Að semja ræður ætlaðar söfnuðinum
DAGSKRÁ Boðunarskólans er samin til gagns fyrir allan söfnuðinn. En fræðandi efni er einnig komið á framfæri á öðrum safnaðarsamkomum og á svæðis- og umdæmismótum. Það er mikil ábyrgð að fá verkefni á einhverri af þessum samkomum. Páll postuli hvatti Tímóteus, sem var kristinn umsjónarmaður, til að hafa gát á sjálfum sér og fræðslunni. (1. Tím. 4:16) Þeir sem sækja kristnar samkomur hafa tekið frá dýrmætan tíma — og sumir lagt mikið á sig — til að vera viðstaddir og fá fræðslu um mál sem varða samband þeirra við Guð. Það er einstakur heiður að fá að veita slíka fræðslu. Hvernig geturðu gert henni góð skil?
Höfuðþættir biblíulesefnisins
Þessi þáttur skólans er byggður á þeim biblíuköflum sem safnaðarmenn eru hvattir til að lesa í vikunni. Leggja skal áherslu á gildi efnisins fyrir nútímaþjóna Guðs. Eins og fram kemur í Nehemía 8:8 lásu Esra og félagar hans upp úr orði Guðs og „útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“ Þú hefur tækifæri til að gera slíkt hið sama þegar þér er falið að fara yfir höfuðþætti biblíulesefnisins.
Hvernig er best að undirbúa sig fyrir þetta verkefni? Ef þú getur skaltu lesa úthlutaða biblíukafla með minnst viku fyrirvara. Hugsaðu síðan um söfnuðinn þinn og þarfir hans. Leggðu málið fyrir Jehóva í bæn. Hvaða ráðleggingar, hvaða dæmi og hvaða meginreglur í lesköflunum eiga við þarfir safnaðarins?
Þú þarft að lesa þér til og leita fanga. Geisladiskurinn Watchtower Library og efnisskráin Watch Tower Publications Index koma að góðum notum ef þú getur notfært þér þau á erlendu máli, og eins gæti efnisskráin í desemberheftum Varðturnsins komið þér að gagni. Með því að kanna hvað hefur verið sagt um þau vers, sem þú hefur ákveðið að einbeita þér að, geturðu fundið ýmiss konar undirstöðufróðleik, skýringar á spádómum og uppfyllingu þeirra, ábendingar um það sem læra má um Jehóva af vissum textum eða umfjöllun um meginreglur. En reyndu ekki að fara yfir of mörg atriði. Það er betra að einbeita sér að fáeinum, völdum versum og ræða þau vel.
Þetta verkefni getur líka boðið upp á að áheyrendur tjái sig um það gagn sem þeir hafa haft af biblíulesefni vikunnar. Hvað rákust þeir á sem getur komið þeim að gagni í einkanámi, fjölskyldunámi, boðunarstarfi eða lífinu almennt? Hvaða eiginleikar Jehóva birtust í samskiptum hans við menn og þjóðir? Hvað lærðu áheyrendur sem jók trú þeirra og mætur á Jehóva? Gleymdu þér ekki við umfjöllun um flókin smáatriði heldur leggðu áherslu á merkingu og hagnýtt gildi þeirra atriða sem þú ákveður að ræða um.
Kennsluræða
Þessi ræða er byggð á efni sem birst hefur í Varðturninum eða Vaknið!, eða á kafla í einhverri bók. Yfirleitt er vísað á meira en nóg efni til að fjalla um á þeim tíma sem til umráða er. En ræðan á ekki að vera einföld efnisyfirferð heldur áhrifarík kennsla. Umsjónarmaður þarf að vera „góður fræðari.“ — 1. Tím. 3:2.
Gott er að hefja undirbúninginn með því að kynna sér heimildarefnið vel. Flettu upp á ritningarstöðum og hugleiddu þá. Reyndu að gera þetta með allgóðum fyrirvara. Mundu að bræðurnir eru hvattir til að lesa það efni, sem ræðan er byggð á, fyrir samkomuna. Hlutverk þitt er ekki aðeins að rifja það upp eða draga það saman heldur sýna fram á hvernig það eigi við eða hvernig eigi að fara eftir því. Notaðu viðeigandi kafla úr efninu á þann hátt að söfnuðurinn hafi gagn af.
Hver söfnuður hefur sín sérkenni líkt og hvert barn hefur sérstæðan persónuleika. Faðir, sem er góður kennari, þylur ekki einungis siðferðisreglur yfir barninu heldur rökræðir við það. Hann tekur mið af persónuleika þess og þeim vandamálum sem það á við að glíma. Kennarar í söfnuðinum leitast sömuleiðis við að átta sig á þörfum þess hóps, sem þeir ávarpa, og laga kennsluna að honum. En skynugur kennari gætir þess að nota ekki dæmi sem gætu gert einhvern í hópnum vandræðalegan. Hann bendir á hvernig allir njóta góðs af því að ganga á vegum Jehóva og dregur fram biblíuleg ráð til að auðvelda söfnuðinum að glíma við vandamál sín.
Góð kennsla nær til hjartans. Hún er ekki aðeins fólgin í því að greina frá staðreyndum heldur einnig að miðla skilningi á þýðingu þeirra. Til þess að gera það þarf kennarinn að bera umhyggju fyrir áheyrendum. Andlegir hirðar ættu að þekkja hjörðina, og ef þeir hafa vandamál hinna ýmsu safnaðarmanna í huga eru þeir uppörvandi, hvetjandi, skilningsríkir og umhyggjusamir.
Góður kennari veit að ræða þarf að hafa skýrt markmið. Hann þarf að koma efninu þannig á framfæri að aðalatriðin skeri sig úr og áheyrendur muni eftir þeim. Þeir ættu að muna eftir raunhæfum ábendingum sem hafa áhrif á líf þeirra.
Þjónustusamkoman
Ræða byggð á grein í Ríkisþjónustu okkar er svolítið annars eðlis. Nú áttu ef til vill að koma öllu til skila sem stendur í greininni í stað þess að velja úr það sem best á við. Þú þarft að hjálpa áheyrendum að draga ályktanir af ritningartextum sem eru undirstaða leiðbeininganna í greininni. (Tít. 1:9) Tíminn er takmarkaður og í fæstum tilfellum er ráðrúm til að auka við efnið.
Málið horfir öðruvísi við ef þér er falið að fjalla um efni sem er ekki byggt á grein í Ríkisþjónustu okkar. Kannski er vísað í grein í Varðturninum eða stutt verkefnislýsing gefin. Þá er það undir sjálfum þér komið að íhuga þarfir safnaðarins og fjalla um efnið í samræmi við þær. Þú gætir þurft að koma með stutta en hnitmiðaða líkingu eða segja viðeigandi frásögu. Mundu að verkefnið er ekki einungis fólgið í því að ræða um efnið heldur áttu að fjalla um það á þann hátt að það hjálpi söfnuðinum að vinna það verk, sem honum er falið í orði Guðs, og að njóta þess að gera það. — Post. 20:20, 21.
Veltu fyrir þér aðstæðum safnaðarmanna þegar þú semur ræðuna. Hrósaðu þeim fyrir það sem þeir gera og sýndu þeim fram á hvernig tillögurnar í greininni, sem þú sækir efnið í, geta hjálpað þeim að hafa ánægju af þjónustu sinni og skila henni betur af hendi.
Er sýnikennsla eða viðtal innifalið í verkefninu? Þá þarftu að undirbúa þig með góðum fyrirvara. Það er freistandi að biðja einhvern annan að sjá um sýnikennslu eða viðtal en árangurinn er ekki alltaf sem skyldi. Ef þess er nokkur kostur skaltu láta æfa sýnikennsluna eða viðtalið áður en samkomudagurinn rennur upp. Fullvissaðu þig um að þessi þáttur verkefnisins skili sér þannig að það styrki kennsluna.
Svæðis- og umdæmismót
Ef bræður þroska vel sinn andlega mann og ná góðum tökum á kennslu og ræðumennsku mega þeir búast við að fá verkefni á svæðis- og umdæmismótum þegar fram í sækir. Mótin eru sérstakur fræðsluvettvangur. Mótsverkefni getur verið upplestrarræða, uppkast, leiðbeiningar um biblíuleikrit með nútímaheimfærslu eða stutt verkefnislýsing. Ef þér er falið verkefni á svæðis- eða umdæmismóti skaltu setja þig vel inn í efnið sem þér er sent og gaumgæfa það uns þú áttar þig fyllilega á gildi þess.
Þeir sem fá það verkefni að flytja upplestrarræðu eiga að lesa hana orðrétt. Þeir eiga ekki að umorða neitt eða breyta efnisröðinni. Undirbúningur þeirra felst í því að koma auga á aðalatriðin og glöggva sig vel á úrvinnslu þeirra. Þeir æfa sig síðan í að lesa ræðuna upphátt uns þeir geta flutt hana með réttum merkingaráherslum, eldmóði, hlýju, tilfinningu, einlægni og sannfæringu, og auk þess með þeim raddstyrk og krafti sem tilheyrir á fjöldasamkomu.
Þegar bræður fá það verkefni að flytja ræðu eftir uppkasti ber þeim að vinna úr efninu í nákvæmu samræmi við uppkastið. Þeir eiga ekki að lesa upp sjálft uppkastið né semja handrit eftir því heldur flytja ræðuna innilega og frjálslega eftir minnispunktum. Mikilvægt er að halda sig innan þeirra tímamarka, sem tiltekin eru í uppkastinu, til að koma öllum aðalatriðum greinilega til skila. Ræðumaðurinn ætti að notfæra sér þær ábendingar og þá ritningarstaði sem tilteknir eru undir hverju aðalatriði. Hann ætti ekki að fella neitt niður úr uppkastinu til að geta bætt inn öðrum atriðum að eigin geðþótta. Orð Guðs er auðvitað undirstaða kennslunnar og það er ábyrgð kristinna öldunga að ‚prédika orðið.‘ (2. Tím. 4:1, 2) Ræðumaður ætti því að gefa sérstakan gaum að ritningarstöðunum, sem tilgreindir eru í uppkastinu, rökræða út af þeim, skýra þá og heimfæra.
Dragðu ekki að undirbúa þig
Þjónarðu í söfnuði þar sem þú færð mörg ræðutækifæri? Hvernig geturðu skilað þeim öllum vel af hendi? Meðal annars með því að draga það ekki fram á síðustu stundu að undirbúa þig.
Til að söfnuðurinn hafi verulegt gagn af ræðu, sem þú flytur, þarftu að úthugsa hana vel. Temdu þér því að lesa yfir efnið jafnskjótt og þér er úthlutað verkefninu. Þá hefurðu svigrúm til að bræða það með þér við önnur störf. Á þeim dögum og vikum, sem líða fram að ræðunni, heyrirðu kannski eitthvað sem kveikir hugmyndir að því hvernig best sé að heimfæra efnið. Ef til vill gerist eitthvað sem sýnir fram á að efnið sé tímabært. Það tekur tíma að lesa yfir efnið og hugleiða það strax eftir að þú færð það í hendur, en þeim tíma er vel varið. Hann skilar sér þegar þú sest að lokum niður og semur uppkastið. Ef þú undirbýrð þig með þessum hætti losnarðu við heilmikla streitu, og það auðveldar þér að heimfæra efnið á raunhæfan hátt og ná til hjartna safnaðarmanna.
Það er mikill heiður að fá að taka þátt í þeirri kennslu sem Jehóva lætur fólki sínu í té. Þú heiðrar Jehóva og gerir þeim gott sem elska hann í sama mæli og þú kannt að meta þessa gjöf. — Jes. 54:13; Rómv. 12:6-8.