„Fullna þjónustu þína“
„Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, . . . fullna þjónustu þína.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:1, 5.
1. Hvert var samband Páls og Tímóteusar?
ÞEGAR Páll postuli skrifaði Tímóteusi síðara bréfið hafði hann keppt að marki sínu sem þjónn Guðs í um það bil þrjátíu ár. Hann hafði hlotið margvíslega blessun af hendi Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 1:2) Páll hafði valið Tímóteus sem náinn samstarfsmann í farandþjónustu sinni við söfnuðina. Þeir áttu saman ánægjuleg og viðburðarík ár. — Postulasagan 16:1-5.
2. Hvaða þýðingu hafa orð Páls í 2. Tímóteusarbréfi 4:6-8?
2 Nú var þjónusta Páls nær á enda. Hann skrifaði: „Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.“ (2. Tímóteusarbréf 4:6-8) Þetta gaf til kynna að dauði Páls væri yfirvofandi. Ætlað er að Páll hafi dáið í ofsóknum Nerós árið 66. Hvaða hugsanir skyldu hafa komið upp í huga Páls þegar hann stóð frammi fyrir dauðanum? Kannski þessar: Gerði ég þjónustu minni góð skil? Fullnaði ég þjónustu mína með góðum árangri? Já, Páll gat látið í ljós þá sannfæringu að hann hefði gert það! Trú hans var mjög sterk og hann treysti að hann myndi hreppa þau laun sem köllun til himins er. Það hlýtur að hafa veitt honum fullnægjukennd að hann skyldi aldrei hafa hvikað frá því verki sem honum var falið!
3. Hvað gat Páll gert Tímóteusi gott fyrir dauða sinn?
3 Páll hafði enn til umráða skamman tíma til að gera eitthvað gott. Hvað gat hann gert Tímóteusi gott áður en hann sofnaði dauðasvefni? Vegna innblásturs gaf hann honum þýðingarmikil heilræði. Við lesum hugsanir hans og orð í öðru bréfinu til Tímóteusar. Það er síðasta rit Páls í Ritningunni og er einnig okkur til gagns.
4. Hvaða hvatningu gaf Páll Tímóteusi?
4 Tímóteus hafði enn ekki lokið verkefni sínu í þjónustunni svo að Páll skrifaði: „Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig: Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu. Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum. En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:1-5.
5. Hvers vegna eru heilræði Páls sérstaklega áhugaverð fyrir okkur?
5 Þessi góðu ráð hljóta að hafa verið Tímóteusi til mikils gagns, en munum við líka hafa gagn af þeim? Við lifum á þeim „síðustu dögum“ sem Páll skrifaði um. Margt nútímamanna hefur á sér eins konar ‚yfirskyn guðhræðslunnar en afneitar krafti hennar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þeir vilja helst hlusta aðeins á ‚kennara‘ sem kitla eyru þeirra. En auk þess að prédika orðið innan safnaðarins er kristnum mönnum skylt að prédika fyrir öllum opinberlega og leita uppi þá sem bregðast jákvætt við ‚orðinu.‘ Þessi heilræði koma því kristnum vottum Jehóva nú á tímum við.
Hvernig má fullna þjónustuna
6. (a) Hvers vegna ættum við að „prédika orðið“? (b) Hvaða gagn er að því að gefa því gaum hvernig við innum þjónustu okkar af hendi?
6 Þjónustan á sér margar hliðar; það er margt sem þjónn orðsins þarf að gera. Fyrst nefndi Páll það að ‚prédika orðið.‘ Það er orðið sem Jehóva hefur valið að opinbera þjónum sínum. Það er orð sannleikans sem Jesús talaði um. Jehóva gerir kunnugt hver er boðskapur hans til mannkynsins á hverjum tíma og lætur votta sína á jörðinni greina frá sínum málstað. Það er háttur Jehóva að gefa aðvörun áður en hann lætur til skrara skríða. (2. Kroníkubók 36:15, 16; Jesaja 42:9; 43:12; Jónas 3:2-4) Boðskapur hans er til góðs þeim sem hlusta á hann; þeir geta komist á öruggan stað. Þeir sem ekki gefa honum gaum verða að taka afleiðingunum þegar Jehóva lætur til sín taka og fullnægir dómi. Þeir verða að bera ábyrgð á sjálfum sér. (Postulasagan 20:20, 21, 26, 27) Þó er viturlegt af þjóni Guðs að gera þetta: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
7. Hvers vegna er það áriðandi starf jafnvel þótt skilyrði virðist óhagstæð?
7 Prédikunin fer fram við magvísleg skilyrði en hún verður að halda áfram. „Gef þig að því í tíma og ótíma,“ skrifaði Páll. Boðskapurinn getur þýtt líf fyrir fólk. Þess vegna lítur trúfastur þjónn orðsins á boðskapinn sem áríðandi, hverjar sem kringumstæður hans eru, og hann finnur leiðir til að láta orðið heyrast, jafnvel þótt prédikunin mæti einhverri andstöðu. Við sjáum það greinilega af fordæmi Jesú og frásögn Postulasögunnar.
8. (a) Hvað getur hjálpað þjóni orðsins að prédika orðið? (b) Hvers vegna getur áminning verið hluti þjónustunnar?
8 Til að prédika orðið, hvort heldur innan safnaðarins eða utan, þarf þjónn orðsins að þekkja orð Guðs vel, vera nemandi í því. Hann þarf að gefa sér tíma til náms, upprifjunar og hugleiðingar, leitast við að skilja það vel. Prédikunin þarf að byggjast á þekkingu á kenningum sannleikans. Páll sagði Títusi að umsjónarmaður yrði að „vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.“ (Títusarbréfið 1:9) Orð Guðs er verkfæri til að áminna þá sem víkja frá kröfum Jehóva, að leiðrétta hinn brotlega sjálfum honum til góðs. Þetta eru allt þættir í að fullna þjónustuna.
Hvatningar er þörf
9. Hvers vegna er þörf kristilegrar hvatningar?
9 Stundum er þörf áminningar til þeirra sem ekki gera allt sem þeir ættu að gera, skortir kostgæfni í tilbeiðslunni á Jehóva eða kunna ekki að meta hana nægilega. Þeir sem elska Jehóva kunna vel að meta kristilega hvatningu. Þeir fagna því að heyra hvað Jehóva segir og líta á það sem góða andlega fæðu. (Jesaja 55:3; Hebreabréfið 12:5, 6) Það er því góð þjónusta við samverkamenn okkar — og líka við þá sem hneigjast til tilbeiðslu á Jehóva — að hvetja þá með orði Guðs. Páll gaf sjálfur mikla og margvíslega hvatningu. — Rómverjabréfið 15:30; 16:17; 1. Korintubréf 1:10, 11; 1. Tímóteusarbréf 4:13; 6:11, 12; Hebreabréfið 10:24.
10. Hvers vegna er langlyndis krafist þegar gefin er hvatning?
10 Vígður þjónn orðsins verður líka að vita hvernig á að rækta ávexti anda Guðs. Það krefst mikils langlundargeðs og þolinmæði að reyna að hvetja þá sem ekki bregðast fúslega jákvætt við. Sumir kunna jafnvel ekki að meta það sem gert er til að uppörva þá og hvetja. Engu að síður þarf að gera það, og einkum er það hlutverk allra kristinna öldunga. Þar á listin að kenna hlut að máli. Því meira sem einstaklingur notar orð Jehóva, þeim mun hæfari verður hann í að nota það. Þegar kennari kynnist nemanda ætti hann að geta miðlað honum upplýsingum. Páll lýsir vel hinni réttu aðferð í 1. Þessaloníkubréfi 5:14: „Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“
Snúið baki við fráhvarfsmönnum
11. Hvað ættum við að gera í sambandi við fráhvarfsmenn?
11 Páll vildi að Tímóteusi gæti varðveitt jafnvægi sitt eða verið með fullu ráði í öllum hlutum. Hann mætti ekki verða eins og þeir sem þyldu ekki hina heilnæmu kenningu og sneru eyrum sínum burt frá sannleikanum. Sannur þjónn Guðs nú á dögum lætur ekki bugast af áhyggjum eða koma sér úr jafnvægi þegar hann kemst að því að einhverjir snúa baki við orði Guðs og heilnæmri kenningu þess. Við höfum verið aðvöruð að til verði fráhvarfsmenn og fólk sem bara vill láta kitla eyru sín. Heilræðin í 2. Jóhannesarbréfi 9-11; 1. Korintubréfi 5:11-13 og 2. Tímóteusarbréfi 3:5 gefa okkur enga heimild til að hafa félagsskap við þá sem snúa baki við sannleikanum. Við hvorki kaupum né lesum rit þeirra. Margir aðrir þrá að heyra sannleikann og við þá höfum við, kristnir menn, samfélag. — 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21.
12. Hvers vegna tekur kristinn þjónn orðsins eindregna afstöðu?
12 Páll sagði: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:13) Með þessa aðvörun að leiðarljósi varast kristinn þjónn orðsins að fylgja slíkum mönnum að málum. Hann hlýðir hinu góða ráði postulans: „En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsveini þekkt heilagrar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14-17) Reglulegt nám í orði Guðs er blessun þeim sem leitast við að gera þjónustu sinni góð skil.
Blessun af kristnu samfélagi
13. Hvernig var það Tímóteusi blessun að vinna með Páli í þjónustunni, og hvernig getum við haft gagn af?
13 Það var Tímóteusi mikil blessun að hafa átt margra ára félagsskap við Pál, að geta séð af eigin raun hvernig trúfastur, þroskaður þjónn Guðs hegðar sér. Páll notfærði sér reynslu þeirra sem góða áminningu fyrir Tímóteus: „Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði, í ofsóknum og þjáningu, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottin frelsaði mig úr þeim öllum. Já, allir sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:10-12) Þótt við séum ekki núna í beinu sambandi við Pál getur hin ítarlega frásaga Biblíunnar af starfi hans verið okkur til hjálpar líka.
14. Hvers vegna þurfum við að vera reiðubúin að þola illt?
14 Páll gat um ofsóknir og þjáningar, sem hann hafði þolað, og hann ráðlagði kristnum þjónum orðsins að vera fúsir til að þola illt. (2. Tímóteusarbréf 4:5) Oft er nauðsynlegt að ganga í gegnum einhvers konar ofsóknir til að fullna þjónustuna sína. Það eru sérréttindi að varðveita ráðvendni í prófraun og að gleðja hjarta Jehóva. (Orðskviðirnir 27:11) Það getur verið vitnisburður til lofs Jehóva!
Verk trúboða
15. Hvers vegna verðum við að taka þátt í boðun trúarinnar til að fullna þjónustuna?
15 Boðun trúarinnar tekur drjúgan hluta af tíma trúfastra kristinna þjóna orðsins. Jesús sagði: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Hann sagði greinilega að endirinn kæmi ekki fyrr en fagnaðarerindið hefði verið prédikað nægilega mikið. Páll taldi það sérréttindi að deila fagnaðarerindinu með mörgum trúuðum víða um rómverska heimsveldið. Það varð til þess að nýir söfnuðir voru stofnaðir og umsjónarmenn útnefndir. Þeir tóku síðan þátt með kristnum bræðrum sínum og systrum í trúboðsstarfinu og teygðu sig sífellt lengra og lengra í prédikuninni. Stórum hluta af starfi Páls var lýst sem ‚kennslu opinberlega og hús úr húsi.‘ (Postulasagan 20:20) Það skilaði góðum árangri þá og það skilar framúrskarandi árangri núna þegar prédikun kristninnar fer fram um allan heim. — Jóhannes 14:12.
16. Hvað sýnir að margir fara eftir ráðum Páls í 2. Tímóteusarbréfi 4:5?
16 Með trú eru nú margir að höndla tækifærið til að auka við þjónustu sína í kristniboðsstarfinu. Þúsundir hafa gerst trúboðar og hundruð þúsundir taka þátt í ýmsum greinum brautryðjandaþjónustu. í 203 löndum eru nú yfir 2.840.000 þjónandi sem boðberar trúarinnar í liðlega 47.000 söfnuðum, og þeim fer fjölgandi. Þetta er glöggur vitnisburður þess að vígðir þjónar Jehóva fara eftir því sem Guð hefur boðið þeim og „fullna“ þjónustu sína.
Verkið fullnað
17. Hvað vill Jehóva sjá alla þjóna sína gera í sambandi við það starf sem þeim er nú falið?
17 Jehóva hefur falið sínum smurðu þjónustu á hendur og „mikill múgur“ starfar þeim við hlið. Á spádómsmáli er verkinu í Esekíelsbók 9. kafla líkt við að setja merki á enni þeirra sem andvarpa og kveina. Við vitum af spádóminum að sá tími kemur að maðurinn með skriffærin segir: „Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér.“ Jehóva hefur velþóknun á þjónum sínum þegar þeir gera eins og hann býður þeim. — Esekíel 9:4, 11; 1. Mósebók 6:22; 1. Korintubréf 4:2.
18, 19. Nefnið dæmi um hvernig framfylgja má hvatningu Páls í 2. Tímóteusarbréfi 4:1-5?
18 Þegar við sjáum ástand heimsmála þróast í samræmi við spádómana um síðustu daga finnum við greinilega hversu áríðandi prédikunarstarfið, sem okkur hefur verið falið, er. Mannslíf eru í húfi. Nú er verið að safna fólki saman og Jehóva hraðar því starfi á sínum tíma. (Jesaja 60:22) Þess vegna skalt þú, hver sem er ábyrgð þín sem vígður þjónn Jehóva, vinna samkvæmt henni að alúð til að þóknast honum fyllilega. (Kolossubréfið 1:10; 3:23, 24) Hafðu í huga verkið, sem þér hefur verið falið, og reyndu að fullna það. Ef þú hefur einhverjum skyldum að gegna í Ríkissalnum skalt þú sinna þeim vel. Ef þér er falið starf í bóknámshópi safnaðarins skalt þú vinna vel með honum og hvetja og uppörva aðra. Ef þú ert brautryðjandi eða trúboði skalt þú leggja þig vel fram um að ná þeim markmiðum sem þér eru sett í þjónustunni. — Rómverjabréfið 12:6-9.
19 Þú getur líka spurt sjálfan þig: Get ég gert eitthvað meira til að hjálpa öðrum kristnum mönnum, einkanlega nýjum í söfnuðinum, til að vera þeim til uppbyggingar? Ef það er þáttur í þjónustu þinni að vera öldungur í söfnuðinum skalt þú þekkja útlit ‚hjarðarinnar‘ og annast vel alla sem henni tilheyra. Gefðu þeim gaum til að enginn verði óvirkur eða ávaxtalaus í hinni nákvæmu þekkingu á Drottni okkar Jesú Kristi. (2. Pétursbréf 1:5-8) Framar öllu skalt þú vera vakandi fyrir því sem þú ert að gera í boðun trúarinnar til að þú ‚fullnir þjónustu þína.‘
Manst þú?
◻ Hvernig var ástatt fyrir Páli þegar hann skrifaði 2. Tímóteusarbréf?
◻ Hvers vegna er lífsnauðsyn að prédika orðið?
◻ Hvers vegna er hvatning þýðingarmikil?
◻ Hvernig ber að taka á falskennurum?
◻ Hvers vegna er boðun trúarinnar svona þýðingarmikil núna?
[Myndir á blaðsíðu 14, 15]
Síðara bréf Páls til Tímóteusar hjálpaði honum ‚að fullna þjónustu sína.‘