Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 3.13 bls. 6-9
  • Að flytja milli landa – draumarnir og veruleikinn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að flytja milli landa – draumarnir og veruleikinn
  • Vaknið! – 2013
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Í leit að betra lífi
  • Að komast á leiðarenda og koma sér fyrir
  • Fjölskyldan – mikilvægari en peningar
  • „Ég var með fleiri spurningar en svör“
    Biblían breytir lífi fólks
  • Enginn getur þjónað tveimur herrum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Segðu þeim að þú elskir þau
    Reynslusögur af vottum Jehóva
  • Er til einhver sem heyrir bænir?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
Sjá meira
Vaknið! – 2013
g 3.13 bls. 6-9

FORSÍÐUEFNI

Að flytja milli landa – draumarnir og veruleikinn

Í leit að betra lífi

GEORGE vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Hann gat ekki framfleytt fjölskyldunni. Og allt í kringum hann var fólk að veikjast og sumir virtust svelta. En hann vissi af nágrannalandi þar sem aðstæður voru betri. Hann hugsaði með sér: „Ég ætla að flytja þangað, finna mér vinnu og fá síðan fjölskylduna til mín.“

Patriciu dreymdi líka um að hefja nýtt líf í öðru landi. Hún var atvinnulaus og átti um fátt að velja. Hún og kærastinn ákváðu að fara í gegnum Alsír á ferð sinni frá Nígeríu til Spánar. En litla hugmynd höfðu þau um hversu erfitt yrði að fara yfir Saharaeyðimörkina. „Ég átti von á barni,“ segir hún „og var ákveðin í að gefa barninu mínu betra líf“.

Rachel vildi freista gæfunnar í Evrópu. Hún hafði misst vinnuna á Filippseyjum þar sem hún bjó. Ættingjarnir töldu henni trú um að næg vinna væri fyrir vinnukonur í útlöndum. Hún fékk því lánað fyrir flugfarinu og kvaddi eiginmann sinn og dóttur. Hún lofaði þeim að þau yrðu ekki lengi aðskilin.

Áætlað er að yfir 200 milljónir manna hafi flust milli landa á síðustu áratugum, eins og George, Patricia og Rachel. Þótt sumir hafi flúið stríðsátök, náttúruhamfarir eða ofsóknir hafa flestir flust af efnahagsástæðum. Hvaða vandamál hafa innflytjendur þurft að takast á við í nýja landinu? Finna allir betra líf? Hvernig farnast börnunum þegar foreldri fer burt í leit að betri afkomu? Lestu um það hér á eftir.

INNFLYTJANDI TIL FORNA

Hagfræðingurinn John K. Galbraith skrifaði: „Flutningar milli landa . . . er elsta aðgerðin gegn fátækt.“ Þetta gerði Jakob, forfaðir Ísraelsþjóðarinnar. Hungursneyð ríkti í Kanaanslandi og hann tók sig upp ásamt stórfjölskyldu sinni, um 70 manns, og flutti til Egyptalands. Þar dvöldust þau lengi vel. (1. Mósebók 42:1-5; 45:9-11; 46:26, 27) Jakob lést í Egyptalandi og afkomendur hans bjuggu þar í um 200 ár áður en þeir sneru aftur til Kanaanslands.

Að komast á leiðarenda og koma sér fyrir

Ferðalagið sjálft er oft fyrsta þolraun þeirra sem flytjast til annars lands. George, sem minnst var á í greininni á undan, ferðaðist matarlítill hundruð kílómetra. „Ferðin var alger martröð,“ segir hann. Margir komast jafnvel aldrei á leiðarenda.

Patricia ætlaði til Spánar. Hún ferðaðist á vörubílspalli yfir Saharaeyðimörkina. „Ferðin frá Nígeríu til Alsírs tók viku og 25 manns var troðið upp á pallinn. Á leiðinni ókum við fram á mörg lík og við sáum líka fólk vera á ráfi um eyðimörkina nær dauða en lífi. Sumir vörubílstjórar voru greinilega svo harðbrjósta að þeir skildu fólkið eftir á miðri leið.“

Ólíkt George og Patriciu komst Rachel með flugi til Evrópu þar sem hún var ráðin sem vinnukona. En það hvarflaði ekki að henni hversu mikið hún myndi sakna tveggja ára dóttur sinnar. „Í hvert sinn sem ég sá móður annast barn sitt fékk ég sting í hjartað,“ segir hún.

George átti erfitt með að fóta sig í nýja landinu. Það liðu allmargir mánuðir áður en hann gat sent peninga heim. „Ég grét mig oft í svefn vegna einmanaleika og vonleysiskenndar,“ viðurkennir hann.

Patricia náði að landamærum Marokkó eftir nokkurra mánaða dvöl í Alsír. „Þarna fæddist litla dóttir mín,“ segir hún. „Ég þurfti að fela mig fyrir níðingum sem ræna aðfluttum konum og þvinga þær út í vændi. Loks var ég búin að safna nógu miklum peningum fyrir sjóferðinni til Spánar. Ferðin var áhættusöm því báturinn var illa farinn og hélst varla á floti með þennan fjölda farþega. Við þurftum að ausa vatni úr bátnum með skónum. Þegar við komum að ströndum Spánar var ég svo máttfarin að ég gat ekki gengið upp á þurrt land.“

Að sjálfsögðu þurfa þeir sem íhuga að flytja til annars lands að taka fleira með inn í myndina en ferðina sjálfa og hætturnar sem fylgja henni. Þeir ættu líka að hugsa um að þeir þurfa að aðlagast nýrri menningu og læra nýtt tungumál. Þar að auki getur verið kostnaðarsamt og lagalega flókið að fá ríkisborgararétt eða dvalarleyfi í landinu. Þeir sem láta hjá líða að lögskrá sig eiga oft erfitt með að fá góða vinnu, mannsæmandi húsnæði, menntun eða heilbrigðisþjónustu. Það getur líka verið erfitt fyrir þá að fá bílpróf eða stofna bankareikning. Svo notfæra menn sér allt of oft ólöglega innflytjendur sem ódýrt vinnuafl.

Annað sem þarf að gefa gaum eru peningarnir sjálfir. Hversu mikið öryggi veita þeir okkur? Biblían gefur þessi hollu ráð: „Leitastu ekki við að verða ríkur, hafðu vit á að gera það ekki. Beinir þú augum þínum til auðsins er hann horfinn. Hann á sér vængi sem örn og hverfur til himins.“ (Orðskviðirnir 23:4, 5) Hafðu líka í huga að það er ekki hægt að kaupa það sem við þörfnumst mest – ást, tilfinningalegt öryggi og samhenta fjölskyldu. Það er sorglegt þegar foreldrar leyfa löngun í peninga að verða mikilvægari ástinni og hlýjunni í fjölskyldunni. – 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.

Við mennirnir höfum auk þess andlegar þarfir. (Matteus 4:4) Því leggja ábyrgir foreldrar sig fram um að fræða börnin um Guð, fyrirætlanir hans og kröfur, eins og Guð ætlast til af þeim. – Efesusbréfið 6:4.

„VIÐ VILDUM ÓSKA AÐ ÞAU HEFÐU ALDREI FARIÐ FRÁ OKKUR“

Airen, sem bjó á Filippseyjum, segir frá: „Ég er elst þiggja systra og var níu ára þegar mamma flutti til Evrópu. Hún lofaði okkur betra fæði, betra heimili og betri skólagöngu. Ég man enn þá daginn sem hún fór. Hún faðmaði mig og bað mig um að hugsa vel um systur mínar, Rheu og Shullamite. Ég grét heillengi.

Fjórum árum síðar fór pabbi á eftir mömmu. Ég elti hann hvert sem hann fór á meðan hann var hjá okkur. Þegar hann svo kvaddi ríghéldum við systurnar í hann þangað til hann steig upp í rútuna. Aftur grét ég og var óhuggandi í langan tíma.“

Sullamite, yngsta systirin, segir: „Þegar Airen var níu ára kom hún í staðinn fyrir mömmu. Ég talaði við hana um vandamál mín og hún kenndi mér að þvo fötin mín, búa um rúmið og margt fleira. Þegar mamma og pabbi hringdu reyndi ég stundum að útskýra fyrir þeim hvernig mér liði en ég gat ekki komið orðum að því. Ég er ekki viss um að þau hafi alltaf skilið mig.

Oft var ég spurð að því hvort ég saknaði ekki foreldra minna. ,Jú,‘ svaraði ég. En ef ég á að vera alveg hreinskilin mundi ég varla eftir mömmu. Hún fór í burtu þegar ég var fjögurra ára og ég vandist því að vera án hennar.“

„Þegar ég var sextán ára,“ segir Airen, „áttum við systurnar loksins að sameinast foreldrum okkar. Ég hlakkaði svo mikið til að sjá þau aftur. En þegar við komum þangað uppgötvaði ég að við höfðum fjarlægst hvert annað.“

Rhea bætir við: „Ég sagði engum hvernig mér leið. Ég var feimin og hlédræg og mér fannst erfitt að sýna tilfinningar. Á Filippseyjum bjuggum við hjá frænda okkar en hann og konan hans áttu þrjú börn. Þó að þau sæju um okkur komu þau ekki í staðinn fyrir okkar eigin foreldra.“

Airen segir að lokum: „Okkur leið ekkert illa sem fátækri fjölskyldu. Við vorum aldrei svangar. Okkur leið hins vegar illa þegar foreldrar okkar fluttu í burtu. Fjölskyldan hefur núna verið saman í næstum fimm ár, en árin sem við vorum aðskilin hafa sett mark sitt á okkur. Við vitum að mömmu og pabba þykir vænt um okkur en við vildum óska að þau hefðu aldrei farið frá okkur.“

Fjölskyldan – mikilvægari en peningar

Sögur innflytjenda eru ólíkar en hafa þó margar hverjar sameiginlegan þráð, eins og sjá má af sögu George, Rachel og Patriciu sem minnst var á fyrr í þessari greinasyrpu. Fjölskyldan líður fyrir það þegar foreldri flytur í burtu eða hjón eru aðskilin og mörg ár líða áður en fjölskyldan sameinast á ný. George og fjölskylda hans voru aðskilin í meira en fjögur ár.

Rachel flaug aftur til Filippseyja til að sækja dóttur sína eftir að þær höfðu verið aðskildar í næstum fimm ár. Patricia náði til Spánar með litlu dóttur sína í fanginu. „Hún er sú eina sem ég á að og ég reyni því að hugsa vel um hana,“ segir Patricia.

Margir innflytjendur þrauka í nýja landinu þrátt fyrir einmanaleika, fjárhagserfiðleika og langan aðskilnað frá fjölskyldunni. Þeir hafa lagt svo mikið á sig til að flytja að þegar hlutirnir ganga ekki upp hafa fáir kjark í sér til að játa sig sigraða og snúa heim þar sem þeir mega búast við skömm og smán.

Allan, sem er frá Filippseyjum, hafði kjark til þess að snúa heim. Hann fékk góða vinnu á Spáni en 18 mánuðum síðar sneri hann heim til fjölskyldunnar. „Ég saknaði konu minnar og dóttur sárlega,“ segir hann. „Ég var staðráðinn í að flytja aldrei aftur vegna vinnunnar nema fjölskyldan gæti flust með mér. Og það gerðum við síðar. Fjölskyldan er mun mikilvægari en peningar.“

Patricia komst að raun um að það er fleira sem er mikilvægara en peningar. Hún kom til Spánar með Nýja testamentið á sér. „Ég taldi bókina vera verndargrip,“ segir hún. „Síðar hitti ég konu sem var vottur Jehóva. Ég hafði aldrei haft áhuga á að tala við þetta fólk svo ég lét rigna yfir hana spurningum til að reyna að afsanna trú hennar. En það kom mér á óvart að hún var fær um að verja trú sína og svara spurningum mínum beint frá Biblíunni.“

Patricia áttaði sig á að varanleg hamingja og örugg framtíðarvon er ekki háð búsetu eða efnahag heldur því að þekkja Guð og fyrirætlun hans með okkur. (Jóhannes 17:3) Eitt af því sem hún lærði er að Guð heitir Jehóva. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Hún las líka í Biblíunni að Guð muni bráðlega útrýma fátækt fyrir atbeina ríkis síns í höndum Jesú Krists. (Daníel 7:13, 14) „Hann [Jesús] bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá því að blóð þeirra er dýrmætt í augum hans,“ segir í Sálmi 72:12, 14.

Hvernig væri að taka frá tíma til að rannsaka Biblíuna? Hún hefur að geyma visku frá Guði og getur hjálpað okkur að forgangsraða rétt, taka viturlegar ákvarðanir og þola yfirstandandi erfiðleika með gleði og von. – Orðskviðirnir 2:6-9, 20, 21.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila