SAGA 43
Synd Davíðs konungs
Þegar Sál dó varð Davíð konungur. Hann var 30 ára. Þegar hann var búinn að vera konungur í nokkur ár var hann eitt kvöld úti á þaki á höllinni sinni. Hann horfði niður af þakinu og sá fallega konu. Davíð komst að því að hún hét Batseba og að hún var gift hermanni sem hét Úría. Davíð lét sækja Batsebu og koma með hana í höllina. Þau höfðu kynmök og hún varð ólétt. Davíð reyndi að fela það sem hann hafði gert. Hann sagði hershöfðingjanum sínum að láta Úría vera fremstan í bardaganum og bakka síðan frá honum. Úría var drepinn í bardaganum og Davíð giftist Batsebu.
Það sem Davíð gerði var mjög rangt og Jehóva sá það allt. Hvað gerði Jehóva? Hann sendi Natan spámann til Davíðs. Natan sagði: ‚Ríkur maður átti margar kindur en fátækur maður átti bara eitt lítið lamb sem honum þótti mjög vænt um. Ríki maðurinn tók lambið sem fátæki maðurinn átti.‘ Davíð varð reiður og sagði: ‚Þessi ríki maður á skilið að deyja!‘ Þá sagði Natan: ‚Þú ert þessi ríki maður.‘ Davíð leið hræðilega og viðurkenndi fyrir Natan: „Ég hef syndgað gegn Jehóva.“ Davíð og fjölskylda hans upplifðu mikla erfiðleika út af því að hann syndgaði. Jehóva refsaði Davíð en hann leyfði honum að lifa af því að hann var heiðarlegur og auðmjúkur.
Davíð langaði til að byggja musteri fyrir Jehóva, en Jehóva valdi Salómon son hans til að gera það. Davíð byrjaði að undirbúa verkið fyrir Salómon. Hann sagði: ‚Musteri Jehóva á að vera glæsilegt. Salómon er enn þá ungur en ég ætla að hjálpa honum með undirbúninginn.‘ Davíð gaf mikið af peningunum sínum til að hægt væri að byggja musterið. Hann fann vinnumenn sem voru flinkir. Hann safnaði gulli og silfri og lét senda sedrusvið frá Týrus og Sídon. Rétt áður en Davíð dó gaf hann Salómon leiðbeiningar um það hvernig hann ætti að byggja musterið. Hann sagði: ‚Jehóva sagði mér að skrifa þetta niður fyrir þig. Jehóva mun hjálpa þér. Ekki vera hræddur. Vertu sterkur og byrjaðu að vinna.‘
„Sá sem dylur syndir sínar verður ekki farsæll en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“ – Orðskviðirnir 28:13.