Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g16 Nr. 6 bls. 12-13
  • Trúðfiskurinn furðulegi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Trúðfiskurinn furðulegi
  • Vaknið! – 2016
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „ÉG GET EKKI LIFAÐ ÁN ÞÍN“
  • HANN HEFUR ROÐ Í AÐ SYNDA ÞAR SEM AÐRIR SYNDA EKKI
  • Efnisyfirlit
    Vaknið! – 2016
  • Fiskeldi „búpeningur“ sjávarins
    Vaknið! – 1995
  • Páfafiskurinn – sandgerðarvél?
    Vaknið! – 2015
  • Hvað merkja netið og fiskurinn fyrir þig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Vaknið! – 2016
g16 Nr. 6 bls. 12-13

Trúðfiskurinn furðulegi

Trúðfiskur

Trúðfiskur

FÁIR fiskar fanga athygli okkar jafn vel og trúðfiskurinn. Skærir litirnir heilla marga. Hann minnir helst á trúð í fjölleikahúsi. Einkennilegt val hans á heimili gæti einnig vakið athygli okkar, en hann býr um sig meðal eitraðra arma sæfífilsins.

Trúðfiskar láta ekki ljósmyndara trufla sig. Þeir eru ófeimnir og fara auk þess sjaldnast langt að heiman. Þeir sem kafa eða snorkla fá því oft gott tækifæri til að ná góðum myndum þar sem trúðfiskurinn „stillir sér upp“ eins og kvikmyndastjarna.

En það furðulegasta við trúðfiskinn er áhættan sem hann virðist setja sig í. Að búa með eitraða arma allt í kring virðist jafn viturlegt og að gera sér heimili í miðri holu höggorms. En trúðfiskurinn og sæfífillinn eru óaðskiljanlegir. Hvað gerir þetta sérkennilega samband mögulegt og meira að segja farsælt?

„ÉG GET EKKI LIFAÐ ÁN ÞÍN“

Beltatrúður

Beltatrúður

Gott samband byggist á því að gefa og þiggja en þannig er sambandi trúðfisksins og sæfífilsins háttað. Sambandið er nauðsynlegt fyrir trúðfiskinn, ekki aðeins hentugt. Sjávarlíffræðingar hafa komist að því að trúðfiskurinn kæmist ekki af úti í náttúrunni án sæfífilsins. Hann er ekki mikill sundkappi og yrði auðveld bráð fyrir hungraða ránfiska ef hann ætti ekki öruggt skjól í örmum sæfífilsins. En trúðfiskurinn getur náð allt að tíu ára aldri með því að nota sæfífilinn sem bækistöð og öruggt skjól þegar honum er ógnað.

Sæfífillinn er gott og öruggt heimili fyrir trúðfiskinn og þar finnur hann skjól fyrir hrognin. Trúðfiskurinn hrygnir við rætur sæfífilsins og foreldrarnir passa báðir vel upp á hrognin. Síðar má sjá fjölskylduna synda saman í nálægð við sæfífilinn.

Hvað fær sæfífillinn út úr sambandinu? Trúðfiskurinn er nokkurs konar neðansjávarlífvörður. Hann rekur burt fiðrildisfiska sem sækja í sæfífilsarmana. Að minnsta kosti ein tegund sæfífla getur ekki lifað án trúðfisksins. Þegar vísindamenn prófuðu að fjarlægja trúðfiskana hurfu sæfíflarnir á innan við sólarhring. Fiðrildisfiskarnir átu þá upp til agna.

Trúðfiskurinn veitir leigusala sínum orku. Hann gefur frá sér ammóníum sem eykur vöxt sæfífilsins. Og þegar hann syndir á milli armanna heldur hann sjónum á hreyfingu og eykur þannig súrefnisupptöku sæfífilsins.

HANN HEFUR ROÐ Í AÐ SYNDA ÞAR SEM AÐRIR SYNDA EKKI

Hvítbakur

Hvítbakur

Vörn trúðfiskins ristir ekki djúpt. Slor utan á fiskinum ver hann fyrir því að vera stunginn. Vegna þessarar slímhúðar á roðinu lítur sæfífillinn á trúðfiskinn sem ættingja. Einn sjávarlíffræðingur kallar trúðfiskinn „fisk í sæfífilsbúningi“.

Rannsóknir benda til þess að trúðfiskurinn þurfi að fara í gegnum aðlögunarferli þegar hann velur sér sæfífil. Fyrstu kynni fisksins og sæfífilsins fara þannig fram að hann byrjar á að snerta sæfífilinn af og til í nokkra klukkutíma. Þetta virðist gera fiskinum kleift að aðlagast eitri sæfífilsins. Vel má vera að sæfífillinn stingi fiskinn örlítið meðan á þessu ferli stendur en síðan verða þeir mestu mátar.

Samvinna þessara ólíku dýrategunda kennir okkur margt um samvinnu. Fólk af ólíkum uppruna hefur náð frábærum árangri við ýmis verkefni með því að sameina krafta sína og reynslu. Líkt og trúðfiskurinn gætum við þurft smá aðlögunartíma þegar við byrjum að vinna með einhverjum nýjum. En árangurinn er erfiðisins virði.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila