Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ht þjálfunarliður 20 bls. 4-12
  • Uppbyggjandi ráðleggingar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Uppbyggjandi ráðleggingar
  • Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Svipað efni
  • Leiðbeiningar til umsjónarmanna skólans
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Boðunarskólinn menntar okkur í því sem mestu máli skiptir
    Ríkisþjónusta okkar – 2002
  • Að undirbúa nemendaverkefni fyrir skólann
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
ht þjálfunarliður 20 bls. 4-12

1. námskafli

Uppbyggjandi ráðleggingar

1 Tilbiðjendur hins sanna Guðs hafa aldrei hikað við að leita leiðsagnar hans á öllum vegum sínum. Einn af sálmariturum Biblíunnar skrifaði með sannfæringu: „Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni.“ (Sálmur 73:24) Og Jeremía komst svo að orði í innilegri bæn: „Þér er enginn hlutur um megn! . . . þú mikli, voldugi Guð, er nefnist [Jehóva] allsherjar, mikill í ráðum og máttugur í athöfnum.“ — Jeremía 32:17-19.

2 Nú á dögum notar Jehóva ritað orð sitt og skipulag sannra þjóna sinna til að leiðbeina tilbiðjendum sínum. Þeir sem skrá sig í Guðveldisskólann gera sér því fljótlega ljóst að þær ráðleggingar, sem þeir fá, og andinn að baki þeim byggist á heilnæmum frumreglum Biblíunnar.

3 Markvissar ráðleggingar. Nemendum og umsjónarmanni skólans er látið í té ráðleggingakort sér til stuðnings. Þar eru tilgreind 36 þjálfunarstig sem hjálpa nemendum að þjálfa sig í að kynna sannleikann á áhrifaríkan hátt. Gagnlegar upplýsingar um hvert stig eru teknar saman í kafla 2 til 18 í þessum bæklingi og vísað í viðeigandi námskaflanúmer á ráðleggingakortinu. Kaflarnir eru gerðir til að nota með ráðleggingakortinu. Í flestum tilvikum er fjallað um tvö eða þrjú skyld þjálfunarstig í sama kafla sem gott er að vinna að samtímis.

4 Gagnlegt væri fyrir nýskráða nemendur skólans að undirbúa sig vel og hafa í huga þau þjálfunarstig sem talin eru upp á ráðleggingakortinu. Þegar nemandi flytur fyrstu ræðu sína í Guðveldisskólanum mun skólahirðirinn (eða annar leiðbeinandi ef margir eru skráðir í skólann) eingöngu hrósa honum fyrir það sem hann gerði vel. Eftir það einbeitir leiðbeinandinn sér að þeim þjálfunarstigum sem helst þarf að sinna til að nemandinn geti bætt sig, og hann felur nemandanum sérstaklega að æfa viðkomandi lið í tengslum við næstu ræðu sína. Leiðbeinandinn lætur nemandann vita hvenær hann sé fær um að snúa sér að næsta lið á ráðleggingakortinu.

5 Sumir nemendur geta tekið hröðum framförum. Aðrir þurfa að einbeita sér að einum lið í einu frekar en að reyna að taka öll þjálfunarstig hvers kafla fyrir samtímis. Reyndar má ráðleggja sumum nemendum að vinna að einu, erfiðu þjálfunarstigi nokkrar ræður í röð, þannig að þeir nái góðum tökum á því áður en þeir snúa sér að því næsta.

6 Eftir hverja nemandaræðu ætti að leiðbeina nemanda vingjarnlega. Leiðbeiningarnar ættu að vera til þess fallnar að hjálpa nemandanum að bæta ræðumennsku sína jafnt og þétt. Þurfi sá sem flytur kennsluræðuna eða höfuðþætti biblíulesefnisins að fá tilsögn skal í öllum tilvikum veita hana einslega að skólanum loknum. Það þarf sérstaklega að leiðbeina honum ef hann fer yfir tilsettan tíma. Sá sem flytur kennsluræðuna ætti að leggja sig allan fram um að flytja ræðu sem er til fyrirmyndar í öllum greinum og þá þarf ekki að segja honum til einslega.

7 Yfirleitt fær nemandinn tilsögn um þjálfunarstig sem honum hefur fyrirfram verið ráðlagt að vinna að. En ef einhver annar þáttur ræðumennskunnar tekst sérstaklega vel getur leiðbeinandinn vissulega hrósað fyrir það þótt hann merki ekki við það á ráðleggingakortinu. Nota skal eftirtaldar merkingar: „Æ“ (æfðu) þegar gagnlegt væri að æfa viðkomandi þjálfunarstig betur; „F“ (framför) þegar nemandi hefur unnið að þessum þjálfunarlið að minnsta kosti einu sinni áður og sýnir framför en hefði gott af því að vinna að honum einu sinni enn; „G“ (gott) þegar nemandinn skilar þeim þjálfunarstigum, sem honum bar að æfa, nægilega vel af sér til að hann geti snúið sér að öðrum eiginleikum góðrar ræðumennsku næst þegar hann er með verkefni í skólanum. Þegar nemandi flytur upplestrarverkefni veitir leiðbeinandinn tilsögn sem best hæfir þess konar verkefni.

8 Til að ráðleggingarnar skili sem bestum árangri þarf skólahirðirinn að sýna góða dómgreind. Nýr nemandi þarfnast umfram allt hvatningar. Hæfni annarra nemenda er kannski takmörkuð þótt þeir hafi sótt skólann lengur, unnið ræður sínar af kostgæfni og verið vakandi fyrir þeim þáttum góðrar ræðumennsku sem þeir eiga að vinna að hverju sinni. Í slíkum tilvikum merkir skólahirðirinn „G“ á ráðleggingakortið, þó svo að framfarirnar á viðkomandi þjálfunarstigi séu takmarkaðar. Nemandinn getur þá snúið sér að næsta eiginleika sem gefa þarf gaum að.

9 Annar ræðumaður gæti haft meiri reynslu eða meðfædda hæfileika, en sökum vinnuálags hefur hann kannski ekki gefið sér tíma til að lesa sér til um þá þætti góðrar ræðumennsku sem hann átti að vinna að. Honum tekst því ekki eins vel upp og skyldi. Í slíku tilviki tálmaði það framförum nemandans ef leiðbeinandinn merkti „G“ á ráðleggingakortið og segði honum að snúa sér að einhverju öðru. Ef ræðuefnið var þess eðlis að nemandinn hefði getað sýnt þann eiginleika sem hann átti að vinna að merkir leiðbeinandinn „Æ“ (æfðu) og býður nemandanum persónulega aðstoð til að hjálpa honum að taka framförum. Þannig fá nemendur hvatningu til að láta hverja ræðu vera framfaraskref í ræðumennsku en ekki bara úrlausn verkefnis.

10 Hafðu hugfast að um er að ræða markvissa, stígandi þjálfun. Þú getur ekki búist við að verða góður ræðumaður á einni nóttu. Þjálfun í ræðumennsku tekur sinn tíma en það er hægt að hraða henni með iðni og ástundun. Ef þú íhugar tillögur þessa ræðuþjálfunarkerfis og leggur þig allan fram við undirbúning verkefna þinna, þá verður framför þín fljótlega öllum augljós. — 1. Tím. 4:15

11 Leiðbeinandinn. Skólahirðirinn ætti að kynna sér vandlega námsefni hverrar viku þannig að hann geti dæmt um hvort nægilega vel sé unnið úr úthlutuðu efni og geti leiðrétt hverja þá ónákvæmni sem fram kemur. Hann ætti þó aldrei að vera svo gagnrýninn á framsetningu og flutning efnisins að hann njóti þess ekki að hlusta á ræðurnar. Hann ætti einnig að hafa gagn af þeim góðu sannleiksorðum sem sögð eru.

12 Leiðbeinandinn byrjar yfirleitt á því að hrósa nemandanum fyrir viðleitni sína. Því næst ræðir hann um þann lið ráðleggingakortsins sem nemandinn er að æfa. Ef nemandinn þarf að vinna áfram að einhverjum þjálfunarlið ætti ekki að leggja mikla áherslu á veikleika ræðumannsins heldur hvernig hann geti bætt sig. Þá verða ráðleggingarnar uppbyggjandi fyrir ræðumanninn og áheyrendur.

13 Það er ekki nóg að segja ræðumanni að hann hafi staðið sig vel eða að hann þurfi að vinna áfram að tilteknum eiginleika góðrar ræðumennsku. Það er gagnlegt fyrir alla viðstadda ef leiðbeinandinn útskýrir hvers vegna nemandinn hafi staðið sig vel eða hvers vegna hann þurfi að bæta sig og hvernig hann geti gert það. Auk þess væri gagnlegt að benda á hvers vegna þessi ákveðni ræðueiginleiki sé nauðsynlegur í boðunarstarfinu eða á safnaðarsamkomum. Það brýnir fyrir öllum söfnuðinum hvers vegna þessi ræðueiginleiki er mikilvægur og hvetur nemandann til að vera ávallt vakandi fyrir honum.

14 Leiðbeinandinn á ekki að rifja upp ræðu nemandans. Ráðleggingar hans ættu að vera stuttar og hnitmiðaðar og hann ætti að gæta þess að eyða ekki nema tveim mínútum í hverja nemendaræðu. Þá týnast ekki ráðleggingar hans og tillögur í orðaflaumi. Enn fremur er við hæfi að benda nemandanum á hvar í bókinni hann geti fundið nánari upplýsingar um það efni sem er til umfjöllunar.

15 Ekki er ástæða til að eltast við smávægilegar framburðar- eða málfræðivillur. Miklu fremur ætti leiðbeinandinn að gefa gaum að því hvaða áhrif framsetning og flutningur hefur þegar á heildina er litið. Er efnið innihaldsríkt og fræðandi? Er það skipulega sett fram og auðskilið? Er flutningur einlægur, alvarlegur og sannfærandi? Sýna svipbrigði ræðumannsins og tilburðir að hann trúi sjálfur því sem hann segir og að honum sé meira í mun að þessi góðu sannindi nái til áheyrenda hans en að hann sjálfur komi vel fyrir sjónir? Ef þetta kemst vel til skila taka áheyrendur varla eftir fáeinum málfræði- og framburðarvillum.

16 Leiðbeinandi Guðveldisskólans ætti alltaf að vera vingjarnlegur og hjálpsamur í ráðleggingum sínum. Hann ætti að hafa sterka löngun til að hjálpa nemandanum. Hugleiddu persónuleika þess sem þú ert að leiðbeina. Er hann viðkvæmur? Hefur hann litla menntun? Er ástæða til að taka tillit til veikleika hans? Ráðleggingar ættu að vera þannig að þeim sem ráðin fær finnist að verið sé að hjálpa sér en ekki gagnrýna. Gættu þess að hann skilji ráðleggingarnar og finnist þær sanngjarnar.

17 Hafðu gagn af ráðleggingunum. Þegar þú færð verkefni í Guðveldisskólanum skaltu hafa hugfast að tilgangurinn er ekki aðeins sá að koma fræðandi efni á framfæri við söfnuðinn heldur einnig að bæta ræðumennsku þína. Til að ná árangri á þessu sviði er mikilvægt að taka sér tíma til að brjóta til mergjar þá eiginleika góðrar ræðumennsku sem þú hefur verið beðinn um að vinna að. Lestu vandlega þann námskafla bókarinnar sem fjallar um viðkomandi þjálfunarstig, þannig að þú vitir hvaða áhrif það eigi að hafa á undirbúninginn og hvernig þú getir sýnt þennan eiginleika þegar þú flytur ræðuna. Þér til hjálpar eru lykilatriði hvers ræðueiginleika feitletruð í bókinni. Þetta eru meginatriðin sem hafa þarf í huga.

18 Hlustaðu vel á ráðleggingarnar sem þér eru gefnar eftir að þú hefur flutt ræðuna. Taktu þakklátur við þeim. Síðan skaltu vinna að því sem þú þarft að sinna. Bíddu ekki eftir næstu ræðu ef þú vilt flýta framförum þínum. Farðu yfir það efni bókarinnar þar sem fjallað er um þau þjálfunarstig sem þú þarft að vinna að. Leggðu þig fram um að fylgja tillögunum í daglegum samræðum. Þegar kemur að þér með næstu nemendaræðu má vera að þú hafir náð tökum á þeim.

19 Sérhver nemandi ætti að stefna að framförum í hvert sinn sem hann flytur ræðu í skólanum. Að vísu kostar það stöðuga viðleitni en það hefur vissulega blessun Jehóva í för með sér. Þeir sem vilja hafa sem mest gagn af þjálfun Guðveldisskólans ættu að gefa gaum að sérstakri merkingu Orðskviðanna 19:20: „Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis.“

[Spurningar]

1, 2. Hvers vegna sækjumst við eftir ráðleggingum og á hvaða hátt fáum við þær?

3-5. Útskýrðu hvernig ráðleggingakortið og efnið í kafla 2 til 18 eiga saman.

6, 7. Hvað gefur skólahirðirinn leiðbeiningar um?

8-10. Hvað ætti skólahirðirinn að hafa í huga þegar hann merkir á ráðleggingakortið svo að það hvetji til framfara?

11-16. Hvaða viðmiðunarreglur styðst skólahirðirinn við til að veita uppbyggjandi ráðleggingar?

17-19. Hvað ætti nemandinn að gera áður en hann semur ræðu og eftir að hafa flutt hana til að taka sem mestum framförum með hverri ræðu?

[Kort á blaðsíðu 8, 9]

RÆÐURÁÐLEGGINGAR

Ræðumaður ․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

(Fullt nafn)

Merki:

Æ - Æfðu

F - Framför

G - Gott

Dags. Ræða nr.

Fræðandi efni (2)*

Skýrt og greinilegt (2)

Inngangur vekur áhuga (3)

Inngangur á við stefið (3)

Inngangur hæfilega langur (3)

Raddstyrkur (4)

Þagnir (4)

Áheyrendur hvattir til að nota Biblíuna (5)

Ritningarstaðir vel kynntir (5)

Ritningarstaðir lesnir með áherslu (6)

Ritningarstaðir heimfærðir skýrt (6)

Endurtekningar í áhersluskyni (7)

Tilburðir (7)

Áhersla á ræðustefið (8)

Aðalatriðin dregin fram (8)

Samband við áheyrendur, minnisblöð (9)

Notkun á minnispunktum (9)

Athugasemdir:․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․․

* Tölurnar innan sviga vísa til þess kafla í Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni sem fjallar um viðkomandi þátt góðrar ræðumennsku.

S-48-IC Printed in Germany

Dags. Ræða nr.

Málfimi (10)

Samtalsform (10)

Framburður (10)

Samhengi með tengiorðum (11)

Rökvís, samfelld úrvinnsla (11)

Sannfærandi rökfærsla (12)

Áheyrendum hjálpað að álykta (12)

Merkingaráherslur (13)

Raddbrigði (13)

Eldmóður (14)

Hlýja, samkennd (14)

Líkingar eiga við efnið (15)

Líkingar eiga við áheyrendur (15)

Efnið aðlagað boðunarstarfinu (16)

Niðurlag viðeigandi, áhrifaríkt (17)

Niðurlag hæfilega langt (17)

Ræðutími (17)

Öryggi, jafnvægi (18)

Útlit (18)

ATHUGIÐ: Leiðbeinandinn gefur nemanda markviss ráð eftir hverja ræðu. Hann þarf ekki að fylgja röðinni hér að ofan heldur einbeitir hann sér að þeim þjálfunarstigum þar sem nemandinn þarf að bæta sig. Nota má auðu línurnar á ráðleggingakortinu til að leiðbeina nemanda eftir þörfum um atriði sem eru ekki talin upp hér að ofan, svo sem nákvæmni, hljóðmyndun, framkomu, orðaval, málfræði, tilgerð, gildi efnis, kennslutækni og raddgæði. Þegar nemandi er búinn að vinna nægilega að einu atriði skal leiðbeinandinn merkja við það atriði sem hann á að æfa næst, með því að gera hring um viðkomandi reit. Númer viðkomandi námskafla skal koma fram á næsta verkefnablaði Guðveldisskólans (S-89) sem nemandinn fær.

[Kort á blaðsíðu 10, 11]

YFIRLIT YFIR ÞJÁLFUNARSTIG

Fræðandi efni (2)

Hnitmiðað efni

Fræðandi fyrir áheyrendur

Hagnýtt gildi efnisins

Nákvæmar fullyrðingar

Ítarefni til skýringar

Skýrt og greinilegt (2)

Einfalt orðalag

Framandi hugtök útskýrð

Ekki of mikið efni

Inngangur vekur áhuga (3)

Inngangur á við stefið (3)

Inngangur hæfilega langur (3)

Raddstyrkur (4)

Nægur til að heyrast vel

Hæfilegur raddstyrkur miðað við aðstæður

Raddstyrkur hæfir efninu

Þagnir (4)

Þagnir við greinarmerki

Málhvíld við efnisskil

Áhersluþagnir

Þagnir þegar aðstæður útheimta

Áheyrendur hvattir til að nota Biblíuna (5)

Með hvatningu

Með því að gefa tíma til að finna ritningarstaðinn

Ritningarstaðir vel kynntir (5)

Eftirvænting vakin eftir ritningarstöðum

Athygli beint að ástæðunni fyrir notkun ritningarstaðar

Ritningarstaðir lesnir með áherslu (6)

Áhersla á rétt orð

Árangursríkar áhersluaðferðir

Þegar húsráðandi les ritningarstaði

Ritningarstaðir heimfærðir skýrt (6)

Orð afmörkuð sem á að heimfæra

Kynningaratriði útskýrð

Endurtekningar í áhersluskyni (7)

Endurtekning aðalatriða

Endurtekning efnis sem ekki skildist

Tilburðir (7)

Lýsandi tilburðir

Áherslutilburðir

Áhersla á ræðustefið (8)

Viðeigandi stef

Að endurtaka lykilorð eða hugmynd stefsins

Aðalatriðin dregin fram (8)

Ekki of mörg aðalatriði

Unnið úr hverju aðalatriði fyrir sig

Annað efni styður aðalatriðin

Samband við áheyrendur, minnisblöð (9)

Augnasamband við áheyrendur

Samband við áheyrendur með beinu ávarpi

Notkun á minnispunktum (9)

Málfimi (10)

Samtalsform (10)

Talmálsorð notuð

Eðlilegt hljómfall

Framburður (10)

Samhengi með tengiorðum (11)

Tengiorð

Samhengi við hæfi áheyrenda

Rökvís, samfelld úrvinnsla (11)

Rökrétt efnisröðun

Ekkert óviðkomandi efni

Engum meginhugmyndum sleppt

Sannfærandi rökfærsla (12)

Grundvöllur lagður

Gildar sannanir lagðar fram

Áhrifaríkt ágrip

Áheyrendum hjálpað að álykta (12)

Sameiginlegur grundvöllur

Málin útskýrð nægilega

Sýndu fram á hagnýtt gildi efnisins

Merkingaráherslur (13)

Áhersla á aðalorð setningarinnar

Áhersla á aðalhugmyndir ræðunnar

Raddbrigði (13)

Breytilegur raddstyrkur

Breytilegur hraði

Breytileg tónhæð

Raddbrigði eftir efni eða tilfinningu

Eldmóður (14)

Eldmóður birtist í líflegum flutningi

Eldmóður hæfir efninu

Hlýja, samkennd (14)

Hlýja í svipbrigðum

Hlýja og samkennd í raddblæ

Hlýja og samkennd hæfa efninu

Líkingar eiga við efnið (15)

Einfaldar

Heimfærslan útskýrð

Áhersla á mikilvæg atriði

Líkingar eiga við áheyrendur (15)

Sóttar í þekktar aðstæður

Smekklega valdar

Efnið aðlagað boðunarstarfinu (16)

Orðaval skiljanlegt almenningi

Viðeigandi efni valið

Áhersla á hagnýtt gildi efnisins

Niðurlag viðeigandi, áhrifaríkt (17)

Niðurlag í beinum tengslum við ræðustefið

Niðurlagið bendir áheyrendum á hvað þeir eigi að gera

Niðurlag hæfilega langt (17)

Ræðutími (17)

Öryggi, jafnvægi (18)

Jafnvægi birtist í limaburði

Öryggi og jafnvægi heyrist á raddbeitingu

Útlit (18)

Viðeigandi klæðnaður og snyrting

Réttar stellingar

Snyrtilegur búnaður

Engin óviðeigandi svipbrigði

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila