Hið undraverða líffæri — hjartað!
„ÉG LOFA þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þin, það veit ég næsta vel.“ (Sálmur 139:14) Þessi orð sálmaritarans Davíðs lýsa djúpu þakklæti og ættu að snerta streng í brjósti okkar, því að sannarlega vekur það undrun og lotningu hvernig skaparinn hefur gert líkami okkar úr garði.
Í bók sinni Man the Unknown sagði nóbelsverðlaunahöfundurinn Alexis Carrel um blóðið, „lífsins fljót“ sem streymir um æðar okkur: „Það ber til sérhverrar frumu nauðsynlega næringu. Samtímis vinnur það eins og lokræsi sem flytur burt úrgangsefni sem lifandi vefir gefa frá sér. Í því eru einnig efnasambönd og frumur sem geta gert við líffæri hvar sem nauðsynlegt er. Þessir eiginleikar eru í sannleika sagt sérstakir. Með því að inna af hendi þessar undraverðu skyldur hegðar blóðrásin sér eins og straumhörð á sem er, með hjálp leðjunnar og trjánna sem hún ber með sér, tilbúin að gera við húsin sem standa á bökkum hennar.“ (Bls. 77-8) Já, hugsaðu þér að sama straumrásin ber með sér fæðu líkamans og úrgang án þess að blanda þeim nokkurn tíma saman! Og hvað kemur þessu lífsfljóti til að streyma um líkama okkar? Það er hjartað!
Hjartað ber glöggt vitni um visku skaparans. Hjartað er holur vöðvi um það bil svipaður að stærð og hnefi manns. Í karlmönnum vegur það um 300 gröm og í konum hér um bil 250 gröm. Í því eru fjögur hólf, tvö hægra megin og tvö vinstra megin. Efra hólfið hægra megin tekur við blóðinu sem berst frá blóðrásarkerfi líkamans. Þaðan er blóðinu dælt í neðra hólfið sem dælir því áfram til lungnanna. Lokur koma í veg fyrir að blóðið fari öfuga leið þegar hjartavöðvinn dregst saman. Í lungunum losar blóðið sig við koltvíildi og tekur samtímis í sig hið lífsnauðsynlega ildi. Frá lungunum heldur blóðið áfram inn í efra hólfið vinstra megin; þaðan er því dælt í neðra hólfið og síðan út í hringrásarkerfi líkamans þar sem blóðið getur nært allar frumur líkamans og tekið við hinum ýmsu úrgangsefnum frá þeim.
Í reyndinni er því hjartað tvær dælur og blóðrásarkerfin tvö. Hægri hjartahólfin tvö, sem eru ögn smærri en þau vinstri, sjá um hringrás blóðsins um lungun, en hin stærri og sterkari vinstri hjartahólf dæla blóðinu út um allan líkamann. Sé allt talið er blóðæðakerfi líkamans 97.000 kílómetrar að lengd og eru þá taldar slagæðar, bláæðar og háræðar.
Enginn vöðvi líkamans er ofinn á jafnflókna vísu og hjartavöðvinn. Þegar maður hleypur á fullum hraða gerir þessi einstaki vöðvi hjarta hans kleift að vinna tvöfalt á við hina vöðva hans. Síðarnefndu vöðvarnir þreytast fljótt en hjartavöðvinn vinnur óslitið frá vöggu til grafar. Þó ber að nefna að hjartað tekur sér örlitla hvíld eftir hvern slátt. Hjarta nýfædds barns slær um 150 slög á mínútu, en þegar það nær fullum proska er það búið að hægja á sér niður í um það vil 72 slöga. Á 70 ára mannsævi nær hjartað að slá um 4000 milljón sinnum. Og á þeim tíma mun það hafa dælt 174 milljónum lítra af blóði. Við mikla áreynslu slær hjartað allt að tvöfalt hraðar en venjulega, og það slær líka hraðar ef við verðum æst, óttaslegin eða reið, og býr okkur þannig undir „bardaga eða flótta.“
Önnur undraverð staðreynd í sambandi við hjartað er að það sér sjálfu sér fyrir orku. Hið sjálfvirka eða ósjálfráða taugakerfi stýrir starfsemi magans þegar hann býr fæðuna undir meltingu, svo og taktvissri vinnslu þarmanna þegar þeir flytja með sér úrgangsefni líkamans til að hægt sé að losna við þau. En hjartað hefur sinn eigin gangráð. Mönnum hefur ekki alltaf verið það ljóst. En hjarta fósturs í móðurkviði byrjar að slá áður en nokkrar taugar eru tengdar því, og hjartað reynist halda áfram að slá sé það numið úr líkamanum, einkum ef því er séð fyrir blóði.
Víst er um að slíkt ómissandi, sístarfandi líffæri verðskuldar góða meðferð. Það felur í sér að sjá því fyrir réttri næringu, veita því nauðsynlega hvíld, svo og áreynslu til að halda styrk þess. Sér í lagi ber að forðast tóbaksnotkun algerlega. Enn fremur ætti að gæta jafnvægis og hófs í því að njóta þeirra gæða sem lífið býður upp á.
Sökum þess að hjartað er svona mikilvægt líffæri er þess oft getið i Biblíunni. En eins og við munum sjá leggur Biblían meiri áherslu á hið táknræna hjarta en hið bókstaflega.
[Neðanmáls]
a Það lögmál virðist gilda um öll spendýr að því smærri sem líkaminn er því hraðari er hjartslátturinn. Hjarta litlu snjáld urmúsarinnar slær til dæmis 1000 slög á mínútu en hjarta sumra hvala um 15 slög á mínútu.