Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.10. bls. 21-23
  • Undraveröld smábókanna

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Undraveröld smábókanna
  • Vaknið! – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ýmsar hliðar listarinnar
  • Þumalbiblíur
  • Óvenjulegar ritningabækur
  • Sú smæsta?
  • Höndin — lagleg og lipur
    Vaknið! – 1989
  • Er hægt að vita hverjir skrifuðu Biblíuna?
    Biblíuspurningar og svör
  • Það sem bókin hefur að geyma
    Bók fyrir alla menn
  • Tíu milljónir bóka í glerhúsi
    Vaknið! – 2002
Sjá meira
Vaknið! – 1998
g98 8.10. bls. 21-23

Undraveröld smábókanna

Eftir fréttaritara Vaknið! á Bretlandi

ÖFGAR vekja áhuga — hæsta fjallið, dýpsta hafið, stærsta byggingin, lengstu göngin — en hvað um smæstu bókina? Smábækur eru hrífandi! Milljónir þeirra hafa verið prentaðar um öll hugsanleg viðfangsefni og á að minnsta kosti 20 tungumálum. Hví ekki að taka þér stuttan tíma til að kynna þér heim smábókanna, ef þú hefur ekki þegar gert það?

Hvernig er smábók skilgreind? Hinn viðurkenndi staðall miðast við að bókin sé ekki meira en 76 millimetrar á hæð eða breidd. Bókbandið er innifalið í þessum málum, en sumir nákvæmir safnarar kjósa heldur að miða við síðustærð bókar. Hvers vegna voru þessar smábækur prentaðar?

Ýmsar hliðar listarinnar

Andstætt því sem ætla mætti eru flestar smábækur vel læsilegar. Agnarsmá almanök, klassísk rit, skáldsögur, leikrit, orðabækur og helgirit má því bera á sér og nota án mikillar fyrirhafnar. Enda þótt þetta hafi fyrr á árum verið aðalástæða þess að eiga svona smágerð rit, hafa safnarar nú á tímum meiri áhuga á annarri hlið smábóka: færni þeirra sem prentuðu þær og bundu þær inn.

Prentarar urðu að yfirstíga fjölmörg tæknileg vandamál við að hanna og búa til letur sem væri læsilegt, ýmist með eða án stækkunarglers. Afraksturinn hefur oft verið undurfagrar bækur. Pappírs- og blekframleiðendur lögðu líka sitt af mörkum til að tryggja skýrleika prentmálsins.

Að lokinni prentun er bókin bundin inn. Bókband smábóka er oft á tíðum snilldarverk. Snilli handverksmanna er greinileg þegar búnar eru til örlitlar kápur úr þrykktu leðri, gull- eða silfurvíravirki, skjaldbökuskel eða skreyttum glerungi. Aðrar kápur eru úr silki eða flaueli, útsaumaðar eða jafnvel skreyttar perlum og pallíettum, og sumum bókum fylgir hulstur til varðveislu.

Myndristumenn, sem skreyttu textana, bjuggu til ótrúlega fíngerðar myndir, oft á pappír sem var innan við sjö fersentimetrar að flatarmáli! Dæmi um þetta er andlitsmynd af enska orðabókarhöfundinum dr. Samuel Johnson í Bryce’s Thumb English Dictionary, sem er 368 blaðsíður og kom út á síðasta áratug 19. aldar, og annað dæmi er myndskreytingin gegnt titilsíðu bókar með leikritinu Ríkharður þriðji eftir Shakespeare sem tileinkuð var ensku leikkonunni Ellen Terry árið 1909.

Bibliothèque Portative du Voyageur, gefið út í París, er agnarsmátt bókasafn sem talið er að Napóleon Bonaparte hafi haft meðferðis í hernaðarleiðöngrum sínum. Það hefur að geyma 49 bindi með sígildum frönskum verkum í leðurklæddu boxi sem lítur út eins og stór bók þegar það er læst.

Þumalbiblíur

Þumalbiblíur eru ekki endilega heilar biblíur. Sumar eru bara „Nýja testamentið.“ Aðrar eru ágrip af biblíusögum eða samþjöppuð endursögn Biblíunnar í rúmlega 7000 orðum og voru sérstaklega ætlaðar börnum til lestrar. Þær bera titla á borð við The Bible in Miniature, The History of the Holy Bible og The Child’s Bible.

Hvaðan fékk þumalbiblían nafnið? Augljósasta skýringin er sú að slíkar biblíur eru varla stærri en framhluti þumalfingurs. En bókin Three Centuries of Thumb Bibles bendir á að heitið kunni að hafa orðið til eftir að bandaríski dvergurinn frægi, Charles Stratton, betur þekktur undir nafninu Tumi þumall hershöfðingi, heimsótti England. Það rennir stoðum undir þetta að Tumi þumall kom til Englands árið 1844 en orðið „þumalbiblía“ virðist fyrst hafa verið notað í Lundúnum árið 1849.

Óvenjulegar ritningabækur

Forvitnileg viðbót við heim dvergbiblíanna er The Finger New Testament sem prentuð var um síðustu aldamót. Hún er rösklega þrír sentimetrar á breidd og níu á lengd — fingurlöng — og þannig er nafnið tilkomið. En þar sem hún er meira en 76 millimetrar á lengd er hún ekki strangt tiltekið smábók, þótt hún sé almennt flokkuð með dvergbiblíum. Fjögurra punkta letrið í þessu smágerða riti er skýrt og greinilegt og flestir eiga auðvelt með að lesa það án stækkunarglers.

Smábiblían The Illustrated Bible er einnig sérstök en hún hefur að geyma ljóðið Himnajárnbrautin. Hún var fáanleg á prenti í meira en 50 ár á upphafsárum bresku járnbrautanna. Höfundurinn brá á orðaleik með járnbrautir í tveggja síðna ljóði er hét „Að koma þér á annað spor.“ Það spor er „Jesús Kristur, sonur Jehóva.“ Ljóðinu lýkur með orðunum: „Son minn, segir Guð, hleyp mér hjartanu að. Flýt þér vinur sæll, áð’r en lestin fer af stað.“

Önnur óvenjuleg smábók heitir My Morning Counsellor og er frá árinu 1900. Í henni er daglegur biblíutexti og hver mánuður hefst á einhverri mynd nafns Guðs. Fyrir febrúar er notuð nafnmyndin „Jehóva-shalom.“ Bæði þessi bók og The Illustrated Bible, sem minnst var á hér á undan, sýna að Jehóva, nafn Guðs, var almennt notað á Bretlandi fyrir hundrað árum.

Sú smæsta?

Í aldanna rás hafa margir sagst hafa prentað smæstu bókina. Fyrsta lögmæta tilkallið til þessa titils kom árið 1674 þegar bókin Bloem-Hofje eftir C. van Lange var prentuð með agnarsmáu letri. Ritið Miniature Books segir að hún hafi verið „á stærð við fingurnögl“ og sett met sem stóð í meira en 200 ár.

Fræg útgáfa af Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante var prentuð með tveggja punkta letri, en það er talið vera smæsta letur sem notað hefur verið og mannsaugað getur varla lesið. Bókin var gerð í Padúa á Ítalíu árið 1878. Það tók mánuð að prenta 30 blaðsíður og nýtt letur þurfti fyrir hvert nýtt prentmót. Þrátt fyrir þetta voru gerð 1000 eintök.

Áfram var smækkað. Árið 1978 varð barnagælan Three Blind Mice „smæsta bók í heimi“ en hún var prentuð í Gleniffer-prentsmiðjunni í Paisley í Skotlandi. Bókin kom út í takmörkuðu upplagi en sömu prentarar slógu eigið met árið 1985 með útgáfu enn smærri bókar með annarri barnagælu, Old King Cole! Hún kom út í 85 eintökum og var aðeins millimetri á kant. Það er hægt að fletta henni — með saumnál!

Slíkar örsmáar bækur, sem Louis Bondy segir að séu „varla annað en rykkorn,“ bera vitni um ómælda þolinmæði og verkkunnáttu. En þessar örsmáu bækur ganga lengra en upphaflega hugmyndin að baki smábókunum sem var sú að gera bækur sem hægt er að nota og lesa auðveldlega.

Skemmtileg söfn þessara hrífandi smábóka má finna í minjasöfnum og margar bækur eru í einkaeigu. Ef þú skyggnist einhvern tíma inn í undraveröld smábókanna skaltu muna að fara varlega með þær því að þær eru sannkölluð listaverk!

[Rammagrein á blaðsíðu 22]

Smækkun með ljósmyndatækni

Smæsta „Nýja testamentið,“ sem búið hefur verið til, gerði David Bryce frá Glasgow í Skotlandi árið 1895. Það var aðeins 19 sinnum 16 millimetrar á stærð og 8 millimetrar á þykkt! Hvernig var hægt að prenta bókina? „Hún er afar vel og greinilega smækkuð með ljósmyndatækni,“ útskýrir Louis Bondy í ritinu Miniature Books. Þetta var ekki lítið afrek þegar hugsað er til þess að ljósmyndatæknin var á frumstigi fyrir hundrað árum.

David Bryce prentaði einnig nokkrar þumalbiblíur með sömu tækni. Fyrir þá sem eiga erfitt með að lesa örsmátt letrið hefur hver biblía að geyma lítið stækkunargler undir kápunni. Búnir slíku hjálpartæki geta þeir lesið sem þrauka.

Það er eftirtektarvert hvernig vottar Jehóva nýttu sér ljósmyndatæknina til að smækka rit þegar þeir voru ofsóttir bæði af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni og seinna af kommúnistum. Á meðfylgjandi mynd er biblíunámsrit sem prentað var með þessari aðferð. Bókin var falin í eldspýtnastokk og smyglað til votta í fangabúðum nasista.

Þessi bók komst fyrir í eldspýtnastokk sem smyglað var inn í fangabúðir.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hægt er að lesa smábækur þótt litlar séu.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Smábókasafn.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila