Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.10. bls. 19-22
  • Upphaf konungdæmis í Ísrael — Samúelsbækurnar tvær

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Upphaf konungdæmis í Ísrael — Samúelsbækurnar tvær
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Konungur sem brást
  • Konungur sem vegnaði vel
  • „Sonur Davíðs“
  • Atburðir sem breyttu gangi sögunnar
  • Fyrsti konungurinn í Ísrael
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Ísraelsmenn biðja um konung
    Biblían — hver er boðskapur hennar?
  • 1. Samúelsbók – yfirlit
    Biblían – Nýheimsþýðingin
  • Höfuðþættir 1. Samúelsbókar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.10. bls. 19-22

Upphaf konungdæmis í Ísrael — Samúelsbækurnar tvær

„HAFIÐ þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir.“ (Lúkas 6:3, 4) Með þessum orðum þaggaði Jesús niður í nokkrum faríseum sem höfðu sakað lærisveina hans um að brjóta hvíldardagshelgina með því að tína fáein öx og eta á hvíldardeginum.

Hann sýndi líka fram á svolítið annað. Frásagan af Davíð og ‚skoðunarbrauðunum‘ er skráð í 1. Samúelsbók. (1. Samúelsbók 21:1-6) Tilvísun Jesú til bókarinnar til að hrekja mótbárur sýnir að hann var bókinni kunnugur og gefur til kynna að við hefðum líka gott af því að þekkja hana allvel. Ásamt förunaut sínum, 2. Samúelsbók, geymir hún upplýsingar sem voru verðmætar fyrir Jesú og eru verðmætar fyrir okkur nú á dögum. — Rómverjabréfið 15:4.

Hvaða bækur eru þessar tvær Samúelsbækur? Þær eru sögurit í Hebresku ritningunum sem greina frá tímamótum í sögu þjóðar Guðs. Áður hafði Ísraelsmönnum verið stjórnað af dómurum, en þessar tvær bækur lýsa endalokum þess tímabils og upphafi konungdæmis í Ísrael. Þær segja frá spennandi atburðum og athyglisverðu fólki. Við hittum þar Samúel sjálfan, hinn síðasta af dómurunum, og fyrstu tvo konungana, Sál og Davíð. Við hittum líka fyrir fjölda annarra ógleymanlegra persóna: hinn raunamædda Elí, hina vitru og háttvísu Abígail, hinn hugdjarfa en góðgjarna Jónatan, auk bræðranna Abísais og Jóabs sem voru djarfir baráttumenn fyrir Jehóva en grimmir blóðhefnarar. (Hebreabréfið 11:32) Bækurnar tvær kenna meginreglur sem enn eru mikilvægar, og lýsa atburðum sem höfðu langvarandi áhrif á þjóna Guðs, raunar á allt mannkynið.

Konungur sem brást

Sál var fyrsti maðurinn sem var smurður af Jehóva til að vera konungur yfir Ísrael. Hann fór vel af stað en brást síðar í því að sýna Jehóva tilhlýðilegt traust þegar árás Filista vofði yfir. Samúel sagði honum þá að synir hans myndu ekki erfa konungdóminn. Samúel sagði að ‚Jehóva hefði leitað sér að manni eftir sínu hjarta, og hann hefði Jehóva skipað höfðingja yfir lýð sinn.‘ (1. Samúelsbók 13:13, 14) Sál sat þó áfram sem konungur til æviloka.

Síðar var þessum fyrsta konungi boðið að heyja stríð í hefndarskyni gegn Amalekítum. Sál fór ekki fullkomlega eftir skipun Jehóva og bakaði sér því frekari vanþóknun hans. Samúel sagði: „Hefur þá [Jehóva] eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ (1. Samúelsbók 15:22) Hér er að finna meginreglu sem er enn mikilvæg fyrir þá sem þjóna Jehóva í einhvers konar forystustöðu. Sökum þess að Sál var ekki hlýðinn hélt spámaðurinn Samúel áfram: „Af því að þú hefir hafnað skipun [Jehóva], þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi.“ (1. Samúelsbók 15:23) Síðar sýndi Sál hversu fjarlægur hann var orðinn hreinni guðsdýrkun þegar hann leitaði á vit andamiðils. — 1. Samúelsbók 28:8-25.

Konungur sem vegnaði vel

Arftaki Sáls konungs var Davíð Ísaíson. Davíð var ólíkur Sál. Sem unglingur hafði hann sýnt traust á Jehóva þegar hann drap filistarisann Golíat. Þegar hann síðar átti fótum sínum fjör að launa undan afbrýði Sáls hélt hann eigi að síður áfram að hlýða Jehóva í einu og öllu. Oftar en einu sinni hefði Davíð getað drepið Sál. Hann lét það vera og beið þess að Jehóva áliti tímabært að láta hann taka við konungdómi. Það var á þessu erfiða tímabili að Abímelek prestur gaf honum skoðunarbrauðin að borða eins og Jesús minntist á við faríseana.

Sál dó og Davíð tók við völdum. Í fyrstu viðurkenndi aðeins hans eigin ættkvísl, Júdaættkvísl, hann. Hinar ættkvíslirnar fylgdu eftir lifandi syni Sáls, Ísbóset. Davíð sýndi þó engan hefndarhug í garð keppinauts síns. Þegar Ísbóset var ráðinn af dögum tók Davíð morðingja hans af lífi. Og þegar hershöfðingi Ísbósets, Abner, var myrtur lýsti hann yfir þjóðarsorg. (2. Samúelsbók 3:31-34; 4:9-12) Slík auðmýkt, þolinmæði, umburðarlyndi og traust til Jehóva er nauðsynlegt þjónum Jehóva á öllum tímum.

„Sonur Davíðs“

Þegar Davíð að lokum varð konungur sameinaðrar þjóðar var ein af hans fyrstu hugsunum að reisa sáttmálsörkinni varanlegt heimili, en hún var tákn nærveru Jehóva í Ísrael. Jehóva féllst ekki á það en til viðurkenningar á hinni einstöku trúfesti Davíðs gerði hann eftirtektarverðan sáttmála við hann: „Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.“ — 2. Samúelsbók 7:16.

Þannig varð Davíð hlekkur í langri, óslitinni keðju frá Adam sem lá í gegnum Abraham, Ísak, Jakob og Júda allt til hins fyrirheitna Messíasar. (1. Mósebók 3:15; 22:18; 26:4; 49:10) Þegar Messías að lokum kæmi yrði hann afkomandi Davíðs. Það var Jesús, bæði í gegnum fósturföður sinn og móður. (Matteus 1:1-16; Lúkas 3:23-38) Í frásögn guðspjallanna er hann margoft nefndur „sonur Davíðs.“ — Markús 10:47, 48.

Sem hinn opinberi „sonur Davíðs“ var Jesús erfingi Davíðs. Hvað erfði hann? Engillinn Gabríel sagði Maríu: „Hann [Jesús] mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. [Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:32, 33) Davíð sameinaði alla þjóð Guðs á ný undir eitt ríki eins og 2. Samúelsbók lýsir. Jesús tók því að erfðum herradóm yfir öllum Ísrael.

Tökum líka eftir öðru um Davíð sem skýrt er frá í 1. Samúelsbók: „Davíð var sonur Ísaí, sem var Efratíti í Betlehem í Júda.“ (1. Samúelsbók 17:12) Þessi orð eru ekki aðeins athyglisvert, sögulegt smáatriði. Messías, „sonur Davíðs,“ átti líka að fæðast í Betlehem. „Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsbórgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.“ (Míka 5:1) Jesús uppfyllti auðvitað þessa kröfu sem gerð var til Messíasar. — Matteus 2:1, 5, 6.

Atburðir sem breyttu gangi sögunnar

Margar af hetjudáðum Davíðs höfðu varanleg áhrif. Davíð ólst til dæmis upp í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Þegar hann var drengur var borgin í höndum Jebúsíta og Davíð hlýtur oft að hafa dáðst að þessari næstum ósigrandi borg sem stóð á brattri klettahæð er nefnd var Síonfjall. Núna, orðinn konungur, var hann í aðstöðu til að gera meira en aðeins dást að henni. Önnur Samúelsbók lýsir á myndríku máli hvernig „Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg,“ þrátt fyrir háðsglósur Jebúsítanna sem bjuggu í henni. (2. Samúelsbók 5:7) Þar með öðlaðist Jerúsalem áberandi sess í sögunni þar sem hún hefur verið — með hléum — alla tíð síðan.

Borgin var gerð að höfuðborg þar sem Davíð sat og þaðan ríktu jarðneskir konungar í umboði Guðs um hundruð ára. Á fyrstu öldinni prédikaði „sonur Davíðs,“ Jesús, þar. Jesús reið á ösnufola inn í Jerúsalem til að bjóða sig Gyðingunum fyrir konung. (Matteus 21:1-11, 42-22:13; Jóhannes 7:14) Og það var utan borgarhliða Jerúsalem að hann fórnaði lífi sínu fyrir mannkynið, en eftir það var hann reistur upp frá dauðum og steig upp til himna og beið þess þar þolinmóður — eins og Davið hafði gert áður — að Jehóva segði honum hvenær hann skyldi byrja að ríkja sem konungur. — Sálmur 110:1; Postulasagan 2:23, 24, 32, 33; Hebreabréfið 13:12.

Að Davíð ríkti frá Jerúsalem minnir okkur einnig á að afkomandi hans, Jesús, ríkir nú einnig frá Jerúsalem, ‚hinni himnesku Jerúsalem.‘ (Hebreabréfið 12:22) Og staður þessarar himnesku Jerúsalem á himnum er kallaður ‚Síonfjall‘ sem minnir okkur á klettahæðina þar sem borgin í upphafi stóð. — Opinberunarbókin 14:1.

Þegar komið var nær lokum stjórnartíðar Davíðs gerði hann ólöglegt manntal. Í refsingarskyni lét Jehóva plágu koma yfir þjóðina, og engillinn, sem bar pláguna, staðnæmdist loks við þreskivöll Jebúsíta sem nefndist Aravna. Davíð keypti landið af Aravna og reisti Jehóva þar altari. (2. Samúelsbók 24:17-25) Þetta atvik átti líka eftir að hafa varanleg áhrif. Á þessari landspildu var musteri Salómons reist og þar var það endurreist löngu síðar. Um aldaraðir var það því miðpunktur sannrar guðsdýrkunar í heiminum. Jesús prédikaði sjálfur í musteri Heródesar sem var einnig byggt á þeim stað þar sem áður hafði verið þreskivöllur Aravna Jebúsíta. — Jóhannes 17:14.

Já, Samúelsbækurnar tvær kynna okkur fyrir raunverulegu fólki og útskýra mikilvægar meginreglur. Þær sýna okkur hvers vegna hinn fyrsti konungur Ísraels brást og hvers vegna öðrum konunginum vegnaði vel þrátt fyrir ýmis sorgleg mistök. Þær greina frá mikilvægum tímamótum í mannkynssögunni, því er menn tóku að ríkja sem konungar meðal þjóðar Guðs. Við fylgjumst með Jerúsalem verða að höfuðborg þar sem konungarnir sitja og kaupunum á þeim stað sem í margar aldir átti eftir að verða miðpunktur sannrar guðsdýrkunar í heiminum. Og við rekumst þar á mikilvægt atriði sem átti að hjálpa við að þekkja hinn væntanlega Messías. Hann yrði að vera „sonur Davíðs.“

Þetta eru sannarlega eftirtektarverðar bækur. Sérhver kristinn maður ætti að lesa þær vandlega.

[Rammi á blaðsíðu 21]

„Í spámannlegum guðmóði“

Hvað á Biblían við þegar hún segir: „Þá kom . . . Guðs andi yfir [Sál], og var hann stöðugt í spámannlegum guðmóði“? — 1. Samúelsbók 19:23.

Þegar spámenn Jehóva voru að flytja boðskap frá Guði töluðu þeir undir áhrifum heilags anda sem ‚fyllti þá krafti‘ og kom þeim vafalaust til að tala af mjög óvenjulegum krafti og tilfinningu. (Míka 3:8; Jeremía 20:9) Líklega þótti öðrum hegðun þeirra kynleg — kannski jafnvel fáránleg. Engu að síður tóku guðhræddir menn boðskap þeirra alvarlega þegar ljóst var orðið að þeir töluðu frá Jehóva. — Samanber 2. Konungabók 9:1-13.

Við þetta tækifæri varð hegðun Sáls fremur óvenjuleg sem minnti þá sem til sáu á spámann sem var í þann mund að flytja boðskap frá Jehóva. Þegar han var í þessum ham reif hann af sér fötin og lá nakinn alla nóttina. (1. Samúelsbók 19:23, 24) Tilgangurinn kann að hafa verið sá að sýna fram á að hann væri ósköp venjulegur maður án konunglegs valds þegar hann stóð gegn tilgangi Jehóva Guðs. Við annað tækifæri þegar Sál konungur ‚var í spámannlegum guðmóð‘ reyndi hann að drepa Davíð með spjóti. — 1. Samúelsbók 18:10, 11.

[Rammi á blaðsíðu 22]

‚Illur andi frá Jehóva‘

„Andi [Jehóva] var vikinn frá Sál, en illur andi frá [Jehóva] sturlaði hann.“ (1. Samúelsbók 16:14) Veist þú hvað þetta þýðir?

Við þurfum ekki að skilja þetta svo að Jehóva hafi bókstaflega sent illan anda til að kvelja eða sturla Sál. Það sem gerðist var að illur andi eða innri hvöt til að gera það sem var rangt heltók Sál þegar Jehóva tók heilagan anda sinn frá honum. (Samanber Matteus 12:43-45) Hvers vegna er komist svo að orði að Jehóva hafi sent þennan illa anda? Vegna þess að þegar hann tók frá honum sinn heilaga anda gerði hann Sál berskjaldaðan fyrir því að láta rangar hvatir ná tökum á sér. Þessi ‚illi andi‘ rændi Sál hugarfriði sínum og kom honum stundum til að hegða sér gagnstætt heilbrigðri skynsemi.

[Myndir á blaðsíðu 20]

GOLÍAT

DAVÍÐ

SÁL

SAMÚEL

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila