39. KAFLI
Guð man eftir syni sínum
JESÚS grét þegar Lasarus, vinur hans, dó. Heldurðu að Jehóva hafi liðið illa þegar Jesús kvaldist og dó? — Biblían segir að Guð geti orðið hryggur út af ýmsu. — Sálmur 78:40; Jóhannes 11:35.
Geturðu ímyndað þér hve sárt það var fyrir Jehóva að horfa upp á son sinn deyja? — Jesús var viss um að Guð myndi ekki gleyma honum. Þess vegna sagði Jesús rétt áður en hann dó: „Faðir, í þínar hendur fel ég [líf mitt]!“ — Lúkas 23:46.
Jesús var viss um að hann yrði reistur upp og ekki skilinn eftir „í helju“, það er að segja í gröfinni. Eftir upprisu Jesú vitnaði Pétur postuli í það sem var skrifað um Jesú í Biblíunni. Hann sagði: „Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.“ (Postulasagan 2:31; Sálmur 16:10) Líkami Jesú náði ekki að rotna í gröfinni og fara að lykta.
Þegar Jesús var á jörðinni sagði hann lærisveinunum meira að segja að hann myndi ekki vera dáinn lengi. Hann útskýrði fyrir þeim að hann yrði líflátinn en myndi „upp rísa á þriðja degi“. (Lúkas 9:22) Lærisveinarnir hefðu því ekki átt að verða undrandi þegar Jesús var reistur upp. En voru þeir undrandi? — Við skulum athuga málið.
Kennarinn mikli deyr á kvalastaur klukkan þrjú eftir hádegi á föstudegi. Ríkur maður að nafni Jósef er lærisveinn Jesú á laun. Hann er líka meðlimur æðstaráðsins. Þegar hann fréttir að Jesús sé dáinn fer hann til Pílatusar, rómverska landstjórans, og spyr hvort hann megi taka lík Jesú niður af staurnum og grafa það. Síðan fer Jósef með líkið í garð þar sem eru grafhýsi fyrir látna menn. Þegar líkinu hefur verið komið fyrir í grafhýsinu er stórum steini velt fyrir opið. Gröfin er því lokuð.
Núna eru liðnir þrír dagar og það er kominn sunnudagur. Þetta er fyrir sólarupprás svo að það er myrkur enn þá. Hermenn standa vörð um gröfina. Æðstuprestarnir sáu til þess. Veistu hvers vegna? —
Prestarnir höfðu líka heyrt að Jesús hefði sagt að hann yrði reistur upp. Þess vegna létu þeir gæta grafarinnar til að koma í veg fyrir að lærisveinarnir stælu líkinu og segðu síðan að Jesús væri risinn upp. Skyndilega fer jörðin að nötra. Skært ljós leiftrar í myrkrinu. Það er engill Jehóva! Hermennirnir eru lamaðir af hræðslu. Engillinn fer að gröfinni og veltir steininum frá opinu. Gröfin er tóm!
Hvers vegna er gröfin tóm? Hvað hefur gerst?
Já, eins og Pétur postuli sagði síðar: „Þennan Jesú reisti Guð upp.“ (Postulasagan 2:32) Guð vakti Jesú upp til lífs í eins líkama og hann hafði áður en hann kom til jarðar. Hann var reistur upp sem andavera og fékk eins líkama og englarnir. (1. Pétursbréf 3:18) Þess vegna verður hann að búa sér til mannslíkama til að fólk geti séð hann. Ætli hann geri það? — Við skulum athuga málið.
Sólin er að koma upp. Hermennirnir eru farnir. María Magdalena og aðrar konur, sem eru lærisveinar Jesú, eru á leið til grafarinnar. Þær segja sín á milli: ,Hver mun velta þunga steininum frá grafarmunnanum fyrir okkur?‘ (Markús 16:3) En þegar þær koma að gröfinni er búið að velta steininum frá. Gröfin er tóm! Líkami Jesú er horfinn! María Magdalena hleypur strax af stað til að finna einhverja af postulum Jesú.
Hinar konurnar bíða við gröfina. Þær hugsa með sér: „Hvar skyldi líkami Jesú vera?“ Skyndilega birtast tveir menn í leiftrandi klæðum. Þetta eru englar! Þeir segja við konurnar: ,Hvers vegna leitið þið að Jesú hér? Hann var reistur upp. Farið fljótt og segið lærisveinum hans það.‘ Þú getur rétt ímyndað þér hversu hratt konurnar hlaupa. Á leiðinni mæta þær manni. Veistu hver hann er? —
Það er Jesús sem hefur tekið sér mannslíkama. Hann segir líka við konurnar: ,Farið og segið lærisveinum mínum frá því.‘ Konurnar eru spenntar. Þær finna lærisveinana og segja við þá: ,Jesús er á lífi! Við sáum hann.‘ María er búin að segja Pétri og Jóhannesi frá tómu gröfinni. Núna fara þeir að gröfinni eins og þú sérð á myndinni. Þeir horfa á línklæðin sem Jesús var vafinn í en þeir vita ekki hvað þeir eiga að halda. Þá langar til að trúa að Jesús hafi lifnað við en það virðist vera of gott til að vera satt.
Hvað ætli Pétur og Jóhannes séu að hugsa?
Síðar þennan sunnudag birtist Jesús tveimur lærisveinum sem eru á gangi á veginum til þorpsins Emmaus. Jesús gengur með þeim og talar við þá en þeir þekkja hann ekki þar sem hann hefur ekki sama mannslíkamann og hann hafði áður. Þeir þekkja hann ekki fyrr en hann borðar með þeim og fer með bæn. Lærisveinarnir eru svo spenntir að þeir flýta sér aftur til Jerúsalem sem er margra kílómetra leið. Kannski er það stuttu eftir þetta sem Jesús birtist Pétri til að sýna honum að hann sé á lífi.
Um kvöldið þennan sunnudag eru margir lærisveinar saman komnir í herbergi. Dyrnar eru læstar. Skyndilega er Jesús hjá þeim inni í herberginu. Nú vita þeir fyrir víst að kennarinn mikli er á lífi. Hugsaðu þér hvað þeir hljóta að vera glaðir. — Matteus 28:1-15; Lúkas 24:1-49; Jóhannes 19:38– 20:21.
Í 40 daga birtist Jesús í mismunandi mannslíkömum til að sýna lærisveinum sínum að hann er á lífi. Síðan yfirgefur hann jörðina og fer aftur til föður síns á himnum. (Postulasagan 1:9-11) Fljótlega fara lærisveinarnir að segja öllum frá því að Guð hafi reist Jesú upp frá dauðum. Þeir halda áfram að prédika jafnvel þó að prestarnir berji þá og láti drepa suma. Þeir vita að þótt þeir deyi man Guð eftir þeim alveg eins og hann mundi eftir syni sínum.
Um hvað hugsa margir á þeim tíma ársins sem Jesús var reistur upp? En um hvað hugsar þú?
Fylgjendur Jesú í þá daga voru allt öðruvísi en margir nú á dögum sem hugsa bara um páskaegg og kanínur á þeim tíma ársins þegar Jesús var reistur upp. En Biblían talar ekkert um páskaegg og kanínur. Hún talar um að fólk eigi að þjóna Guði.
Við getum líkt eftir lærisveinum Jesú með því að segja fólki hvað það var dásamlegt að Guð skyldi reisa son sinn upp. Við þurfum aldrei að vera hrædd, jafnvel þó að fólk segist ætla að drepa okkur. Ef við deyjum man Jehóva eftir okkur og reisir okkur upp eins og Jesú.
Er ekki gleðilegt að Guð skuli muna eftir þeim sem þjóna honum og reisi þá jafnvel upp frá dauðum? — Fyrst við vitum þetta ætti okkur að langa til að vita hvernig við getum glatt Guð. Vissirðu að við getum glatt Guð? — Ræðum um það næst.
Von okkar verður örugg og trúin sterk ef við erum sannfærð um að Jesús hafi verið reistur upp. Lestu Postulasöguna 2:22-36; 4:18-20 og 1. Korintubréf 15:3-8, 20-23.