Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • kr kafli 12 bls. 118-131
  • Skipulögð til að þjóna ‚Guði friðarins‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Skipulögð til að þjóna ‚Guði friðarins‘
  • Ríki Guðs stjórnar
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Ég geri friðinn að yfirvaldi þínu“
  • Hvernig leiðir Kristur söfnuðinn?
  • Verið „fyrirmynd hjarðarinnar“
  • Hvernig gæta öldungarnir hjarðar Guðs?
  • Betri umsjón styrkir eininguna meðal þjóna Guðs
  • Hlýðið þeim sem með forystuna fara
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Hirðar, líkið eftir hirðunum miklu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Hvernig er söfnuðurinn skipulagður?
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • „Hafið slíka menn í heiðri“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Ríki Guðs stjórnar
kr kafli 12 bls. 118-131

12. KAFLI

Skipulögð til að þjóna ‚Guði friðarins‘

Í ÞESSUM KAFLA

Jehóva skipuleggur þjóna sína stig af stigi.

1, 2. Hvaða breyting varð á Varðturninum í janúar 1895 og hvernig brugðust bræður við?

KAPPSAMUR biblíunemandi, John A. Bohnet að nafni, var yfir sig hrifinn þegar hann fékk Varðturninn sinn í hendur í janúar 1895. Forsíðan var prýdd áberandi mynd af háreistum vita sem sendi ljósgeisla út í náttmyrkrið yfir úfinn sjóinn. Í blaðinu var tilkynning um þetta nýja útlit. Hún bar yfirskriftina: „Nýju fötin okkar.“

2 Í hrifningu sinni sendi bróðir Bohnet bréf til Charles T. Russells. „Það gleður mig að sjá TURNINN svona prúðbúinn,“ sagði í bréfinu. „Hann lítur vel út.“ Annar dyggur biblíunemandi, John H. Brown, skrifaði eftirfarandi um forsíðuna: „Hún er áhrifamikil, að sjá turninn á traustum grunni standa af sér storma og brim.“ Þessi nýja forsíða var fyrsta breytingin sem bræður okkar og systur sáu það árið – en ekki sú síðasta. Í nóvember fréttu þau af annarri mikilvægri breytingu. Og það er athyglisvert að hún var líka sett í samband við ólgusjó.

3, 4. Um hvaða erfiðleika var rætt í Varðturninum 15. nóvember 1895 og hvaða víðtæka breyting var boðuð?

3 Ítarleg grein birtist í Varðturninum 15. nóvember 1895 þar sem rætt var um ákveðið vandamál: Alvarlegir erfiðleikar steðjuðu að söfnuði Biblíunemendanna. Það stefndi í ófrið vegna þess að bræður deildu æ meir um það hver ætti að vera leiðtogi safnaðarins á hverjum stað. Til að sýna safnaðarmönnum fram á hvað þyrfti að gera til að kveða niður þennan samkeppnisanda var söfnuði Biblíunemendanna líkt við skip. Síðan viðurkenndi blaðið hreinskilnislega að þeir sem fóru með forystuna hefðu ekki búið söfnuðinn undir óveður og ólgusjó. Hvað var til ráða?

4 Í greininni kom fram að góður skipstjóri gæti þess að vera með björgunarbúnað um borð og að áhöfnin sé undir það búin að byrgja lestaropin áður en óveður skellur á. Þeir sem fóru með forystuna þurftu sömuleiðis að tryggja að allir söfnuðirnir væru búnir undir storma og stórsjói. Til að stuðla að því tilkynnti blaðið að gerð yrði víðtæk breyting á skipulagi safnaðarins. Þaðan í frá átti að „kjósa öldunga í hverjum söfnuði til að hafa umsjón með hjörðinni“. – Post. 20:28.

5. (a) Hvers vegna var það tímabært framfaraskref að kjósa öldunga í söfnuðunum? (b) Um hvaða spurningar er rætt í framhaldinu?

5 Það fyrirkomulag að kjósa öldunga var tímabært framfaraskref sem átti sinn þátt í að skapa stöðugleika í söfnuðunum. Breytingin hjálpaði trúsystkinum okkar að sigla gegnum stórsjói fyrri heimsstyrjaldarinnar. Skipulag safnaðanna var bætt stig af stigi á næstu áratugum og þjónar Jehóva urðu smám saman betur í stakk búnir til að þjóna honum. Í hvaða biblíuspádómi var talað um þessa framvindu? Hvaða skipulagsbreytingar hefur þú séð? Hvernig hafa þær verið þér til góðs?

„Ég geri friðinn að yfirvaldi þínu“

6, 7. (a) Hvað merkir spádómurinn í Jesaja 60:17? (b) Hvað má álykta af því að talað er um ‚yfirvald‘ og ‚yfirboðara‘?

6 Eins og fram kom í 9. kafla spáði Jesaja að Jehóva myndi fjölga þjónum sínum. (Jes. 60:22) En Jehóva lofaði að gera meira en það. Í sama spádómi segir hann: „Ég færi þér gull fyrir eir, silfur fyrir járn, eir fyrir við og járn fyrir grjót. Ég geri friðinn að yfirvaldi þínu og réttlætið að yfirboðara þínum.“ (Jes. 60:17) Hvað merkir þessi spádómur? Hvernig snertir hann okkur sem nú lifum?

Það er ekki verið að breyta slæmu í gott heldur góðu í betra.

7 Í spádómi Jesaja segir að eitt efni komi í stað annars. En við skulum taka eftir að það er ekki verið að breyta slæmu í gott heldur góðu í betra. Það er framför að fá gull í stað eirs og hið sama er að segja um hin efnin sem nefnd eru í spádóminum. Með þessu líkingamáli lýsir Jehóva hvernig staða þjóna hans breytist stig af stigi til hins betra. Hvers konar framförum er lýst í spádóminum? Jehóva nefnir ‚yfirvald‘ og ‚yfirboðara‘ og það gefur til kynna að umsjónin og skipulagið meðal þjóna hans verði smám saman betra og betra.

8. (a) Hver kemur umbótunum til leiðar sem eru nefndar í spádómi Jesaja? (b) Hvernig eru umbæturnar til góðs fyrir okkur? (Sjá einnig greinina „Auðmjúkur maður sem tók leiðréttingu“.)

8 Hver kemur þessum skipulagsumbótum til leiðar? Jehóva segir: „Ég færi þér gull“ og „ég geri friðinn að yfirvaldi þínu“. Það er Jehóva sjálfur en ekki menn sem hafa bætt skipulag safnaðarins. Og síðan Jesús tók við konungsembætti hefur Jehóva falið honum að koma þessum umbótum til leiðar. Að hvaða leyti eru þær okkur til góðs? Í sama versi segir að umbæturnar hafi frið og réttlæti í för með sér. Þegar við förum eftir handleiðslu Jehóva og gerum þær breytingar sem hann vill ríkir friður á meðal okkar og réttlætisástin er okkur hvatning til að þjóna honum, ‚Guði friðarins‘ eins og Páll postuli kallaði hann. – Fil. 4:9.

9. Á hverju byggist góð regla og eining í söfnuðinum og hvers vegna þarf hún að gera það?

9 Páll postuli skrifaði einnig um Jehóva: „Guð er Guð friðar, ekki truflunar,“ það er að segja óreiðu. (1. Kor. 14:33) Við skulum taka eftir að Páll er ekki að bera saman óreiðu og góða reglu heldur óreiðu og frið. Hvers vegna? Hugsaðu málið. Það er ekki sjálfgefið að góð regla stuðli að friði. Hermenn ganga fylktu liði til vígstöðvanna. En þó að þeir þrammi í skipulegri röð stuðla þeir ekki að friði heldur stríði. Við sem erum kristin viljum því hafa eitt mikilvægt atriði í huga: Ekkert mannlegt skipulag stendur til langframa ef það er ekki byggt á friði. Friður Guðs stuðlar hins vegar að góðri reglu sem endist. Við erum því innilega þakklát fyrir að „Guð friðarins“ skuli leiðbeina söfnuði okkar og bæta hann stig af stigi. (Rómv. 15:33) Friður Guðs er grundvöllur þeirrar góðu reglu og hugheilu einingar sem við búum við í söfnuðum okkar út um allan heim og metum svo mikils. – Sálm. 29:11.

10. (a) Hvaða breytingar urðu á skipulagi safnaðarins snemma í sögu hans? (Sjá yfirlitið „Hvernig umsjónin breyttist til batnaðar“.) (b) Hvaða spurningar skoðum við í framhaldinu?

10 Í greininni „Hvernig umsjónin breyttist til batnaðar“ er yfirlit yfir þær góðu og gagnlegu breytingar sem urðu á skipulagi safnaðarins snemma í sögu hans. En hvaða breytingar hefur Jehóva falið konunginum að gera á síðustu áratugum sem líkja má við að færa okkur „gull fyrir eir“? Hvernig hafa þessar breytingar á umsjóninni aukið frið og einingu safnaðanna út um allan heim? Hvernig hjálpa þær þér að þjóna ‚Guði friðarins‘?

Hvernig leiðir Kristur söfnuðinn?

11. (a) Hvað leiddi rannsókn á Biblíunni í ljós? (b) Hvað voru bræðurnir í hinu stjórnandi ráði staðráðnir í að gera?

11 Á árunum 1964 til 1971 stóð hið stjórnandi ráð fyrir víðtækum biblíurannsóknum, meðal annars á því hvernig kristni söfnuðurinn á fyrstu öld starfaði.a Rannsóknin leiddi í ljós að á fyrstu öld var umsjónin með söfnuðunum í höndum öldungaráðs en ekki aðeins eins öldungs eða umsjónarmanns. (Lestu Filippíbréfið 1:1; 1. Tímóteusarbréf 4:14.) Þegar það lá fyrir gerði hið stjórnandi ráð sér grein fyrir að konungurinn Jesús hafði leiðbeint þeim þannig að hægt væri að betrumbæta skipulag safnaðanna. Bræðurnir í ráðinu voru staðráðnir í að fylgja handleiðslu konungsins. Þeir hófust handa þegar í stað við að laga söfnuðinn betur að því fyrirkomulagi sem var á skipan öldunga á fyrstu öld. Hvaða breytingar voru gerðar upp úr 1970?

AUÐMJÚKUR MAÐUR SEM TÓK LEIÐRÉTTINGU

Í FINNSKRI útgáfu Varðturnsins 1. apríl 1916 birtist bréf frá bróður Russell sem var ætlað fáeinum bræðrum á Norðurlöndum. Kaarlo Harteva var einn þeirra. Í bréfi bróður Russells stóð: „Við hvetjum ykkur alla, kæru bræður í trúnni, til að snúa aftur til sannleikans og þess verks sem ber að vinna núna.“ Hvað bjó að baki þessari hvatningu bróður Russells?

Kaarlo Harteva

Kaarlo Harteva

Kaarlo Harteva fæddist árið 1882 og var einn af fyrstu biblíunemendunum í Finnlandi. Hann skírðist í apríl 1910, og sumarið 1912 gaf bróðir Russell honum umboð til að gefa út Varðturninn á finnsku. Allt lék í lyndi uns fyrri heimsstyrjöldin braust út. Bróðir Harteva sagði í Varðturninum 1. desember 1914: „Sökum þess hve efnahagsástandið er erfitt ... getum við ekki lofað að Varðturninn verði jafn margar blaðsíður eða komi út eins oft á þessu ári.“ Til að afla fjár stofnaði Harteva samvinnufélagið Ararat ásamt nokkrum öðrum árið 1915 og hóf það útgáfu tímarits undir sama nafni.

Bróðir Harteva beindi kröftum sínum að nýja félaginu og tímaritinu, og annar bróðir tók við sem ritstjóri Varðturnsins á finnsku. Í tímaritinu Ararat birtust greinar um biblíuleg efni en einnig var fjallað um mál eins og náttúrulækningar og tungumálið esperantó sem var þá fremur nýtt af nálinni. Ekki leið á löngu áður en nýja tímaritið dró athygli bræðra og systra frá skýrum kenningum sannleikans. Russell hafði áhyggjur af andlegri velferð þeirra og það var þá sem hann hvatti Harteva og aðra til að „snúa aftur til sannleikans“.

Hvernig brást Harteva við? Hann birti bréf bróður Russells í tímaritinu Ararat ásamt sínu eigin svari við því. Hann baðst afsökunar á gerðum sínum og sagði: „Ég vil gera það sem ég get til að leiðrétta mistök mín.“ Í síðasta tölublaði Ararats, sem kom út skömmu síðar, baðst bróðir Harteva enn og aftur afsökunar á því að hafa ruglað aðra í ríminu. Hann bætti við: „Ég ætla að reyna að vera varkárari varðandi alla þætti sannleikans eins og við þekkjum hann.“ Kaarlo Harteva var auðmjúkur maður og tók leiðréttingu, ólíkt sumum hinna stoltu öldunga sem höfðu verið kjörnir til starfa.

Síðar var bróðir Harteva skipaður ritstjóri Varðturnsins á finnsku á nýjan leik og einnig umsjónarmaður deildarskrifstofunnar. Hann gegndi þessum ábyrgðarstörfum fram til 1950. Hann lauk lífi sínu á jörð árið 1957, trúr Jehóva og sannleikanum. Þeir sem eru auðmjúkir og taka leiðréttingu konungsins Jesú fágast og hljóta blessun Jehóva.

12. (a) Hvaða breyting var gerð á hinu stjórnandi ráði? (b) Lýstu uppbyggingu og starfsemi hins stjórnandi ráðs. (Sjá greinina „Hvernig gætir hið stjórnandi ráð hagsmuna Guðsríkis á jörð?“.)

12 Fyrst var gerð breyting sem sneri að hinu stjórnandi ráði sjálfu. Fram að þeim tíma hafði ráðið verið skipað sjö andasmurðum bræðrum sem mynduðu jafnframt stjórn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu. Árið 1971 var hins vegar fjölgað úr 7 í 11 í hinu stjórnandi ráði. Ráðið og stjórn Félagsins voru ekki lengur eitt og hið sama. Bræðurnir í ráðinu litu á sig sem jafningja og þaðan í frá skiptust þeir á að gegna formennsku eitt ár í senn eftir stafrófsröð.

13. (a) Hvernig var umsjón safnaðanna háttað um 40 ára skeið? (b) Hvað gerði hið stjórnandi ráð árið 1972?

13 Síðan var gerð breyting sem snerti alla söfnuðina. Hvernig þá? Á árabilinu 1932 til 1972 var umsjónin með hverjum söfnuði að mestu leyti í höndum eins bróður. Fram til 1936 var þessi bróðir kallaður þjónustustjóri. Þá var heitinu breytt í félagsþjónn, síðan í safnaðarþjónn og loks í umsjónarmaður safnaðarins. Þessir útnefndu bræður sinntu andlegri velferð hjarðarinnar af mestu kostgæfni. Umsjónarmaður safnaðarins tók venjulega ákvarðanir um málefni safnaðarins án þess að ráðfæra sig við hina þjónana. En árið 1972 lagði hið stjórnandi ráð drög að sögulegri breytingu. Í hverju fólst hún?

14. (a) Hvaða nýja fyrirkomulag tók gildi 1. október 1972? (b) Hvernig lítur umsjónarmaður öldungaráðsins á sjálfan sig, samanber Filippíbréfið 2:3?

14 Í stað þess að einn bróðir færi með umsjónina í hverjum söfnuði voru útnefndir fleiri bræður, sem uppfylltu hæfniskröfur Biblíunnar, til að þjóna sem safnaðaröldungar. Saman mynduðu þeir öldungaráð sem skyldi hafa umsjón með söfnuðinum á staðnum. Þetta nýja fyrirkomulag tók gildi 1. október 1972. Umsjónarmaður öldungaráðsins, sem nú heitir svo, lítur ekki á sig sem fremstan meðal jafningja heldur ‚minnstan allra‘. (Lúk. 9:48) Það er mikil blessun fyrir þjóna Guðs um allan heim að njóta stuðnings þessara auðmjúku bræðra. – Fil. 2:3.

Konungurinn hefur greinilega verið forsjáll og séð fylgjendum sínum fyrir nægri umsjón á réttum tíma.

15. (a) Hvers vegna var það mikil framför að skipa öldungaráð í söfnuðunum? (b) Hvernig reyndist konungurinn forsjáll?

15 Það var mikil framför að hópur öldunga deildi með sér ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Lítum á þrjá kosti sem fylgja því: Í fyrsta lagi hjálpar þetta öllum öldungunum að vera fyllilega meðvitaðir um að Jesús er höfuð safnaðarins – og gildir þá einu hve mikilli ábyrgð þeir gegna í söfnuðinum. (Ef. 5:23) Í öðru lagi ráðgast öldungarnir hver við annan um velferð safnaðarins og hugleiða tillögur hver annars, og það hjálpar þeim að taka ákvarðanir í samræmi við meginreglur Biblíunnar. (Orðskv. 27:17) „Séu ráðgjafar margir getur allt farið vel,“ segir í Orðskviðunum 11:14. Jehóva blessar slíkar ákvarðanir og þær eru öllum til góðs. Í þriðja lagi hefur verið hægt að sinna hinni vaxandi þörf fyrir umsjón og hjarðgæslu innan safnaðarins með því að skipa fleiri hæfa bræður sem öldunga. (Jes. 60:3-5) Hugsaðu þér: Söfnuðunum í heiminum fjölgaði úr rúmlega 27.000 árið 1971 í rösklega 113.000 árið 2013. Konungurinn hefur greinilega verið forsjáll og séð fylgjendum sínum fyrir nægri umsjón á réttum tíma. – Míka 5:4.

HVERNIG UMSJÓNIN BREYTTIST TIL BATNAÐAR

  • 1881 – Bróðir Russell biður biblíunemendur, sem halda samkomur reglulega, að tilkynna skrifstofu Varðturnsins hvar þeir safnist saman. Þetta er gert til að koma þeim sem búa á sama svæði í samband hver við annan.

  • 1895 – Allir söfnuðir fá fyrirmæli um að velja sér bræður til að þjóna sem öldungar.

  • 1919 – Deildarskrifstofan útnefnir þjónustustjóra í hverjum söfnuði. Hann hefur meðal annars það verkefni að skipuleggja boðunina og hvetja til þátttöku í henni. Sumir safnaðaröldungar styðja ekki það fyrirkomulag að hafa þjónustustjóra í söfnuðinum.

  • 1932 – Hætt er að velja öldunga með árlegri kosningu í söfnuðinum. Þess í stað kýs söfnuðurinn sér starfsnefnd skipaða bræðrum sem boða fagnaðarerindið af kappi. Þeir þurfa að rísa undir nafninu vottar Jehóva sem hafði þá nýlega verið tekið upp. Söfnuðurinn tilnefnir einn þeirra sem þjónustustjóra og Félagið eða deildarskrifstofan skipar hann til starfa.

  • 1937 – Bræður af múginum mikla mega sitja í starfsnefndum ásamt andasmurðum bræðrum sínum.

  • 1938 – Söfnuðirnir samþykkja yfirlýsingu þar sem óskað er eftir að allir þjónar í söfnuðinum séu útnefndir í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þar með eru lýðræðislegar kosningar aflagðar í söfnuðunum.

Finna má nánari upplýsingar um skipulagsbreytingar í sögu safnaðarins í bókinni Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 204-235.

Árleg kosning safnaðarins á öldungum á þriðja áratug síðustu aldar.

„Við greiddum atkvæði með öldungunum með því að rétta upp hægi höndina. Bróðir gekk síðan milli sætaraðanna og taldi atkvæðin.“ – Systir Rose Swingle, Chicago í Illinois í Bandaríkjunum.

Verið „fyrirmynd hjarðarinnar“

16. (a) Hvaða skylda hvílir á öldungum? (b) Hvernig litu Biblíunemendurnir á hvatningu Jesú þess efnis að ‚vera hirðar sauðanna‘?

16 Öldungar meðal Biblíunemendanna áttuðu sig snemma á því að það væri skylda þeirra að hjálpa trúsystkinum sínum að halda áfram að þjóna Guði. (Lestu Galatabréfið 6:10.) Árið 1908 var rætt í Varðturninum um hvatningu Jesú: „Ver hirðir sauða minna.“ (Jóh. 21:15-17) Í greininni var öldungum sagt: „Það er afar mikilvægt að fyrirmæli meistarans varðandi hjörðina skipi háan sess í hjörtum okkar, að við lítum á það sem mikinn heiður að mega næra fylgjendur Drottins og annast þá.“ Árið 1925 var aftur lögð áhersla á það í Varðturninum að öldungar gættu hjarðarinnar. Þar voru þeir minntir á eftirfarandi: „Kirkja Guðs tilheyrir honum ... og hann gerir alla ábyrga fyrir verkefni þeirra að þjóna bræðrunum.“

17. Hvaða hjálp hafa umsjónarmenn fengið til að verða góðir hirðar hjarðarinnar?

17 Hvernig hefur hinn trúi og hyggni þjónn hjálpað safnaðaröldungum að verða færari að gæta hjarðarinnar, veitt þeim „silfur fyrir járn“ eins og Jesaja orðaði það? Hann hefur menntað þá. Árið 1959 var Ríkisþjónustuskólinn fyrir umsjónarmenn haldinn í fyrsta sinn. Í einni kennslustundinni var fjallað um hvernig ætti að sinna þörfum einstakra boðbera. Umsjónarmennirnir voru hvattir til að „gera sér áætlun um að heimsækja boðbera“. Í kennslustundinni var bent á ýmsar leiðir til að gera heimsóknirnar uppbyggilegar. Frá 1966 var skólinn haldinn með breyttu sniði. Einn af dagskrárliðunum nefndist: „Mikilvægi hjarðgæslunnar.“ Hver var kjarni þessarar kennslustundar? Þeir sem fóru með forystuna „ættu að annast hjörð Guðs ástúðlega án þess þó að vanrækja fjölskyldu sína og boðunina“. Á síðustu árum hafa verið haldin fleiri námskeið fyrir öldunga. Hvaða árangri hefur þessi kennsla skilað? Í kristna söfnuðinum eru nú þúsundir bræðra sem eru hæfir til að annast hjörðina.

Ríkisþjónustuskólinn á Filippseyjum árið 1966.

Ríkisþjónustuskólinn á Filippseyjum árið 1966.

18. (a) Hvaða mikilvæga verkefni er öldungunum trúað fyrir? (b) Hvers vegna þykir Jehóva og Jesú vænt um dugmikla öldunga?

18 Það er ráðstöfun Jehóva að skipa safnaðaröldunga fyrir milligöngu konungsins Jesú til að sinna mikilvægu verkefni. Hvaða verkefni? Að leiða sauði Guðs gegnum hættulegustu tíma mannkynssögunnar. (Ef. 4:11, 12; 2. Tím. 3:1) Jehóva og Jesú þykir ákaflega vænt um dugmikla öldunga vegna þess að þeir gera eins og hvatt er til í Biblíunni: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ... af fúsu geði ... Þið skuluð ... vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pét. 5:2, 3) Við skulum líta á tvö svið af mörgum þar sem safnaðaröldungar eru fyrirmynd hjarðarinnar og eiga drjúgan þátt í friði og gleði safnaðarins.

„ÞETTA VAR ÓTRÚLEGT“

HJÓN, sem voru trúboðar í Asíulandi, voru send til safnaðar þar sem engin fjölgun hafði orðið árum saman. Bræður og systur í söfnuðinum voru kærleiksrík en trúboðarnir tóku eftir að söfnuðurinn starfaði ekki eftir leiðbeiningum deildarskrifstofunnar. Eftir að hjónin höfðu byggt upp vináttusamband við boðberana hófst bróðirinn handa við að færa starfsaðferðir safnaðarins skref fyrir skref til samræmis við aðferðir þjóna Jehóva um allan heim. Hvaða áhrif hafði það? Á tveim árum tvöfaldaðist samkomusóknin, nýir fóru að taka þátt í boðuninni og rúmlega 20 létu skírast. „Þetta var ótrúlegt,“ segja hjónin. „Jehóva blessaði okkur framar öllum vonum. Það hefur glatt alla í söfnuðinum að sjá hvaða áhrif það hefur að fara eftir leiðbeiningum deildarskrifstofunnar og hins trúa og hyggna þjóns.“

Hvernig gæta öldungarnir hjarðar Guðs?

19. Hvað finnst okkur um öldunga sem boða fagnaðarerindið með okkur?

19 Í fyrsta lagi starfa öldungarnir með boðberunum í söfnuðinum. Guðspjallaritarinn Lúkas sagði: „Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf.“ (Lúk. 8:1) Öldungarnir eru til fyrirmyndar með því að boða fagnaðarerindið með trúsystkinum, rétt eins og Jesús með postulum sínum. Þeir vita að þannig stuðla þeir að góðu andrúmslofti í söfnuðinum. Hvernig hugsa safnaðarmenn um slíka öldunga? Jeannine er næstum níræð systir. Hún segir: „Þegar ég fer í boðunarstarfið með öldungi hef ég gott tækifæri til að spjalla við hann og kynnast honum betur.“ Steven er um 35 ára gamall bróðir. Hann segir: „Þegar öldungur starfar með mér hús úr húsi finn ég að hann langar til að hjálpa mér. Það er mjög ánægjulegt að fá slíka aðstoð.“

Fjárhirðir finnur týndan sauð á stormasamri nótt.

Öldungarnir reyna að finna þá sem hafa misst sambandið við söfnuðinn, rétt eins og fjárhirðir leitar að týndum sauð.

20, 21. Hvernig geta öldungar líkt eftir fjárhirðinum í dæmisögu Jesú? Nefndu dæmi. (Sjá einnig greinina „Vikulegar heimsóknir báru árangur“.)

20 Í öðru lagi hefur hinn trúi og hyggni þjónn kennt öldungum að sýna þeim umhyggju sem hafa misst sambandið við söfnuðinn. (Hebr. 12:12) Hvers vegna ættu öldungar að hjálpa þeim sem eru veikir í trúnni og hvernig á að gera það? Því er svarað í dæmisögu sem Jesús sagði um fjárhirði og týndan sauð. (Lestu Lúkas 15:4-7.) Þegar fjárhirðirinn í dæmisögunni uppgötvar að einn sauðurinn er týndur leitar hann að honum eins og þetta sé eini sauðurinn sem hann á. Hvernig líkja safnaðaröldungar eftir þessum fjárhirði? Þeir sem hafa misst sambandið við söfnuðinn eru dýrmætir í augum öldunganna, rétt eins og týndi sauðurinn í augum fjárhirðisins. Þeim finnst það ekki vera tímasóun að leita uppi og reyna að hjálpa þeim sem hafa villst frá söfnuðinum. Öldungarnir eiga frumkvæðið að því að finna þá sem eru veikir í trúnni og liðsinna þeim, rétt eins og fjárhirðirinn „fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann“.

21 Hvað gerir fjárhirðirinn í dæmisögunni þegar hann finnur sauðinn? Hann lyftir honum varlega upp, ‚leggur hann á herðar sér‘ og ber hann aftur til hjarðarinnar. Umhyggja og hlýleg orð öldungs geta sömuleiðis verið uppörvandi fyrir einstakling sem er veikur í trúnni og hjálpað honum að snúa aftur til safnaðarins. Victor, bróðir í Afríku, er dæmi um það en hann hafði hætt að sækja samkomur. Hann segir svo frá: „Öldungarnir reyndu að hjálpa mér þau átta ár sem ég var óvirkur.“ Hvað hafði sérstaklega áhrif á hann? Hann segir: „Dag nokkurn kom John í heimsókn til mín en hann er öldungur sem ég hafði verið með í brautryðjendaskólanum. Hann sýndi mér myndir sem hann hafði tekið af okkur meðan við vorum í skólanum. Þær vöktu svo margar góðar minningar að mig langaði til að finna aftur fyrir þeirri gleði sem ég naut meðan ég þjónaði Jehóva.“ Victor sneri aftur til safnaðarins skömmu eftir að John heimsótti hann. Hann er nú orðinn brautryðjandi á nýjan leik. Umhyggjusamir öldungar stuðla sannarlega að gleði okkar. – 2. Kor. 1:24.b

Tveir bræður heimsækja og tala vingjarnlega við eldri bróður sem er óvirkur í söfnuðinum.

VIKULEGAR HEIMSÓKNIR BÁRU ÁRANGUR

ÖLDUNGA í söfnuði nokkrum í Bandaríkjunum langaði til að hjálpa týndum sauðum og veltu fyrir sér hvað hægt væri að gera til að liðsinna þeim sem höfðu misst tengslin við söfnuðinn. Þeir komust að raun um að enn byggju á starfssvæði safnaðarins um 30 manns sem hefðu hætt að þjóna Jehóva áratugum áður. Flestir þeirra voru komnir á efri æviár.

Alfredo, einn af öldungunum, fékk lista með nöfnum þeirra og tók að heimsækja þá. „Á hverjum föstudagsmorgni banka ég upp á hjá einhverjum óvirkum,“ segir hann. Þegar hinn óvirki opnar dyrnar reynir Alfredo að spjalla við hann í rólegheitum og tjá honum umhyggju sína. Hann segir bróðurnum eða systurinni að söfnuðurinn hafi ekki gleymt góðu verki þeirra í þágu ríkis Jehóva. Alfredo segir: „Óvirkur aldraður bróðir táraðist þegar ég sagði honum hve marga tíma hann hefði prédikað og hve mörgum blöðum hann hefði dreift síðasta mánuðinn sem hann skilaði skýrslu árið 1976.“ Alfredo les einnig Lúkas 15:4-7, 10 með þeim sem hann heimsækir og spyr síðan: „Hvað gerist þegar týndur sauður snýr aftur til safnaðarins? Jehóva, Jesús og englarnir gleðjast – hugsaðu þér!“

Alfredo hefur reynt að ná til óvirkra síðastliðin tvö ár. Hvaða árangri hefur það skilað? Hann hefur orðið þeirrar gleði aðnjótandi að hjálpa tveim bræðrum að snúa aftur til safnaðarins. Þeir sækja nú samkomur að staðaldri á sunnudögum. „Þegar þeir gengu inn í ríkissalinn var komið að mér að tárast,“ segir hann brosandi. „Þó að þessir óvirku bræður séu farnir að sækja samkomur held ég áfram að heimsækja þá á föstudögum. Þeir segja mér að þeir hlakki til þessara vikulegu heimsókna. Ég geri það líka.“

Betri umsjón styrkir eininguna meðal þjóna Guðs

22. Hvernig styrkja réttlæti og friður einingu kristna safnaðarins? (Sjá einnig greinina „Þetta var ótrúlegt“.)

22 Eins og áður hefur komið fram sagði Jehóva að réttlæti og friður myndi vaxa jafnt og þétt meðal þjóna hans. (Jes. 60:17) Hvort tveggja styrkir einingu safnaðanna. Á hvaða hátt? „Guð vor, Drottinn er einn.“ Hann er sjálfum sér samkvæmur. (5. Mós. 6:4) Réttlátur mælikvarði hans er ekki breytilegur milli safnaða frá einu landi til annars. Mælikvarði hans á rétt og rangt er einn. Hann er einn og hinn sami „í öllum söfnuðum hinna heilögu“. (1. Kor. 14:33) Þess vegna getur söfnuður aðeins dafnað ef mælikvarða Guðs er fylgt. Konungurinn vill ekki aðeins að við búum við frið í söfnuðinum heldur eigum við líka að vera „friðflytjendur“. (Matt. 5:9) Við „keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir“. Við tökum frumkvæðið til að jafna ágreining sem getur stundum orðið á meðal okkar. (Rómv. 14:19) Þannig stuðlum við bæði að friði og einingu í söfnuðinum okkar. – Jes. 60:18.

23. Hverju fagna þjónar Jehóva?

23 Þegar tilkynnt var í Varðturninum í nóvember 1895 að kjósa ætti öldunga í söfnuðunum lýstu bræðurnir, sem fóru með forystuna, einnig innilegri löngun sem þeir báru í brjósti. Hver var hún? Það var ósk þeirra og bæn að þetta nýja fyrirkomulag myndi hjálpa þjónum Guðs að „verða fljótt einhuga í trúnni“. Við erum þakklát þegar við lítum um öxl og sjáum hvernig Jehóva hefur falið konungi okkar að bæta umsjónina stig af stigi og hvernig það hefur styrkt einingu okkar. (Sálm. 99:4) Þjónar Jehóva um allan heim fagna því að ganga fram „í einum og sama anda“, feta í „sömu fótsporin“ og þjóna Guði friðarins „einhuga“. – 2. Kor. 12:18; lestu Sefanía 3:9.

a Niðurstöður þessara víðtæku rannsókna voru birtar í handbókinni Aid to Bible Understanding.

b Sjá greinina „Safnaðaröldungar – samverkamenn að gleði okkar“ í Varðturninum 15. janúar 2013, bls. 27-31.

Hve raunverulegt er ríki Guðs í þínum augum?

  • Hvaða skipulagsbreytingum hefur ríki Guðs komið á?

  • Hvernig hafa breytingar á umsjón safnaðanna hjálpað þér að þjóna ‚Guði friðarins‘?

  • Hvað hefur öldungur sagt eða gert sem hefur glatt þig?

  • Hvernig getur þú stuðlað að friði og einingu safnaðarins?

Bræður í einni af nefndum stjórnandi ráðs á fundi ásamt aðstoðarmönnum.

HVERNIG GÆTIR HIÐ STJÓRNANDI RÁÐ HAGSMUNA GUÐSRÍKIS Á JÖRÐ?

STJÓRNANDI RÁÐ Votta Jehóva er skipað bræðrum sem eru andasmurðir þjónar Jehóva Guðs. Sem hópur eru þeir hinn „trúi og hyggni þjónn“. Þeir hafa það verkefni að sjá fyrir andlegri fæðu og veita forstöðu boðun fagnaðarerindisins um ríkið út um allan heim. – Matt. 24:14, 45-47.

Hið stjórnandi ráð fundar vikulega, yfirleitt á miðvikudögum. Það gerir bræðrunum í ráðinu kleift að vinna saman sem ein heild. (Sálm. 133:1) Ráðinu er auk þess skipt í nokkrar nefndir. Hver nefnd gætir hagsmuna Guðsríkis á ákveðnu sviði. Hér fer á eftir yfirlit yfir nefndirnar og starfssvið þeirra.

  • Bræður vinna saman að því að annast þarfir bræðra og systra.

    Ritaranefnd

    Bræðurnir, sem sitja í þessari nefnd, hafa umsjón með lögfræðilegum málum og því að nýta fjölmiðla til að gefa rétta mynd af trú okkar þegar það er talið nauðsynlegt. Þeir bregðast við þegar neyðarástand skapast, svo sem náttúruhamfarir, ofsóknir og aðrar aðkallandi aðstæður sem snerta trúsystkini okkar einhvers staðar í heiminum.

  • Betelstafsmenn sinna ýmsum verkefnum.

    Starfsmannanefnd

    Þessi nefnd hefur umsjón með andlegri og líkamlegri velferð þeirra sem tilheyra Betelfjölskyldum um heim allan og þeirri aðstoð sem þeir þurfa að fá. Þegar nýju fólki er boðið til starfa á Betelheimilum er það gert undir umsjón þessarar nefndar, og hún sér einnig um að svara spurningum um störf þess.

  • Betelíti vinnur í prentsmiðju og við pökkun biblíutengdra rita.

    Útgáfunefnd

    Bræðurnir í þessari nefnd hafa umsjón með prentun og dreifingu biblíutengdra rita um heim allan. Þeir hafa umsjón með prentsmiðjum og eignum hinna ýmsu félaga sem Vottar Jehóva starfrækja, svo og með öllum byggingarframkvæmdum í heiminum, þar á meðal byggingu ríkissala. Þeir beita sér fyrir því að fjárframlög, sem eru gefin til starfseminnar, nýtist sem best.

  • Bróðir situr við skrifborð og undirbýr efni.

    Þjónustunefnd

    Bræðurnir, sem skipa þessa nefnd, hafa umsjón með boðuninni á öllum sviðum, svo og öllu sem varðar söfnuði, boðbera, brautryðjendur, öldunga, farandumsjónarmenn og trúboða. Þeir bera einnig ábyrgð á starfi spítalasamskiptanefnda og mörgu öðru.

  • Bróðir stendur við púlt og flytur ræðu.

    Fræðslunefnd

    Þessi nefnd hefur umsjón með allri fræðslu á svæðismótum, umdæmismótum og safnaðarsamkomum. Gíleaðskólinn, Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis, Brautryðjendaskólinn og aðrir skólar eru einnig undir umsjón þessarar nefndar. Hún hefur umsjón með útgáfu ritsins Líf okkar og boðun – vinnubók fyrir samkomur. Hið sama er að segja um gerð myndbanda og hljóðritaðs efnis.

  • Rit af ýmsu tagi og vefsíðan jw.org.

    Ritnefnd

    Andleg fæða handa trúsystkinum og almenningi, bæði á prenti og í rafrænu formi, er samin undir umsjón þessarar nefndar. Hún sér einnig um vefsetur safnaðarins og þýðingar út um allan heim. Nefndin svarar spurningum um merkingu biblíuversa og efnis sem birtist í ritunum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila