Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g01 8.1. bls. 4-9
  • Víðtæk fræðsluáætlun

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Víðtæk fræðsluáætlun
  • Vaknið! – 2001
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Útgáfustarf um allan heim
  • Á eigin tungu — af hverju?
  • Mikils metin fræðsla
  • Grunnmenntun
  • Hjálpargögn við boðunina – rit gefin út til að nota um allan heim
    Ríki Guðs stjórnar
  • Fagnaðarerindið á 500 tungumálum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • „Eyjafjöldinn gleðjist“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Jehóva stýrir alþjóðlegu fræðslustarfi okkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Sjá meira
Vaknið! – 2001
g01 8.1. bls. 4-9

Víðtæk fræðsluáætlun

„Aðeins menntaðir menn eru frjálsir menn.“ — Epíktetos, um 100.

„FRAMFARAVONIR mannkyns byggjast einvörðungu á sívaxandi áhrifum Biblíunnar.“ Svo mælti William H. Seward sem barðist gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum á 19. öld.

Vottar Jehóva bera líka djúpa virðingu fyrir Biblíunni. Þeir eru sannfærðir um að meginreglur hennar séu stórkostlega mannbætandi ef eftir þeim er farið — þær geri eiginmenn, eiginkonur og börn — já, alla menn — að betri manneskjum. Þess vegna fylgja þeir fyrirmælum Jesú Krists sem sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim.“ — Matteus 28:​19, 20.

Hið mikla átak votta Jehóva fyrir aukinni biblíufræðslu er líklega víðtækasta fræðsluherferð mannkynssögunnar. Hversu víðtækt er það?

Útgáfustarf um allan heim

Vottar Jehóva nota tiltækar biblíuþýðingar á hundruðum tungumála í boðunarstarfi sínu meðal almennings. En þeir hafa einnig gefið út eigin biblíuþýðingu, Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar, á 21 tungumáli og Nýheimsþýðingu kristnu Grísku ritninganna (hið svonefnda Nýja testamenti) á 16 tungumálum að auki. Og um þessar mundir er verið að þýða Biblíuna á 11 tungumál til viðbótar. Vottarnir gefa einnig út ýmis rit sem ætlað er að auka virðingu manna fyrir Biblíunni og skilning á henni.

Tímaritið Vaknið!, sem þú heldur á, kemur til dæmis út á 82 tungumálum og meðalupplag hvers tölublaðs er 20.380.000 eintök.a Förunautur þess, tímaritið Varðturninn, er gefið út á 137 tungumálum og meðalupplag hvers tölublaðs er 22.398.000 eintök. Heildarupplag þessara tveggja tímarita er með öðrum orðum rösklega einn milljarður eintaka á ári! Og Varðturninn kemur samtímis út á 124 þessara tungumála og Vaknið! á 58. Þetta þýðir að mikill fjöldi fólks í ólíkum málsamfélögum les sama efni samtímis á móðurmáli sínu.

Á síðustu áratugum hafa vottar Jehóva gefið út ýmis biblíunámsrit í hundruðum milljóna eintaka. Bókin Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs var prentuð í rösklega 107 milljónum eintaka. Upplag bókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð fór yfir 81 milljón eintaka og ein af nýlegri bókunum, Þekking sem leiðir til eilífs lífs, er komin yfir 75 milljónir eintaka á 146 tungumálum. Bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur?, sem er 32 blaðsíður, er kominn út í meira en 113 milljónum eintaka á 240 tungumálum.

Ýmsar aðrar bækur hafa verið gefnar út til að fullnægja ákveðnum þörfum. Biblíusögubókin mín, sem er gerð handa börnum, hefur verið prentuð í 51 milljón eintaka. Tvær bækur hafa verið gefnar út handa unglingum, Your Youth — Getting the Best Out Of It (Æskuárin — notið þau vel) og Spurningar unga fólksins — svör sem duga. Samanlagt hafa verið prentaðar rösklega 53 milljónir eintaka af þeim. Og bókin The Secret of Family Happiness (Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi) er komin út á 115 tungumálum, og hún hefur auðveldað milljónum fjölskyldna að glíma við vandamál sín.

Fjórar aðrar bækur hafa verið gefnar út síðan 1985 til að styrkja trú manna á skaparann, son hans og Biblíuna, og samanlagt upplag þeirra er ríflega 117 milljónir eintaka. Þetta eru bækurnar Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?, Mesta mikilmenni sem lifað hefur, The Bible — God’s Word or Man’s? (Biblían — orð Guðs eða manna?) og Er til skapari sem er annt um okkur?

Vottar Jehóva bjóða upp á biblíutengd rit á 353 tungumálum og innan skamms bætast við ýmis rit á 38 tungumálum til viðbótar. Frá árinu 1970 hafa þeir prentað ríflega 20 milljarða bóka, bæklinga og tímarita! Og næstum sex milljónir kennara útbreiða biblíuþekkingu í meira en 230 löndum. En hvernig hefur tekist að áorka þessu og hvaða áhrif hefur það haft á líf fólks?

Á eigin tungu — af hverju?

Þú getur rétt ímyndað þér að það þarf þó nokkra skipulagningu til að gefa út rit í háum gæðaflokki á rösklega hundrað tungumálum samtímis. Þýðendur bjóða fram krafta sína og kunnáttu og hver þýðendahópur notar sérhæfðan tölvuhugbúnað til að skila sem mestum afköstum, nákvæmni og gæðum. Þannig er jafnvel hægt að koma nýjum ritum fljótt á framfæri á tungumálum þar sem þýðendur eru tiltölulega fáir. Rösklega 1950 karlar og konur starfa um þessar mundir við þýðingar á vegum votta Jehóva. Þau eru í ólaunuðu sjálfboðastarfi og útgáfan er ekki rekin í hagnaðarskyni. En af hverju er lögð svona mikil áhersla á þýðingar? Er það þess virði þegar á það er litið hve algengt það er í fámennum málsamfélögum að menn kunni eitthvað fyrir sér í einhverju útbreiddu, erlendu tungumáli?

Vottar Jehóva hafa komist að raun um að það er þess virði að þýða rit á sem flest tungumál. William Tyndale, þekktur biblíuþýðandi á 16. öld, benti á ástæðuna: „Reynslan hefur kennt mér að það er ógerlegt fyrir leikmenn að tileinka sér nokkur ritningarsannindi nema þeir hafi aðgang að Ritningunni á móðurmáli sínu og geti meðtekið kjarna, stílfegurð og merkingu textans.“

Það hefur ekki alltaf verið hægt að koma biblíutengdum ritum í hendur fólks á móðurmáli þess. En þegar það er hægt ná sannindi Biblíunnar að snerta hjörtu fólks fyrr og dýpra en ella væri. Þetta hefur sýnt sig mjög greinilega í löndum Sovétríkjanna fyrrverandi þar sem talaðir eru tugir tungumála. Á fyrri hluta síðustu aldar voru margar þessara þjóða innlimaðar í Sovétríkin, þeim var kennd rússneska og þess krafist að þær notuðu hana. Þær eru því læsar og skrifandi á rússnesku en tala jafnframt móðurmál sitt.

Sovétríkin tóku að liðast í sundur árið 1991 og margar af þessum þjóðum vilja taka upp heimatungu sína á ný. Þar má nefna tungumál eins og adygejísku, altajísku, hvít-rússnesku, grúsísku, kirgisísku, komí, ossetísku, túvísku og tugi annarra. Þó svo að flestir geti talað saman á rússnesku vantar mikið á að biblíutengd rit á rússnesku nái að snerta hjarta þeirra. Heimamálið höfðar hins vegar mjög sterkt til þeirra. „Það er gott að þið skuluð vera farnir að gefa út rit á okkar máli,“ sagði maður sem fékk afhent biblíutengt smárit á altajísku.

Grænland er annað dæmi. Þar búa aðeins um 60.000 manns. Tímaritin Varðturninn og Vaknið! eru bæði gefin út á grænlensku og njóta mikilla vinsælda, eins og reyndar önnur rit votta Jehóva sem gefin eru út á grænlensku. Það talar sínu máli að rit þeirra eru til á fjölda heimila í afskekktustu byggðum Grænlands.

Um 7000 manns á Suður-Kyrrahafseyjum tala nárúeysku, 4500 tókeláeysku og 12.000 tala rotúmaeysku. Vottar Jehóva gefa út biblíutengd smárit og bæklinga á þessum tungumálum, auk tímaritsins Varðturninn einu sinni í mánuði á níveysku, sem er töluð af um það bil 8000 manns, og túvalúeysku sem er töluð af hér um bil 11.000 manns. Vottar Jehóva eru reyndar einhverjir stærstu útgefendur prentaðs máls á lítt þekktum tungumálum. Þeir gefa út biblíutengd rit á málum eins og bislama, hirí mótú, papíamentó, máritíu-kreólsku, nýjugíneu-pidgin, seychelles-kreólsku, salómonseyja-pidgin og tugum annarra.

Algengt er að málsamfélag sé því einangraðra og fátækara sem það er fámennara. Þó er lestrarkunnátta oft mikil í þessum málsamfélögum. Og oft er Biblían eitt fárra rita sem til er á viðkomandi tungumáli. Reyndar eru ekki einu sinni gefin út dagblöð á sumum þessara tungumála af því að það er ekki fjárhagslega hagkvæmt.

Mikils metin fræðsla

Margir hafa lokið lofsorði á útgáfustarf votta Jehóva vegna þess að rit þeirra hafa bætandi áhrif á líf fólks. Linda Crowl starfar við Kyrrahafsrannsóknastofnunina við Suður-Kyrrahafsháskólann í Súva á Fídjieyjum. Hún lét þau orð falla að þýðingastarf votta Jehóva væri „það gleðilegasta sem er að gerast á Kyrrahafssvæðinu“ og hrósar ritum þeirra fyrir hátt gæðastig.

Þegar tímaritið Vaknið! hóf göngu sína á samóeysku var sagt frá því bæði í dagblöðum og sjónvarpi á svæðinu. Forsíða Vaknið! var sýnd í sjónvarpinu og flett upp á öllum greinum blaðsins og sagt frá þeim hverri fyrir sig.

Í sumum löndum heims hafa málstöðvar reglulega samband við þýðendur votta Jehóva til samráðs um málfræði, stafsetningu, nýyrðasmíð og annað í þeim dúr. Ljóst er að ókeypis fræðslustarf votta Jehóva snertir ekki aðeins þá sem gerast vottar heldur miklu fleiri.

En eins og bent var á í greininni á undan er nánast einn milljarður fullorðinna ólæs og óskrifandi — næstum sjötti hluti jarðarbúa. Hvað hefur verið gert til að hjálpa hinum ólæsu að notfæra sér hið góða efni sem kemur út á prenti?

Grunnmenntun

Víða um lönd hafa vottar Jehóva staðið fyrir ókeypis lestrar- og skriftarkennslu. Þeir hafa jafnvel gefið út sínar eigin kennslubækur í lestri og skrift. Ein þeirra hefur komið út á 28 tungumálum. Þúsundir manna hafa lært að lesa og skrifa hjá vottum Jehóva, bæði karlar og konur og einnig aldrað fólk.

Í Búrúndí hafa hundruð manna lært að lesa og skrifa með aðstoð votta Jehóva. Þar í landi er starfrækt opinber stofnun til að efla lestrar- og skriftarkunnáttu fullorðinna. Stofnunin kynnti sér hinn góða árangur af lestrar- og skriftarkennslu votta Jehóva og veitti fjórum kennurum þeirra verðlaun á degi læsis 8. september 1999.

Eftirfarandi greinargerð barst um lestrarkennslu í hér um bil 700 söfnuðum votta Jehóva í Mósambík: „Á síðastliðnum fjórum árum hafa 5089 nemendur útskrifast og núna eru 4000 nemendur skráðir.“ Nemandi nokkur skrifaði: „Mig langar til að segja ykkur hve mikils ég met skólann . . . Ég kunni ekkert. Svo er skólanum fyrir að þakka að ég er orðinn læs og ég er líka skrifandi þó að ég þurfi að æfa mig betur.“

Rösklega 143.000 manns hafa lært að lesa og skrifa í þar til gerðum skólum í Mexíkó frá árinu 1946 þegar byrjað var að halda skrár um tölu nemenda. Sextíu og þriggja ára gömul kona skrifar: „Ég er vottum Jehóva ákaflega þakklát en þeir kenndu mér að lesa og skrifa. Líf mitt var ömurlegt. En nú get ég leitað ráða í Biblíunni og boðskapur hennar hefur veitt mér hamingju.“

Vottar Jehóva hafa einnig kennt þúsundum manna í Brasilíu að lesa og skrifa. „Að læra að lesa var eins og að losna úr áralöngum fjötrum,“ segir 64 ára kona. „Nú hef ég aðgang að alls konar upplýsingum. En það er þó mikilvægast að biblíulestur og biblíunám hefur losað mig úr fjötrum falskenninga.“

Algengt er að biblíukennarar úr hópi votta Jehóva veiti nemendum sínum einkakennslu í lestri. Martina á Filippseyjum var komin á níræðisaldur þegar vottarnir bönkuðu upp á hjá henni. Hún vildi gjarnan fá reglubundna biblíufræðslu en var ólæs. Hún fékk lestrarkennslu bæði hjá biblíukennaranum sínum og í söfnuðinum og er nú sjálf fær um að kenna öðrum með hjálp Biblíunnar. Hún er læs og skrifandi og er biblíukennari í fullu starfi.

Ljóst er að fólk af öllum þjóðum og tungum getur lært lestur og skrift. En mönnum er kannski spurn hvort fólk hafi raunverulegt gagn af því að fræðast af Biblíunni um Guð og tilgang hans. Svarið er að finna í síðustu greininni í þessari greinaröð.

[Neðanmáls]

a Upplagstalan er miðuð við að blaðið komi út tvisvar í mánuði.

[Rammagrein á blaðsíðu 9]

Orð fá ekki lýst . . . “

Stjórnvöld, háskólamenn og almenningur hafa veitt því athygli hvernig vottar Jehóva beita sér fyrir menntun um víða veröld og ýmsir hafa tjáð sig um hana. Lítum á nokkur dæmi:

„Ríkisstjórnin er hæstánægð með þessa bók [Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð á túvalúeysku] því að hún er ný og mikilvæg viðbót við ‚arfleifð‘ Túvalú. Þið megið vera ánægðir með hið stóra hlutverk sem þið hafið gegnt í andlegri uppbyggingu fólksins. Ég tel að ykkar verði getið í sögu Túvalú fyrir hlutdeild ykkar í útgáfu kennslubóka.“ — Dr. T. Puapua, fyrrverandi forsætisráðherra Túvalú á Suður-Kyrrahafi.

„Vottar Jehóva reka mjög viðamikla útgáfustarfsemi á Suður-Kyrrahafi og notfæra sér nýjustu tækni . . . Þessi útgáfustarfsemi er þeim mun athyglisverðari þegar tillit er tekið til þess hve tengsl eru stopul . . . milli Kyrrahafseyja.“ — Linda Crowl við Suður-Kyrrahafsháskólann í Súva á Fídjieyjum.

„Bókin um hamingjuríkt fjölskyldulíf, sem komin er út á ísókó, er hreinlega frábær og mjög áhrifamikil! Við þökkum sjálfboðaliðunum í ísókó-þýðendahópnum fyrir að auðvelda okkur að skilja bókina að fullu.“ — C.O.A., Nígeríu.

„Orð fá ekki lýst hve þakklátur ég er fyrir þessa auðskildu þýðingu á Biblíunni [Nýheimsþýðinguna á serbnesku]. Hér áður fyrr reyndi ég að lesa alla Biblíuna en var alltaf fljótur að gefast upp af því að ég skildi ekki málið. Núna get ég lesið og skilið þessa einstæðu þýðingu!“ — J.A., Júgóslavíu.

„Þakka ykkur fyrir hin ágætu, fræðandi og uppbyggjandi rit sem þýdd hafa verið á tív. Sannast að segja er ekki hægt að lýsa með orðum hve gagnlegar og hvetjandi þessar bækur og bæklingar eru. Ritin hafa náð til þúsunda manna.“ — P.T.S., Nígeríu.

[Mynd]

36 milljónir eintaka á 115 tungumálum.

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Prentaðar hafa verið rösklega 100 milljónir eintaka af „Nýheimsþýðingunni“ á 37 tungumálum.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Næstum 2000 sjálfboðaliðar þýða rit votta Jehóva víða um lönd (súlú-teymið í Suður-Afríku vinstra megin og japanskur þýðandi á neðri mynd).

[Myndir á blaðsíðu 7]

Árlega er prentaður einn milljarður eintaka af tímaritunum „Varðturninn“ og „Vaknið!“

[Myndir á blaðsíðu 8]

Vottar Jehóva standa fyrir lestrar- og skriftarkennslu víða um lönd (til hægri: í Mexíkó; að neðan: í Búrúndí. Forsíðumyndin er frá Ghana).

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila