Sýndu samúð
Vandinn
Ef við hugsum of mikið um hve ólíkir aðrir eru okkur gætum við farið að líta á mismuninn sem galla. Við værum þá farin að líta niður á þá sem eru ólíkir okkur. Og þegar við höfum neikvætt viðhorf til annarra eigum við erfitt með að sýna þeim samúð. Að geta ekki sýnt samúð getur verið merki um annað og alvarlegra vandamál – að við séum með fordóma.
Meginregla
„Gleðjist með þeim sem gleðjast. Grátið með þeim sem gráta.“ – RÓMVERJABRÉFIÐ 12:15.
Hvað merkir það? Þessa meginreglu má skýra í tveim orðum – sýndu samúð. Samúð er að geta sett sig í spor annarra og fundið til með þeim.
Hvernig er það til góðs að sýna samúð?
Þegar við setjum okkur í spor einhvers gerum við okkur grein fyrir hve lík við erum honum. Við komumst kannski að því að honum líður svipað og okkur og að hann bregst við á svipaðan hátt og við. Samúð hjálpar okkur að skilja að við erum öll svipuð hver sem bakgrunnur okkar er. Það eru minni líkur á að við hugsum neikvætt um aðra ef við einblínum á það hve lík við erum.
Samúð auðveldar okkur líka að virða aðra. Anne-Marie frá Senegal leit áður niður á fólk af svokölluðum lægri stéttum. Hún útskýrir hvernig það hjálpaði henni að setja sig í spor annarra: „Þegar ég sá hvað þeir sem tilheyrðu lægri stéttunum þjáðust mikið hugsaði ég hvernig mér myndi líða í þeirra sporum. Það fékk mig til að hugleiða hvaða rétt ég hefði til að tilheyra stétt sem var álitin æðri. Ég hafði hvorki valið mér hana né unnið fyrir henni.“ Ef við leitumst við að skilja baráttu annarra er líklegra að við sýnum þeim samúð frekar en að gagnrýna þá.
Það sem þú getur gert
Ef þú lítur neikvætt á ákveðinn hóp skaltu reyna að koma auga á hvað þú og þeir sem tilheyra þessum hópi eigið sameiginlegt. Reyndu til dæmis að sjá fyrir þér hvernig þeim líður þegar þeir ...
Samúð hjálpar okkur að skilja að við erum öll svipuð.
borða með fjölskyldunni.
ljúka við langan vinnudag.
verja tíma með vinum sínum.
hlusta á uppáhaldstónlistina sína.
Síðan skaltu ímynda þér að þú værir í þeirra sporum. Spyrðu þig:
Hvernig myndi ég bregðast við ef einhver léti mér líða eins og ég væri einskis virði?
Hvernig liði mér ef aðrir dæmdu mig án þess að kynnast mér?
Hvernig myndi ég vilja að aðrir kæmu fram við mig ef ég tilheyrði þessum hópi?