Að jafna sig eftir ástvinamissi
„Fréttin af andláti föður míns var mér mikið áfall og fyllti mig vonleysi. Ég var haldin yfirþyrmandi sektarkennd vegna þess að ég var ekki hjá honum þegar hann dó. Það er ekkert jafn sársaukafullt og ástvinamissir. Ég sakna pabba mjög mikið.“ — Sara.
ÓHÁÐ menningu og trúarbrögðum finnst flestum vandræðalegt að tala um dauðann. Til að gera það auðveldara eru notuð veigrunarorð í mörgum tungumálum. Í stað þess að segja að einhver hafi ,dáið‘ er stundum sagt á íslensku að hann eða hún ,hafi fallið frá‘, ,hafi skilið við‘ eða ,sé ekki lengur meðal okkar‘.
Nærgætið orðalag getur samt ekki sefað sorg þeirra sem misst hafa ástvin. Sumir eru svo harmi slegnir að þeir geta alls ekki meðtekið það sem gerðist.
Hafir þú misst ástvin finnst þér ef til vill líka erfitt að vinna úr sorginni. Þú berð þig kannski vel þótt þér líði alls ekki þannig. Að sjálfsögðu syrgja ekki allir á sama hátt. Ef maður ber sorgina ekki utan á sér þýðir það ekki endilega að maður sé að bæla hana niður.a Hins vegar gæti það skapað vandamál ef manni finnst maður þurfa að bera harm sinn í hljóði, til dæmis gagnvart fjölskyldunni sem er líka harmi slegin.
„Ég fékk aldrei tækifæri til að syrgja“
Nathaniel er ungur maður sem missti móður sína 24 ára gamall. Hann segir: „Í fyrstu var ég ráðþrota, mér fannst ég þurfa að styðja pabba og vinafólk mömmu sem var yfirkomið af sorg. Ég fékk aldrei tækifæri til að syrgja sjálfur.“
Rúmu ári seinna fann Nathaniel að hann var ekki enn búinn að jafna sig eftir missinn. Hann segir: „Pabbi hringir stundum enn þá þegar hann þarf að tjá sorg sína og það er bara gott. Hann þarf þess með og ég vill gjarnan verða honum að liði. Mér finnst bara að ég hafi sjálfur engan til að halla mér að þegar ég þarf á stuðningi að halda.“
Þeir sem annast sjúka, eins og heilbrigðisstarfsfólk sem stendur oft andspænis dauðanum, finnst stundum að þeir verði að halda aftur af tilfinningum sínum. Tökum Heloisu sem dæmi, en hún hefur verið læknir í rúm 20 ár. Hún starfaði í samheldnu bæjarfélagi og þekkti marga sjúklingana mjög vel. Hún segir: „Ég var hjá mörgum þeirra á dánarstundu og sumir voru nánir vinir mínir.“
Heloisa skildi að það felst ákveðinn léttir í því að geta tárfellt. „En ég átti erfitt með að gráta,“ segir hún. „Mér var svo umhugað um að styrkja aðra að mér fannst ég sjálf þurfa að halda aftur af tilfinningum mínum. Ég hélt líka að aðrir ætluðust til þess af mér.“
„Húsið var svo tómlegt án hennar“
Einmanaleikinn er ef til vill eitt það erfiðasta sem fólk þarf að glíma við eftir ástvinamissi. Ashley var 19 ára þegar móðir hennar lést úr krabbameini. Hún segir: „Mér fannst ég algerlega ein og yfirgefin. Mamma var besta vinkona mín. Við vorum svo mikið saman.“
Ashley fannst skiljanlega erfitt að koma heim á daginn og átta sig á því að móðir hennar var ekki til staðar. „Húsið var svo tómlegt án hennar,“ segir hún. „Ég fór oft inn í herbergið mitt og grét þegar ég skoðaði myndir af henni og rifjaði upp það sem við höfðum gert saman.“
Hvort sem þú hefur misst náinn ættingja eða kæran vin geturðu verið þess fullviss að þú ert ekki einn í sorginni. Margir hafa unnið úr sorg sinni á árangursríkan hátt eins og verður fjallað um í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Þar sem fólk syrgir á mismunandi hátt væri óviðeigandi að draga ályktanir um líðan þeirra sem láta ekki sorg sína í ljós við ástvinamissi.
[Innskot á blaðsíðu 5]
„Mér fannst ég algerlega ein og yfirgefin. Mamma var besta vinkona mín.“ — Ashley