SAGA 34
Gídeon sigraði Midíanítana
Með tímanum hættu Ísraelsmenn aftur að tilbiðja Jehóva og fóru að tilbiðja falsguði. Í sjö ár stálu Midíanítar dýrum Ísraelsmannanna og eyðilögðu uppskeru þeirra. Ísraelsmenn földu sig fyrir Midíanítunum í hellum og í fjöllunum. Þeir hrópuðu til Jehóva og báðu hann að hjálpa sér. Þá sendi Jehóva engil til ungs manns sem hét Gídeon. Engillinn sagði: ‚Jehóva er búinn að velja þig sem mikinn hermann.‘ Gídeon spurði: ‚Hvernig get ég bjargað Ísrael? Ég er ekki neitt.‘
Hvernig gat Gídeon verið alveg viss um að Jehóva hafði valið hann? Hann setti ullarbút á jörðina og sagði við Jehóva: ‚Ef ullin er blaut af dögginni í fyrramálið en jörðin þurr veit ég að þú vilt að ég bjargi Ísrael.‘ Morguninn eftir var ullin rennandi blaut en jörðin þurr. En þá bað Gídeon um að næsta morgun yrði ullin þurr en jörðin blaut. Þegar það gerðist var Gídeon loksins viss um að Jehóva hafði valið hann. Hann safnaði hermönnunum sínum saman til að berjast við Midíanítana.
Jehóva sagði við Gídeon: ‚Ég mun láta Ísrael vinna. En af því að þú ert með svo marga hermenn þá gætuð þið haldið að þið væruð að vinna bardagann sjálfir. Segðu öllum sem eru hræddir að fara heim.‘ Þá fóru 22.000 hermenn heim en 10.000 voru eftir. Jehóva sagði þá: ‚Það eru enn þá of margir hermenn. Farðu með þá niður að vatninu og segðu þeim að fá sér að drekka. Haltu bara eftir þeim sem eru vakandi fyrir óvinum á meðan þeir drekka.‘ Það voru bara 300 menn sem fylgdust með umhverfinu á meðan þeir voru að drekka. Jehóva lofaði að þessir fáu menn myndu vinna alla 135.000 midíönsku hermennina.
Um nóttina sagði Jehóva við Gídeon: ‚Núna skuluð þið ráðast á Midíanítana!‘ Gídeon lét menn sína fá horn og blys falin inni í stórum krukkum. Hann sagði við þá: ‚Horfið á mig og gerið nákvæmlega eins og ég.‘ Gídeon blés í hornið, braut krukkuna, sveiflaði blysinu og hrópaði: „Sverð Jehóva og Gídeons!“ Hermennirnir 300 gerðu allir það sama. Midíanítarnir voru dauðhræddir og hlupu öskrandi í allar áttir. Í æsingnum fóru þeir að ráðast hver á annan. Enn og aftur hjálpaði Jehóva Ísraelsmönnum að sigra óvini sína.
„Þannig að augljóst sé að krafturinn sem er ofar mannlegum mætti komi frá Guði en ekki sjálfum okkur.“ – 2. Korintubréf 4:7.