SAGA 16
Hver var Job?
Í Úslandi var maður sem tilbað Jehóva. Hann hét Job. Hann var mjög ríkur og átti stóra fjölskyldu. Hann var góður og hjálpaði fólki sem var fátækt, konum sem höfðu misst mennina sína og börnum sem áttu enga foreldra. En myndi Job aldrei eiga erfitt sjálfur, bara af því að hann gerði það sem var rétt?
Satan Djöfullinn fylgdist með Job. Jehóva sagði við Satan: ‚Ertu búinn að taka eftir Job, þjóni mínum? Það er enginn eins og hann á jörðinni. Hann hlustar á mig og gerir það sem er rétt.‘ Satan svaraði: ‚Auðvitað hlýðir Job þér. Þú verndar hann og blessar hann. Þú gefur honum land og dýr. Taktu þetta allt í burtu og þá hættir hann að þjóna þér.‘ Jehóva sagði: ‚Þú mátt gera það sem þú vilt við Job. En þú mátt ekki drepa hann.‘ Af hverju sagði Jehóva þetta? Af því að hann var viss um að Job myndi gera það sem var rétt. En Job vissi ekkert af þessu.
Satan lét margt hræðilegt koma fyrir Job. Fyrst sendi hann menn sem voru kallaðir Sabear til að stela nautum og ösnum Jobs. Síðan kom eldur og eyddi öllum kindunum hans. Annar hópur af mönnum, Kaldear, stálu úlföldunum hans. Og þjónarnir sem voru að passa öll þessi dýr dóu. Síðan gerðist það sem var hræðilegast af öllu. Öll börn Jobs dóu þegar húsið sem þau voru með veislu í hrundi ofan á þau. Job var alveg niðurbrotinn. En hann hætti samt ekki að tilbiðja Jehóva.
Satan vildi að Job þjáðist enn þá meira svo að hann lét hann fá sár út um allan líkamann. Job fann hræðilega mikið til. Hann vissi ekki af hverju hann væri að lenda í þessu öllu. En hann hélt samt áfram að tilbiðja Jehóva. Guð tók eftir þessu öllu og hann var mjög ánægður með Job.
Satan sendi síðan þrjá menn til að gera Job leiðan. Þeir sögðu við hann: ‚Þú hlýtur að hafa syndgað og reynt að fela það. Guð er að refsa þér.‘ Job sagði: ‚Ég hef ekki gert neitt rangt.‘ En síðan fór hann að hugsa að öll þessi vandamál væru Guði að kenna. Hann sagði að Guð væri ósanngjarn við sig.
Ungur maður sem hét Elíhú hafði hlustað á samtalið. En núna vildi hann ekki þegja lengur og sagði: ‚Þið hafið allir rangt fyrir ykkur. Jehóva er meiri en við getum skilið. Hann gæti aldrei gert neitt slæmt. Hann sér allt og hjálpar fólki með vandamál þess.‘
Þá talaði Jehóva við Job. Hann sagði: ‚Hvar varst þú þegar ég skapaði himininn og jörðina? Af hverju segirðu að ég sé ósanngjarn? Þú veist ekki af hverju hlutirnir gerast.‘ Job viðurkenndi að hann hefði gert mistök og sagði: ‚Ég hafði rangt fyrir mér. Ég var búinn að heyra um þig en núna þekki ég þig í alvöru. Þú getur allt. Ég sé eftir því sem ég sagði. Fyrirgefðu.‘
Að lokum gaf Jehóva Job heilsuna aftur og gaf honum miklu meira en hann hafði átt áður. Job lifði lengi og var hamingjusamur. Jehóva blessaði Job fyrir að hlusta á hann jafnvel þegar það var erfitt. Ætlar þú að vera eins og Job og halda áfram að tilbiðja Jehóva sama hvað gerist?
„Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs og hvernig Jehóva leiddi mál hans til lykta.“ – Jakobsbréfið 5:11.