Breytt gildi — finnst þér eitthvað hafa glatast?
„HVERT er alvarlegasta vandamálið sem þjóðin stendur frammi fyrir?“ Flestir sem spurðir voru þessarar spurningar í Bandaríkjunum settu hnignun fjölskyldunnar og siðferðis efst eða ofarlega á listann. Og þeir eru ekki einir um það.
Parísarblaðið International Herald Tribune sagði: „Það er augljós þrá, einkum hjá ungu fólki, eftir einhvers konar sameiginlegri framtíðarsýn, eftir viðurkenndum hugsjónum til að takast á við og temja það sem liggur að baki þeirri græðgi, sjálfselsku og sundrung sem virðast vera að ná heiminum á sitt vald. . . . Þessi aukna umræða um þörfina á alþjóðlegu siðferði gefur til kynna að eitthvað hafi glatast.“
Heldurðu að stjórnmála- og þjóðarleiðtogar, ásamt framámönnum í viðskiptaheiminum, hafi þau lífsgildi sem þarf til að búa okkur hamingjusamari og öruggari framtíð? Finnst þér eitthvað hafa tapast við það að gildismat umheimsins hefur breyst?
Þú hefur ef til vill áhyggjur af öryggi þínu. Býrðu á svæði þar sem hægt er að hafa húsið ólæst? Geturðu gengið óttalaust um hverfið þitt að næturlagi? Þó að þú sért svo heppinn að búa á svæði sem er laust við stríðsátök, þjóðernisólgu eða lífshættulega klíkubardaga stafar þér kannski hætta af líkamsárásum, innbrotum eða þjófnaði. Slíkt veldur skiljanlega áhyggjum og vekur þá kennd að gömul og gróin gildi hafi glatast.
Og kannski finnst þér erfiðara en áður að treysta fólki. Þetta getur stafað af því að þú hafir, kannski bæði í vinnunni og einkalífinu, séð aukna tilhneigingu hjá mönnum til að gera þér rangt til ef það vænkar hag þeirra, þó ekki sé nema lítils háttar.
Stjórnvöld þurfa að sýna gott fordæmi
Sagan ber þess skýrt vitni að sterk tengsl eru á milli gilda samfélagsins og stjórnvalda. Calvin Coolidge, sem síðar varð forseti Bandaríkjanna, sagði: „Menn tala um náttúrurétt, en ég skora á hvern sem er að benda á hvar í náttúrunni nokkur réttur hafi verið til eða viðurkenndur áður en hann hafi verið opinberlega staðfestur og lögverndaður.“
Þegar öllu er á botninn hvolft er það ríkjandi stjórn, hvernig sem hún komst til valda, sem getur annaðhvort stuðlað að eða tálmað borgararéttindum eins og málfrelsi, trúfrelsi, prentfrelsi, fundafrelsi, og tryggt að þegnarnir sæti ekki ólöglegum handtökum og áreitni og hljóti réttláta málsmeðferð.
Abraham Lincoln, sem seinna varð forseti Bandaríkjanna, sagði eitt sinn: „Hið eiginlega markmið ríkisstjórnar er að gera allt fyrir samfélag manna sem þeir þarfnast en geta alls ekki gert sjálfir eða geta ekki gert nægilega vel einir sér.“ Þegar ríkisstjórn reynir að þjóna svo háleitum tilgangi langar fólk til að treysta þeim sem fara með yfirráð.
Hins vegar hefur traustið vikið fyrir vantrausti og tortryggni. Í nýlegri könnun í Bandaríkjunum kom fram að um 68 prósent aðspurðra töldu siðferði alríkisstarfsmanna aðeins meðalgott eða jafnvel lélegt. Í mörgum löndum hafa mútuhneyksli og spilling á hæstu stigum haft mikil áhrif á álit almennings á embættis- og stjórnmálamönnum. Það er skiljanlegt að æ fleirum finnist eitthvað hafa glatast.
Góð fyrirmynd Salómons konungs
Salómon konungur er gott dæmi um það hve mikil áhrif lífsgildi stjórnendanna geta haft. Salómon ríkti yfir 12 ættkvíslum Ísraels frá árinu 1037 til 998 f.o.t. Davíð konungur, faðir hans, var einn af framúrskarandi konungum Ísraels. Biblían talar um að Davíð hafi elskað sannleika og réttlæti en fyrst og fremst talar hún um skilyrðislaust traust hans á Jehóva, Guði sínum. Davíð kenndi Salómon þessi sömu gildi.
Alvaldur Guð birtist Salómon í draumi og sagði við hann: „Bið þú þess, er þú vilt að ég veiti þér.“ (2. Kroníkubók 1:7) Salómon bað ekki um mikla auðlegð, heiður eða stjórnmálasigra heldur um visku, skilning og hlýðið hjarta svo að hann gæti veitt Ísraelsmönnum góða forystu. Þannig sýndi hann hvaða gildi hann hafði í hávegum.
Hvaða áhrif hafði stjórn Salómons á þjóðina? Guð gaf honum visku, heiður og velmegun, svo lengi sem hann var trúr andlegum gildum þjóðarinnar. Fornleifafundir bera vott um mikla efnislega velmegun í stjórnartíð Salómons. Bókin The Archaeology of the Land of Israel segir: „Auðurinn, sem streymdi til konungshirðarinnar úr öllum áttum, og blómleg verslun . . . olli hraðri og greinilegri byltingu á öllum sviðum verkmenningar.“
Já, góð stjórn Salómons færði þegnunum frið, öryggi og hamingju. „Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.“ — 1. Konungabók 4:20, 25.
Slæm fyrirmynd Salómons
En því miður breyttust gildi Salómons þegar líða tók á, líkt og gerst hefur hjá fjölmörgum leiðtogum nú á dögum. Biblían segir svo frá: „Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis. Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið.“ — 1. Konungabók 11:3, 4.
Hvaða áhrif höfðu þessar breytingar á gildum Salómons á þjóðina? Þrátt fyrir hæfileika sína og visku varð Salómon harðstjóri á síðari hluta valdaferils síns. Ríkisútgjöldin urðu slík að hagkerfi þjóðarinnar var að sligast. Óánægju gætti meðal verkamanna. Stjórnarandstæðingar streittust á móti konungi og reyndu að hrifsa af honum völdin. Þjóðin hafði svo til glatað einingunni. Það er kaldhæðnislegt að Salómon skyldi sjálfur skrifa: „Þegar réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.“ — Orðskviðirnir 29:2.
Skömmu eftir dauða Salómons varð stjórnmálaórói og tortryggni til þess að þjóðin skiptist í tvennt og í kjölfarið mátti hún þola harðstjórn, sundrungu og hnignun. Ísraelsmenn fundu sárlega fyrir því hvað glatast hafði. Ríkisstjórnin hafði breytt gildum sínum og gleymt að huga að velferð þjóðarinnar. Verstu mistökin voru þau að leiðtogarnir höfðu hafnað Jehóva og lögum hans. Og öll þjóðin leið fyrir.
Vantraust er útbreitt nú á dögum
Margir hafa gefið lítinn gaum að því að viðhalda háleitum gildum í stjórnmálum, viðskiptum eða trúarlegu starfi. Þetta hefur gert að verkum að fólki almennt finnst eitthvað hafa glatast. Æ fleiri ríkisstjórnir og leiðtogar eru ófærir um að leysa grunnvandamál þjóðar sinnar.
Þeir hafa til dæmis verið ófærir um að binda enda á stríð eða stemma stigu við vaxandi heilsugæslukostnaði eða slæmum áhrifum af völdum eiturlyfjasölu. Menntakerfi hafa hrunið. Allmargar ríkisstjórnir leyfa jafnvel skipulagt fjárhættuspil. Margir forystumenn fyrirtækja og trúfélaga hafa valdið fólki gríðarlegum vonbrigðum vegna spillingar og siðleysis. Það er því ekki að undra að margir skuli vantreysta þeim sem fara með forystu.
Er von til þess að einhver stjórn geti varið grunnréttindi og góð lífsgildi og jafnvel tekið forystuna í að halda þeim á loft? Já, það er von til þess. Síðasta greinin útskýrir hvernig það er hægt.
[Innskot á blaðsíðu 7]
,Græðgi, sjálfselska og sundrung virðast vera að ná heiminum á sitt vald.‘ — INTERNATIONAL HERALD TRIBUNE
[Myndir á blaðsíðu 8]
Þegar Salómon konungur hlýddi lögum Guðs miðlaði hann háleitum gildum til þegna sinna.