
Eftir fréttaritara Vaknið! á Ítalíu
„ÞAÐ er réttur sérhvers manns, konu og barns að líða ekki hungur eða vannæringu.“ Svo var sagt í yfirlýsingu Alþjóðamatvælaráðstefnunnar sem haldin var árið 1974 á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Síðan var sent út ákall til þjóða heims um að vinna bug á hungri „innan áratugar.“
En þegar fulltrúar 173 þjóða komu saman á fimm daga leiðtogafundi um fæðuöryggi í höfuðstöðvum FAO í Róm síðla árs 1996 áttu þeir að komast að því hvað hafði farið úrskeiðis. Það hafði ekki aðeins mistekist að sjá öllum fyrir fæðu heldur var ástandið mun verra, meira en tveim áratugum síðar.
Fæðuöflun, fólksfjölgun og fátækt eru aðkallandi vandamál. Í plaggi, sem kom út á leiðtogafundinum, var viðurkennt að ef ekki fyndist lausn á þessum vandamálum „gæti það hugsanlega haft alvarleg áhrif á félagslegan stöðugleika margra landa og svæða og jafnvel ógnað heimsfriðnum.“ Einn sérfræðingur var berorðari: „Við munum horfa upp á eyðingu siðmenningar og þjóðmenningar.“
Að sögn framkvæmdastjóra FAO, Jacques Diouf, „hrjáir fæðuskortur meira en 800 milljónir manna nú á tímum; í þeim hópi eru 200 milljónir barna.“ Áætlað er að íbúum heims fjölgi úr 5,8 milljörðum núna í 8,3 milljarða árið 2025, og mesta fjölgunin verði í þróunarlöndum. Diouf segir mæðulega: „Það er ótækt hve gífurlegur fjöldi karla, kvenna og barna er sviptur óafsalanlegum rétti sínum til lífs og reisnar. Óp hinna hungruðu taka undir með hljóðri angist spillts jarðvegar, ofnýttra skóga og þurrausinna fiskimiða.“
Hvaða úrræðum er stungið upp á? Diouf segir lausnina liggja í „hugrökkum aðgerðum,“ að tryggja „fæðuöryggi“ þjóða þar sem ónóg fæða sé fyrir hendi og útvega fagkunnáttu, fjármuni og tækni til að þær geti brauðfætt sig sjálfar.
Hvers vegna er svo erfitt að tryggja „fæðuöryggi“?
Í plöggum, sem leiðtogafundurinn sendi frá sér, kom fram að „fæðuöryggi sé það þegar allir menn hafi öllum stundum líkamlegan og fjárhagslegan aðgang að nægri, hollri og næringarríkri fæðu til að uppfylla þarfir sínar og langanir þannig að þeir geti lifað athafnasömu og heilbrigðu lífi.“
Flóttamannavandamálið í Saír var tilgreint sem dæmi um hvernig hægt er að tefla fæðuöryggi í tvísýnu. Á meðan ein milljón rúandískra flóttamanna svalt heilu hungri höfðu hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna birgðir af matvælum tiltækar til að fæða þá. En flutningur og dreifing þeirra útheimti pólitíska fyrirgreiðslu og kallaði á samvinnu við staðaryfirvöld — eða stríðsherra ef þeir réðu flóttamannabúðunum. Neyðarástandið í Saír sýnir enn og aftur hve erfitt alþjóðasamfélagið á með að brauðfæða hina hungruðu, jafnvel þegar matvæli eru fyrir hendi. Greinarhöfundur nokkur sagði: „Ráðgast þarf við og biðla til fjölda samtaka og einstaklinga áður en nokkuð getur gerst.“
Í skjali frá bandaríska landbúnaðarráðuneytinu er bent á að margt geti grafið hættulega undan fæðuöryggi. Auk náttúruhamfara er minnst á styrjaldir og innanlandserjur, óheppilegar stjórnarstefnur, ófullnægjandi rannsóknir og tækni, umhverfisspillingu, fátækt, fólksfjölgun, misrétti kynja og bágborið heilsufar.
Nokkur árangur hefur þó náðst. Frá áttunda áratugnum hefur meðalorkuframboð matar, sem er vísbending um fæðuneyslu, aukist úr 2140 í 2520 hitaeiningar á mann á dag í þróunarlöndum. En í ljósi þess að jarðarbúum á eftir að fjölga um nokkra milljarða fram til ársins 2030 segir FAO að „aðeins til að viðhalda núverandi fæðuframboði þurfi hraða og varanlega framleiðsluaukningu svo að auka megi matarbirgðir um meira en 75 af hundraði án þess að eyðileggja náttúruauðlindirnar sem við erum öll háð.“ Horfurnar á að sjá sveltandi íbúum fyrir fæðu eru því ekki bjartar.
‚Við þurfum aðgerðir, ekki fleiri leiðtogafundi‘
Mikil gagnrýni beindist að leiðtogafundinum og skuldbindingum hans. Ráðamaður frá Rómönsku Ameríku fordæmdi „hógværð“ þeirrar skuldbindingar að fækka vannærðu fólki aðeins niður í helming þess sem nú er og sagði hana „skammarlega.“ Fimmtán þjóðir greindi á um túlkun tillagna sem leiðtogafundurinn samþykkti. Það eitt að ná að semja látlausa yfirlýsingu og aðgerðaáætlun kostaði „tveggja ára þóf og samningaviðræður,“ að sögn ítalska dagblaðsins La Repubblica. „Hvert orð og hver komma var vegin og metin til að láta ekki hin ýfðu sár . . . fara að blæða á ný.“
Margir, sem lögðu hönd á plóginn við að undirbúa fundarplöggin, voru óhressir með útkomuna. „Við erum afar vantrúaðir á að þeim góðu tillögum, sem komu fram, verði hrundið í framkvæmd,“ sagði einn þeirra. Eitt þrætueplið var hvort skilgreina ætti fæðuaðgengi sem „alþjóðlega viðurkenndan rétt,“ þar eð verja má „rétt“ fyrir dómstólum. Kanadamaður útskýrði: „Ríku þjóðirnar óttuðust að þær yrðu neyddar til að veita þróunaraðstoð. Þess vegna kröfðust þær þess að texti yfirlýsingarinnar yrði útvatnaður.“
Hinar endalausu umræður á leiðtogafundum á vegum Sameinuðu þjóðanna fékk ráðherra eins Evrópuríkis til að segja: „Eftir að hafa samþykkt svo margar ályktanir á Kaíró-ráðstefnunni [um fólksfjölda og þróun haldin 1994] höfum við staðið okkur að því að ræða sömu viðfangsefnin aftur á hverri ráðstefnu síðan.“ Ráðherrann sagði: „Að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlunum, meðbræðrum okkar til góðs, verður að vera á forgangslista hjá okkur, ekki fleiri leiðtogafundir.“
Aðrir bentu líka á að jafnvel það eitt að sækja leiðtogafundinn hafi haft í för með sér stórútgjöld fyrir sumar þjóðir sem hefðu vart efni á því. Eitt smáríki í Afríku sendi 14 fulltrúa, auk tveggja ráðherra, sem allir gistu í Róm í meira en tvær vikur. Ítalska dagblaðið Corriere della Sera greindi frá því að eiginkona forseta eins Afríkuríkis, þar sem meðalárstekjur eru innan við 230.000 krónur á mann, hafði eytt 1,6 milljónum króna í innkaupaferð í nýtískulegasta verslunarhverfi Rómar.
Er ástæða til að ætla að aðgerðaáætlunin, sem samþykkt var á leiðtogafundinum, heppnist? Blaðamaður svarar: „Við getum aðeins vonast til að ríkisstjórnir taki hana alvarlega og geri ráðstafanir til að tillögum hennar verði fylgt eftir. Munu þær gera það? . . . Það sem á undan er gengið gefur litla ástæðu til bjartsýni.“ Sami fréttaskýrandi benti á þá sorglegu staðreynd að þrátt fyrir að þjóðir heims hefðu samþykkt á Rio-ráðstefnunni 1992 að hækka framlög til þróunarhjálpar í 0,7 prósent af vergri þjóðarframleiðslu, hefðu „aðeins fáein lönd . . . náð þessu markmiði sem ekki var skuldbindandi.“
Hver ætlar að brauðfæða hina hungruðu?
Sagan hefur fært mannkyni ríkulega heim sanninn um það að þrátt fyrir alla góða viðleitni eru „örlög mannsins . . . ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Það er því ólíklegt að mönnum takist nokkurn tíma á eigin spýtur að sjá öllum fyrir fæðu. Ágirnd, óstjórn og sjálfselska hafa komið mannkyni út á ystu nöf. Diouf, framkvæmdastjóri FAO, sagði: „Það sem raunverulega þarf til þegar öllu er á botninn hvolft er gerbreyting á hjörtum manna, huga og vilja.“
Aðeins Guðsríki getur komið því til leiðar. Jehóva spáði fyrir mörgum öldum um þjóna sína: „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“ — Jeremía 31:33.
Þegar Jehóva Guð útbjó upprunalegt paradísarheimili mannkyns sá hann manninum fyrir ‚alls konar sáðberandi jurtum á allri jörðinni og alls konar trjám, sem báru ávöxtu með sæði í,‘ til fæðu. (1. Mósebók 1:29) Þessi ráðstöfun tryggði gnóttir næringarríkrar og aðgengilegrar fæðu, allt sem mannkynið þurfti til að fullnægja matarþörf sinni.
Tilgangur Guðs hefur ekki breyst. (Jesaja 55:10, 11) Fyrir alda öðli gaf hann loforð um að hann muni fullnægja sérhverri þörf mannkyns fyrir tilstuðlan ríkis síns í höndum Krists og sjá öllum fyrir fæðu, útrýma fátækt, stjórna náttúruöflunum og binda enda á átök og stríð. (Sálmur 46:9, 10; Jesaja 11:9; samanber Markús 4:37-41; 6:37-44.) Þá mun „jörðin [gefa] ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.“ „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 67:7; 72:16.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 20]
Dorothea Lange, FSA Collection, Library of Congress