Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 4 bls. 93-bls. 96 gr. 2
  • Málfimi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Málfimi
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Málfimi, samtalsform og framburður
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Að vera eðlilegur
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 1996
  • Að undirbúa nemendaverkefni fyrir skólann
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 4 bls. 93-bls. 96 gr. 2

Námskafli 4

Málfimi

Hvað þarftu að gera?

Lestu og talaðu þannig að orð og hugsanir renni lipurt fram af vörum þér. Málfimur maður talar ekki skrykkjótt eða löturhægt, hann rekur ekki í vörðurnar og þarf ekki að hika til að leita að orðum.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Ef mælandi er málstirður er hætta á að það slakni á einbeitingu áheyrenda eða hugmyndir komist ekki rétt til skila. Það getur dregið úr sannfæringarkraftinum.

HNÝTURÐU um orð eða orðasambönd þegar þú lest upphátt? Eða hikarðu oft og þarft að leita að réttu orðunum þegar þú stendur frammi fyrir áheyrendahópi? Ef svo er þarftu líklega að æfa þig í málfimi. Málfimur maður á auðvelt með að koma orðum að hugsun sinni; orðin virðast renna lipurt fram af vörum hans. Ekki svo að skilja að hann láti dæluna ganga viðstöðulaust, sé mjög hraðmæltur eða tali hugsunarlaust heldur er mál hans þjált og þægilegt áheyrnar. Málfimi er tekin sérstaklega til meðferðar í Boðunarskólanum.

Stirðmæli getur átt sér allmargar orsakir. Þarftu að huga sérstaklega að einhverju af eftirfarandi? (1) Hik í upplestri getur stafað af því að lesandinn þekkir ekki ákveðin orð. (2) Flutningur getur orðið slitróttur ef mælandinn gerir of mörg stutt hlé. (3) Undirbúningsleysi getur stuðlað að stirðmæli. (4) Efninu er ekki raðað rökrétt og þar af leiðandi hikar mælandinn í leit að orðum þegar hann stendur frammi fyrir áheyrendum. (5) Takmarkaður orðaforði er stundum ástæðan fyrir því að mælanda rekur í vörðurnar. (6) Ef áhersla er lögð á of mörg orð getur það spillt málfimi. (7) Kunnáttuleysi í málfræði getur líka haft sitt að segja.

Áheyrendur í ríkissalnum ganga ekki bókstaflega út ef þú ert stirðmæltur en hugur þeirra getur farið á flakk með þeim afleiðingum að stór hluti þess sem þú segir fer fyrir ofan garð og neðan hjá þeim.

Þess þarf líka að gæta að mælskan og krafturinn verði ekki svo mikill að það virki yfirþyrmandi eða áheyrendur verði jafnvel vandræðalegir. Mál þitt missir marks ef ólíkur menningaruppruni gerir að verkum að fólki finnst þú framhleypinn, frakkur eða óeinlægur. Athygli vekur að Páll postuli, sem var reyndur ræðumaður, nálgaðist Korintumenn „í veikleika, ótta og mikilli angist“ til að beina ekki óþarfa athygli að sjálfum sér. — 1. Kor. 2:3.

Ávanar sem ber að forðast. Margir hafa þann ávana að skjóta hikhljóðum, svo sem „og-ööö,“ inn í mál sitt. Aðrir byrja oft málsgrein á „eee“ eða hengja hikorð eins og „sko,“ „hérna,“ „þarna,“ „sem sagt“ eða „þú veist“ við flest sem þeir segja. Þú veist kannski ekki hve oft þú skýtur inn hikhljóðum eða notar málhækjur en þú gætir reynt að fá einhvern til að hlusta á þegar þú æfir þig og látið hann endurtaka orðið eða hljóðið í hvert sinn sem þú notar það. Niðurstaðan gæti komið þér á óvart.

Sumir lesa og tala með sífelldum bakrykkjum. Þeir hætta í miðri setningu og endurtaka að minnsta kosti hluta af því sem þeir voru búnir að segja.

Sumir eru ágætlega hraðmæltir og byrja að orða hugsun sína en hætta svo við hálfkláraða setningu til að brydda upp á einhverju nýju. Orðin streyma greiðlega fram en hin skyndilegu umskipti í miðjum klíðum spilla málfiminni.

Leiðir til úrbóta. Ef þú hikar oft til að leita að réttu orði þarftu að leggja þig eindregið fram við að auka orðaforðann. Gefðu sérstaklega gaum að orðum, sem eru þér framandi, í Varðturninum, Vaknið! og öðrum ritum sem þú lest. Flettu þeim upp í orðabók, athugaðu merkingu þeirra og samsetningu ef þau eru samsett og bættu einhverjum þeirra við orðaforða þinn. Ef þú hefur ekki aðgang að orðabók geturðu spurt einhvern sem hefur góð tök á málinu.

Þú getur bætt þig með því að lesa upphátt að staðaldri. Gefðu gaum að erfiðum orðum og segðu þau upphátt nokkrum sinnum.

Til að lesa reiprennandi þarftu að skilja hvernig orð tengjast í setningu. Yfirleitt þarf að lesa nokkur orð saman sem heild til að skila þeirri hugsun sem höfundur textans ætlaði sér að tjá. Taktu sérstaklega eftir þessum orðheildum og merktu við þær ef þér finnst hjálp í því. Markmiðið hjá þér er ekki aðeins að lesa orðin rétt heldur einnig að koma hugmyndum skýrt til skila. Eftir að þú hefur brotið eina setningu til mergjar skaltu taka þá næstu fyrir uns þú hefur farið yfir alla efnisgreinina. Glöggvaðu þig vel á rökfærslunni. Síðan skaltu æfa þig í að lesa textann upphátt. Lestu alla efnisgreinina aftur og aftur þangað til þú hættir að hika á orðum og gera hlé á röngum stöðum. Þá geturðu snúið þér að næstu efnisgrein.

Nú geturðu aukið hraðann. Ef þú ert búinn að átta þig á því hvernig orð í setningu vinna saman geturðu séð meira en eitt orð í senn og oft séð fyrir hvað kemur næst. Þetta hefur töluverð áhrif á lesfærni þína.

Það getur verið góð æfing að lesa texta án undirbúnings. Þú gætir til dæmis lesið dagstextann og skýringarnar upphátt að staðaldri án undirbúnings. Vendu þig á að sjá orðin í hópum sem tjá heildstæða hugsun í stað þess að sjá aðeins eitt orð í senn.

Málfimi í samræðum útheimtir að maður hugsi áður en maður talar. Temdu þér það í daglega lífinu. Áður en þú tekur til máls þarftu að ákveða hverju þú vilt koma á framfæri og í hvaða röð þú ætlar að segja það. Flýttu þér ekki um of. Gerðu þér far um að segja heila hugsun án þess að gera hlé eða skipta um hugsun í miðjum klíðum. Það getur verið gott að tala í stuttum og einföldum setningum.

Orðin ættu að koma eðlilega ef þú veist nákvæmlega hvað þú vilt segja. Yfirleitt þarftu ekki að velja meðvitað þau orð sem þú notar. Reyndar er betra, æfingarinnar vegna, að gæta þess að hugmyndin sé skýrt mótuð og hugsa síðan um orðin um leið og maður talar. Ef þú gerir það og einbeitir þér að hugmyndunum fremur en orðunum sem þú ætlar að tjá þær með, þá kvikna orðin nánast sjálfkrafa og þú tjáir hugsun þína nákvæmlega eins og hún er. Um leið og þú ferð að hugsa um orð í stað hugmynda verður þú hins vegar höktandi í máli. Með æfingunni geturðu orðið ágætlega málfimur en það er mikilvægur þáttur góðs málflutnings og upplestrar.

Móse fannst hann ekki vera vandanum vaxinn þegar honum var falið að vera fulltrúi Jehóva gagnvart Ísraelsmönnum og faraó Egyptalands. Hvers vegna? Vegna þess að hann var ekki málsnjall og hugsanlegt er að hann hafi verið málhaltur. (2. Mós. 4:10; 6:12) Hann bar fram ýmsar afsakanir en Guð tók þær ekki gildar. Guð sendi Aron með honum sem talsmann en hjálpaði Móse líka að tala sjálfum. Og Móse talaði margsinnis og með áhrifamiklum hætti, ekki aðeins til einstaklinga eða fámennra hópa heldur til allrar þjóðarinnar. (5. Mós. 1:1-3; 5:1; 29:2; 31:1, 2, 30; 33:1) Ef þú leggur þig samviskusamlega fram og treystir á Jehóva geturðu líka notað talgáfuna til að heiðra hann.

EF ÞÚ STAMAR

Stam getur átt sér ýmsar orsakir. Talþjálfun hjálpar sumum en gerir öðrum lítið gagn. Það er þó alltaf ánægjulegt að ná árangri og þess vegna er mikilvægt að leggja ekki árar í bát.

Verður þú kvíðinn eða jafnvel skelfdur við tilhugsunina um að svara á samkomu? Þá skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér. (Fil. 4:6, 7) Þig langar til að heiðra hann og hjálpa öðrum — einbeittu þér að því. Þú skalt ekki búast við að vandinn hverfi eins og dögg fyrir sólu en taktu eftir hvernig hjálpin sem þú færð auðveldar þér glímuna við hann. Blessun Jehóva og hvatning bræðranna styrkir löngunina til að gera betur.

Í Boðunarskólanum geturðu aflað þér reynslu í því að tala frammi fyrir hópi fólks. Það gæti komið þér á óvart hversu vel þú spjarar þig í áheyrn hóps sem styður þig og vill að þér gangi vel. Það getur byggt upp með þér sjálfstraust til að tala undir öðrum kringumstæðum.

Undirbúðu þig vel áður en þú flytur ræðu. Sökktu þér niður í verkefnið og flutning þess. Talaðu með viðeigandi tilfinningu. Reyndu að halda stillingu þinni og tala rólega ef þú byrjar að stama. Slakaðu á kjálkavöðvunum. Notaðu stuttar setningar. Forðastu eins og þú getur að nota málhækjur svo sem „ööö“ og „uuu.“

Sumum hættir til að stama á vissum orðum og venja sig á að forðast þau og nota í staðinn önnur orð svipaðrar merkingar. Aðrir reyna að einangra þau málhljóð, sem þeir eiga erfiðast með, og æfa þau í þaula.

Gefstu ekki upp þó að þú farir að stama í miðju samtali. Kannski geturðu leyft viðmælanda þínum að tala uns þú getur haldið áfram sjálfur. Ef í harðbakkann slær gætirðu skrifað nokkur orð á miða eða sýnt viðmælandanum eitthvað á prenti.

AÐ NÁ ÁRANGRI

  • Merktu við ný orð þegar þú lest tímarit og bækur, kannaðu merkingu þeirra og notaðu þau síðan.

  • Notaðu að minnsta kosti fimm til tíu mínútur á dag til að æfa þig í að lesa upphátt.

  • Undirbúðu þig vel fyrir upplestrarverkefni. Taktu sérstaklega eftir orðum og orðheildum sem bera uppi hugsunina. Áttaðu þig á rökfærslunni.

  • Temdu þér í daglegum samræðum að hugsa fyrst og segja síðan heilar setningar án þess að fipast.

ÆFING: Skoðaðu Dómarabókina 7:1-25 vandlega, eina efnisgrein í senn. Fullvissaðu þig um að þú skiljir textann. Flettu upp framandlegum orðum í orðabók. Segðu öll sérnöfn upphátt. Lestu síðan efnisgreinina upphátt og gættu þess að lesa allt nákvæmlega. Þegar þú telur þig hafa náð góðum tökum á einni efnisgrein skaltu snúa þér að þeirri næstu, og þannig koll af kolli. Lestu síðan allan kaflann. Lestu hann aftur, eilítið hraðar. Lestu hann síðan einu sinni enn og auktu hraðann enn meir þar sem það á við — en ekki svo mikið að þér fipist í lestrinum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila