Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • lr kafli 35 bls. 182-186
  • Dánir geta fengið upprisu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Dánir geta fengið upprisu
  • Lærum af kennaranum mikla
  • Svipað efni
  • Jesús reisir upp dána
    Biblíusögubókin mín
  • Grátur breytist í fögnuð
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
  • Hún snerti klæði hans
    Mesta mikilmenni sem lifað hefur
  • Látnir ástvinir fá líf á ný!
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
Sjá meira
Lærum af kennaranum mikla
lr kafli 35 bls. 182-186

35. KAFLI

Dánir geta fengið upprisu

ÆTLI GUÐ vilji reisa okkur upp ef við deyjum, það er að segja að gefa okkur lífið aftur? — Hinn réttláti Job trúði því. Þegar hann hélt að hann væri að deyja sagði hann við Guð: „Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér.“ Job sagði að Jehóva Guð myndi þrá eða langa mjög mikið að reisa hann upp. — Jobsbók 14:14, 15.

Jesús er alveg eins og faðir sinn, Jehóva Guð. Hann vill hjálpa okkur. Holdsveikur maður sagði eitt sinn við hann: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Jesús svaraði: „Ég vil,“ og læknaði síðan holdsveika manninn. — Markús 1:40-42.

Hvernig sýndi Jehóva að honum þykir vænt um börn?

Jesús lærði af föður sínum að þykja vænt um börn. Fyrir langa löngu notaði Jehóva tvo þjóna sína til að reisa börn upp frá dauðum. Elía sárbændi Jehóva að reisa upp son konu sem hafði sýnt honum gestrisni. Og Jehóva gerði það. Jehóva notaði líka Elísa, þjón sinn, til að reisa upp lítinn dreng. — 1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:32-37.

Er ekki gott að vita að Jehóva þykir svona vænt um okkur? — Hann hugsar ekki bara um okkur meðan við erum lifandi. Hann man líka eftir okkur ef við deyjum. Jesús sagði að faðirinn líti svo á að dánir menn, sem hann elskar, séu lifandi. (Lúkas 20:38) Biblían segir að ,hvorki dauði né líf, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs‘. — Rómverjabréfið 8:38, 39.

Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann að Jehóva ber umhyggju fyrir börnum. Þú manst að Jesús gaf sér tíma til að segja börnum frá Guði. En vissirðu að Guð gaf honum kraft til að reisa börn upp frá dauðum? — Við skulum ræða um það þegar Jesús reisti upp 12 ára dóttur manns sem hét Jaírus.

Jaírus býr við Galíleuvatn ásamt konu sinni og einkadóttur. Dag einn veikist litla stúlkan alvarlega og Jaírus gerir sér ljóst að hún muni deyja. Honum verður þá hugsað til Jesú. Hann hefur heyrt að þessi frábæri maður geti læknað fólk. Hann fer þess vegna að leita að honum. Hann finnur Jesú á strönd Galíleuvatns þar sem hann er að kenna fjölda fólks.

Jaírus olnbogar sig í gegnum mannþröngina og fellur að fótum Jesú og segir við hann: ,Dóttir mín er fárveik. Viltu koma og hjálpa henni? Ég bið þig.‘ Jesús fer strax með Jaírusi. Mannfjöldinn, sem er kominn til að sjá kennarann mikla, fylgir þeim. En eftir að þeir hafa farið allnokkra vegalengd koma menn heiman frá Jaírusi og segja við hann: ,Dóttir þín er látin, hvers vegna ómakar þú meistarann lengur?‘

Jesús heyrir hvað mennirnir segja. Hann veit að Jaírus er mjög sorgmæddur yfir því að hafa misst eina barnið sitt. Jesús segir því við hann: ,Óttastu ekki. Trúðu aðeins og það verður allt í lagi með dóttur þína.‘ Þeir halda áfram þar til þeir koma að húsi Jaírusar. Vinir fjölskyldunnar eru grátandi. Þeir eru sorgmæddir yfir því að litla vinkona þeirra er dáin. En Jesús segir við þá: ,Hættið að gráta. Barnið er ekki dáið heldur sefur það.‘

Þegar Jesús segir þetta fer fólkið að hlæja af því að það veit að stúlkan er dáin. Hvers vegna heldurðu þá að Jesús segi að hún sé sofandi? — Hvað heldurðu að hann sé að kenna fólkinu? — Hann vill sýna fram á að dauðinn geti verið eins og djúpur svefn. Hann langar til að kenna fólkinu að hann geti með krafti Guðs vakið látið fólk upp frá dauðum eins auðveldlega og við getum vakið einhvern upp af svefni.

Hvað lærum við af því að Jesús reisti upp dóttur Jaírusar?

Jesús lætur alla fara út úr húsinu nema postulana Pétur, Jakob og Jóhannes og foreldra stúlkunnar. Hann fer síðan til hennar, tekur í hönd hennar og segir: ,Stúlka litla, rís upp!‘ Og um leið rís stúlkan á fætur og fer að ganga. Foreldrar hennar eru frá sér numdir af gleði. — Markús 5:21-24, 35-43; Lúkas 8:40-42, 49-56.

Veltu nú einu fyrir þér. Ætli Jesús geti vakið fleiri en þessa litlu stúlku til lífsins? — Heldurðu að hann geri það? — Já, Jesús sagði sjálfur: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [mína] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.

Heldurðu að Jesús vilji reisa fólk upp? — Biblían segir frá öðru atviki sem gefur okkur svar við því. Það átti sér stað hjá borginni Nain og sýnir hvernig Jesús hugsar til þeirra sem syrgja við jarðarfarir.

Kona er á leið úr borginni ásamt fleira fólki. Hún er að fylgja syni sínum til grafar. Hún er búin að missa manninn sinn og nú er eina barnið hennar dáið. Hún er mjög sorgmædd. Margir í Nain eru með í för þegar lík sonar hennar er borið út úr borginni. Konan grætur og fólkið getur ekki huggað hana með nokkru móti.

Sama dag vill svo til að Jesús og lærisveinar hans eru á leið til Nain. Nálægt borgarhliðinu hitta þeir mannfjöldann sem er að fylgja syni konunnar til grafar. Þegar Jesús kemur auga á grátandi konuna finnur hann til með henni. Sorg hennar snertir hjarta hans. Hann langar til að hjálpa henni.

,Gráttu ekki,‘ segir hann blíðlega en samt ákveðið svo að hún taki eftir. Allir fylgjast með Jesú þegar hann gengur að líkinu. Þeim er eflaust spurn hvað hann ætli að gera. „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ skipar Jesús. Um leið sest ungi maðurinn upp og fer að tala. — Lúkas 7:11-17.

Hugsaðu þér hvernig konunni hefur verið innanbrjósts. Hvernig myndi þér líða ef látinn ástvinur þinn lifnaði við? — Sýnir þetta ekki að Jesús elskar fólk í raun og veru og vill hjálpa því? — Hugsaðu þér hvað það verður yndislegt í nýjum heimi Guðs þegar fólk rís upp frá dauðum og við getum boðið það velkomið! — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Hvað lærum við af því að Jesús skyldi reisa einkason þessarar konu upp frá dauðum?

Við munum þá þekkja suma af þeim sem verða reistir upp, þar á meðal börn. Við þekkjum þá aftur rétt eins og Jaírus þekkti dóttur sína þegar Jesús reisti hana upp. Aðrir sem reistir verða upp dóu fyrir hundruðum eða þúsundum ára. En Guð gleymir þeim ekki þó að þeir séu löngu dánir.

Er ekki dásamlegt að vita að Jehóva Guð og sonur hans, Jesús, elska okkur svona heitt? — Þeir vilja að við lifum að eilífu en ekki bara í nokkur ár.

Þú getur fræðst meira um dásamlega von hinna dánu með því að lesa Jesaja 25:8; Postulasöguna 24:15 og 1. Korintubréf 15:20-22.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila