Vottar Jehóva í Rússlandi
Sjónarmið Guðfræðings
Leiðtogar Gyðinga í Róm á fyrstu öldinni sögðu um kristna menn: „Það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ Hvað tóku þessir leiðtogar til bragðs? Það má hrósa þeim fyrir að þeir skyldu fara til Páls postula, sem sat þá í stofufangelsi, og segja: „Rétt þykir oss að heyra hjá þér, hvað þér býr í huga.“ (Postulasagan 28:22) Þeir hlustuðu á vel upplýstan kristinn mann frekar en þá sem töluðu gegn kristninni.
Svipað gerði vel metinn rússneskur guðfræðingur, Sergej Ívanenko. Enda þótt hann tryði einhverju af þeim neikvæða orðrómi um votta Jehóva, sem gekk í Rússlandi, ákvað hann að afla sér upplýsinga og hringja í útibú vottanna sem er skammt frá St. Pétursborg. Hann þáði boð þess efnis að fara þangað í heimsókn, spyrja spurninga og kynnast vottunum af eigin raun.
Þegar Ívanenko mætti á staðinn í október 1996 var verið að ljúka við byggingarnar sem hýsa um það bil 200 manna starfslið útibús votta Jehóva í Rússlandi. Næstu þrjá dagana fékk hann tækifæri til að fylgjast með byggingaframkvæmdunum, borða í matsalnum og taka viðtal við hvern sem hann vildi.
Ívanenko skrifaði grein um vottana sem birtist í hinu vinsæla rússneska vikublaði Moskvufréttum 16.-23. febrúar 1997. Greinin bar yfirskriftina: „Ættum við að óttast votta Jehóva?“ og birtist líka í enskri útgáfu Moskvufrétta 20.-26. febrúar. Þar sem margir lesendur Vaknið! hafa mikinn áhuga á starfsemi votta Jehóva í Rússlandi birtum við svo til alla greinina með góðfúslegu leyfi rétthafa. Ívanenko hóf greinina á eftirfarandi reynslufrásögn sem var prentuð með áberandi letri:
„‚Burt með sértrúarflokka úr Rússlandi!‘ stóð á mótmælaspjaldi sem félagar úr flokki Zhírínovskís [Frjálslynda demókrataflokki Rússlands] veifuðu fyrir utan samkomu votta Jehóva. „Hvað er það sem þér fellur ekki við þetta trúfélag?“ spurði ég einn mótmælendanna. Hann rétti mér eintak af dagblaðinu Megapolis-Express með fyrirsögninni ‚Trúarleg sárasótt hefur brotist út á Kamtsjatka.‘ Blaðið sagði að vottar Jehóva væru hórmangarar og til þess að fylla söfnunarbauka trúfélagsins starfræktu þeir vændishúsakeðju sem útbreiddi kynsjúkdóma meðal sjómanna. ‚Ert þú fórnarlamb þeirra líka?‘ spurði ég samúðarfullur, ‚Trúir þú þessu?‘ ‚Það skiptir ekki máli‘ var svarið. ‚Það sem skiptir máli er að þessi bandaríski sértrúarflokkur er að eyðileggja trúarlíf og menningu Rússa og það verðum við að stöðva.‘“
Grein Ívanenkos birtist undir höfundarnafninu: „Eftir Sergej Ívanenko, guðfræðing og heimspekikandídat.“
„Hreinskilni af þessu tagi er vissulega fágæt, enda þótt margir Rússar hugsi vissulega miður fallega til votta Jehóva. Ekki þarf annað en að nefna trúfélagið á nafn til að koma af stað skriðu athugasemda um ömurlegt ofstæki þeirra, bandarískan uppruna, blinda trú almennra safnaðarmanna á leiðtoga trúfélagsins og trúna á að heimsendir blasi við okkur. Vottar Jehóva vekja hjá mörgum óttablandna forvitni.
Hvaða trúarbrögð eru þetta eiginlega og ættum við að óttast þau?
Til þess að komast sjálfur að því heimsótti ég þorpið Solnetsjnoje í Kúrúrtnoje-héraði skammt frá St. Pétursborg þar sem stjórnarmiðstöð rússneskra votta Jehóva er til húsa.
***
[Þarna] voru áður sumarbúðir. Árið 1992 var [upphaflega] byggingin í ömurlegri niðurníðslu og í stað barna dvöldu þar flækingar og fjöldinn allur af rottum. Þetta slæma ástand svæðisins hefur greinilega stuðlað að því að vottar Jehóva fengu þessa sjö hektara lands til afnota um óákveðinn tíma. Þeir gerðu upp gömlu byggingarnar og tóku líka að reisa nýjar, meðal annars fjögurra hæða skrifstofuhúsnæði, [ríkissal] sem tekur 500 manns í sæti og matsal. Vottar Jehóva eru líka að sá grasfræi (sérpöntuðu frá Finnlandi) og gróðursetja ýmiss konar sjaldgæfar trjátegundir. Áætlað er að verkinu ljúki nú í sumar. Aðalverkefni stjórnarmiðstöðvarinnar er að skipuleggja prédikunarstarf votta Jehóva í landinu og afgreiða rit til safnaða þeirra. Það er ekki prentsmiðja í Solnetsjnoje svo að rússnesku ritin eru prentuð í Þýskalandi og síðan send til St. Pétursborgar þaðan sem þeim er dreift til allra landshorna. Um það bil 190 manns vinna í miðstöðinni. Þeir eru í sjálfboðavinnu og fá ekki laun en þeim er séð fyrir öllum nauðsynjum, svo sem húsnæði, fæði og klæði.
Nefnd 18 öldunga leiðir starfsemina í miðstöðinni. Vasíly Kalín hefur verið samhæfari miðstöðvarinnar frá 1992. Hann er fæddur í Ívano-Frankovsk. Árið 1951, þá fjögurra ára gamall, var hann sendur í útlegð til Síberíu ásamt foreldrum sínum (á árunum 1949 og 1951 ofsóttu yfirvöld um það bil 5000 fjölskyldur fyrir að vera vottar Jehóva). Hann lét skírast árið 1965 og bjó í Írkútsk-héraði. Hann var verkstjóri í timburverksmiðju.
Auk sjálfboðaliðanna í stjórnarmiðstöðinni búa í Solnetsjnoje um 200 byggingarverkamenn sem eru sjálfboðaliðar frá Rússlandi, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Flestir hafa tekið sér leyfi frá atvinnu sinni. Einnig eru þar fjölmargir vottar Jehóva frá Úkraínu, Moldavíu, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Póllandi og öðrum löndum. (Það eru engir kynþáttafordómar meðal votta Jehóva. Þrátt fyrir þá staðreynd að Georgíumenn, Abkhasíumenn, Aserar og Armenar búi hlið við hlið í miðstöðinni hefur ekki komið upp eitt einasta vandamál þessi fjögur ár.)
Mest allt byggingarefni og tækjabúnaður kom frá Norðurlöndunum og mikið af því fékkst líka endurgjaldslaust frá trúbræðrum. Mér var sýnd jarðýta sem sænskur vottur Jehóva hafði komið með til Solnetsjnoje árið 1993. Allan þann tíma sem hann dvaldi þarna vann hann á jarðýtunni en áður en hann sneri heim aftur gaf hann trúbræðrum sínum hana. Verkamennirnir eru hýstir í þægilegum skálum og smáhýsum. Vinnudagur þeirra er eitthvað á þessa leið: kl. 7:00 — morgunmatur og bæn; þeir vinna frá 8:00 til 17:00 og hafa klukkutíma í mat. Á laugardögum vinna þeir til hádegis og sunnudagurinn er frídagur.
Þeir fá góðan mat og það eru alltaf ávextir á borðum. Trúfélagið heldur engar föstur og fylgir ekki neinum ströngum reglum varðandi mataræði. Að loknum vinnudegi fara margir í sánabað, fá sér síðan bjórkollu og slappa af og hlusta á tónlist. Það eru engir ofdrykkjumenn meðal votta Jehóva en áfengi er þó ekki bannað. Safnaðarmenn mega drekka vín, koníak, vodka og þess háttar í hófi. En vottar Jehóva reykja ekki.
***
Þrisvar í viku eru biblíukennslustundir sem ungt fólk sækir mest. Þó er ekki óalgengt að rekast á fólk sem hefur verið vottar Jehóva í 30 til 40 ár. Svo til allt eldra fólkið hefur verið í fangelsum, þrælkunarbúðum eða í útlegð. Eftir lok kúgunartímabilsins slóust margir læknar, lögfræðingar, verkfræðingar, kennarar, kaupsýslumenn og námsmenn í hóp votta Jehóva.
Söfnuðurinn reynir að viðhalda jafnrétti meðal safnaðarmanna. Jafnvel samhæfari miðstöðvarinnar þvær upp á kvöldin þegar röðin kemur að honum. Vottar Jehóva ávarpa hver annan óformlega en þegar þeir ávarpa einhvern með nafni bæta þeir við ‚bróðir‘ eða ‚systir.‘
Þegar vottur Jehóva brýtur gegn kenningum Biblíunnar og neitar að iðrast kallar hann yfir sig mjög alvarlega refsingu — hann er rekinn. Hann getur samt sem áður sótt samkomur en trúbræður hans heilsa honum ekki lengur. Áminning er vægari refsing.
***
Ég fylgdist með vottum Jehóva tímunum saman til að reyna að átta mig á hvað það er sem dregur svona margt ólíkt fólk að þessu trúfélagi. Enda þótt mikill munur sé á persónuleikum þeirra, menntun og smekk [taka vottar Jehóva ekki þátt í tilbeiðslu annarra] trúarbragða sem slaka til við þennan synduga heim. Þeir kunna ekki við sig þar sem [fólk] verður að trúa blint á yfirvald, eða þar sem dulspeki á heima eða þar sem fólki er skipt í klerkaveldi og auðsveipan almúga.
Sú bjargfasta skoðun einkennir votta Jehóva að lifa beri lífinu í samræmi við Biblíuna. Þeir reyna að haga hverju skrefi samkvæmt þessari eða hinni frumreglu Biblíunnar eða með tilvitnun í Gamla eða Nýja testamentið. Vottar Jehóva trúa því að Biblían og einungis Biblían innihaldi svörin við öllum spurningum. Í augum votta Jehóva er Biblían stjórnarskrá, lögbók og æðsta heimild sannleikans.
Af þessari ástæðu eru vottar Jehóva þekktir um allan heim fyrir óaðfinnanlega löghlýðni og einkum og sér í lagi fyrir að vera samviskusamir skattgreiðendur. Skattrannsóknarstofan gerir reglubundið könnun hjá þeim og er alltaf jafnundrandi að finna ekki eitt einasta brot. Að sjálfsögðu gætu vottar Jehóva reynt eins og aðrir að finna ástæðu til að greiða ekki skatta, en Biblían segir að maður eigi að vera heiðarlegur og borga skatta og hún á síðasta orðið hjá vottum Jehóva.
Það er einmitt þetta ósveigjanlega viðhorf votta Jehóva til Biblíunnar sem veldur oft alvarlegum árekstrum milli þeirra og yfirvalda. Óhagganleg hlutleysisafstaða þeirra til stjórnmála er aðalbitbeinið og birtist í því að þeir neita að gegna herþjónustu.
Vottar Jehóva túlka bókstaflega orð Jesú að lærisveinar hans og ríki hans sé ekki af þessum heimi. Þess vegna neita þeir að taka þátt í stjórnmálum og styrjöldum, alveg óháð því hvar eða á hvaða forsendum þær eru háðar. Vottar Jehóva neituðu að hrópa „heil Hitler!“ og ganga í her Hitlers; þess vegna voru mörg þúsund safnaðarmeðlimir sendir í fangabúðir og þúsundir létu lífið. Rússar hafa hvern þann þýskan vott Jehóva í hávegum fyrir siðferðilega hetjudáð sem greiddi með lífi sínu fyrir að neita að taka þátt í árás á Sovétríkin. En um leið eru samt margir Rússar ekki tilbúnir til að sýna [rússneskum] vottum Jehóva samúð, þótt þeir hafi verið líflátnir fyrir að neita að bera vopn og að taka þátt í síðari heimsstyrjöldinni eða verið fordæmdir fyrir að neita að gegna herþjónustu á friðartímum. Í báðum tilfellum breyttu vottar Jehóva þó samkvæmt trú sinni en ekki pólitískri sannfæringu.
Ekki alls fyrir löngu kom upp áþekkt vandamál í Japan þegar nokkrir námsmenn, sem eru vottar Jehóva, neituðu að læra sjálfsvarnarlist og tóku fyrir bragðið þá áhættu að vera vikið úr háskóla. Árið 1996 dæmdi hæstiréttur Japans þessum stúdentum í vil og leyfði þeim að velja sér aðrar námsgreinar í staðinn.
***
Hvað er það í fari votta Jehóva sem vekur furðu nútímahugsuða? Fyrst og fremst er það látlaus prédikun þeirra að heimsendir sé í nánd (þeir stunda trúboðsstarf á götum úti og frá húsi til húss). Undanfarið hafa öldungar ráðlagt prédikurunum að leggja ekki of mikla áherslu á ‚endi veraldar‘ og þau hörmulegu örlög sem verða hlutskipti syndara, heldur að útskýra fyrir áheyrendum að Jehóva sé að bjóða þeim ‚eilíft líf í paradís á jörð.‘
Annað viðkvæmt mál er neikvæð afstaða votta Jehóva til samstarfs við önnur trúarbrögð og að þeir hafna samkirkjulegum hreyfingum. Þeir líta svo á að kristni heimurinn hafi svikið Guð og Biblíuna og að öll önnur trúarbrögð séu á kolrangri braut. Vottar Jehóva líkja þessum trúarbrögðum við ‚skækjuna Babýlon‘ og halda því fram að örlög þeirra verði þau sömu og hennar. Nýlegt tölublað Vaknið! segir að endir þessara trúarbragða sé í nánd og að einu trúarbrögðin, sem fái staðist, séu þau sem vottar Jehóva prédika.
Vel á minnst, vottar Jehóva viðurkenna samviskufrelsi hvers og eins.
***
Þó nokkur lönd hafa nú þegar velt fyrir sér hvort þjóðfélaginu stafi hætta af kenningum votta Jehóva. Hæstiréttur Connecticut-ríkis í Bandaríkjunum (1979) og Nýja Suður-Wales í Ástralíu (1972), Héraðsdómurinn í Bresku Kólumbíu í Kanada (1986) auk annarra dómstóla hafa lýst því yfir að ekkert bendi til þess að vottar Jehóva ógni þjóðfélaginu né heilsu og tilfinningalífi manna. Mannréttindadómstóll Evrópu (1993) varði trúfrelsi votta Jehóva sem hafði verið takmarkað í Grikklandi og Austurríki. Vottar Jehóva eru nú ofsóttir í 25 löndum . . .
Vottar Jehóva eru samborgurum sínum til fyrirmyndar vegna hollustu við sannleika Biblíunnar og fyrir að verja trú sína á óeigingjarnan hátt. En sú spurning vaknar hvort þjóðfélagið sé í stakk búið til að tryggja trúfélögum, sem halda sér fast við aðferðir Biblíunnar á öllum sviðum mannlífsins á jafnróttækan og ófrávíkjanlegan hátt, stjórnarskrárbundið samviskufrelsi.“
Í síðustu málsgreininni velti Ívanenko upp mikilvægri spurningu. Á fyrstu öldinni þurfti Páll postuli, sem Kristur útvaldi beint, að þola óréttláta ‚fjötra‘. Þess vegna skrifaði Páll trúbræðrum sínum um viðleitni sína til að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það.“ — Filippíbréfið 1:7; Postulasagan 9:3-16.
Vottar Jehóva bjóða öllum að skoða starfsemi sína ítarlega eins og Ívanenko gerði. Við erum þess fullviss að þeir sem gera það komist að raun um að neikvæðar sögusagnir um vottana séu ekki sannar, alveg eins og slíkar frásagnir af hinum frumkristnu voru ósannar. Vottarnir hlýða á eftirtektarverðan hátt ‚nýja boðorðinu‘ sem Jesús gaf lærisveinum sínum: „Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ — Jóhannes 13:34, 35.
[Rammi á blaðsíðu 15]
Úr skjalasafni Moskvufrétta
(Eftirfarandi upplýsingar úr skjalasafni Moskvufrétta voru prentaðar samhliða greininni eftir Sergej Ívanenko.)
„Rússneskir vottar Jehóva tilheyra kristilegum heimssamtökum sem starfa í 233 löndum og eru með 5,4 milljónir meðlima. Vottar Jehóva fylgja andlegri leiðsögn hins stjórnandi ráðs sem hefur aðsetur í Brooklyn í New York. Nútímavottar Jehóva uxu upp úr biblíunámshóp sem Charles Taze Russell stofnaði árið 1870 í Pittsburgh í Pennsylvaníu. Trúfélagið hóf starfsemi í Rússlandi árið 1887. Semjon Kozlitskí var einn af fyrstu vottum Jehóva í Rússlandi en hann var sendur í útlegð frá Moskvu til Síberíu árið 1891. Þrátt fyrir ofsóknir starfaði trúfélagið áfram og árið 1956 voru 17.000 vottar Jehóva í Sovétríkjunum. Það var ekki fyrr en í mars árið 1991 að vottar Jehóva í Rússlandi fengu löglega viðurkenningu eftir að ‚trúfrelsislögin‘ gengu í gildi. Nú eru starfandi yfir 500 hópar með yfir 70.000 meðlimi í Rússlandi. Trúfélagið dreifir blaðinu ‚Varðturninum‘ (á 125 tungumálum, upplag 20 milljónir) og ‚Vaknið!‘ (á 81 tungumáli, upplag 18 milljónir).“
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hluti af útibúi votta Jehóva í Rússlandi.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Ríkissalurinn þar sem starfslið útibúsins í Rússlandi kemur saman til biblíunáms.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Vottafjölskyldur nema saman og skemmta sér saman.
[Myndir á blaðsíðu 18]
Vottarnir koma biblíuþekkingu á framfæri við aðra.