SAGA 10
Munið eftir konu Lots
Lot bjó í Kanaanslandi með Abraham frænda sínum. Með tímanum áttu Abraham og Lot svo mörg dýr að það var ekki nóg pláss fyrir þau öll. Abraham sagði við Lot: ‚Við getum ekki lengur búið saman á einum stað. Veldu hvert þú vilt fara og ég fer þá í hina áttina.‘ Var þetta ekki fallega gert af Abraham?
Lot sá fallegt landsvæði nálægt borg sem hét Sódóma. Þar var nóg af vatni og grænu grasi. Hann valdi þennan stað og fór með fjölskylduna sína þangað.
Nálægt Sódómu var borg sem hét Gómorra. Fólkið í Sódómu og Gómorru var mjög vont. Það var svo vont að Jehóva ákvað að eyða þessum borgum. En Guð vildi bjarga Lot og fjölskyldu hans svo að hann sendi tvo engla til að vara þau við. Þeir sögðu: ‚Flýtið ykkur! Farið út úr borginni! Jehóva ætlar að eyða henni.‘
Lot var lengi að koma sér af stað. Englarnir leiddu því Lot, konu hans og dætur þeirra tvær í flýti út úr borginni og sögðu: ‚Hlaupið! Flýið til að bjarga lífi ykkar og ekki horfa til baka! Ef þið horfið til baka deyið þið.‘
Þegar þau komu til borgar sem hét Sóar lét Jehóva rigna eldi og brennisteini yfir Sódómu og Gómorru. Þessum tveim borgum var gjöreytt. Kona Lots var óhlýðin Jehóva og horfði til baka. Þá varð hún að saltstólpa. Lot og dætur hans hljóta að hafa verið mjög leið yfir því að hún var óhlýðin. En þau björguðust af því að þau hlýddu Jehóva. Þau voru ánægð að hafa hlustað á það sem Jehóva sagði þeim að gera.
„Munið eftir konu Lots.“ – Lúkas 17:32.