Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 33-bls. 38 gr. 4
  • Rannsóknir og efnisleit

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Rannsóknir og efnisleit
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Helsta hjálpargagnið — Biblían
  • Lærðu að nota önnur hjálpargögn
  • Safnaðu öðrum guðræðisritum
  • Viðaðu að þér öðrum gögnum
  • Ræddu við fólk
  • Leggðu mat á afraksturinn
  • Nýtt hjálpargagn við efnisleit
    Ríkisþjónusta okkar – 2014
  • Hvernig getum við nýtt okkur bókasafn ríkissalarins?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Hvernig veitirðu ráð?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 33-bls. 38 gr. 4

Rannsóknir og efnisleit

SALÓMON konungur „rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli.“ Hvers vegna? Vegna þess að hann var áfram um að skrifa „sannleiksorð.“ (Préd. 12:9, 10) Lúkas ‚athugaði allt kostgæfilega frá upphafi‘ í þeim tilgangi að rita samfellda sögu af ævi Krists. (Lúk. 1:3) Báðir þessir þjónar Guðs stunduðu rannsóknir.

Þegar talað er um rannsóknir í þessu samhengi er átt við nákvæma leit að upplýsingum um afmarkað efni, meðal annars með lestri og góðri námstækni og hugsanlega með viðtölum við fólk.

Hvaða aðstæður gætu kallað á rannsóknir og efnisleit? Lítum á nokkur dæmi. Spurning vaknar við einkanám eða biblíulestur sem þú vilt fá svar við. Einhver sem þú vitnar fyrir ber fram spurningu og þig langar til að hafa nákvæmar upplýsingar í höndum þegar þú svarar. Eða þér hefur verið falið að flytja ræðu.

Setjum sem svo að þér hafi verið falið að flytja ræðu og efnið virðist mjög almenns eðlis. Hvernig geturðu staðfært það? Hægt er að auðga það með viðbótarupplýsingum. Augljóst atriði verður fræðandi og jafnvel hvetjandi ef þú bætir við tölulegum upplýsingum eða dæmi sem á við efnið og snertir áheyrendur. Hið prentaða efni, sem þér er falið að vinna úr, er kannski samið fyrir lesendur um heim allan en þú þarft að styrkja það, skýra með dæmum og líkingum og heimfæra það á söfnuðinn eða einn einstakling. Hvernig berðu þig að?

Áður en þú hleypur til og ferð að leita að upplýsingum skaltu spyrja þig hvers konar áheyrendur þú hafir. Hvað vita þeir fyrir? Hvað þarf að skýra fyrir þeim? Skilgreindu síðan hvaða markmiði þú vilt ná. Ætlarðu að útskýra, sannfæra, hrekja eða hvetja? Til að útskýra þarftu að leggja fram nánari upplýsingar til að varpa ljósi á málið. Áheyrendur vita kannski hvað þeir eiga að gera en það þarf að útfæra nánar hvenær eða hvernig á að gera það. Að sannfæra kallar á sannanir og rök fyrir því hvers vegna eitthvað er eins og það er. Til að hrekja eitthvað þarftu að gerþekkja báðar hliðar málsins og gera vandaða greiningu á rökum beggja. Og þá er ekki aðeins um það að ræða að leita að kröftugum röksemdum heldur einnig aðferðum til að koma þeim vinsamlega á framfæri. Til að hvetja þarf að ná til hjartans, vekja hvöt hjá áheyrendum til að fara eftir því sem til umræðu er og örva löngun þeirra til þess. Frásögur af þeim sem hafa gert það, jafnvel andspænis erfiðleikum, eru góð leið til að ná til hjartans.

Ertu nú tilbúinn til að hefjast handa? Ekki alveg. Veltu fyrst fyrir þér hve miklar upplýsingar þú þarft að hafa á takteinum. Ef þú átt að koma efninu á framfæri við aðra þarftu að virða ákveðin tímamörk. Hve langan tíma hefurðu til umráða? Fimm mínútur eða fjörutíu og fimm? Er tíminn fyrir fram ákveðinn, eins og til dæmis á safnaðarsamkomu, eða er hann sveigjanlegur eins og á biblíunámskeiði eða í hirðisheimsókn?

Og að síðustu þarftu að athuga hvaða heimildarrit og handbækur þú átt. Hefurðu aðgang að einhverju meiru í bókasafni ríkissalarins en þú átt sjálfur? Gætirðu kannski fengið að líta í handbækur og heimildarrit hjá bræðrum sem hafa þjónað Jehóva lengi? Gætirðu komist í fleiri uppsláttarrit í almenningsbókasafni ef þörf krefur?

Helsta hjálpargagnið — Biblían

Ef rannsóknarverkefnið tengist merkingu einhverra ritningarorða skaltu byrja á sjálfri Biblíunni.

Athugaðu samhengið. Spyrðu þig: ‚Hverjum var þessi texti ætlaður? Hvað má ráða af versunum í kring um þær aðstæður sem voru kveikja þessara orða eða þeirra viðhorfa sem lýst er?‘ Slíkar upplýsingar eru oft til skilningsauka og þær geta lífgað upp á ræðu þar sem þær eru notaðar.

Til dæmis er oft vitnað í Hebreabréfið 4:12 til að sýna fram á hve kröftug áhrif orð Guðs getur haft á líf fólks og hjörtu. Samhengið dýpkar skilning okkar á ástæðunni. Þar er fjallað um reynslu Ísraelsmanna á 40 ára eyðimerkurgöngunni áður en þeir komust inn í landið sem Jehóva hafði lofað Abraham. (Hebr. 3:7–4:13) „Orð Guðs“ um að leiða þá inn til hvíldar í samræmi við sáttmálann við Abraham var ekki dautt heldur lifandi og nálgaðist uppfyllingu. Ísraelsmenn höfðu fulla ástæðu til að trúa á það. En á leiðinni frá Egyptalandi til Sínaífjalls og síðan áfram til fyrirheitna landsins sýndu þeir æ ofan í æ að þá skorti trú. Viðbrögð þeirra við því hvernig Jehóva leiddi þá og framkvæmdi orð sín afhjúpaði hvað bjó í hjörtum þeirra. Eins er það núna að loforð Guðs draga fram hvað býr í hjörtum manna.

Skoðaðu millivísanir. Í sumum biblíum eru millivísanir sem geta gagnast vel, til dæmis í Nýheimsþýðingunni sem margir geta notfært sér á erlendum málum. Í íslensku biblíunni frá 1981 er einnig nokkuð af millivísunum. Lítum á dæmi. Í 1. Pétursbréfi 3:6 er bent á að Sara hafi gefið kristnum eiginkonum gott fordæmi til eftirbreytni. Millivísun neðanmáls í 1. Mósebók 18:12 styður það en þar kemur fram að Sara hafi „með sjálfri sér“ talað um Abraham sem ‚bónda‘ sinn eða herra. (1. Mós. 18:12) Hún var því undirgefin af heilum huga. Millivísanir geta einnig bent á texta þar sem rætt er um uppfyllingu biblíuspádóma eða fyrirmyndanir í lagasáttmálanum. En hafðu hugfast að millivísanir veita ekki alltaf upplýsingar af þessu tagi því að sumar vísa einvörðungu í hliðstæðar hugmyndir eða efni um landfræðileg atriði eða ævisöguþætti.

Notaðu orðstöðulykil til að leita í Biblíunni. Orðstöðulykill Biblíunnar er listi yfir orð hennar í stafrófsröð og er hentugur til að finna ritningarstaði tengda því viðfangsefni sem þú ert að kynna þér. Þú finnur ýmsar gagnlegar upplýsingar í leiðinni. Meðal annars kemurðu auga á ákveðið sannleiksmynstur. (2. Tím. 1:13) Í Nýheimsþýðingunni er lykill með helstu aðalorðum Biblíunnar („Bible Words Indexed“). Vottar Jehóva hafa líka gefið út mun yfirgripsmeiri orðstöðulykil (Comprehensive Concordance) sem þú getur kannski notfært þér á einhverju erlendu máli, en hann vísar á öll aðalorð Biblíunnar og textana þar sem þau standa.

Lærðu að nota önnur hjálpargögn

Í rammanum á bls. 33 eru taldar upp ýmsar handbækur og hjálpargögn sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið í té. (Matt. 24:45-47) Í mörgum þeirra er efnisyfirlit fremst og atriðisorðaskrá aftast sem getur auðveldað þér að finna tilteknar upplýsingar. Í lok hvers árs er birt efnisskrá í Varðturninum yfir greinar nýliðins árs og einnig í Vaknið! á flestum erlendum málum.

Ef þú ert vel heima í því hvers konar upplýsingar er að finna í þessum biblíunámsritum ættirðu að vera tiltölulega fljótur að finna það sem þú leitar að. Segjum til dæmis að þú sért að leita upplýsinga um spádóma, kennisetningar, kristilega breytni eða heimfærslu á biblíulegum meginreglum. Líklegt er að þú finnir efni af þessu tagi í Varðturninum. Vaknið! fjallar um atburði líðandi stundar, vandamál samtímans, trúmál, náttúruvísindi og fólk ýmissa landa. Í bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur er farið í tímaröð yfir allar frásagnir guðspjallanna. Fjallað er um heilu biblíubækurnar vers fyrir vers í bókum eins og Revelation — Its Grand Climax At Hand! (Opinberunin — hið mikla hámark hennar er í nánd), Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar og í hinum tveim bindum bókarinnar Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni. Í bókinni Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni) finnurðu greinagóð svör við hundruðum biblíuspurninga sem algengt er að upp komi í boðunarstarfinu. Skilmerkilegt yfirlit yfir önnur trúarbrögð, kenningar þeirra og sögu má finna í bókinni Mankind’s Search for God (Leit mannkyns að Guði). Bókin Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom (Vottar Jehóva — boðendur Guðsríkis) segir ítarlega sögu af nútímastarfi Votta Jehóva og í bæklingnum Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim er að finna stutt söguágrip. Nýjustu árbækur Votta Jehóva og tímaritið Varðturninn 1. janúar ár hvert veita upplýsingar um framvindu boðunarstarfsins um heim allan. Bókin Insight on the Scriptures (Innsýnarbókin) er yfirgripsmikil biblíuhandbók með landakortum. Í henni er að finna ítarlegar upplýsingar um persónur, staði, hluti, tungumál og sögulega atburði sem tengjast Biblíunni.

Efnisskrá Varðturnsfélagsins. Efnisskráin Watch Tower Publications Index er gefin út á meira en 20 tungumálum og vísar á upplýsingar í fjölda af ritum okkar. Hún skiptist í atriðisorðaskrá og ritningarstaðaskrá. Í atriðisorðaskránni er hægt að fletta upp á orði tengdu því efni sem maður ætlar að kynna sér en í ritningarstaðaskránni geturðu flett upp á ritningarstað sem þú vilt glöggva þig á. Ef eitthvað hefur verið fjallað um efnið eða ritningarstaðinn á því árabili, sem efnisskráin nær yfir, finnurðu lista með tilvísunum í viðkomandi rit. Heiti ritsins er skammstafað en fremst í efnisskránni er lykill yfir skammstafanirnar. (Runan w96 3/1 15 merkir til dæmis Varðturninn 1. mars 1996, bls. 15) Undir aðalflettunum „Field Ministry Experiences“ (Frásögur úr boðunarstarfinu) og „Life Stories of Jehovah’s Witnesses“ (Ævisögur votta Jehóva) má hugsanlega finna efnivið í hvetjandi ræðu eða samtalsverkefni í söfnuðinum.

Gefinn er út Lykill að efnisskrá Varðturnsins sem nota má til að kanna hvaða efni hefur birst í íslenskri útgáfu blaðsins. Segjum að þú viljir kanna hvort efnið í enska Varðturninum 1. mars 1996 bls. 15 hafi birst á íslensku. Þá flettirðu upp á „The Watchtower, 1996“ í Lyklinum og leitar uppi 1. mars. Við blaðsíðutalið 13-18 er vísun í 4.96 23-27 sem merkir að efnið birtist í íslenska blaðinu 1. apríl 1996, bls. 23-27.

Það er auðvelt að sökkva sér niður í rannsóknir, efnisleit og annað grúsk og þess vegna er mikilvægt að fara ekki út af sporinu. Einbeittu þér að því að leita að efni til þess verkefnis sem fyrir liggur. Ef efnisskráin vísar í ákveðna heimild skaltu fletta upp á þeirri blaðsíðu eða blaðsíðum, sem vísað er til, og síðan geturðu notað millifyrirsagnir og inngangsorð efnisgreinanna til að finna rétta staðinn. Ef þú ert að grafast fyrir um merkingu á ákveðnu biblíuversi skaltu byrja á því að finna biblíutilvitnunina á blaðsíðunni sem vísað er til. Skoðaðu síðan skýringarnar á undan og eftir.

Geisladiskurinn „Watchtower Library.“ Þeir sem hafa aðgang að tölvu og geta lesið ensku eða annað af helstu tungumálum heims geta notfært sér geisladiskinn Watchtower Library sem hefur að geyma mikið safn af ritum okkar. Leitarforritið er auðvelt í notkun og hægt er að leita eftir orði, orðum eða ritningarstöðum í öllum þeim ritum sem er að finna á geisladisknum.

Safnaðu öðrum guðræðisritum

Í síðara innblásna bréfinu til Tímóteusar bað Páll unga manninn að færa sér „bækurnar, einkanlega skinnbækurnar,“ til Rómar. (2. Tím. 4:13) Ljóst er að Páll geymdi ýmis rit sem hann hafði mætur á. Þú getur líka gert það. Geymirðu til dæmis Varðturninn, Vaknið! og Ríkisþjónustu okkar eftir að farið hefur verið yfir þau á safnaðarsamkomum? Þá eru þau tiltæk og þú getur leitað fanga í þeim líkt og í öðrum biblíutengdum ritum sem þú hefur eignast. Flestir söfnuðir koma sér upp bókasafni í ríkissalnum sem allir safnaðarmenn hafa aðgang að og geta notfært sér þar á staðnum.

Viðaðu að þér öðrum gögnum

Hafðu augun opin fyrir ýmsu öðru sem getur komið þér að gagni við kennslu og ræðuflutning. Ef þú finnur frétt, tölulegar upplýsingar eða dæmi í dagblaði eða tímariti, sem geta komið þér að gagni í boðunarstarfinu, skaltu klippa það út eða afrita til síðari nota. Skráðu útgáfudag, heiti ritsins og kannski einnig nafn höfundar eða útgefanda. Á safnaðarsamkomum geturðu punktað hjá þér röksemdir, dæmi og líkingar sem þú getur notað til að útskýra sannleikann fyrir öðrum. Hefur þér einhvern tíma dottið í hug góð líking sem þú gast ekki notað þá stundina? Skrifaðu hana hjá þér og geymdu hana. Þegar þú hefur verið nemandi í Boðunarskólanum um tíma ertu búinn að semja allmargar ræður eða sviðsett samtöl. Þú ættir að geyma minnisblöðin því að vinnan, sem þú hefur lagt í efnis- og heimildaleit, getur komið að góðu gagni síðar.

Ræddu við fólk

Annað fólk getur verið ágætis upplýsingabrunnur. Ljóst er að Lúkas safnaði miklum efniviði í guðspjall sitt með viðtölum við sjónarvotta. (Lúk. 1:1-4) Trúbróðir eða trúsystir getur hugsanlega varpað ljósi á mál sem þú ert að reyna að komast til botns í. Samkvæmt Efesusbréfinu gefur Kristur „gjafir í mönnum“ til að stuðla að því að við vöxum í „þekkingunni á syni Guðs.“ (Ef. 4:8, 11-16, NW) Að rabba við reynda þjóna Guðs getur kveikt gagnlegar hugmyndir. Og samræður geta leitt í ljós hvernig aðrir hugsa og það getur auðveldað þér að klæða efnið í raunhæfan búning.

Leggðu mat á afraksturinn

Eftir að korn er skorið upp þarf að skilja kjarnann frá hisminu. Eins er það með afraksturinn af rannsóknarvinnunni. Þú þarft að skilja gagnlegt efni frá því sem ofaukið er áður en þú getur notað það.

Ef til stendur að nota efnið í ræðu skaltu spyrja þig: ‚Skiptir þetta efni raunverulegu máli í ræðunni eða er þetta einungis áhugavert mál sem gæti beint athyglinni frá því sem ég á að tala um?‘ Ef þú átt að fjalla um atburði líðandi stundar eða vísindi og læknisfræði, sem eru sífelldum breytingum háð, skaltu fullvissa þig um að þú sért með nýjustu upplýsingar. Og mundu að sumt, sem stendur í eldri ritunum, hefur verið endurskoðað þannig að þú skalt taka mið af því nýjasta sem birst hefur um málið.

Það er sérstök ástæða til að vera varkár gagnvart efni sem sótt er í veraldlegar heimildir. Gleymdu ekki að orð Guðs er sannleikur. (Jóh. 17:17) Jesús gegnir aðalhlutverki í því að uppfylla ásetning Guðs. Þess vegna segir í Kólossubréfinu 2:3 að ‚allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar séu fólgnir í honum.‘ Taktu mið af því þegar þú leggur mat á afrakstur rannsókna þinna. Gott er að spyrja eftirfarandi spurninga viðvíkjandi efni sem sótt er í veraldlegar heimildir: Er efnið ýkjukennt eða ber það keim af ágiskunum eða skammsýni? Ber það vott um eigingjörn eða viðskiptaleg markmið? Ber því saman við aðrar áreiðanlegar heimildir? Og síðast en ekki síst, samræmist það sannleika Biblíunnar?

Orðskviðirnir 2:1-5 hvetja fólk til þess að leita að speki, skilningi og hyggindum „sem að silfri“ og grafast eftir þeim „eins og fólgnum fjársjóðum.“ Þetta gefur bæði fyrirheit um erfiði og umbun. Rannsóknir, grúsk og efnisleit kosta vinnu en vinnan skilar sér í því að þú uppgötvar hvernig Guð lítur á málin, getur leiðrétt ranghugmyndir og nærð sterkum tökum á sannleikanum. Og vinnan skilar sér líka í innihaldsríkum og líflegum ræðum og sviðsettum umræðum sem eru bæði áheyrilegar og ánægjulegar í flutningi.

HVAÐA HJÁLPARGÖGN ÁTT ÞÚ?

  • Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar.

  • Orðstöðulykilinn Comprehensive Concordance.

  • Varðturninn og Vaknið!

  • Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókina).

  • Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom (Boðendabókina).

  • Insight on the Scriptures (Innsýnarbókina).

  • Efnisskrána Watch Tower Publications Index.

  • Geisladiskinn Watchtower Library.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila