20. KAFLI
Vilt þú alltaf vera fyrstur?
ÞEKKIRÐU einhvern sem vill alltaf vera fyrstur? — Hefurðu séð einhvern ryðjast fram fyrir aðra til að vera fyrstur í biðröð? — Kennarinn mikli sá meira að segja fullorðið fólk reyna að ná bestu sætunum. Hann var ekki ánægður með það. Við skulum athuga hvað gerðist.
Hefurðu séð fólk troða sér fram fyrir aðra?
Biblían segir að Jesú hafi verið boðið í veislu heima hjá farísea sem var háttsettur trúarleiðtogi. Þegar Jesús var kominn í veisluna fylgdist hann með öðrum gestum koma inn og velja sér bestu sætin. Þess vegna sagði hann gestunum sögu. Langar þig til að heyra hana? —
Jesús sagði: ,Þegar þér er boðið í brúðkaup skaltu ekki setjast í besta sætið.‘ Veistu af hverju hann sagði þetta? — Hann sagði að virtari manni gæti hafa verið boðið. Þá kæmi gestgjafinn, eins og þú sérð á myndinni, og segði: ,Leyfðu þessum manni að fá sætið og færðu þig annað.‘ Hvernig ætli gestinum liði þá? — Hann yrði vandræðalegur af því að allir hinir gestirnir myndu horfa á hann færa sig í verra sæti.
Jesús var að benda á að það væri ekki rétt að vilja alltaf fá besta sætið. Þess vegna sagði hann: ,Þegar þér er boðið í brúðkaup skaltu setjast í ysta sætið. Þá kemur sá sem bauð þér og segir: „Vinur, flyttu þig hærra upp!“ Þegar þú færir þig í betra sæti hlýtur þú virðingu allra gestanna.‘ — Lúkas 14:1, 7-11.
Hvað má læra af sögu Jesú um þá sem settust í bestu sætin?
Skilurðu hvað Jesús var að kenna okkur með þessari sögu? — Við skulum taka dæmi til að sjá hvort þú hafir skilið það. Segjum sem svo að þú sért að fara inn í troðfullan strætisvagn. Ættirðu að flýta þér að ná í sæti jafnvel þótt fullorðið fólk þurfi þá að standa? — Hvað myndi Jesú finnast um það? —
Sumir segja að það skipti Jesú engu máli hvað við gerum. En trúirðu því? — Þegar Jesús var í veislunni hjá faríseanum horfði hann á gestina velja sér sæti. Heldurðu ekki að hann hafi jafnmikinn áhuga á því sem við gerum núna? — Fyrst Jesús er á himnum getur hann vissulega fylgst með okkur.
Það getur valdið árekstrum þegar fólk vill vera fyrst. Oft reiðist fólk og fer að rífast. Stundum gerist það þegar börn fara saman í rútuferðalag. Um leið og dyrnar á rútunni opnast reyna margir í hópnum að verða fyrstir inn. Þeir vilja ná bestu sætunum við gluggana. Hvað getur þá gerst? — Já, þau geta reiðst hvert öðru.
Það getur skapað heilmikil vandræði ef menn vilja vera fyrstir eða fremstir. Það olli jafnvel deilum meðal postula Jesú. Eins og við lærðum í sjötta kafla deildu þeir um það hver þeirra væri mestur. Hvað gerði Jesús þá? — Já, hann leiðrétti þá. En síðar fóru þeir aftur að þræta. Við skulum athuga hvernig það átti sér stað.
Postularnir eru, ásamt fleirum, að fara með Jesú til Jerúsalem í síðasta sinn. Jesús hefur verið að ræða við þá um Guðsríki og þá fara Jakob og Jóhannes að hugsa um þann tíma þegar þeir munu stjórna sem konungar með honum. Þeir hafa meira að segja talað um það við Salóme, móður sína. (Matteus 27:56; Markús 15:40) Á leiðinni til Jerúsalem kemur Salóme til Jesú, beygir sig fyrir honum og biður hann bónar.
„Hvað viltu?“ spyr Jesús. Hún biður hann þá að láta syni sína sitja næst honum í Guðsríki, annan til hægri handar og hinn til vinstri. Hvernig heldurðu að hinum tíu postulunum líði þegar þeir heyra hvað Jakob og Jóhannes hafa fengið móður sína til að biðja um? —
Um hvað bað Salóme Jesú og til hvers leiddi það?
Þeir eru mjög reiðir út í Jakob og Jóhannes. Jesús gefur þá öllum postulunum góð ráð. Hann segir þeim að stjórnendur þjóðanna njóti þess að vera valdamiklir og háttsettir. Þeir vilji vera í hárri stöðu og láta alla hlýða sér. En Jesús segir lærisveinunum að þeir eigi ekki að hugsa þannig. Hann segir við þá: ,Sá sem vill verða fremstur meðal ykkar á að vera þræll ykkar.‘ Hugsaðu þér! — Matteus 20:20-28.
Veistu hvað þrælar gera? — Þeir þjóna öðrum en ætlast ekki til þess að aðrir þjóni sér. Þeir setjast ekki í besta sætið heldur í það versta. Þeir telja sig ekki vera mikilvægari en aðrir heldur lítilvægari. Og mundu að Jesús sagði að sá sem vildi vera fremstur ætti að vera eins og þræll annarra.
Hvað heldurðu að þetta þýði fyrir okkur? — Myndi þræll deila við húsbónda sinn um það hver ætti að fá besta sætið eða fá fyrstur að borða? Hvað heldurðu? — Jesús sagði að þræll léti húsbóndann alltaf ganga fyrir. — Lúkas 17:7-10.
Hvað ættum við þá að gera í stað þess að reyna að vera alltaf fyrst? — Já, við ættum að vera eins og þrælar annarra. Það þýðir að við látum aðra ganga fyrir og metum þá meira en sjálf okkur. Hvernig geturðu gert það? Dettur þér eitthvað í hug? — Þú getur flett aftur upp á blaðsíðu 40 og 41 og lesið um það hvernig þú getur þjónað öðrum og látið þá hafa forgang.
Þú manst að kennarinn mikli lét aðra ganga fyrir og þjónaði þeim. Hann þvoði meira að segja fætur postulanna síðasta kvöldið sem hann var með þeim. Við gleðjum kennarann mikla og Jehóva Guð, föður hans, ef við látum aðra hafa forgang og þjónum þeim.
Lesum fleiri vers í Biblíunni sem hvetja okkur til að taka aðra fram yfir sjálf okkur: Lúkas 9:48; Rómverjabréfið 12:3 og Filippíbréfið 2:3, 4.