SAGA 26
Njósnararnir tólf
Ísraelsmenn fóru af stað frá Sínaífjalli, ferðuðust gegnum Paraneyðimörkina og komu til staðar sem hét Kades. Þar sagði Jehóva við Móse: ‚Sendu 12 menn, einn úr hverri ætt, til að kanna Kanaansland, landið sem ég ætla að gefa Ísraelsmönnum.‘ Móse valdi þá 12 menn og sagði við þá: ‚Farið til Kanaanslands og athugið hvort auðvelt sé að rækta mat í landinu. Skoðið hvort fólkið sé veikt eða sterkt og hvort það búi í tjöldum eða í borgum.‘ Njósnararnir 12 lögðu af stað til Kanaanslands. Tveir af njósnurunum hétu Jósúa og Kaleb.
Eftir 40 daga komu njósnararnir til baka. Þeir voru með fíkjur, granatepli og vínber. Njósnararnir sögðu: ‚Landið er gott en fólkið er sterkt og það eru háir múrar í kringum borgirnar.‘ Þá sagði Kaleb: ‚Við getum sigrað þá. Förum strax af stað!‘ Veistu af hverju Kaleb sagði það? Af því að hann og Jósúa treystu Jehóva. En hinir njósnararnir tíu sögu: ‚Nei! Fólkið þar er svo stórt, það er eins og risar! Við vorum eins og engisprettur við hliðina á því.‘
Ísraelsmenn urðu hræddir. Þeir fóru að kvarta og segja: ‚Veljum okkur annan leiðtoga og förum aftur til Egyptalands. Við verðum drepnir ef við förum til Kanaanslands.‘ Jósúa og Kaleb sögðu: ‚Ekki óhlýðnast Jehóva og ekki vera hræddir. Jehóva mun vernda okkur.‘ En Ísraelsmennirnir hlustuðu ekki. Þeir vildu meira að segja drepa Jósúa og Kaleb.
Hvað gerði Jehóva þá? Hann sagði við Móse: ‚Ísraelsmennirnir hlýða mér ekki þrátt fyrir allt sem ég hef gert fyrir þá. Þeir verða þess vegna áfram hérna í eyðimörkinni í 40 ár og hérna munu þeir deyja. Það verða bara börnin þeirra og Jósúa og Kaleb sem munu búa í landinu sem ég hef lofað að gefa þeim.‘
„Af hverju eruð þið svona hræddir, þið trúlitlu menn?“ – Matteus 8:26.