Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.10. bls. 3-4
  • Allir tala um veðrið

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Allir tala um veðrið
  • Vaknið! – 1998
  • Svipað efni
  • Loftslagsbreytingar og framtíð okkar – hvað segir Biblían?
    Fleiri viðfangsefni
  • Er jörðin í hættu?
    Vaknið! – 2008
  • Veðurspár — vísindi og list
    Vaknið! – 2001
  • Veðuröfgar – getur Biblían hjálpað þegar við finnum fyrir þeim?
    Fleiri viðfangsefni
Sjá meira
Vaknið! – 1998
g98 8.10. bls. 3-4

Allir tala um veðrið

VEÐRIÐ hefur áhrif á líf þitt hvar sem þú býrð og hver sem þú ert. Þú ert léttklæddur ef útlit er fyrir sólskin og hita. Úlpan er dregin fram þegar kalt er í veðri. Og þegar rignir er regnhlífin sótt.

Stundum erum við ánægð með veðrið, stundum erum við vonsvikin. Öðru hverju brestur á mannskaðaveður — fárviðri, fellibyljir, skýstrókar, þurrkar, stórhríðir eða monsúnvindar. Hvort sem manni líkar betur eða verr, skammast eða lætur sér fátt um finnast er alltaf einhvers konar veður alla daga sem hefur áhrif á líf okkar, allt frá vöggu til grafar.

Maður hafði einu sinni á orði að allir töluðu um veðrið en enginn gerði neitt í málinu. Okkur hefur alltaf virst veðrið vera eitt þeirra náttúruafla sem við réðum ekkert við. En æ fleiri vísindamenn eru að skipta um skoðun. Þeir segja að við séum að breyta veðurfari og loftslagi til langs tíma litið með því að spúa koldíoxíði og fleiru út í andrúmsloftið.

Hvers eðlis er þessi breyting að sögn sérfræðinga? Trúlega er áreiðanlegustu svörin að fá hjá Alþjóðlegu vísindanefndinni um loftslagsbreytingar (IPCC) sem byggir á sérfræðiþekkingu rösklega 2500 loftslagsfræðinga, hagfræðinga og áhættumatsfræðinga í 80 löndum. Í skýrslu sinni árið 1995 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að loftslag jarðar færi hlýnandi. Ef heldur fram sem horfir er talið hugsanlegt að hitastig hækki um allt að 3,5 gráður á næstu öld.

Það hljómar kannski ekki háskalega þótt hitastig hækki um fáeinar gráður, en sannleikurinn er sá að örlítil breyting á hitastigi jarðar getur haft hinar hrikalegustu afleiðingar. Margir sjá fyrir sér eftirfarandi á næstu öld.

Svæðisbundnar veðurfarsöfgar. Þurrkatímabil gætu lengst sums staðar og úrkoma aukist annars staðar. Stormar og flóð gætu færst í aukana og fellibyljir valdið meira tjóni en áður. Flóð og hallæri kosta milljónir manna lífið nú þegar en hækkandi hitastig gæti stórhækkað dánartöluna.

Aukin hætta á sjúkdómum. Veikindi og dauðsföll gætu stóraukist af völdum hækkandi hitastigs. Að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gæti hlýnun jarðar stækkað útbreiðslusvæði skordýra sem bera hitabeltissjúkdóma, svo sem malaríu og beinbrunasótt. Auk þess gæti skortur á ferskvatni vegna svæðisbundinna úrkomubreytinga aukið hættuna á sumum smitsjúkdómum og sníkjudýrum sem berast með vatni og matvælum.

Náttúrlegu kjörlendi ógnað. Skógum og votlendi, sem sía vatnið og loftið, gæti stafað hætta af hækkandi hitastigi og úrkomubreytingum. Skógareldar gætu orðið tíðari en verið hefur og óviðráðanlegri.

Hækkun sjávarborðs. Fólk sem býr á láglendum strandsvæðum þyrfti að flytjast búferlum nema gripið yrði til kostnaðarsamra aðgerða til að halda aftur af sjónum. Sumar eyjar myndu hverfa í sæ.

Er þessi ótti réttmætur? Er loftslagið að hlýna? Er það manninum að kenna ef svo er? Það er ekkert undarlegt að sérfræðingar deili hart um svörin við þessum spurningum því að mikið er í húfi. Í næstu tveim greinum er fjallað um þessi mál frá ýmsum hliðum og sú spurning rædd hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af framtíð jarðar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila