SAGA 11
Hann sýndi trú
Abraham kenndi Ísak syni sínum að elska Jehóva og treysta öllum loforðum hans. En þegar Ísak var um 25 ára sagði Jehóva Abraham að gera svolítið sem myndi verða mjög erfitt fyrir hann. Hvað var það?
Guð sagði við Abraham: ‚Taktu einkason þinn og færðu hann að fórn á fjalli í Móríalandi.‘ Abraham hafði enga hugmynd um af hverju Jehóva sagði honum að gera þetta. En hann hlýddi samt Jehóva.
Snemma næsta morgun lagði Abraham af stað til Móríalands með Ísak og tvo þjóna sína. Eftir þrjá daga sáu þeir fjöllin í fjarska. Abraham sagði þjónunum að bíða á meðan hann og Ísak færu upp á fjall til að færa fórn. Abraham lét Ísak bera eldivið og tók sjálfur hníf. Ísak spurði pabba sinn: ‚Hvar er dýrið sem við ætlum að fórna?‘ Abraham svaraði: ‚Jehóva mun sjá okkur fyrir því sonur minn.‘
Þegar þeir voru loksins komnir upp á fjallið reistu þeir altari. Síðan batt Abraham hendur og fætur Ísaks og lagði hann á altarið.
Abraham tók upp hnífinn. Á sama tíma kallaði engill Jehóva frá himni: ‚Abraham! Ekki meiða drenginn! Núna veit ég að þú trúir á Guð af því að þú varst tilbúinn að fórna syni þínum.‘ Þá sá Abraham hrút sem var fastur á hornunum í runna. Hann flýtti sér að leysa Ísak og fórnaði hrútnum í staðinn.
Þaðan í frá kallaði Jehóva Abraham vin sinn. Veistu af hverju hann gerði það? Abraham gerði allt sem Jehóva vildi að hann gerði, líka þegar hann skildi ekki af hverju Jehóva sagði honum að gera það.
Jehóva sagði Abraham aftur frá loforði sínu: ‚Ég mun blessa þig og gefa þér mörg börn, eða afkomendur.‘ Það þýddi að Jehóva myndi nota afkomanda Abrahams til að blessa allt gott fólk.
„Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ – Jóhannes 3:16.