Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • lr kafli 24 bls. 127-131
  • Það er rangt að stela

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það er rangt að stela
  • Lærum af kennaranum mikla
  • Svipað efni
  • Hvað er „Júdasarguðspjall“?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Hví ekki að stela?
    Vaknið! – 1996
  • Minningarhátíðin
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
Lærum af kennaranum mikla
lr kafli 24 bls. 127-131

24. KAFLI

Það er rangt að stela

HEFUR einhvern tíma verið stolið frá þér? — Hvernig leið þér? — Sá sem stal frá þér er þjófur og engum er vel við þjófa. Hvernig verða menn þjófar? Fæðast þeir þannig? —

Við lærðum í kaflanum á undan að fólk fæðist syndugt. Þess vegna erum við öll ófullkomin. En enginn fæðist þjófur. Þjófur getur verið úr góðri fjölskyldu og átt heiðarlega foreldra og systkini. En hann gerist þjófur af því að hann langar svo mikið í peninga og ýmislegt sem hægt er að kaupa fyrir peninga.

Hver heldurðu að hafi verið fyrsti þjófurinn? — Veltum því aðeins fyrir okkur. Kennarinn mikli þekkti þennan þjóf þegar hann var á himnum. Þessi þjófur var engill. En hvernig gat engill orðið þjófur fyrst allir englarnir voru fullkomnir þegar Guð skapaði þá? — Við lærðum í 8. kafla að hann vildi fá það sem tilheyrði honum ekki. Manstu hvað það var? —

Þegar Guð hafði skapað fyrstu hjónin vildi engillinn fá þau til að tilbiðja sig. Hann átti alls ekki rétt á að fá tilbeiðslu þeirra. Þau áttu að tilbiðja Guð en engillinn stal tilbeiðslu þeirra. Hann gerðist þjófur þegar hann fékk Adam og Evu til að tilbiðja sig. Þá varð hann Satan djöfullinn.

Af hverju gerast menn þjófar? — Það er af því að þá langar í það sem þeir eiga ekki. Þessi löngun getur orðið svo sterk að hún getur jafnvel fengið gott fólk til að gera það sem er rangt. Sumir sem gerast þjófar iðrast aldrei og halda áfram að stela. Þannig fór fyrir einum postula Jesú. Hann hét Júdas Ískaríot.

Júdas vissi að það var rangt að stela af því að hann hafði lært lög Guðs alveg frá því hann var lítill. Hann vissi að Guð hafði jafnvel talað frá himni og sagt við fólk sitt: „Þú skalt ekki stela.“ (2. Mósebók 20:15) Þegar Júdas var orðinn fullorðinn hitti hann kennarann mikla og gerðist lærisveinn hans. Síðar valdi Jesús hann meira að segja til að vera einn af postulunum tólf.

Jesús og postularnir ferðuðust saman og borðuðu saman. Allir peningarnir þeirra voru geymdir í einum kassa. Jesús bað Júdas um að sjá um kassann. Auðvitað átti Júdas ekki peningana. En veistu hvað hann gerði skömmu seinna? —

Hvers vegna stal Júdas?

Júdas fór að taka peninga úr kassanum þótt hann ætti ekki að gera það. Hann tók þá þegar aðrir sáu ekki til og hann reyndi jafnvel að finna leiðir til að fá meiri peninga. Hann hugsaði sífellt um peninga. Athugum hvað þessi ranga löngun kom honum til að gera.

Lasarus, vinur Jesú, átti systur sem hét María. Hún bar dýrindissmyrsl á fætur Jesú nokkrum dögum fyrir dauða hans. En Júdas kvartaði yfir því. Veistu af hverju? — Hann sagði að það hefði átt að selja smyrslin og gefa fátækum peningana. Í rauninni vildi hann bara fá meiri peninga í kassann svo að hann gæti stolið þeim. — Jóhannes 12:1-6.

Jesús sagði Júdasi að angra ekki Maríu sem hafði verið svona góð. Júdasi mislíkaði að Jesús skyldi segja þetta við sig svo að hann fór til æðstuprestanna sem voru óvinir Jesú. Þeir vildu handtaka hann, en þeir vildu gera það að nóttu til svo að aðrir sæju ekki til þeirra.

Júdas sagði við prestana: ,Ég skal segja ykkur hvar þið getið fundið Jesú ef þið gefið mér peninga. Hvað viljið þið borga mér mikið?‘

,Við borgum þér þrjátíu silfurpeninga,‘ svöruðu prestarnir. — Matteus 26:14-16.

Júdas tók við peningunum. Í rauninni var hann að selja þessum mönnum kennarann mikla! Geturðu ímyndað þér að nokkur maður skuli geta gert annað eins? — Því miður getur slíkt gerst þegar einhver gerist þjófur og stelur peningum. Hann elskar peninga meira en annað fólk og jafnvel meira en Guð.

Þú hugsar kannski: „Ég myndi aldrei elska neitt heitar en ég elska Jehóva Guð.“ Það er gott að þú skulir hugsa þannig. Júdas hefur líklega hugsað þannig þegar Jesús valdi hann sem postula. Aðrir hafa líka hugsað þannig en síðar gerst þjófar. Við skulum nefna dæmi um nokkra slíka menn.

Um hvað eru Akan og Davíð að hugsa?

Einn þeirra var þjónn Guðs sem hét Akan. Hann var uppi löngu áður en kennarinn mikli fæddist. Akan kom auga á fallega skikkju, gullstöng og silfurpeninga. Hann átti þetta ekki. Biblían segir að Jehóva hafi átt það af því að það var tekið af óvinum þjóðar hans. En Akan langaði svo mikið í það að hann stal því. — Jósúabók 6:19; 7:11, 20-22.

Tökum annað dæmi. Fyrir langa löngu valdi Jehóva Davíð til að vera konungur Ísraelsmanna. Dag einn fór Davíð að horfa á fallega konu sem hét Batseba. Hann hélt áfram að horfa á hana og fór að hugsa um að fá hana heim til sín til þess að geta verið með henni. En hún var gift Úría. Hvað hefði Davíð átt að gera? —

Davíð hefði átt að hætta að hugsa um að fá Batsebu til sín. En hann gerði það ekki, heldur fór með hana heim til sín. Síðan lét hann drepa Úría. Hvers vegna framdi Davíð þessi vondu verk? — Vegna þess að hann vildi fá konu annars manns. — 2. Samúelsbók 11:2-27.

Hverju stal Absalon?

Davíð iðraðist og þess vegna leyfði Jehóva honum að lifa. En eftir þetta lenti hann í miklum erfiðleikum. Absalon sonur hans vildi verða konungur í stað hans. Hann greip því til þess ráðs að faðma og kyssa þá sem komu til að hitta Davíð. Biblían segir að ,Absalon hafi stolið hjörtum Ísraelsmanna‘. Nú vildi fólkið fá hann sem konung í staðinn fyrir Davíð. — 2. Samúelsbók 15:1-12.

Hefur þig einhvern tíma langað mjög mikið í eitthvað á sama hátt og þá Akan, Davíð og Absalon? — Þú værir að stela ef þú tækir það sem einhver annar á án þess að biðja um leyfi. Manstu hvað Satan, fyrsti þjófurinn, vildi fá? — Hann vildi fá fólk til að tilbiðja sig í staðinn fyrir Guð. Þess vegna var hann að stela þegar hann fékk Adam og Evu til að hlýða sér.

Sá sem á eitthvað hefur rétt til að ákveða hver megi nota það. Tökum dæmi. Segjum að þú farir heim til annarra barna til að leika við þau. Væri þá allt í lagi að taka eitthvað og fara með það heim til þín? — Nei, ekki nema foreldrar þeirra leyfi það. Ef þú tækir eitthvað heim með þér án þess að biðja um leyfi værirðu að stela.

Hvers vegna gæti þér þótt freistandi að stela? — Vegna þess að þig gæti langað í eitthvað sem þú átt ekki. Hver myndi sjá þig taka það jafnvel þótt enginn annar sæi þig? — Jehóva Guð sæi til þín. Við verðum að muna að Guð hatar þjófnað. Kærleikur til Guðs og náungans kemur í veg fyrir að þú gerist þjófur.

Biblían segir skýrt að það sé rangt að stela. Lestu Markús 10:17-19; Rómverjabréfið 13:9 og Efesusbréfið 4:28.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila