SAGA 38
Jehóva gerði Samson sterkan
Margir af Ísraelsmönnunum voru aftur farnir að tilbiðja skurðgoð. Jehóva leyfði þess vegna Filisteum að ráða yfir landinu. En sumir Ísraelsmenn elskuðu Jehóva. Manóa var einn af þeim. Hann og konan hans áttu engin börn. Dag einn sendi Jehóva engil til konunnar hans Manóa. Engillinn sagði við hana: ‚Þú munt eignast son. Hann á eftir að bjarga Ísraelsmönnum frá Filisteunum. Hann verður nasírei.‘ Veist þú hverjir nasírear voru? Þeir þjónuðu Jehóva á sérstakan hátt. Nasírear máttu ekki klippa á sér hárið.
Þegar sonur Manóa fæddist fékk hann nafnið Samson. Þegar Samson varð fullorðinn gerði Jehóva hann mjög sterkan. Hann gat drepið ljón með berum höndum. Einu sinni drap Samson 30 Filistea aleinn. Filistearnir hötuðu hann og reyndu oft að drepa hann. Eina nóttina þegar Samson gisti í Gasa biðu þeir við borgarhliðið til að geta drepið hann um morguninn. En Samson fór á fætur um miðja nóttina, fór að borgarhliðinu og reif það út úr múrnum. Hann bar borgarhliðið á öxlunum alla leið upp á fjall nálægt Hebron.
Seinna fóru Filistearnir til Dalílu kærustu Samsons og sögðu: ‚Við skulum borga þér helling af silfurpeningum ef þú kemst að því af hverju Samson er svona sterkur. Við viljum ná honum og setja hann í fangelsi.‘ Dalíla sagði já af því að hana langaði í peninginn. Til að byrja með vildi Samson ekki segja henni af hverju hann væri svona sterkur. En hún nöldraði í honum þangað til hann gafst upp og sagði henni leyndarmálið. Hann sagði: ‚Hárið á mér hefur aldrei verið klippt af því að ég er nasírei. Ef það er klippt hætti ég að vera sterkur.‘ Það voru stór mistök hjá Samson að segja henni þetta.
Dalíla fór strax til Filisteanna og sagði: ‚Ég veit leyndarmálið!‘ Hún lét Samson sofna í fanginu á sér og síðan fékk hún einhvern til að klippa hárið af honum. Dalíla hrópaði: ‚Samson, Filistearnir eru komnir!‘ Samson vaknaði, og hann var ekki sterkur lengur. Filistearnir gripu hann, gerðu hann blindan og settu hann í fangelsi.
Dag einn komu þúsundir Filistea saman í musterinu þar sem þeir tilbáðu guð sinn, Dagón. Þeir hrópuðu: ‚Guð okkar hefur gefið okkur Samson! Komið með Samson! Við skulum gera grín að honum.‘ Þeir létu hann standa á milli tveggja súlna og gerðu grín að honum. Samson kallaði: ‚Elsku Jehóva, viltu gefa mér styrk einu sinni enn?‘ Hárið á Samson var búið að vaxa aftur. Hann ýtti eins fast og hann gat á súlurnar í musterinu. Byggingin hrundi og allir sem voru inni í musterinu dóu, líka Samson.
„Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Filippíbréfið 4:13.