Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 272-bls. 281 gr. 4
  • Boðskapurinn sem við eigum að boða

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Boðskapurinn sem við eigum að boða
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „ÓTTASTU GUÐ OG HALTU HANS BOÐORГ
  • AÐ VITNA UM JESÚ
  • „ÞETTA FAGNAÐARERINDI UM RÍKIГ
  • Af hverju eigum við að fylgja Kristi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Ríki sem mun „aldrei á grunn ganga“
    Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði
  • Guðsríki er við völd
    Þekking sem leiðir til eilífs lífs
  • Hvað er Guðsríki?
    Hvað kennir Biblían?
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 272-bls. 281 gr. 4

Boðskapurinn sem við eigum að boða

Jehóva hefur falið okkur hrífandi verkefni en jafnframt mikla ábyrgð. „Þér eruð vottar mínir,“ segir hann, „ég er Guð.“ (Jes. 43:12) Trú okkar er ekki óvirk heldur förum við út á meðal almennings til að boða sannleikann um Guð eins og hann er að finna í innblásnu orði hans. Hvaða boðskap hefur Jehóva falið okkur að flytja nú á tímum? Boðskapurinn fjallar um Jehóva Guð, Jesú Krist og Messíasarríkið.

„ÓTTASTU GUÐ OG HALTU HANS BOÐORГ

LÖNGU fyrir daga kristninnar sagði Jehóva hinum trúfasta Abraham frá því að hann ætlaði að sjá til þess að „allar þjóðir á jörðinni“ hlytu mikla blessun. (1. Mós. 22:18) Hann innblés Salómon að lýsa mikilvægri skyldu sem hvílir á öllum mönnum: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ (Préd. 12:13) En hvernig átti fólk um heim allan að fræðast um þetta?

Það hafa alltaf verið til einhverjir sem trúðu á orð Guðs, en í Biblíunni kemur fram að það yrði ekki fyrr en á „Drottins degi“ sem fagnaðarerindið yrði boðað af miklum krafti um allan heim svo að það næði til allra þjóða. Þessi boðun hófst árið 1914. (Opinb. 1:10) Opinberunarbókin 14:6, 7 sagði fyrir að þá yrði „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ boðaður mikilvægur boðskapur undir forystu engla. Boðskapurinn var þessi: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ Guð vill að þessi boðskapur berist til manna og við höfum þau sérréttindi að taka þátt í að koma honum á framfæri.

Hinn sanni Guð. Þegar Jehóva lýsti yfir: „Þér eruð mínir vottar,“ var um það deilt hver væri hinn sanni Guð. (Jes. 43:10) Boðskapurinn, sem við eigum að boða, er ekki aðeins sá að fólk eigi að finna sér guð til að tilbiðja eða eiga einhverja trú, heldur þarf að vekja athygli þess á því að skapari himins og jarðar sé hinn eini sanni Guð. (Jes. 45:5, 18, 21, 22; Jóh. 17:3) Enginn getur sagt framtíðina fyrir með vissu nema hinn sanni Guð. Það eru sérréttindi okkar að benda á að orð Jehóva hafi ræst forðum daga og að það sé gild ástæða til að treysta að öll fyrirheit hans um framtíðina rætist. — Jós. 23:14; Jes. 55:10, 11.

Við vitnum auðvitað fyrir mörgum sem tilbiðja aðra guði eða segjast ekki tilbiðja neinn guð. Við getum þurft að byrja á einhverjum sameiginlegum grundvelli til að fá þá til að ljá okkur eyra. Í Postulasögunni 17:22-31 er að finna lærdómsríkt dæmi. Þú tekur eftir að Páll postuli var háttvís en tók samt sem áður skýrt fram að allir þyrftu að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir þeim Guði sem hefði skapað himin og jörð.

Kunngerðu nafn Guðs. Veigraðu þér ekki við að nefna hinn sanna Guð með nafni. Jehóva þykir vænt um nafn sitt. (2. Mós. 3:15; Jes. 42:8) Hann vill að fólk kynnist nafni sínu, enda stendur það meira en 7000 sinnum í Biblíunni. Það er hlutverk okkar að kynna þetta dýrlega nafn fyrir fólki. — 5. Mós. 4:35.

Allir menn verða að þekkja nafn Jehóva og ákalla hann í trú til að eiga von um líf í framtíðinni. (Jóel 3:5; Mal. 3:16; 2. Þess. 1:8) En fæstir þekkja Jehóva, og það gildir um mjög marga sem segjast þó tilbiðja Guð Biblíunnar. Margir þekkja ekki einkanafn Guðs þó að þeir lesi í Biblíunni, því að nafnið hefur verið fellt niður í mörgum nútímabiblíum. Sumir vita það eitt um nafnið Jehóva að trúarleiðtogar þeirra hafa sagt þeim að nota það ekki.

Hvernig getum við frætt fólk um nafn Guðs? Ekkert er áhrifaríkara en að sýna mönnum nafnið í Biblíunni sjálfri — helst þeirra eigin biblíu. Í sumum þýðingum stendur nafnið mörg þúsund sinnum, til dæmis í íslensku biblíunni frá 1908 þar sem notuð er myndin „Jahve.“ Í biblíunni frá 1981 kemur nafnið fyrir í neðanmálsathugasemdum við 1. Mósebók 2:5, 2. Mósebók 6:2; 17:3 og Sálm 104:35. Einnig má benda á fletturnar „Drottinn,“ „Drottinn allsherjar“ og „Hallelúja“ í viðauka biblíunnar frá 1981. Í mörgum erlendum biblíuþýðingum er orðið sem kemur í stað nafnsins, oftast „Drottinn“ eða „Guð,“ sett með breyttu letri þar sem einkanafn Guðs stendur í frumtextanum. Í sumum löndum er hægt að benda á nafn Guðs í sálmum eða áletrunum á opinberum byggingum.

Hægt er að nota Jeremía 10:10-13 samkvæmt Nýheimsþýðingunni, jafnvel í umræðum við fólk sem tilbiður aðra guði. Bæði stendur nafn Guðs þar og eins er útskýrt hver hann er.

Feldu ekki nafnið Jehóva bak við merkimiða eins og „Guð“ og „Drottinn,“ líkt og kristni heimurinn gerir. Ekki svo að skilja að þú þurfir alltaf að nota nafnið í upphafi hvers samtals. Þá myndu sumir kannski slíta samtalinu sökum fordóma. En eftir að samtalið er komið vel af stað skaltu ekki vera feiminn við að nota nafn Guðs.

Það er eftirtektarvert að Biblían notar einkanafn Guðs oftar en titlana „Drottinn“ og „Guð“ samanlagt. En biblíuritararnir reyndu ekki að nefna nafnið í hverri einustu setningu heldur notuðu það eðlilega, frjálslega og virðulega. Það er okkur góð fyrirmynd.

Persónan sem ber nafnið. Þó að það sé í sjálfu sér mikilvægt að gera sér grein fyrir því að Guð hefur nafn er það aðeins upphafið að því að kynnast honum.

Til að elska Jehóva og ákalla nafn hans í trú þarf fólk að vita hvers konar Guð hann er. Þegar Jehóva kunngerði Móse nafn sitt á Sínaífjalli sagði hann honum ekki bara að hann héti Jehóva heldur vakti athygli á nokkrum af helstu eiginleikum sínum. (2. Mós. 34:6, 7) Þetta er okkur góð fyrirmynd.

Þegar þú ræðir um blessunina, sem Guðsríki hefur í för með sér, skaltu benda á hvað hún segi um þann Guð sem lofar henni. Þetta geturðu gert hvort sem þú ert að vitna fyrir manneskju sem hefur nýlega sýnt áhuga eða ert að flytja ræðu í söfnuðinum. Þegar þú minnist á boðorð hans skaltu leggja áherslu á viskuna og kærleikann sem þau vitna um. Taktu skýrt fram að kröfur Guðs séu ekki íþyngjandi fyrir okkur heldur sé það okkur til góðs að fylgja þeim. (Jes. 48:17, 18; Míka 6:8) Sýndu fram á hvernig hver einasta opinberun á mætti Jehóva segir eitthvað um persónuleika hans, staðla og ásetning. Bentu á hvernig eiginleikar hans birtast í fullkomnu innbyrðis jafnvægi. Hikaðu ekki við að segja fólki hvað þér finnst um Jehóva. Kærleikur þinn til hans getur vakið sams konar kærleika hjá öðrum.

Við höfum þann mikilvæga boðskap að bera að allir menn eigi að óttast Guð. Við ættum að leitast við að vekja slíkan guðsótta með orðum okkar. Þetta er heilbrigður ótti, djúp lotning og sterk aðdáun á Jehóva. (Sálm. 89:8) Guðsóttinn felur í sér vitundina um að Jehóva sé æðsti dómarinn og að líf okkar og framtíð sé háð því að við höfum velþóknun hans. (Lúk. 12:5; Rómv. 14:12) Slíkur ótti er því samtvinnaður djúpri ást á honum og sterkri löngun til að þóknast honum. (5. Mós. 10:12, 13) Guðsóttinn fær okkur einnig til að hata hið illa, hlýða boðorðum Guðs og tilbiðja hann af heilu hjarta. (5. Mós. 5:29; 1. Kron. 28:9; Orðskv. 8:13) Hann verndar okkur gegn því að reyna bæði að þjóna Guði og elska það sem í heiminum er. — 1. Jóh. 2:15-17.

Nafn Guðs er „sterkur turn.“ Það er mikil vernd að þekkja Jehóva í raun og veru. Verndin er ekki einfaldlega fólgin í því að nota nafn hans og geta nefnt suma af eiginleikum hans heldur í því að treysta honum. Orðskviðirnir 18:10 segja um þá: „Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur.“

Notaðu öll tækifæri vel til að hvetja aðra til að treysta á Jehóva. (Sálm. 37:3; Orðskv. 3:5, 6) Slíkt traust ber vott um trú á hann og fyrirheit hans. (Hebr. 11:6) Ef fólk ‚ákallar nafn Jehóva‘ af því að það veit að hann er alheimsdrottinn, elskar vegu hans og trúir fullkomlega að hjálpræðið komi aðeins frá honum, þá hlýtur það hjálpræði eins og orð Guðs lofar. (Rómv. 10:13, 14) Þegar þú kennir öðrum skaltu hjálpa þeim að byggja upp slíka trú í tengslum við öll svið lífsins.

Margir eiga við yfirþyrmandi vandamál að etja og sjá jafnvel enga undankomuleið. Hvettu þá til að kynna sér vilja Jehóva, treysta honum og fara eftir því sem þeir læra. (Sálm. 25:5) Hvettu þá til að biðja Guð einlæglega um hjálp og þakka honum blessun hans. (Fil. 4:6, 7) Þegar þeir kynnast Jehóva, ekki aðeins með því að lesa ákveðnar staðhæfingar í Biblíunni heldur einnig með því að finna loforð hans rætast á sér, þá finna þeir til þess öryggis sem fylgir því að þekkja Jehóva og skilja hvað nafn hans stendur fyrir. — Sálm. 34:9; Jer. 17:7, 8.

Notaðu sérhvert tækifæri til að koma fólki í skilning um viskuna í því að óttast hinn sanna Guð Jehóva og halda boðorð hans.

AÐ VITNA UM JESÚ

EFTIR að Jesús Kristur reis upp frá dauðum en áður en hann steig upp til himna gaf hann lærisveinunum þau fyrirmæli að vera ‚vottar sínir allt til endimarka jarðarinnar.‘ (Post. 1:8) Dyggum þjónum Guðs á okkar tímum er lýst þannig að þeir ‚hafi vitnisburð Jesú,‘ það er að segja að þeir vitni um hann. (Opinb. 12:17) Hversu ötull ert þú að bera vitni?

Margir, sem segjast í einlægni trúa á Jesú, vita ekkert um tilveru hans áður en hann kom til jarðar. Þeir vita ekki að hann var að öllu leyti mennskur meðan hann var á jörðinni. Þeir skilja ekki hvað það merkir að hann sé sonur Guðs. Þeir vita ósköp fátt um hlutverk hans í því að uppfylla áform Guðs. Þeir vita ekki hvað hann gerir núna og þeim er ekki ljóst hvaða áhrif hann á eftir að hafa á líf þeirra í framtíðinni. Sumir halda jafnvel ranglega að Vottar Jehóva trúi ekki á Jesú. Það er hlutverk okkar að boða þeim sannleikann um allt þetta.

Þeir eru líka til sem trúa ekki að það hafi nokkurn tíma verið til maður líkur þeim Jesú sem Biblían segir frá. Sumir líta á Jesú sem stórmenni en ekkert umfram það. Margir hafna því að hann sé sonur Guðs. Það kostar mikla vinnu, þolinmæði og háttvísi að vitna um Jesú fyrir slíku fólki.

Hvernig sem áheyrendur okkar eru þenkjandi þurfa þeir að fræðast um Jesú Krist til að njóta góðs af þeim ráðstöfunum sem Guð hefur gert varðandi eilíft líf. (Jóh. 17:3) Guð hefur greinilega lýst yfir að hann vilji að allir sem lifa ‚játi að Jesús Kristur sé Drottinn‘ og beygi sig undir yfirráð hans. (Fil. 2:9-11) Við getum því ekki sniðgengið þetta málefni þegar við hittum fólk sem hefur mjög ákveðnar en rangar skoðanir eða er hreinlega haldið fordómum. Stundum getum við talað opinskátt um Jesú Krist — jafnvel í fyrstu heimsókn — en stundum þarf að reyna með lagni að fá fólk til að hugsa rétt um hann. Við gætum líka þurft að upphugsa hvernig við getum komið ýmsu fleiru um hann á framfæri í síðari heimsóknum. En stundum þarf að halda formlegt biblíunámskeið á heimilum fólks til að hægt sé að ræða allar hliðar málsins. — 1. Tím. 2:3-7.

Hið mikilvæga hlutverk Jesú í tilgangi Guðs. Við þurfum að sýna fólki fram á að þar sem Jesús er „vegurinn“ og þar sem ‚enginn kemur til föðurins nema fyrir hann‘ er nauðsynlegt að trúa á Jesú Krist til að eiga viðurkennt samband við Guð. (Jóh. 14:6) Enginn getur skilið Biblíuna nema hann átti sig á hinu mikilvæga hlutverki sem Jehóva hefur falið frumgetnum syni sínum. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hefur falið syni sínum aðalhlutverk í því að hrinda öllum vilja sínum í framkvæmd. (Kól. 1:17-20) Þetta er kjarninn í spádómum Biblíunnar. (Opinb. 19:10) Öll þau vandamál, sem urðu til við uppreisn Satans og synd Adams, verða leyst fyrir tilstilli Jesú Krists. — Hebr. 2:5-9, 14, 15.

Til að skilja hlutverk Krists verðum við að viðurkenna að mennirnir eru ömurlega á sig komnir og geta engu um það breytt sjálfir. Við fæðumst öll syndug og það hefur margs konar áhrif á okkur á lífsleiðinni. Og fyrr eða síðar dregur það okkur til dauða. (Rómv. 3:23; 5:12) Skýrðu þetta fyrir fólki þegar þú vitnar. Bentu síðan á að Jehóva hafi gert þá kærleiksríku ráðstöfun að frelsa alla sem iðka trú á lausnarfórn Jesú Krists frá synd og dauða. (Mark. 10:45; Hebr. 2:9) Þannig opnist mönnum leið til að hljóta fullkomleika og eilíft líf. (Jóh. 3:16, 36) Vektu athygli á að þetta sé eina leiðin til þess. (Post. 4:12) Þegar þú kennir, hvort heldur einni manneskju eða heilum söfnuði, er ekki nóg að lýsa þessu sem staðreyndum heldur þarftu að kenna með hlýju og þolinmæði til að vekja þakklæti með áheyrendum fyrir lausnarfórn Krists. Þakklæti fyrir þessa gjöf getur haft djúpstæð áhrif á viðhorf manns, hegðun og markmið í lífinu. — 2. Kor. 5:14, 15.

Jesús fórnaði lífi sínu í eitt skipti fyrir öll. (Hebr. 9:28) Núna þjónar hann sem æðsti prestur. Sýndu öðrum fram á þýðingu þess. Finnur fólk fyrir streitu, er það vonsvikið, þjáð eða á það í erfiðleikum vegna harðneskju umheimsins? Jesús kynntist öllu þessu af eigin raun þegar hann var maður. Hann veit hvernig okkur líður. Finnum við að við þörfnumst miskunnar Guðs vegna þess hve ófullkomin við erum? Ef við biðjum Guð að fyrirgefa okkur á grundvelli fórnar Jesú kemur Jesús fram eins og ‚árnaðarmaður hjá föðurnum.‘ Hann hefur samúð með okkur og „biður fyrir oss.“ (1. Jóh. 2:1, 2; Rómv. 8:34) Vegna fórnar Jesú og æðstaprestsþjónustu hans getum við gengið að ‚náðarhásæti‘ Jehóva til að hljóta hjálp á réttum tíma. (Hebr. 4:15, 16) Þótt við séum ófullkomin getum við þjónað Guði með hreinni samvisku af því að æðsti presturinn Jesús er okkur til hjálpar. — Hebr. 9:13, 14.

Jesús fer auk þess með mikil völd því að Guð hefur skipað hann höfuð kristna safnaðarins. (Matt. 28:18; Ef. 1:22, 23) Sem slíkur vísar hann söfnuðinum veginn í samræmi við vilja Guðs. Komdu þeim sem þú kennir í skilning um að söfnuðurinn er ekki undir forystu manna heldur er Jesús Kristur höfuð hans. (Matt. 23:10) Allt frá fyrstu kynnum skaltu bjóða áhugasömum að sækja samkomur safnaðarins þar sem við fræðumst um Biblíuna með hjálp efnis sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té. Skýrðu fyrir þeim hver ‚þjónninn‘ sé og einnig hver húsbóndinn sé þannig að þeir átti sig á því að Kristur fer með forystuna. (Matt. 24:45-47) Kynntu þá fyrir öldungunum og lýstu þeim hæfniskröfum sem öldungarnir þurfa að uppfylla. (1. Tím. 3:1-7; Tít. 1:5-9) Bentu á að söfnuðurinn sé ekki eign öldunganna heldur hjálpi þeir okkur að feta í fótspor Jesú Krists. (Post. 20:28; Ef. 4:16; 1. Pét. 5:2, 3) Sýndu þessu áhugasama fólki fram á að til sé skipulegt samfélag manna um heim allan sem starfar undir forystu Krists.

Guðspjöllin segja frá því að lærisveinar Jesú hafi hyllt hann sem ‚konunginn er kemur í nafni Drottins‘ þegar hann kom inn í Jerúsalem skömmu áður en hann dó. (Lúk. 19:38) Þegar fólk kafar dýpra ofan í Biblíuna uppgötvar það að nú hefur Jehóva falið Jesú stjórnvald yfir öllum þjóðum. (Dan. 7:13, 14) Þegar þú flytur ræður í söfnuðinum eða kennir í heimahúsi skaltu skýra fyrir fólki hvað stjórn Jesú þýðir fyrir okkur öll þannig að fólk kunni að meta það.

Leggðu áherslu á að líferni okkar vitni um hvort við trúum í raun og veru að Jesús Kristur sé konungur og hvort við lútum stjórn hans fúslega. Bentu á hvaða starf Jesús fól fylgjendum sínum eftir að hann var smurður til konungs. (Matt. 24:14; 28:18-20) Vektu athygli á því sem undraráðgjafinn Jesús sagði að fylgjendur sínir ættu að láta ganga fyrir í lífinu. (Jes. 9:6, 7; Matt. 6:19-34) Lýstu því hugarfari sem Friðarhöfðinginn sagði að fylgjendur sínir myndu sýna. (Matt. 20:25-27; Jóh. 13:35) Það er ekki þitt hlutverk að dæma hvort aðrir geri eins mikið og þeir ættu að gera heldur skaltu hvetja þá til að hugleiða sjálfir hvað verk þeirra segi um undirgefni þeirra við konungdóm Krists. Og gættu þess að gera slíkt hið sama sjálfur.

Að leggja Krist sem grundvöll. Að gera fólk að lærisveinum Krists er eins og að byggja hús þar sem Jesús Kristur er grundvöllurinn, svo að notuð sé samlíking Biblíunnar. (1. Kor. 3:10-15) Til að leggja þennan grundvöll þarftu að hjálpa fólki að kynnast Jesú eins og honum er lýst í Biblíunni. Gættu þess að nemendur þínir líti ekki á þig sem leiðtoga sinn. (1. Kor. 3:4-7) Beindu athygli þeirra að Jesú Kristi.

Ef grundvöllurinn er vel lagður gera nemendurnir sér ljóst að Kristur gaf okkur fyrirmynd ‚til þess að við skyldum feta í hans fótspor.‘ (1. Pét. 2:21) Þú getur byggt á þessum grunni með því að hvetja nemendurna til að lesa guðspjöllin ekki aðeins sem sanna sögu heldur sem fyrirmynd. Hjálpaðu þeim að tileinka sér þau viðhorf og þá eiginleika sem Jesús hafði til að bera. Hvettu þá til að hugleiða hvernig Jesús hugsaði um föður sinn, hvernig hann brást við freistingum og prófraunum, hvernig hann sýndi Guði undirgefni og hvernig hann kom fram við fólk undir ýmsum kringumstæðum. Leggðu áherslu á það starf sem Jesús lét ganga fyrir. Þá mun nemandinn spyrja sig þegar hann þarf að taka ákvarðanir eða lendir í prófraunum: ‚Hvað hefði Jesús gert við þessar aðstæður? Sýni ég með stefnu minni að ég kunni að meta það sem hann hefur gert fyrir mig?‘

Þegar þú ávarpar söfnuðinn skaltu ekki hugsa sem svo að trúsystkini þín trúi á Jesú hvort eð er þannig að það sé óþarfi að beina sérstakri athygli að honum. Þú eykur einmitt vægi orða þinna með því að byggja á trú þeirra. Þegar þú talar um samkomurnar geturðu tengt það því að Jesús veiti söfnuðinum forystu. Þegar þú talar um boðunarstarfið skaltu benda á áhuga Jesú á boðunarstarfinu og tala um það með hliðsjón af því sem konungurinn Kristur er að gera núna til að safna fólki saman svo að það geti bjargast inn í nýja heiminn.

Ljóst er að það er ekki nóg að læra nokkur grundvallaratriði um Jesú. Til að vera sannkristið þarf fólk að iðka trú á hann og elska hann í raun og sannleika því að slíkur kærleikur er hvati hollustu og hlýðni. (Jóh. 14:15, 21) Kærleikurinn gerir fólk staðfast í trúnni þegar á móti blæs, gefur því úthald til að feta í fótspor Krists alla ævidaga sína og fær það til að sýna að það sé þroskað í trúnni og ‚rótfest og grundvallað‘ sem kristnir menn. (Ef. 3:17) Slík lífsstefna heiðrar Jehóva, Guð og föður Jesú Krists.

„ÞETTA FAGNAÐARERINDI UM RÍKIГ

ER JESÚS lýsti tákni nærveru sinnar og endaloka heimskerfisins sagði hann meðal annars: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matt. 24:14.

Hvaða boðskapur er það eiginlega sem á að boða svona vítt og breitt? Það er boðskapurinn um ríkið sem Jesús kenndi okkur að biðja til Guðs um er hann sagði: „Til komi þitt ríki.“ (Matt. 6:10) Opinberunarbókin 11:15 kallar það „ríki Drottins vors [Jehóva] og hans Smurða“ vegna þess að stjórnvaldið er komið frá Jehóva og fengið konunginum Kristi. (Biblían 1912) En þú tekur eftir að boðskapurinn, sem Jesús sagði að yrði boðaður á okkar dögum, er yfirgripsmeiri en sá boðskapur sem fylgjendur hans prédikuðu á fyrstu öld. Þeir sögðu fólki: „Guðs ríki er komið í nánd við yður“ því að Jesús, sem var smurður til konungs, var á meðal manna. (Lúk. 10:9) En eins og fram kemur í Matteusi 24:14 sagði Jesús fyrir að annar mikilvægur atburður, sem væri þáttur í ásetningi Guðs, yrði boðaður um allan heim.

Spámaðurinn Daníel fékk að sjá þennan atburð í sýn. Hann sá ‚einhvern sem mannssyni líktist,‘ það er að segja Jesú Krist, koma til ‚hins aldraða,‘ Jehóva Guðs, og fá í hendur „vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ (Dan. 7:13, 14) Þessi stórmerki atburður átti sér stað á himnum árið 1914. Djöflinum og illum öndum hans var síðan kastað niður til jarðar. (Opinb. 12:7-10) Síðustu dagar hins gamla heimskerfis voru hafnir. En áður en það líður endanlega undir lok er boðað um heim allan að messíasarkonungur Jehóva sitji við völd í hásæti sínu á himnum. Fólki er gert viðvart um þetta alls staðar í heiminum. Viðbrögðin eru til merkis um afstöðu þess til hins hæsta sem „ræður yfir konungdómi mannanna.“ — Dan. 4:32.

Vissulega á fleira eftir að gerast — miklu fleira! Við biðjum enn þá: „Til komi þitt ríki,“ en hugsunin er ekki sú að Guðsríki sé ekki stofnsett enn þá heldur sú að hið himneska ríki láti til sín taka og uppfylli spádóma eins og í Daníel 2:44 og Opinberunarbókinni 21:2-4. Það mun síðan umbreyta jörðinni í paradís þar sem allir menn elska Guð og náungann. Við bendum á þessar framtíðarhorfur þegar við prédikum „þetta fagnaðarerindi um ríkið.“ En við boðum líka með sannfæringu að Jehóva hafi nú þegar fengið syni sínum fullt stjórnvald í hendur. Leggurðu áherslu á þetta fagnaðarerindi þegar þú vitnar um Guðsríki?

Skýrðu hvað Guðsríki er. Hvernig getum við gert boðuninni um Guðsríki góð skil? Við getum bryddað upp á ýmsu til að vekja áhuga fólks, en fljótlega ætti að vera ljóst að erindi okkar er að tala um ríki Guðs.

Það er mikilvægur þáttur í þessu starfi að lesa eða vitna í ritningarstaði þar sem talað er um ríkið. Þegar þú nefnir Guðsríki skaltu fullvissa þig um að viðmælandinn skilji hvað það er. Það er ef til vill ekki nóg að segja einfaldlega að Guðsríki sé stjórn. Sumir geta átt erfitt með að ímynda sér ósýnilega stjórn. Þú gætir rökrætt málið á ýmsum nótum. Þyngdaraflið er til dæmis ósýnilegt en hefur engu að síður sterk áhrif á okkur. Við sjáum ekki höfund þyngdarlögmálsins en það er augljóst að hann er afar máttugur. Biblían kallar hann ‚konung eilífðar.‘ (1. Tím. 1:17) Þú gætir líka bent á að í víðlendu ríki hafi margir landsmenn aldrei komið til höfuðborgarinnar eða séð valdhafann persónulega heldur hafi fræðst um hvort tveggja af fréttum. Biblían, sem er gefin út á meira en 2200 tungumálum, segir okkur frá Guðsríki, upplýsir hverjum sé falið stjórnvaldið og lýsir hvað Guðsríki sé að gera. Varðturninn kemur út á fleiri tungumálum en nokkurt annað tímarit og er helgaður því hlutverki að ‚kunngera ríki Jehóva‘ eins og fram kemur á forsíðu blaðsins.

Þú gætir leitt fólki fyrir sjónir hvað Guðsríki er með því að benda á ýmislegt sem menn vilja að stjórnir tryggi þegnum sínum, til dæmis fjárhagslegt öryggi, frið, menntun, heilsugæslu, vernd fyrir afbrotum og óhlutdræga meðferð allra þjóðernishópa. Sýndu fram á að það sé aðeins Guðsríki sem geti fullnægt þessum og öllum öðrum heilbrigðum löngunum fólks. — Sálm. 145:16.

Reyndu að kveikja löngun með fólki til að verða þegnar Guðsríkis með Jesú Krist sem konung. Bentu á kraftaverk hans — forsmekkinn að því er hann mun gera sem konungur á himni. Minnstu oft á aðlaðandi eiginleika hans. (Matt. 8:2, 3; 11:28-30) Útskýrðu að hann hafi lagt lífið í sölurnar fyrir okkur, að Guð hafi síðan reist hann upp sem ódauðlegan anda á himnum og að hann stjórni þaðan sem konungur. — Post. 2:29-35.

Leggðu áherslu á að Guðsríki stjórni núna af himni ofan. Hafðu samt hugfast að fæstir álíta ástand umheimsins vitna um að slík stjórn sé við völd. Þú skalt viðurkenna það og spyrja viðmælandann hvort hann viti hvað Jesús Kristur hafi sagt að yrðu merki þess að Guðsríki hefði tekið völd. Dragðu fram nokkur atriði táknsins sem lýst er í Matteusi 24. kafla, Markúsi 13. kafla eða Lúkasi 21. kafla. Spyrðu síðan hvers vegna ástandið á jörðinni hafi orðið svona um leið og Kristur settist að völdum á himnum. Bentu svo á Opinberunarbókina 12:7-10, 12.

Þú getur lesið Matteus 24:14 til að nefna áþreifanlegt dæmi um það sem Guðsríki er að gera, og síðan geturðu lýst þeirri biblíufræðslu sem fram fer um allan heim núna. (Jes. 54:13) Segðu fólki frá hinum ýmsu skólum sem Vottar Jehóva njóta góðs af — skólum þar sem Biblían er þungamiðjan og námið er ókeypis. Segðu frá því að við bjóðum einstaklingum og fjölskyldum ókeypis biblíufræðslu í meira en 230 löndum, auk þess að boða trú okkar hús úr húsi. Hvaða stjórn manna er fær um að veita þegnum sínum svona umfangsmikla menntun, að ekki sé nú talað um öllum jarðarbúum? Bjóddu fólki að koma bæði í ríkissalinn og sækja mót Votta Jehóva til að sjá með eigin augum hvaða áhrif slík menntun hefur á líf fólks. — Jes. 2:2-4; 32:1, 17; Jóh. 13:35.

En gerir húsráðandinn sér grein fyrir að þetta snertir hann persónulega? Þú gætir bent honum háttvíslega á að markmið heimsóknarinnar sé að ræða um tækifærið, sem öllum býðst, til að verða þegnar Guðsríkis og hljóta líf. Hvernig? Með því að fræðast um kröfur Guðs til okkar og lifa í samræmi við þær núna. — 5. Mós. 30:19, 20; Opinb. 22:17.

Hjálpaðu öðrum að leita fyrst ríkis Guðs. Sá sem er búinn að taka við boðskapnum um ríkið þarf engu að síður að taka ýmsar aðrar ákvarðanir í framhaldinu. Hvaða áherslu ætlar hann að gefa Guðsríki? Jesús hvatti lærisveinana til að ‚leita fyrst ríkis Guðs.‘ (Matt. 6:33) Hvernig getum við hjálpað trúsystkinum okkar til þess? Með því að vera sjálf til fyrirmyndar og með því að ræða um þau tækifæri sem standa okkur til boða. Stundum gætum við spurt vini okkar hvort þeir hafi íhugað ákveðna möguleika eða sagt frásögur af því sem aðrir gera. Við getum rætt um frásagnir Biblíunnar með þeim hætti að það styrki kærleikann til Jehóva. Við getum lagt áherslu á að Guðsríki sé raunverulegt. Við getum bent á hve mikilvægt það sé að boða Guðsríki. Það er ekki alltaf besta aðferðin að segja fólki hvað það þurfi að gera heldur er oft vænlegra til árangurs að vekja með því löngun til þess og kynda undir hana.

Ljóst er að hinn mikilvægi boðskapur, sem okkur öllum ber að boða, fjallar fyrst og fremst um Jehóva Guð, Jesú Krist og ríki Guðs. Sannleikurinn um Jehóva, Jesú og ríkið ætti að koma skýrt fram í boðunarstarfi okkar meðal almennings, í söfnuðunum og í okkar eigin lífi. Með því að gæta þess sýnum við hve mikið gagn við höfum af þeirri menntun sem Boðunarskólinn veitir.

ALLIR MENN ÞURFA AÐ VITA . . .

  • að Jehóva er skapari himins og jarðar.

  • að Jehóva er hinn eini sanni Guð.

  • að Jehóva Guð býr yfir óviðjafnanlegum kærleika, afburðavisku, fullkomnu réttlæti og ótakmörkuðum mætti.

  • að við þurfum að standa Jehóva reikningsskap gerða okkar.

VIÐ ÆTTUM AÐ TILBIÐJA JEHÓVA . . .

  • af því að við elskum hann.

  • af heilu hjarta en ekki tvískiptu hjarta sem elskar líka það sem í heiminum er.

  • þannig að það sé augljóst hve mikils við metum velþóknun hans.

„Þetta Fagnaðarerindi Um Ríkið“

HJÁLPAÐU FÓLKI AÐ SKILJA . . .

  • að það er aðeins fyrir milligöngu Krists sem hægt er að hljóta velþóknun Guðs og eiga samband við hann.

  • að það er aðeins vegna trúar á Jesú Krist sem hægt er að frelsast frá synd og dauða.

  • að það er vilji Guðs að allir viðurkenni að Jesús sé Drottinn, ekki aðeins með því að kalla hann það heldur með því að halda boðorð hans.

  • að það sem Biblían segir um Jesú Krist er satt en kristni heimurinn fer að mörgu leyti rangt með staðreyndir.

SPYRÐU ÞIG:

  • Er augljóst að ég geri mér fulla grein fyrir því að Jesús Kristur er skipaður höfuð safnaðarins?

  • Er ég innilega þakklátur fyrir fórn Krists og er það eins sterkur áhrifavaldur í lífi mínu og vera ber?

  • Hvernig get ég líkt betur eftir syni Guðs í verki og viðhorfum?

LÁTTU FÓLK VITA . . .

  • að Guðsríki stjórnar af himnum ofan og tekur bráðlega við af öllum stjórnum manna.

  • að Guðsríki mun breyta jörðinni í paradís sem verður byggð fólki er elskar Guð og náungann.

  • að það er aðeins fyrir atbeina Guðsríkis sem öllum réttmætum óskum allra manna verður fullnægt.

  • að við sýnum með verkum okkar núna hvort við viljum vera þegnar Guðsríkis.

SPYRÐU ÞIG:

  • Ber líf mitt þess vitni að ég leiti fyrst ríkis Guðs?

  • Get ég breytt einhverju til að gera það í ríkari mæli?

  • Hvernig get ég kynt undir og vakið löngun með öðrum til að leita fyrst ríkis Guðs?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila