Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • lr kafli 40 bls. 207-211
  • Hvernig getum við glatt Guð?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig getum við glatt Guð?
  • Lærum af kennaranum mikla
  • Svipað efni
  • Þú átt hlut að mikilvægu deilumáli
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Job heiðraði nafn Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Líferni sem gleður Guð
    Hvað kennir Biblían?
  • Job sýnir Guði trúfesti
    Biblíusögubókin mín
Sjá meira
Lærum af kennaranum mikla
lr kafli 40 bls. 207-211

40. KAFLI

Hvernig getum við glatt Guð?

HVAÐ getum við gert til að gleðja Guð? Getum við gefið honum eitthvað? — Jehóva segir: ,Ég á öll skógardýrin.‘ Hann segir líka: ,Ég á silfrið og ég á gullið.‘ (Sálmur 24:1; 50:10; Haggaí 2:8) En það er eitt sem við getum gefið Guði. Veistu hvað það er? —

Jehóva leyfir okkur að ráða hvort við þjónum honum eða ekki. Hann neyðir okkur ekki til að gera það sem hann vill. Við skulum reyna að átta okkur á hvers vegna Guð skapaði okkur þannig að við getum ráðið sjálf hvort við þjónum honum eða ekki.

Þú veist líklega hvað vélmenni er. Það er vél sem maður getur stjórnað þannig að hún gerir eins og maður vill. Vélmennið ræður því ekki sjálft hvað það gerir. Jehóva hefði getað skapað okkur öll eins og vélmenni. Hann hefði getað skapað okkur þannig að við gætum bara gert það sem hann vildi. En Guð skapaði okkur ekki þannig. Veistu af hverju? — Sum leikföng eru eins og vélmenni. Þegar þú ýtir á takka gerir leikfangið bara það sem þú vilt að það geri. Áttu leikfang sem líkist vélmenni? — Maður verður fljótt þreyttur á svoleiðis leikföngum. Jehóva vill ekki að við hlýðum sér eins og vélmenni sem getur ekki annað. Hann vill að við þjónum sér af því að við elskum hann og viljum hlýða honum.

Hvers vegna skapaði Guð okkur ekki eins og þetta vélmenni?

Heldurðu að himneskur faðir þinn sé ekki ánægður þegar þú hlýðir honum af því að þig langar til þess? — Segðu mér, hvaða áhrif hefur hegðun þín á foreldra þína? — Biblían segir að vitur sonur ,gleðji föður sinn‘ en óvitur sonur ,sé móður sinni til mæðu‘. (Orðskviðirnir 10:1) Hefurðu tekið eftir því hvað það gleður mömmu þína og pabba mikið þegar þú hlýðir þeim? — En hvernig líður þeim þegar þú ert óhlýðinn? —

Hvernig getur þú glatt bæði Jehóva og foreldra þína?

Jehóva, faðir okkar á himnum, segir okkur hvernig við getum glatt sig. Náðu í biblíuna þína og flettu upp á Orðskviðunum 27:11. Þar segir Guð við okkur: „Vertu vitur, sonur minn [þetta á líka við um dætur], og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Veistu hvað það þýðir að smána einhvern? — Einhver gæti smánað þig með því að hlæja að þér og segja að þú getir ekki gert það sem þú segist geta. Hvernig smánar Satan Jehóva? — Við skulum athuga það.

Eins og þú manst lærðum við í 8. kafla að Satan vill vera fremri öllum öðrum og fá alla til að hlýða sér. Satan segir að mennirnir tilbiðji Jehóva aðeins vegna þess að hann gefur þeim eilíft líf í staðinn. Satan ögraði Jehóva eftir að hann hafði fengið Adam og Evu til að óhlýðnast honum. Hann sagði við Guð: ,Mennirnir þjóna þér aðeins vegna þess sem þeir fá í staðinn. Gefðu mér bara tækifæri, þá get ég látið alla hætta að tilbiðja þig.‘

Hvernig ögraði Satan Jehóva eftir að Adam og Eva höfðu syndgað?

Þetta stendur reyndar ekki alveg með þessum orðum í Biblíunni. En frásagan af Job sýnir að Satan sagði eitthvað þessu líkt við Guð. Það skipti greinilega miklu máli bæði fyrir Satan og Jehóva hvort Job reyndist trúfastur eða ekki. Flettum í Biblíunni upp á 1. og 2. kaflanum í Jobsbók og sjáum hvað gerðist.

Eins og þú sérð kemur það fram í fyrsta kaflanum að Satan er á himnum þegar englarnir koma til að tala við Jehóva. Jehóva spyr Satan: „Hvaðan kemur þú?“ Satan segist hafa verið að reika um jörðina. Þá spyr Jehóva: ,Tókstu eftir Job sem þjónar mér og gerir ekkert illt?‘ — Jobsbók 1:6-8.

Satan reynir strax að réttlæta ásakanir sínar. ,Job tilbiður þig bara af því að hann er laus við öll vandamál. Ef þú hættir að blessa hann og vernda mun hann formæla þér upp í opið geðið.‘ Þá svarar Jehóva honum: ,Gott og vel, Satan, þú mátt gera honum hvað sem þú vilt nema að leggja hendur á hann sjálfan.‘ — Jobsbók 1:9-12.

Hvað gerir Satan? — Hann lætur stela nautgripum og ösnum Jobs og drepa sveinana sem gæta þeirra. Síðan verða sauðirnir og fjárhirðarnir fyrir eldingu og deyja. Því næst koma menn og stela úlföldunum og drepa sveinana. Að lokum lætur Satan fellibyl eyðileggja húsið þar sem börn Jobs eru og þau farast öll tíu. En þrátt fyrir allt þetta heldur Job áfram að þjóna Jehóva. — Jobsbók 1:13-22.

Þegar Jehóva hittir Satan aftur bendir hann á að Job sé enn trúfastur. Satan reynir að réttlæta ásakanir sínar og segir: ,Ef þú leyfir mér bara að gera hann mjög veikan mun hann formæla þér upp í opið geðið.‘ Þá leyfir Jehóva Satan að kvelja Job en bannar honum samt að drepa hann.

Hvernig þjáðist Job og hvers vegna gladdi það Guð að hann skyldi vera trúfastur?

Satan veldur því að Job fær sjúkdóm þannig að allur líkami hans er þakinn sárum. Það er svo vond lykt af þeim að enginn vill vera nálægt honum. Konan hans segir meira að segja við hann: ,Formæltu Guði og farðu að deyja.‘ Menn, sem þykjast vera vinir Jobs, koma til hans og gera illt verra með því að segja að hann hljóti að hafa gert eitthvað hræðilegt fyrst allt þetta hafi komið fyrir hann. En þrátt fyrir allan sársaukann og áföllin, sem Satan veldur Job, heldur hann áfram að þjóna Jehóva trúfastlega. — Jobsbók 2:1-13; 7:5; 19:13-20.

Hvernig heldurðu að Jehóva hafi liðið þegar hann sá hvað Job var trúfastur? — Hann varð mjög glaður og ánægður af því að þá gat hann sagt við Satan: ,Sjáðu Job! Hann þjónar mér af því að hann langar til þess.‘ Ætlar þú að vera eins og Job svo að Jehóva geti bent á þig til að sanna að Satan sé lygari? — Það er mikill heiður fyrir okkur að fá að svara ásökunum Satans um að hann geti fengið alla til að hætta að þjóna Jehóva. Jesú fannst það greinilega vera mikill heiður.

Kennarinn mikli gerði aldrei neitt rangt þó að Satan reyndi að fá hann til þess. Hugsaðu þér bara hvað hann hefur glatt föður sinn! Jehóva gat bent á Jesú og sagt við Satan: ,Sjáðu son minn. Hann hefur verið fullkomlega trúfastur af því að hann elskar mig.‘ Hugsaðu þér líka hversu mikla ánægju Jesús hefur haft af því að gleðja hjarta föður síns. Jesús dó meira að segja á kvalastaur vegna þeirrar gleði sem beið hans. — Hebreabréfið 12:2.

Langar þig til að vera eins og kennarinn mikli og gleðja Jehóva? — Haltu þá áfram að læra um það sem Jehóva vill að þú gerir og gleddu hann með því að hlýða honum.

Lestu um hvernig Jesús gladdi Guð og hvað við þurfum líka að gera: Orðskviðirnir 23:22-25; Jóhannes 5:30; 6:38; 8:28; 2. Jóhannesarbréf 4.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila