Hvað er orðið um náungakærleikann?
MILLJÓNIR manna eru örvilnaðar, hræddar, vansælar og finnst þær hvergi eiga athvarf. „Ég borða ein, geng ein, sef ein og tala við sjálfa mig,“ segir kona í mæðutón. Fáir vilja leggja lykkju á leið sína til að gera þurfandi fólki gott.
Kaupsýslukona á eftirlaunum segir svo frá: ‚Kvöld eitt bankaði ekkja, sem bjó á sömu hæð og ég, á dyrnar hjá mér og sagðist vera einmana. Ég sagði henni kurteislega en afdráttarlaust að ég væri upptekin. Hún baðst afsökunar á ónæðinu og fór.‘
Konan heldur áfram: ‚Ég var stolt af sjálfri mér að falla ekki í gildru þessarar leiðindaskjóðu. Kvöldið eftir hringdi vinkona í mig og spurði hvort ég hefði þekkt konuna í húsinu hjá mér sem hefði svipt sig lífi kvöldið áður. Þú ert eflaust búinn að giska á að það var konan sem bankaði upp á hjá mér.‘ Eftir á sagði kaupsýslukonan að þetta hefði verið sér „hörð lexía.“
Það er alkunna að ungbörn geta dáið ef þau njóta ekki ástar. Fullorðið fólk getur líka dáið ef það býr við ástleysi. Lagleg, 15 ára stúlka sagði á miða sem hún skildi eftir áður en hún svipti sig lífi: „Ást er að vera ekki einmana lengur.“
Einn af harmleikjum nútímans
Tímaritið Newsweek fjallaði fyrir nokkrum árum um þjóðernishatur og sagði meðal annars: „‚Hata skaltu náungann‘ virðist vera kjörorð ársins.“ Í átökunum í Bosníu og Hersegóvínu, sem áður tilheyrðu Júgóslavíu, neyddist meira en milljón manna til að flýja heimili sín og tugþúsundir voru drepnar. Hverjir voru morðingjarnir? „Nágrannar okkar,“ sagði harmi lostin stúlka sem var hrakin úr þorpinu sínu. „Við þekktum þá.“
„Við bjuggum saman í friði,“ segir kona um þá 3000 hútúmenn og tútsa sem áttu heima í þorpinu Rúganda. Dagblaðið The New York Times sagði: „Saga þessa þorps er saga Rúanda: Hútúmenn og tútsar bjuggu saman, giftust innbyrðis og þeim var sama um eða vissu jafnvel ekki hver væri hútúmaður og hver tútsi. En þá var sem stífla brysti“ og „drápin hófust.“
Gyðingar og Arabar búa líka hlið við hlið í Ísrael en margir þeirra hata hver annan. Alla 20. öldina hefur ástand af þessu tagi skapast á Norður-Írlandi, Indlandi og í Pakistan, í Malasíu og Indónesíu og milli þeirra kynþátta sem byggja Bandaríkin, já, hvarvetna á byggðu bóli.
Hægt væri að telja upp ótal dæmi um þjóðernishatur og trúarhatur. Aldrei hefur heimurinn verið jafnkærleikssnauður og nú.
Hver ber sökina?
Menn læra að hata líkt og þeir læra að elska. Í söngtexta frá miðri öldinni segir að börnin þurfi að „læra í tæka tíð, fyrir sex, sjö eða átta ára aldur, að hata alla sem fólkið þitt hatar.“ Hatur er rækilega kennt nú á dögum, og kirkjufélögunum hefur mistekist herfilega að kenna áhangendum sínum að elska.
Franska dagblaðið Le Monde spurði fyrir nokkrum árum: „Hvernig getur maður leitt hjá sér að tútsarnir og hútúmennirnir, sem berjast í Búrúndí og Rúanda, hlutu kennslu hjá sömu kristnu trúboðunum og sóttu sömu kirkjurnar?“ Blaðið National Catholic Reporter bendir á að Rúanda sé „70% kaþólskt ríki.“
Fyrr á öldinni snerust þjóðir Austur-Evrópu til guðleysis og kommúnisma. Af hverju? Forseti háskóladeildar í trúarlegum fræðum í Prag í Tékkóslóvakíu sagði árið 1960: „Það erum við, kristnir menn og engir aðrir, sem berum ábyrgð á kommúnismanum. . . . Munum að kommúnistar voru einu sinni kristnir. Hverjum er það að kenna ef þeir trúa ekki á réttlátan Guð?“
Veltum fyrir okkur hátterni kirkjufélaganna í fyrri heimsstyrjöldinni. Breski stórfylkisforinginn Frank Crozier sagði um styrjöldina: „Við höfum enga betri til að örva blóðþorsta en kristnu kirkjurnar og við höfum notað þær óspart.“ Eftir síðari heimsstyrjöldina sagði dagblaðið The New York Times: „Áður fyrr studdi klerkaveldi kaþólskra á hverjum stað nánast alltaf stríð þjóða sinna, blessaði hersveitir þeirra og bar fram bænir um sigur, meðan annar hópur biskupa hinum megin víglínunnar bað opinberlega fyrir gagnstæðum málalokum.“
En Jesús Kristur sýndi kærleika í öllu sem hann gerði og Páll postuli skrifaði: „Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.“ (1. Þessaloníkubréf 4:9) „Sannkristnir menn eru bræður og systur í Jesú Kristi,“ sagði blaðamaður hjá dagblaðinu Sun í Vancouver í Kanada. „Þeir myndu aldrei nokkurn tíma gera hver öðrum mein af ásettu ráði.“
Kirkjufélögin bera augljóslega mikla ábyrgð á kærleiksleysi samtímans. „Herfilegustu glæpir hafa verið drýgðir undir gunnfána trúarbragðanna,“ sagði fyrir nokkru í grein í tímaritinu India Today. En meginástæðan fyrir því að okkar kynslóð hefur einkennst svo mjög af miskunnarlausu skeytingarleysi um aðra er önnur.
Hvers vegna hefur kærleikurinn kólnað?
Skapari okkar svarar þessari spurningu. Orð hans, Biblían, kallar tímann, sem við lifum, „örðugar tíðir“ og ‚síðustu daga‘ og segir hann einkennast af því að fólk sé ‚kærleikslaust.‘ Jesús Kristur kallaði þetta tímabil ‚endalok veraldar‘ og spáði því að ‚kærleikur flestra myndi kólna.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:3, 12.
Kærleiksleysi nútímans er því eitt af táknum þess að við lifum á síðustu dögum þessa heims. Sem betur fer þýðir það einnig að þessi heimur óguðlegra manna verður bráðlega þurrkaður út og réttlátur nýr heimur kemur í staðinn þar sem kærleikurinn ræður ríkjum. — Matteus 24:3-14; 2. Pétursbréf 3:7, 13.
En er raunhæft að búast við slíkri breytingu — að við getum fengið að búa í heimi þar sem allir menn elska hver annan og búa saman í friði?