Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 12 bls. 93-99
  • „Jehóva gaf þeim kraft til að tala óttalaust“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Jehóva gaf þeim kraft til að tala óttalaust“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Mikill fjöldi … tók trú“ (Post. 14:1–7)
  • „Snúið ykkur … til hins lifandi Guðs“ (Post. 14:8–19)
  • „Þeir … fólu þá síðan Jehóva“ (Post. 14:20–28)
  • Innblásin fyrirmynd um kristið trúboðsstarf
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Þjónar Jehóva styrkjast í trúnni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • ‚Þeir glöddust og voru fullir af heilögum anda‘
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Þeir ‚styrktu söfnuðina‘
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 12 bls. 93-99

12. KAFLI

„Jehóva gaf þeim kraft til að tala óttalaust“

Páll og Barnabas eru auðmjúkir, þrautseigir og hugrakkir

Byggt á Postulasögunni 14:1–28

1, 2. Hvað gerist meðan Páll og Barnabas eru í Lýstru?

ALGJÖR ringulreið ríkir í Lýstru. Maður sem hefur verið lamaður frá fæðingu hoppar um af gleði eftir að tveir ókunnugir menn lækna hann. Fólk gapir af undrun og prestur kemur með blómsveiga handa mönnunum tveim sem fólkið heldur að séu guðir. Naut baula og fnæsa og prestur Seifs býr sig undir að slátra þeim. Páll og Barnabas mótmæla hástöfum. Þeir rífa föt sín, hlaupa inn í mannfjöldann og sárbæna fólkið að tilbiðja sig ekki. Þeim tekst með naumindum að afstýra því.

2 Nú birtast andstæðingar af hópi Gyðinga frá Antíokkíu í Pisidíu og Íkóníum. Þeir rægja Pál og Barnabas og fá Lýstrubúa á sitt band. Mannfjöldinn sem hafði ætlað að tilbiðja þá þyrpist nú að Páli og lætur grjóthríðina dynja á honum þar til hann missir meðvitund. Eftir að hafa gefið reiðinni útrás draga menn Pál særðan út fyrir borgarhliðin og halda að hann sé dáinn.

3. Um hvað er rætt í þessum kafla?

3 Hver var undanfari þessa voðaverks? Hvað geta þeir sem boða fagnaðarboðskapinn nú á dögum lært af Barnabasi, Páli og hviklyndum íbúum Lýstru? Og hvernig geta safnaðaröldungar líkt eftir Barnabasi og Páli sem héldu áfram að tala óttalaust í þeim krafti sem Jehóva gaf þeim? – Post. 14:3.

„Mikill fjöldi … tók trú“ (Post. 14:1–7)

4, 5. Hvers vegna fóru Páll og Barnabas til Íkóníum og hvað gerðist þar?

4 Fáeinum dögum áður höfðu Páll og Barnabas verið reknir út úr rómversku borginni Antíokkíu í Pisidíu eftir að Gyðingar höfðu æst til óeirða gegn þeim. Þeir létu ekki draga úr sér kjarkinn heldur ‚hristu rykið af fótum sér‘ og yfirgáfu borgina. (Post. 13:50–52; Matt. 10:14) Páll og Barnabas fóru með friði og létu andstæðingana taka afleiðingum gerða sinna frammi fyrir Guði. (Post. 18:5, 6; 20:26) Trúboðarnir tveir héldu ferðinni áfram og ekkert hafði dregið úr gleði þeirra. Þeir gengu um 150 kílómetra í suðausturátt og komu þá að frjósamri hásléttu milli Taurus- og Sultanfjallgarðanna.

5 Fyrsti viðkomustaður Páls og Barnabasar var Íkóníum þar sem grísk menning var í hávegum höfð. Þetta var ein af helstu borgum rómverska skattlandsins Galatíu.a Í borginni var áhrifamikið samfélag Gyðinga og mikill fjöldi fólks sem tekið hafði gyðingatrú. Páll og Barnabas fóru í samkunduhúsið og boðuðu trúna eins og þeir voru vanir. (Post. 13:5, 14) Þeir „töluðu þannig að mikill fjöldi bæði Gyðinga og Grikkja tók trú“. – Post. 14:1.

ÍKÓNÍUM – BORG FRÝGÍUMANNA

Íkóníum stóð á hárri, vatnsríkri og frjósamri hásléttu. Borgin stóð á krossgötum en mikilvægar verslunarleiðir sem tengdu Sýrland við Róm, Grikkland og rómverska skattlandið Asíu mættust þar.

Borgarbúar tilbáðu frýgísku frjósemisgyðjuna Kybele en dýrkunin var undir grískum áhrifum frá hellenska tímabilinu. Rómverjar náðu yfirráðum yfir borginni árið 65 f.Kr. og á fyrstu öld e.Kr. var hún stór og blómleg landbúnaðar- og verslunarmiðstöð. Íkóníum virðist hafa haldið hellenskum einkennum sínum þótt þar hafi verið áhrifamikið samfélag Gyðinga. Í Postulasögunni kemur fram að þar hafi búið ‚bæði Gyðingar og Grikkir‘. – Post. 14:1.

Íkóníum stóð á mörkum Lýkaóníu og Frýgíu í skattlandinu Galatíu. Sumir rithöfundar fortíðar, þeirra á meðal Cíceró og Strabó, kalla Íkóníum borg í Lýkaóníu og landfræðilega tilheyrði hún því svæði. Í Postulasögunni er Íkóníum hins vegar ekki talin tilheyra Lýkaóníu þar sem töluð var ‚lýkaónska‘. (Post. 14:1–6, 11) Sumir gagnrýndu því Postulasöguna og töldu hana ónákvæma. Árið 1910 fundust hins vegar áletranir í Íkóníum sem gefa til kynna að frýgíska hafi verið töluð í borginni í tvær aldir eftir heimsókn þeirra Páls og Barnabasar. Lúkas fór því með rétt mál þegar hann gerði greinarmun á Íkóníum og borgum Lýkaóníu.

6. Hvers vegna voru Páll og Barnabas góðir kennarar og hvernig getum við líkt eftir þeim?

6 Af hverju voru Páll og Barnabas svona góðir kennarar? Páll þekkti Ritningarnar í þaula. Hann notaði þær listilega og vísaði í sögu, spádóma og Móselögin til að sanna að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. (Post. 13:15–31; 26:22, 23) Barnabas var umhyggjan holdi klædd. (Post. 4:36, 37; 9:27; 11:23, 24) Hvorugur þeirra treysti á eigin visku heldur töluðu þeir í krafti Jehóva. Hvernig geturðu líkt eftir þeim þegar þú boðar trúna? Með því að gera eftirfarandi: Vertu góður biblíunemandi. Veldu biblíuvers sem líklegt er að höfði til áheyrenda. Vertu vakandi fyrir leiðum til að hughreysta þá sem þú boðar trúna. Og byggðu alltaf kennslu þína á orði Jehóva en ekki eigin visku.

7. (a) Hvaða áhrif hefur fagnaðarboðskapurinn? (b) Hvað er gott að muna ef fjölskylda þín er klofin vegna þess að þú hlýðir fagnaðarboðskapnum?

7 Það voru ekki allir í Íkóníum jafn hrifnir af því sem Páll og Barnabas höfðu að segja. Lúkas segir svo frá: „Gyðingar sem trúðu ekki æstu upp fólk af þjóðunum svo að það snerist gegn bræðrunum.“ Páll og Barnabas gerðu sér grein fyrir að þeir þyrftu að vera um kyrrt og verja fagnaðarboðskapinn. „Þeir dvöldust því alllengi þar“ og töluðu óttalaust við fólkið. Þetta varð til þess að „borgarbúar skiptust í tvo hópa, sumir voru með Gyðingum en aðrir með postulunum“. (Post. 14:2–4) Fagnaðarboðskapurinn hefur svipuð áhrif nú á dögum. Hann sameinar suma en getur líka valdið sundrung. (Matt. 10:34–36) Ef fjölskylda þín er klofin vegna þess að þú hlýðir fagnaðarboðskapnum skaltu minna þig á að andstaða er oft sprottin af tilhæfulausum sögusögnum eða hreinum rógi. Góð hegðun þín getur verið mótefni gegn slíku eitri og getur með tímanum mýkt þá sem standa gegn þér. – 1. Pét. 2:12; 3:1, 2.

8. Hvers vegna yfirgáfu Páll og Barnabas Íkóníum og hvað getum við lært af því?

8 Að nokkrum tíma liðnum gerðu menn í Íkóníum samsæri um að grýta Pál og Barnabas. Þegar trúboðarnir komust að því kusu þeir að færa sig um set. (Post. 14:5–7) Boðberar nú á dögum eru líka skynsamir. Þegar fólk talar illa um okkur verjum við okkur óttalaust. (Fil. 1:7; 1. Pét. 3:13–15) En þegar hætta er á ofbeldi erum við ekki svo fífldjörf að við gerum eitthvað sem myndi stofna lífi okkar eða trúsystkina okkar í voða að óþörfu. – Orðskv. 22:3.

„Snúið ykkur … til hins lifandi Guðs“ (Post. 14:8–19)

9, 10. Hvar var Lýstra og hvað vitum við um íbúa hennar?

9 Páll og Barnabas héldu nú til Lýstru, rómverskrar nýlendu sem var um 30 kílómetra suðvestur af Íkóníum. Lýstra átti margt sameiginlegt með Antíokkíu í Pisidíu en ólíkt henni bjuggu ekki margir Gyðingar þar. Íbúarnir töluðu líklega grísku en móðurmál þeirra var lýkaónska. Páll og Barnarbas fóru að boða trúna á almannafæri í borginni en sennilega var ekkert samkunduhús þar. Í Jerúsalem hafði Pétur læknað mann sem hafði verið lamaður frá fæðingu. Páll læknaði mann í Lýstru sem hafði líka verið lamaður frá fæðingu. (Post. 14:8–10) Margir sem sáu Pétur vinna kraftaverkið tóku trú. (Post. 3:1–10) En þegar Páll vinnur þetta kraftaverk hefur það allt önnur áhrif.

10 Eins og lýst var í byrjun kaflans drógu heiðnir íbúar Lýstru ranga ályktun þegar þeir sáu lamaða manninn stökkva á fætur. Þeir kölluðu Barnabas Seif, sem var æðsti guð þeirra, og Pál Hermes en hann var sonur Seifs og talsmaður guðanna. (Sjá rammann „Lýstra og dýrkun á Seifi og Hermesi“.) En Barnabas og Páll vildu fyrir alla muni að fólkið skildi að þeir töluðu ekki eða störfuðu í nafni heiðinna guða heldur í krafti hins eina sanna Guðs, Jehóva. – Post. 14:11–14.

LÝSTRA OG DÝRKUN Á SEIFI OG HERMESI

Lýstra lá í afskekktum dal fjarri alfaraleiðum. Ágústus keisari tilnefndi borgina rómverska nýlendu og kallaði hana Julia Felix Gemina Lustra. Þar var setulið sem hafði það verkefni að verja Galatíu fyrir ættflokkum sem bjuggu til fjalla í grenndinni. Borginni var því stjórnað eftir hefðbundnu rómversku fyrirkomulagi og embættismennirnir báru latneska titla. Lýstra hélt þó menningu sinni að mestu leyti og yfirbragð hennar var lýkaónskt frekar en rómverskt. Það kemur heim og saman við það sem segir í Postulasögunni að íbúar hennar hafi talað lýkaónsku.

Meðal fornra menja sem fundist hafa á svæðinu þar sem Lýstra stóð eru stytta af guðinum Hermesi og áletranir sem tala um „presta Seifs“. Altari helgaði Seifi og Hermesi hefur einnig fundist á svæðinu.

Rómverska ljóðskáldið Óvidíus (43 f.Kr. til 17 e.Kr.) skrásetti þjóðsögu sem skýtur stoðum undir frásögn Postulasögunnar. Óvidíus segir frá því að rómversku guðirnir Júpíter og Merkúríus, sem samsvöruðu grísku guðunum Seifi og Hermesi, hafi brugðið sér í mannslíki og heimsótt fjalllendi Frýgíu. Þeir báðust gistingar á þúsund heimilum en enginn vildi taka við þeim nema öldruð hjón sem hétu Fílemon og Baukis. Þau buðu þeim inn á fátæklegt heimili sitt. Í þakklætisskyni breyttu Seifur og Hermes heimili þeirra í musteri úr marmara og gulli, gerðu þau að prestum og eyddu heimilum þeirra sem höfðu synjað þeim um gistingu. „Hafi Lýstrubúar munað eftir slíkri þjóðsögu kemur ekki á óvart að þeir hafi viljað færa Páli og Barnabasi fórnir þegar þeir sáu þá lækna lamaða manninn,“ segir í The Book of Acts in Its Graeco-Roman Setting.

Páll og Barnabas vildu ekki hljóta aðdáun fjöldans í Lýstru. Fólkið leikur á hljóðfæri, undirbýr fórnir og fellur fram fyrir þeim.

„Snúið ykkur frá þessum hégóma og til hins lifandi Guðs sem gerði himin og jörð.“ – Postulasagan 14:15.

11–13. (a) Hvað sögðu Páll og Barnabas við Lýstrubúa? (b) Hvað lærum við meðal annars af því sem Páll og Barnabas sögðu?

11 Þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður leggja Páll og Barnabas sig fram um að ná til hjartna áheyrenda sinna. Lúkas lýsir hér áhrifaríkri leið til að boða þeim fagnaðarboðskapinn sem eru ekki kristinnar trúar. Tökum eftir hvernig Páll og Barnabas höfða til áheyrenda sinna: „Menn, hvers vegna gerið þið þetta? Við erum bara menn eins og þið og með sömu veikleika. Við flytjum ykkur fagnaðarboðskapinn svo að þið getið snúið ykkur frá þessum hégóma og til hins lifandi Guðs sem gerði himin og jörð og hafið og allt sem í þeim er. Um liðnar aldir hefur hann leyft öllum þjóðum að fara sínar eigin leiðir en hefur þó vitnað um sjálfan sig með góðverkum sínum. Hann hefur gefið ykkur regn af himni og uppskerutíma, veitt ykkur næga fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ – Post. 14:15–17.

12 Hvað getum við lært af því sem Páll og Barnabas sögðu? Í fyrsta lagi fannst þeim þeir ekki vera yfir áheyrendur sína hafnir. Þeir þóttust ekki vera eitthvað annað en þeir voru. Þeir viðurkenndu auðmjúkir að þeir hefðu sömu veikleika og aðrir. Páll og Barnabas höfðu vissulega fengið heilagan anda og höfðu losnað undan valdi falskenninga. Þeir höfði líka fengið þá von að fá að ríkja með Kristi. En þeir vissu að íbúar Lýstru gátu líka hlotið þessa sömu blessun ef þeir hlýddu Kristi.

13 Hvernig lítum við á þá sem við boðum trúna? Hugsum við um þá sem jafningja okkar? Reynum við að vekja aðdáun þeirra sem við fræðum um sannleika Biblíunnar eða forðumst við það eins og Páll og Barnabas? Charles Taze Russell var frábær kennari og hann tók forystuna í boðuninni seint á 19. öld og í byrjun þeirrar 20. Hann er okkur góð fyrirmynd en hann skrifaði: „Við sækjumst hvorki eftir lotningu né aðdáun handa sjálfum okkur eða fyrir skrif okkar. Við viljum ekki heldur láta ávarpa okkur með titlum eins og séra eða rabbí.“ Bróðir Russell var auðmjúkur eins og Páll og Barnabas. Þegar við boðum trúna ætti hvötin ekki að vera að upphefja sjálf okkur heldur að hjálpa fólki að snúa sér til „hins lifandi Guðs“.

14–16. Nefndu tvennt í viðbót sem við getum lært af því sem Páll og Barnabas sögðu við Lýstrubúa.

14 Við getum lært annað af þessari ræðu. Páll og Barnabas löguðu sig að aðstæðum. Ólíkt Gyðingum og trúskiptingum í Íkóníum höfðu Lýstrubúar litla eða enga þekkingu á Ritningunum eða samskiptum Guðs við Ísraelsþjóðina. En áheyrendur Páls og Barnabasar tilheyrðu bændasamfélagi. Í Lýstru var milt veðurfar og frjósamur jarðvegur. Fólk gat séð skýr merki um eiginleika skaparans sem birtust meðal annars í góðri uppskeru og trúboðarnir notuðu það sem sameiginlegan grundvöll í rökfærslu sinni. – Rómv. 1:19, 20.

15 Getum við líka lagað okkur að aðstæðum? Bóndi sáir kannski sömu korntegund í nokkra akra en þarf þó að undirbúa jarðveginn með mismunandi hætti. Sums staðar er jarðvegurinn mjúkur og tilbúinn til sáningar. Annars staðar getur þurft að undirbúa jarðveginn betur. Eins er það með kornið sem við sáum, það er alltaf það sama – boðskapurinn um ríkið sem er að finna í Biblíunni. En ef við líkjum eftir Páli og Barnabasi reynum við að átta okkur á aðstæðum og trúarlegum bakgrunni fólks sem við tölum við. Við tökum síðan mið af því þegar við komum boðskapnum á framfæri. – Lúk. 8:11, 15.

16 Það þriðja sem við lærum af frásögunni af Páli, Barnabasi og íbúum Lýstru er þetta: Þó að við leggjum okkur öll fram er kornið sem við sáum stundum hrifsað burt eða það fellur í grýtta jörð. (Matt. 13:18–21) Gefstu ekki upp ef það gerist. Páll minnti lærisveinana í Róm á þetta síðar meir þegar hann sagði: „Við þurfum því öll [þar á meðal þeir sem við ræðum við um orð Guðs] að standa Guði reikningsskap gerða okkar.“ – Rómv. 14:12.

„Þeir … fólu þá síðan Jehóva“ (Post. 14:20–28)

17. Hvert fóru Páll og Barnabas frá Derbe og hvers vegna?

17 Eftir að menn höfðu dregið Pál út úr Lýstru í þeirri trú að hann væri dáinn slógu lærisveinarnir hring um hann. Hann stóð upp, fór inn í borgina og gisti þar um nóttina. Daginn eftir lögðu Páll og Barnabas af stað til Derbe en þangað var um 100 kílómetra leið. Þessi erfiða ferð hlýtur að hafa reynt mjög á Pál. Hann hafði verið grýttur daginn áður. En þeir Barnabas gáfust ekki upp og þegar þeir komu til Derbe gerðu þeir „allmarga að lærisveinum“. Í stað þess að fara beinustu leið til Antíokkíu í Sýrlandi, sem var bækistöð trúboðanna, „sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu“ í Pisidíu. Í hvaða tilgangi? Til að ‚styrkja lærisveinana og hvetja þá til að vera staðfastir í trúnni‘. (Post. 14:20–22) Þeir eru okkur sannarlega góð fyrirmynd! Þeir tóku hag safnaðarins fram yfir sinn eigin. Farandhirðar og trúboðar nú á tímum hafa tekið þá sér til fyrirmyndar.

18. Hvernig eru öldungar útnefndir?

18 Auk þess að styrkja lærisveinana með orðum sínum og verkum útnefndu Páll og Barnabas líka „öldunga handa þeim í hverjum söfnuði“. Þótt tvímenningarnir væru „sendir af heilögum anda“ í þessa trúboðsferð báðu þeir og föstuðu áður en þeir ‚fólu öldungana Jehóva‘. (Post. 13:1–4; 14:23) Öldungar eru útnefndir með svipuðum hætti nú á tímum. Áður en mælt er með að bróðir sé útnefndur biðst öldungaráð safnaðarins fyrir og skoðar hvort hann uppfylli hæfniskröfur Biblíunnar. (1. Tím. 3:1–10, 12, 13; Tít. 1:5–9; Jak. 3:17, 18; 1. Pét. 5:2, 3) Það skiptir ekki aðalmáli hve lengi bróðirinn hefur verið í trúnni. Það er frekar orðspor hans og það sem hann segir og gerir sem gefur til kynna í hvaða mæli heilagur andi starfar í lífi hans. Ef hann uppfyllir hæfniskröfurnar sem Biblían gerir til umsjónarmanna er hann hæfur til að vera hirðir hjarðarinnar. (Gal. 5:22, 23) Farandhirðirinn hefur það verkefni að útnefna nýja umsjónarmenn. – Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:22.

19. Hvaða ábyrgð hvílir á öldungunum og hvernig líkja þeir eftir Páli og Barnabasi?

19 Öldungar vita að þeir þurfa að standa Guði reikningsskap þess hvernig þeir hugsa um söfnuðinn. (Hebr. 13:17) Eins og Páll og Barnabas fara öldungar með forystu í boðuninni. Þeir styrkja trúsystkini sín með því sem þeir segja. Og þeir láta hag safnaðarins ganga fyrir sínum eigin. – Fil. 2:3, 4.

20. Hvaða gagn höfum við af því að lesa frásögur af starfi trúsystkina okkar?

20 Þegar Páll og Barnabas sneru að lokum aftur til bækistöðva sinna í Antíokkíu í Sýrlandi sögðu þeir frá „öllu sem Guð hafði gert fyrir atbeina þeirra og að hann hefði opnað þjóðunum dyr trúarinnar“. (Post. 14:27) Þegar við lesum frásögur af starfi trúsystkina okkar og sjáum hvernig Jehóva blessar þau hvetur það okkur til að tala óttalaust í þeim krafti sem hann veitir.

a Sjá rammann „Íkóníum – borg Frýgíumanna“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila