Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g17 Nr. 3 bls. 8-9
  • Húsverk eru mikilvæg

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Húsverk eru mikilvæg
  • Vaknið! – 2017
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • VANDINN
  • GOTT ER AÐ VITA
  • HVAÐ ER TIL RÁÐA?
  • Kenndu barninu að bera ábyrgð
    Vaknið! – 2019
  • Kenndu barninu þínu þrautseigju
    Góð ráð handa fjölskyldunni
  • Þú getur náð tökum á streitu
    Vaknið! – 2005
  • Kenndu barninu hógværð
    Vaknið! – 2019
Sjá meira
Vaknið! – 2017
g17 Nr. 3 bls. 8-9
Lítill drengur týnir saman dótið sitt en pabbi hans málar eldhúsið.

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Húsverk eru mikilvæg

VANDINN

Í sumum fjölskyldum er ætlast til þess að börnin hjálpi til á heimilinu og þau gera það möglunarlaust. Í öðrum fjölskyldum hafa foreldrar dregið úr kröfum til barnanna og börnin hafa ekkert á móti því að gera minna.

Rannsóknir sýna að börn eru frekar í hlutverki neytenda en þátttakenda og þá sérstaklega á Vesturlöndum. „Nú á dögum eru börn látin afskiptalaus við að spila tölvuleiki, vafra um á Netinu og horfa á sjónvarp,“ segir faðir að nafni Steven. „Nánast engar kröfur eru gerðar til þeirra.“

Hvað finnst þér? Eru húsverkin mikilvæg – ekki bara til að halda heimilinu við heldur einnig fyrir þroska barnanna?

GOTT ER AÐ VITA

Sumir foreldrar færast undan því að fela börnunum húsverk, sérstaklega ef þau nota mikinn tíma í heimalærdóm og annað utan skólatíma. Hugsaðu samt um gagnið af því að gefa þeim verkefni.

Húsverk eru þroskandi fyrir börnin. Börn sem hjálpa til á heimilinu eru líklegri til að standa sig vel í skóla og það er engin furða. Þegar barnið vinnur húsverk byggir það upp sjálfstraust, sjálfsaga og sterkan persónuleika. Þetta eru allt nauðsynlegir eiginleikar fyrir nemendur.

Með húsverkum læra börnin að þjóna öðrum. Sumir hafa veitt því athygli að ef ætlast er til af börnum að þau vinni húsverk séu þau líklegri til að taka seinna meir að sér vinnu sem krefst þjónustulundar. Það kemur varla á óvart þar sem húsverk kenna þeim að taka þarfir annarra fram yfir sínar eigin. Steven, sem áður er vitnað í, segir hins vegar: „Þegar einskis er ætlast til af þeim, læra börn að þau eigi að fá þjónustu og þau alast upp með brenglaða hugmynd um hvaða kröfur verði gerðar til þeirra um ábyrgð og vinnusemi þegar þau verða fullorðin.“

Húsverkin stuðla að samheldni innan fjölskyldunnar. Börn skilja að þau eru mikils metin og að þau bera ábyrgð gagnvart fjölskyldunni þegar þau leggja sitt af mörkum heima fyrir. Það er kennsla sem þau geta farið á mis við ef foreldrarnir leyfa öllu öðru sem börnin gera utan skólatíma að hafa forgang. Spyrðu þig hvaða gagn sé af því að barnið þitt byggi upp sterk tengsl við fótboltaliðið en missi tengslin við fjölskylduna.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Byrjaðu snemma. Sumir segja að foreldrar ættu að byrja að fela börnunum verkefni þegar þau eru þriggja ára. Aðrir mæla með að byrja þegar þau eru tveggja ára eða jafnvel yngri. Kjarni málsins er sá að mjög ung börn njóta þess að vinna við hlið foreldra sinna og líkja eftir þeim. – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 22:6.

Gefðu barninu verkefni sem hæfa aldri þess. Til dæmis gæti þriggja ára barn tekið saman leikföng, þurrkað upp þegar hellist niður eða flokkað þvott. Eldri börn geta ryksugað, þrifið bílinn og jafnvel útbúið mat. Gefðu börnunum verkefni eftir getu þeirra. Það gæti komið þér á óvart hversu mikinn áhuga þau sýna verkefnunum.

Láttu húsverkin ganga fyrir. Það getur verið hægara sagt en gert þegar barnið er með mikla heimavinnu á hverjum degi. En að sleppa því að fela þeim húsverk til að þau fái hærri einkunnir „er merki um ranga forgangsröðun,“ segir í bókinni The Price of Privilege. Eins og fram hefur komið eru börn sem taka þátt í húsverkum líklegri til að standa sig vel í skóla. Og það sem þau læra af því að vinna húsverk býr þau undir þann tíma þegar þau eignast fjölskyldu sjálf. – Ráðlegging Biblíunnar: Filippíbréfið 1:10.

Hafðu meginmarkmiðið í huga. Stilltu þig um að taka fram fyrir hendurnar á barninu þó að það sé kannski lengur að klára verkið en þú vildir eða geri það ekki eins vel og mögulegt er. Markmiðið er ekki að verkið sé unnið eins og fullorðnir myndu gera það heldur að barnið læri að axla ábyrgð og fái að kynnast gleðinni sem hægt er að hafa af vinnu. – Ráðlegging Biblíunnar: Prédikarinn 3:22.

Umbunaðu barninu á réttan hátt. Sumir segja að það að borga börnum fyrir að vinna húsverk kenni þeim að axla ábyrgð. Aðrir segja að það láti börnin hugsa meira um hvað þau geti fengið frá fjölskyldunni en hvað þau geti gefið. Þeir vara líka við því að barn gæti neitað að vinna verkið ef það á nóg af peningum, sem væri merki þess að kennslan hefur misst marks. Ef barnið fær vasapening væri betra ef það tengdist ekki húsverkum.

LYKILVERS

  • „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ – Orðskviðirnir 22:6.

  • „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ – Filippíbréfið 1:10.

  • „Ekkert er betra en að maðurinn gleðji sig við verk sín.“ – Prédikarinn 3:22.

Steven og Stephanie.

„Að taka þátt í húsverkum lætur okkur finnast við gefa af okkur í þágu fjölskyldunnar. Þegar við fjölskyldan höfum átt tiltektardag – annaðhvort í garðinum eða innanhúss – styrkjast fjölskylduböndin. Allir hjálpuðust að og það veitir ánægju.“ – Steven.

„Við höfum falið dætrum okkar verkefni frá því að þær voru litlar og það hefur hjálpað þeim að takast á við ýmislegt í lífinu. Við reynum að kenna þeim að fjölskyldan sé teymi sem vinnur saman. Þegar við hjónin vinnum heimilisstörfin með jákvæðu hugarfari hjálpum við dætrum okkar að gera það líka.“ – Stephanie.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila