Drepsóttir á tuttugustu öld
SVARTIDAUÐI 14. aldar var ekki undanfari heimsendis eins og margir spáðu. En hvað um okkar tíma? Eru farsóttir og sjúkdómar okkar daga vísbending um að við lifum þá tíma sem Biblían kallar ‚síðustu daga‘? — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
‚Auðvitað ekki,‘ hugsarðu kannski. Framfarir í vísindum og læknisfræði hafa aukið skilning okkar á sjúkdómum og gert okkur færari en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns að berjast gegn þeim. Læknavísindin hafa þróað fjölbreytt sýklalyf og bóluefni sem eru öflug vopn í baráttunni gegn sjúkdómum og örverunum sem valda þeim. Bætt umönnun á sjúkrahúsum, svo og hreinna drykkjarvatn, aukið hreinlæti og bætt meðferð matvæla, hefur einnig reynst notadrjúgt í baráttunni gegn smitsjúkdómum.
Fyrir fáeinum áratugum töldu margir að stríðið gegn smitsjúkdómum væri nánast unnið. Bólusótt hafði verið útrýmt og stefnt var að útrýmingu annarra sjúkdóma. Til voru öflug lyf gegn ótal sjúkdómum. Sérfræðingar í heilbrigðismálum voru bjartsýnir á framtíðina. Smitsjúkdómum yrði útrýmt og sigurvinningarnir tækju við hver af öðrum. Læknavísindin myndu vinna stríðið.
En þau unnu ekki stríðið. Smitsjúkdómar lögðu að velli rösklega 50 milljónir manna árið 1996 og eru enn algengasta dánarorsökin í heiminum. Bjartsýni gærdagsins er á undanhaldi og menn hafa vaxandi áhyggjur af framtíðinni. Í skýrslunni The World Health Report 1996, sem gefin er út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, segir í viðvörunartón: „Stór hluti þess árangurs, sem náðst hefur á síðustu áratugum í átt til bættrar heilsu, er nú í tvísýnu. Við stöndum á þröskuldi heimskreppu af völdum smitsjúkdóma. Ekkert land er óhult.“
Gamlir sjúkdómar færast í aukana
Ein ástæðan fyrir áhyggjum manna er sú að vel þekktir sjúkdómar, sem menn héldu sig búna að sigrast á, eru aftur í vexti í hættulegri mynd en áður og það er erfiðara að lækna þá. Berklar eru dæmi um slíkan sjúkdóm en fyrir skemmstu var talið að menn væru nánast búnir að ná fullum tökum á honum í iðnríkjum heims. Berklar eru hins vegar ekki horfnir. Þeir verða meira en þrem milljónum manna að bana ár hvert. Ef ekki tekst að ná tökum á sjúkdómnum er talið að um 90 milljónir manna fái berkla á áratugnum sem er að líða. Lyfþolnir berklar eru að breiðast út víða um lönd.
Mýrakalda eða malaría er annað dæmi um sjúkdóm sem er að færast í aukana á nýjan leik. Fyrir fjörutíu árum vonuðust læknar til að geta upprætt malaríu innan skamms. Núna drepur sjúkdómurinn um tvær milljónir manna ár hvert. Malaría er landlæg í rösklega 90 löndum og ógnar 40 af hundraði jarðarbúa. Moskítóflugur, sem bera malaríusníkilinn, eru orðnar ónæmar fyrir skordýraeitri og sníkillinn er orðinn svo þolinn gegn lyfjum að læknar óttast að sum afbrigði malaríu verði ólæknandi innan tíðar.
Fátækt og sjúkdómar
Aðrir sjúkdómar drepa vægðarlaust þótt til séu áhrifarík vopn í baráttunni gegn þeim. Tökum mænuhimnubólgu sem dæmi. Það eru til bóluefni gegn sjúkdómnum og lyf sem lækna hann. Faraldur geisaði suður af Sahara í Afríku snemma árs 1996. Trúlega fréttirðu lítið af honum en hann lagði meira en 15.000 manns að velli — aðallega fátækt fólk, aðallega börn.
Sýkingar í neðri hluta öndunarvegar, þar á meðal lungnabólga, kosta fjórar milljónir manna lífið á ári, einkum börn. Ein milljón barna deyr af völdum mislinga árlega og 355.000 af völdum kíghósta. Hægt væri að bjarga lífi flestra með ódýrum bóluefnum.
Um átta þúsund börn deyja daglega vegna vessaþurrðar af völdum niðurgangs. Hægt væri að fyrirbyggja næstum öll þessi dauðsföll með auknu hreinlæti eða hreinu drykkjarvatni, eða með því að gefa sérstaka saltlausn.
Flest þessara dauðsfalla eiga sér stað í þróunarlöndunum þar sem fátækt er mikil. Um 800 milljónir manna — allstór hluti jarðarbúa — hafa ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. Í skýrslunni The World Health Report 1995 segir: „Algengasta banameinið og algengasta orsök bágrar heilsu og þjáninga um heim allan er að finna næstum aftast í Alþjóðlegu sjúkdóma- og dánarmeinaskránni. Því er gefið táknið Z59.5 — örbirgð.“
Nýgreindir sjúkdómar
Þá er að nefna nýtilkomna sjúkdóma sem voru ekki þekktir til skamms tíma. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagði fyrir skömmu: „Síðastliðin 20 ár hafa komið fram að minnsta kosti 30 nýir sjúkdómar sem ógna heilsu hundruða milljóna manna. Við mörgum þessara sjúkdóma er engin kunn meðferð, lækning eða bóluefni, og takmarkaðir möguleikar eru á að hefta útbreiðslu þeirra eða hafa stjórn á þeim.“
Tökum HIV-veiruna og alnæmi sem dæmi. Sjúkdómurinn var óþekktur fyrir aðeins 15 árum en leggst nú á fólk á öllum meginlöndum. Nú eru um 20 milljónir manna smitaðar af HIV-veirunni og rösklega 4,5 milljónir eru komnar með alnæmi. Samkvæmt skýrslunni Human Development Report 1996 er alnæmi orðin algengasta dánarorsök fullorðinna yngri en 45 ára í Evrópu og Norður-Ameríku. Um 6000 manns smitast daglega í heiminum — einn á 15 sekúndna fresti. Spár gera ráð fyrir að alnæmistilfellum haldi áfram að fjölga hratt. Að áliti bandarískrar ríkisstofnunar er talið að árið 2010 verði lífslíkur fólks í þeim Afríku- og Asíuríkjum, sem hafa orðið harðast úti, komnar niður í 25 ár.
Er alnæmi einstæður sjúkdómur, einn sinnar tegundar, eða er hugsanlegt að aðrir sjúkdómar verði að faraldri og valdi sams konar eyðileggingu eða verri? Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin svarar: „Enginn vafi leikur á að í skugganum leynast sjúkdómar sem enn eru óþekktir en geta orðið alnæmi morgundagsins.“
Kjörlendi örverunnar
Af hverju hafa sérfræðingar í heilbrigðismálum áhyggjur af farsóttum framtíðarinnar? Vöxtur borga er ein ástæðan. Fyrir einni öld bjuggu aðeins 15 prósent jarðarbúa í borgum. Spár gera hins vegar ráð fyrir að árið 2010 búi rösklega helmingur jarðarbúa í þéttbýli, sérstaklega í risastórborgum vanþróaðra ríkja.
Örverur dafna í þéttbýli. Ef húsakostur er góður og vel séð fyrir skólplögnum, drykkjarvatni og heilsugæslu dregur stórlega úr farsóttahættu. En það eru borgir fátæku ríkjanna sem vaxa hraðast. Í sumum borgum er aðeins til eitt salerni fyrir hverja 750 íbúa eða fleiri. Á mörgum þéttbýlissvæðum er húsakostur auk þess lélegur, drykkjarvatn varhugavert og heilbrigðisþjónusta bágborin. Þar sem hundruð þúsunda manna hrúgast saman við sóðalegar aðstæður aukast líkurnar á smitsjúkdómum verulega.
Má þá ætla að farsóttir framtíðarinnar muni takmarkast við yfirfullar og fátækar risastórborgir? Tímaritið Archives of Internal Medicine svarar: „Við verðum að skilja að afmörkuð svæði, þar sem ríkir gríðarleg fátækt og efnahagslegt vonleysi og allt sem af því leiðir, eru frjósamasti jarðvegur fyrir smitsjúkdóma og eru ofviða þeirri tækni sem mannkynið ræður yfir.“
Það er ekki auðvelt að halda sjúkdómi innan afmarkaðs svæðis. Gríðarlegur fjöldi fólks er á faraldsfæti. Ein milljón manna fer daglega yfir alþjóðleg landamæri. Vikulega ferðast ein milljón manna milli ríkra landa og fátækra. Banvænar örverur taka sér far með þeim. Læknatímaritið The Journal of the American Medical Association segir: „Við verðum að gera okkur grein fyrir að faraldur, sem brýst út einhvers staðar, ógnar flestum ríkjum heims, einkanlega þeim sem eru miðstöðvar ferðalaga milli landa.“
Þrátt fyrir framfarir læknavísindanna á 20. öldinni halda drepsóttir áfram að taka sinn toll í mynd mannslífa, og margir óttast að við höfum enn ekki kynnst því versta. En hvað segir Biblían um framtíðina?
[Innskot á blaðsíðu 4]
Smitsjúkdómar lögðu að velli rösklega 50 milljónir manna árið 1996 og er enn algengasta dánarorsök í heiminum.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Þol gegn sýklalyfjum
Margir smitsjúkdómar eru orðnir þolnir gegn sýklalyfjum og því erfitt að lækna þá. Bakteríur verða lyfþolnar á eftirfarandi hátt: Þegar baktería smitar mann fjölgar hún sér jafnt og þétt og afkvæmin fá erfðaefni hennar. Þegar ný baktería verður til aukast möguleikar á stökkbreytingu — lítils háttar afritunargalla sem hefur í för með sér að nýja bakterían fær nýtt einkenni. Líkurnar á að bakterían stökkbreytist þannig að hún sé ónæm fyrir sýklalyfi eru ákaflega litlar. En bakteríur geta stundum af sér þrjár kynslóðir á einni klukkustund og fjölga sér í milljarðatali. Þess vegna gerist hið ólíklega — endrum og eins verður til baktería sem erfitt er að drepa með sýklalyfi.
Þegar sýktur maður tekur inn sýklalyf drepast bakteríurnar sem ekki hafa þol gegn lyfinu og líðan mannsins skánar sennilega. En þolnu bakteríurnar lifa. Nú þurfa þær ekki lengur að berjast við aðrar örverur um næringarefni og búsvæði. Þær geta fjölgað sér hindrunarlaust. Þar eð ein baktería getur getið af sér rösklega 16 milljónir baktería á einum degi veikist maðurinn von bráðar aftur. En nú er hann sýktur af bakteríuafbrigði sem er ónæmt fyrir lyfinu sem átti að drepa það. Þessi baktería getur líka sýkt aðra og síðar getur hún stökkbreyst aftur og myndað þol gegn öðrum sýklalyfjum.
Í ritstjórnargrein tímaritsins Archives of Internal Medicine segir: „Ört vaxandi ónæmi baktería, veira, sveppa og sníkla gegn núverandi læknisráðum vekur þá spurningu hvenær maðurinn tapar stríðinu við örveruheiminn, ekki hvort hann geri það.“ — Leturbreyting okkar.
[Tafla á blaðsíðu 7]
Nokkrir nýir smitsjúkdómar frá 1976
Hvar fyrstu
Ár Heiti sjúkdóms tilfella varð vart
greindur eða voru greind
1976 Hermannaveiki Bandaríkjunum
1976 Launsporasýki Bandaríkjunum
1976 Ebólaveiki Saír
1977 Kóresk blæðingasótt Kóreu
1980 Lifrarbólga D (delta) Ítalíu
1980 T-eitilfrumuveirusótt 1 Japan
1981 Alnæmi Bandaríkjunum
1982 E. coli O157:H7 Bandaríkjunum
1986 Kúariða* Bretlandi
1988 Þarmabólgusalmónella PT4 Bretlandi
1989 Lifrarbólga C Bandaríkjunum
1991 Venesúelsk blæðingasótt Venesúela
1992 Kólera O139 Indlandi
1994 Brasilísk blæðingasótt Brasilíu
1994 Manna- og hestamislingar Ástralíu
*Einungis í dýrum.
[Rétthafi]
Heimild: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
[Rammi á blaðsíðu 8]
Gamlir sjúkdómar stinga sér niður á ný
Berklar: Búist er við að rösklega 30 milljónir manna deyi af völdum berkla á þessum áratug. Sökum ófullnægjandi sjúkdómsmeðferðar í fortíðinni stafar ógn af lyfþolnum berklum alls staðar í heiminum. Sum afbrigði eru orðin þolin gegn lyfjum sem áður drápu berklabakteríuna örugglega.
Malaría: Allt að 500 milljónir manna ganga með sjúkdóminn og 2 milljónir deyja af völdum hans ár hvert. Skortur á lyfjum eða röng notkun þeirra hefur staðið í vegi fyrir því að honum sé haldið í skefjum. Malaríusníkillinn hefur þar af leiðandi myndað þol gegn lyfjum sem dugðu gegn honum áður. Þol moskítóflugna gegn skordýraeitri gerir illt verra.
Kólera: Kólera leggur að velli 120.000 manns á ári, aðallega í Afríku þar sem faraldrar eru orðnir útbreiddari og tíðari en áður. Kóleru hafði ekki orðið vart í Suður-Ameríku í áratugi uns faraldur braust út í Perú árið 1991. Sjúkdómurinn hefur síðan breiðst út um álfuna.
Beinbrunasótt: Þessi veirusjúkdómur berst með biti moskítóflugna og leggst á 20 milljónir manna árlega að því er talið er. Árið 1995 braust út versti beinbrunafaraldur í 15 ár í Rómönsku Ameríku og eyjum Karíbahafs og náði til að minnsta kosti 14 landa þar. Beinbrunafaraldrar verða æ algengari sökum stækkandi borga, útbreiðslu moskítóflugna sem bera með sér veiruna og sökum stórfelldra búferlaflutninga fólks með sjúkdóminn.
Barnaveiki: Vegna víðtækra bólusetninga, sem hófust fyrir 50 árum, varð þessi sjúkdómur afar sjaldgæfur í iðnríkjum heims. Frá 1990 hafa barnaveikifaraldrar hins vegar geisað í 15 löndum í Austur-Evrópu og fyrrverandi Sovétríkjunum. Allt að fjórðungur þeirra sem fékk sjúkdóminn dó. Á fyrri helmingi ársins 1995 voru skráð um 25.000 tilfelli.
Svartidauði: Árið 1995 fékk Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin upplýsingar um að minnsta kosti 1400 svartadauðatilfelli. Í Bandaríkjunum og víðar hefur sjúkdómurinn borist til svæða sem höfðu verið laus við hann um áratuga skeið.
[Rétthafi]
Heimild: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
[Mynd á blaðsíðu 5]
Þrátt fyrir framfarir í heilsugæslu hefur læknavísindunum ekki tekist að stöðva útbreiðslu smitsjúkdóma.
[Rétthafi]
Ljósmynd: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin/J. Abcede
[Mynd á blaðsíðu 7]
Sjúkdómar breiðast auðveldlega út þegar fólk hrúgast saman við sóðalegar aðstæður.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Um 800 milljónir manna í þróunarlöndunum hafa ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu.