KAFLI 18
Hvernig get ég unnið mér inn peninga?
„Mig langar að kaupa bíl.“ — Sergio.
„Mér finnst gaman að versla.“ — Laurie-Ann.
„Það er sumt sem mér finnst ótrúlega flott og mig langar mikið í en foreldrar mínir hafa ekki efni á því.“ — Mike.
ÞÚ HEFUR ef til vill svipaðar ástæður fyrir því að langa til að þéna peninga. Eða kannski verðurðu að vinna þér inn peninga til að styðja fjölskylduna. Jafnvel þótt þú leggir ekki peninga beint til heimilishaldsins geturðu létt undir með foreldrum þínum ef þú borgar fyrir fötin þín eða aðra persónulega hluti.
Hvað sem því líður kostar það peninga að kaupa hluti fyrir þig eða fjölskylduna. Þótt Jesús hafi lofað að Guð myndi sjá fyrir þeim sem ,leituðu fyrst ríkis hans‘ verðum við samt að leggja okkar af mörkum til að sjá fyrir okkur. (Matteus 6:33; Postulasagan 18:1-3; 2. Þessaloníkubréf 3:10) En hvernig geturðu unnið þér inn peninga? Og það sem meira er, hvernig geturðu haft rétt viðhorf til þeirra?
Að finna vinnu
Ef þú þarft nauðsynlega á einhverju að halda sem kostar meira en foreldrar þínir hafa efni á gætirðu reynt að vinna fyrir því sjálf(ur). Talaðu við foreldra þína um málið. Þeir verða kannski hrifnir af framtaki þínu. Ef við gerum ráð fyrir að foreldrar þínir samþykki að þú fáir þér vinnu og lögin leyfi það gætu eftirfarandi fjórar tillögur komið þér að gagni.
Láttu það fréttast. Segðu nágrönnum þínum, kennurum og ættingjum að þú sért að leita að vinnu. Ef þú þorir ekki að spyrja þá beint gætirðu spurt hvers konar vinnu þeir höfðu á þínum aldri. Því fleiri sem vita að þú ert að leita að vinnu þeim mun fleiri ábendingar og tilvísanir er líklegt að þú fáir.
Fylgdu öllum ábendingum eftir. Svaraðu auglýsingum í dagblöðum eða á Netinu og á upplýsingatöflum í verslunum, skólanum og öðrum almenningsstöðum. „Þannig fékk ég vinnuna mína,“ segir unglingur að nafni Davíð. „Ég skoðaði blöðin, sendi ferilskrána mína með faxi og hringdi síðan í fyrirtækið.“ Ef þetta skilar ekki árangri gætirðu reynt að sannfæra vinnuveitanda um að hann þurfi á þjónustu þinni að halda.
Skrifaðu og dreifðu ferilskrá. Skrifaðu á blað hvernig sé hægt að ná í þig og skráðu niður kunnáttu þína og reynslu. Finnst þér eins og þú hafir ekkert til að skrifa niður? Hugsaðu þig um. Hefurðu einhvern tíma þurft að sjá um yngra systkini þegar foreldrar þínir þurftu að bregða sér frá, eða hefurðu passað börn fyrir aðra? Það sýnir að þér er treystandi. Hefurðu hjálpað pabba þínum að gera við bílinn? Kannski sýnir það að þú getur unnið við vélar. Kanntu að vélrita eða að nota tölvu? Eða fékkstu góða einkunn í skóla fyrir eitthvert verkefni sem sýndi hugvit? Þetta getur allt vakið áhuga tilvonandi vinnuveitanda. Settu það á ferilskrána þína. Láttu alla hugsanlega vinnuveitendur fá skrána og biddu vini og ættingja að dreifa henni til þeirra sem eru að leita að starfskrafti.
Skapaðu þér vinnu. Hugsaðu um möguleikana í hverfinu þínu. Er þörf á einhverri vöru eða þjónustu sem enginn annar veitir? Segjum til dæmis að þú sért dýravinur. Þá gætirðu boðist til að þvo eða snyrta gæludýr nágranna þinna gegn greiðslu. Kannski spilarðu á hljóðfæri. Gætirðu kennt öðrum að spila? Ef til vill geturðu gert það sem aðra langar helst ekki að gera, eins og að þvo glugga eða þrífa. Kristnir menn skammast sín ekki fyrir að vinna með höndunum. (Efesusbréfið 4:28) Ef þú ætlar að vera þinn eigin vinnuveitandi þarftu auðvitað að sýna framtakssemi, sjálfsaga og frumkvæði.
Varnaðarorð: Anaðu ekki út í eigin rekstur fyrr en þú hefur reiknað allan kostnað og athugað hvað verkið felur í sér. (Lúkas 14:28-30) Ræddu fyrst um málið við foreldra þína. Talaðu líka við þá sem hafa unnið svipað starf. Þarftu að borga skatta eða einhver gjöld? Þarftu að hafa einhver réttindi eða fá leyfi? Fáðu nánari upplýsingar hjá yfirvöldum á staðnum. — Rómverjabréfið 13:1.
Gættu jafnvægis
Ímyndaðu þér að þú sért að hjóla og haldir samtímis á nokkrum hlutum eins og skólatösku, bolta og kannski nokkrum innkaupapokum. Því fleiru sem þú reynir að halda á þeim mun erfiðara er fyrir þig að halda jafnvægi. Það sama má segja ef þú tekur að þér vinnu sem felur í sér meira en þú ræður við. Ef þú notar of mikið af tíma þínum, orku og athygli í vinnu eftir skóla getur það komið niður á heilsu þinni og einkunnum. Síðast en ekki síst getur stíf dagskrá gert þér erfitt fyrir að sækja samkomur reglulega, lesa og hugleiða Biblíuna og taka þátt í boðunarstarfinu. „Ég hef misst af samkomum vegna þess að ég var svo þreytt eftir skólann og vinnuna,“ viðurkennir Michèle.
Láttu ekki viðhorf þitt til peninga verða til þess að þú missir jafnvægið. Jesús sagði að „þeir sem skynja andlega þörf sína“ finni sanna hamingju. (Matteus 5:3, New World Translation) Hann sagði líka: „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Stelpa að nafni Maureen hefur tekið þessi ráð til sín. „Ég vil ekki stefna að markmiðum sem ýta eingöngu undir efnishyggju,“ segir hún. „Ég veit að það mun skaða samband mitt við Jehóva ef ég verð of upptekin af því að eignast peninga.“
Í sumum heimshlutum verða unglingar að vísu að vinna mikið til að fjölskyldan hafi í sig og á. En ef þú býrð ekki við slíkar aðstæður er engin ástæða til að vinna of mikið og eiga á hættu að missa jafnvægið. Flestir sérfræðingar eru sammála um að það geri meiri skaða en gagn ef skólafólk vinnur meira en 20 tíma á viku. Sumir ráðleggja skólafólki að vinna ekki meira en átta til tíu tíma á viku. Hinn vitri konungur Salómon sagði: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ — Prédikarinn 4:6.
Mundu að „tál auðæfanna“ getur kæft áhuga þinn á andlegum málum. (Markús 4:19) Ef þú ákveður að vinna með skóla til að eignast peninga skaltu skipuleggja þig þannig að andlegu málin hafi forgang. Ræddu um þetta við Jehóva Guð í bæn. Hann getur gefið þér styrk til að standast álagið og getur hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir og varðveita gott samband við hann.
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 21 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
Hefur þú stjórn á peningunum eða stjórna þeir þér? Skoðaðu hvernig þú getur setið við stjórnvölinn.
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Sál letingjans girnist og fær ekki en sál hins eljusama mettast ríkulega.“ — Orðskviðirnir 13:4.
RÁÐ
Sendu ferilskrána þína til fyrirtækja jafnvel þótt þau hafi ekki auglýst eftir fólki.
VISSIR ÞÚ . . .?
Sums staðar eru allt að 85 prósent af lausum störfum ekki auglýst.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ég ætla að auka líkurnar á að finna vinnu með því að ․․․․․
Ég ætla ekki að vinna meira en tíma á viku. ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
• Af hverju þarftu að vinna þér inn peninga?
• Hvaða erfiðleikar geta fylgt því að fá sér vinnu?
• Hvernig geturðu haft rétt viðhorf til peninga?
[Innskot á bls. 153]
„Ef hamingja manns byggist bara á að eignast hluti verður maður aldrei hamingjusamur. Það kemur alltaf eitthvað nýtt sem mann langar í. Maður verður að læra að vera ánægður með það sem maður hefur.“— Jónatan
[Rammi á bls. 155]
Berðu virðingu fyrir peningum en elskaðu þá ekki
Beittur hnífur kemur reyndum kokki að góðum notum. En sami hnífur getur reynst stórhættulegur ef hann lendir í höndunum á einhverjum sem er óreyndur eða óvarkár. Peningar eru eins og beittur hnífur. Ef þú notar þá rétt geta þeir komið að góðum notum. En ef þú ferð ekki varlega geturðu valdið þér miklum skaða. Páll postuli varaði til dæmis við því að elska peninga. Til að verða ríkir fórna sumir sambandinu við vini og fjölskylduna og jafnvel sambandinu við Guð. Það verður til þess að þeir valda „sjálfum sér mörgum harmkvælum“. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Hver er lærdómurinn? Lærðu að nota peninga skynsamlega. Berðu virðingu fyrir þeim en elskaðu þá ekki.
[Mynd á bls. 153]
Það getur verið erfitt að halda jafnvæginu ef maður tekur of mörg verkefni að sér.