Þunglyndi — hvernig líðan er það?
„ÉG VAKNAÐI einn morgun þegar ég var 12 ára gamall,“ sagði James,a „settist á rúmstokkinn og velti fyrir mér hvort þetta væri dagurinn sem ég myndi deyja.“ James þjáðist af alvarlegu þunglyndi. „Á hverjum degi ævi minnar hef ég barist við þessa geðröskun,“ segir James 30 árum síðar. James fannst hann svo lítils virði þegar hann var ungur að hann reif myndir af sér frá æsku. Hann segir: „Mér fannst að ég væri ekki einu sinni þess virði að munað væri eftir mér.“
Við höfum öll þurft að takast á við depurð af og til og gætum því haldið að við skiljum hvernig þeim líður sem eru þunglyndir. En hvernig líður þeim sem eru haldnir þunglyndi?
Harður húsbóndi
Þunglyndi er ekki bara tímabundin depurð heldur alvarlegur sjúkdómur sem getur komið í veg fyrir að sjúklingurinn geti sinnt daglegum störfum.
Tökum Álvaro sem dæmi en hann hefur í meira en 40 ár þjáðst af „ótta, kvíða, einbeitingarleysi og djúpri sorg“. Hann segir: „Vegna þunglyndis höfðu skoðanir annarra mikil áhrif á mig. Mér fannst ég alltaf bera ábyrgð á öllu sem fór úrskeiðis.“ Hann lýsir líðan sinni svona: „Ég fann hræðilegan sársauka án þess að geta staðsett hann, ótta sem virtist ekki eiga sér neina orsök og verst af öllu var að ég hafði enga löngun til að ræða málið.“ Núna líður honum örlítið betur vegna þess að hann veit hvað veldur þessum einkennum. „Mér líður betur af því að ég veit að aðrir eiga við sama vandamál að stríða,“ segir hann.
María er 49 ára gömul og býr í Brasilíu. Hún varð þunglynd og því fylgdi svefnleysi, sársauki, skapstyggð og hún upplifði óendanlega djúpa sorg. Þegar María var greind með þunglyndi létti henni að vita að til væri nafn yfir ástand hennar. „En þá varð ég enn kvíðnari,“ segir hún, „vegna þess að fæstir hafa skilning á þunglyndi og sumir hafa fordóma gagnvart því.“
Ekkert til þess að skammast sín fyrir
Þó að þunglyndi eigi sér stundum augljósa orsök kemur það oft alveg fyrirvaralaust. Richard frá Suður-Afríku lýsir þessu svona: „Sorg hellist yfir mann án augljósrar ástæðu. Enginn sem maður þekkir hefur dáið og ekkert slæmt hefur gerst. Samt er maður niðurdreginn og daufur og ekkert getur hresst mann við. Maður upplifir yfirþyrmandi vonleysi án þess að vita af hverju.“
Þunglyndi er ekkert til að skammast sín fyrir. Ana, frá Brasilíu, skammaðist sín samt sem áður fyrir að vera greind með þunglyndi. „Núna, átta árum síðar, finn ég reyndar enn til skammar,“ viðurkennir Ana. Henni finnst sérstaklega erfitt að takast á við djúpa sorg sem hún upplifir. Hún segir: „Þjáningarnar eru stundum svo miklar að ég finn bókstaflega til sársauka. Ég finn til í öllum vöðvum líkamans.“ Þegar þannig stendur á er næstum ómögulegt að koma sér úr rúminu. Þar að auki koma stundir þar sem Ana getur ekki hætt að gráta. „Ég græt af slíkum ákafa að ég verð uppgefin eftir það,“ segir hún, „mér líður eins og blóðið hætti hreinlega að renna í æðum mér.“
Í Biblíunni er viðurkennt að fólk getur orðið hættulega þunglynt. Til dæmis hafði Páll postuli áhyggjur af því að ákveðinn maður myndi sökkva „niður í allt of mikla hryggð“. (2. Korintubréf 2:7) Sumir þeirra sem eru þunglyndir verða svo örvæntingarfullir að þeir vilja helst deyja. Mörgum líður eins og spámanninum Jónasi sem sagði: „Mér er betra að deyja en lifa.“ — Jónas 4:3.
Hvað geta þunglyndir gert til að takast á við þennan erfiða sjúkdóm?
[Neðanmáls]
a Nöfnum hefur verið breytt í þessari greinasyrpu.
[Innskot á bls. 3]
„Sorg hellist yfir mann án augljósrar ástæðu.“